Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð fyrir „Dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 13. desember. Þetta var 6. og síðasti “dótadagurinn” á fræðsludagskrá ÍRA haustið 2025.

Icom UR-FR5000 VHF endurvarpi var hafður tengdur og voru handstöðvar notaðar til að prófa virknina í endurvarpanum. Bæði voru gerðar breytinar á stillingum stöðvanna og endurvarpans og prófuð útkoma úr hinum ýmsu stillingum.

Aflgjafi var Diaiary 30V/10A og einnig minni aflgjafi fyrir USB A og USB C. Þá var 10W DC-4GHz gerviálag frá RFdotop notað, sem hefur innbyggðum 50dB deyfilið (e. attenuator). Loks var Anritsu BTS Master MT8222A mælitæki á staðnum; sem er tíðnirófsskoðari (e. spectrum analyzer) sem vinnur frá 10 kHz til 7.5 GHz”.

Farið var yfir stillingar á endurvarpanum, þeim breytt og niðurstaða sýnd jafnóðum á mælitækjunum. Endurvarpinn var stilltur á 10W en getur sent allt allt að 50W. Tækið er forritanlegt yfir LAN  (netið) og var það sýnt og stillingum breytt. Einnig var sýnt hvernig hægt er,  á einfaldan hátt, að ”sigta út” heyranlega tóninn í kallmerki endurvarpans (sem er sent á morsi) – þannig að það heyrist ekki í stöð notandans. Kallmerkið er engu að síður áfram sent út á 1 klst. fresti. Í framhaldi var töluvert rætt var um mun á ”analog” og ”switching” aflgjöfum.

Vegna mikils áhuga á mælingum á VHF/UHF stöðvum, var mætt á staðinn með Anritsu tíðnirófsskoðarann sem er mjög fullkominn og var sendihluti VHF/UHF handstöðvanna mældur. En með Anritsu tækinu er t.d. hægt að mæla merki niður í -165 dBm frá 10 Hz upp í 7.5 GHz. Menn spurðu um mun á ódýrari og dýrari mælitækjum. Fram kom m.a., að ódýr mælitæki geta verið [jafnvel] í 1-3 mínútur að sýna það sama og betri tæki gera á örfáum sekúndum, auk þess sem mæligeta þeirra dýrari er yfirleitt margfalt meiri.

Að lokum var sýnt dæmi um hvernig hægt er að staðsetja ”erfiða” bilun [nánast] á svipstundu með ódýrum ”digital multimeter” sem getur mælt hita. Sýnt var lélegt samband í öryggishöldu, sem er algengt vandamál í 12V straumsnúrum sendistöðva (og endurvarpa) og var Icom endurvarpinn látinn senda út stöðugt í 10 mínútur (á 10W í gerviálag) og voru öryggishöldurnar á straumsnúrunni skoðaðar að þeim tíma liðnum. Ekki nægði að snerta öryggin sjálf vegna þess að öryggishöldurnar halda hitanum inni þannig að öryggishúsið sjálft var kalt viðkomu. Hitamælingin var svarið (sbr. meðfylgjandi ljósmynd). Til upplýsingar ber að geta þess, að fyrir tilraunina hafði annað öryggishúsið verið hreinsað, en ekki hitt. Spennan féll um 3.5VDC yfir óhreinsaða öryggishúsið (en ekki yfir öryggið sjálft). Málmspennurnar sem halda örygginu í öryggishúsinu hitnuðu, en ekki á því sem hafði verið hreinsað áður.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir skemmtilegan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Ennfremur þakkir til Ara fyrir myndir, til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID sem lagaði frábært kaffi og tók til meðlæti og til Mathíasar Hagvaag, TF3MH húsvarðar.

Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta vetrardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 18. desember á milli kl. 20 og 22. Þetta verður síðasta opnun á þessu ári.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

OK DX RTTY CONEST.
Keppnin stendur yfir laugardaginn 20. desember frá kl. 00:00 til kl. 24:00.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + CQ svæði.
http://okrtty.crk.cz/index.php?page=english

RAC WINTER CONTEST.
Keppnin stendur yfir laugardaginn 20. desember frá kl. 00:00 til kl. 23:59.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15, 10, 6 og 2 metrum.
Skilaboð kanadískra stöðva: RS(T) + 2 bókstafir fyrir fylki/landssvæði í Kanada.
Skilaboð annarra, þ.m.t. VEØ stöðva: RS(T) + raðnúmer.
http://www.rac.ca/contesting-results/

CROATIAN DX CONTEST.
Keppnin stendur yfir frá kl. 14:00 laugardag 20. des. til kl. 14:00 sunnudag 21. des.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð króatískra stöðva: RS(T) + 2 bókstafir fyrir hérað/sýslu.
Skilaboð annarra: RS(T) + ITU svæði.
http://www.hamradio.hr/9a-dx-contest/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja miðast við 14. desember 2025. Að þessu sinni hefur staða fjögurra kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista, þ.e. TF3G, TF3JB, TF3MH og TF3T. Samtals er um að ræða 16 uppfærslur frá 7. nóvember s.l.

Benedikt Sveinsson, TF3T uppfærir á Phone, 80, 20, 15 og 10 metrum, auk þess að koma inn nýr á DXCC Challenge listann með 1023 heildarpunkta. Glæsilegur árangur og hamingjuóskir til Benedikts!

Nítján TF kallmerki hafa í dag virka skráningu, en alls hafa [a.m.k.] 27 íslensk kallmerki sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 11. desember. Á dagskrá var 6. og síðasta erindið á fræðsludagskrá félagsins haustið 2025 sem var í umsjá Benedikts Guðnasonar, TF3TNT og nefndist: „Áframhaldandi uppbygging VHF kerfisins“. 

Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA kynnti Benedikt kl. 20:30. Og síðan tók við flutningur hans á erindi kvöldsins, sem fjallaði um endurbætur á VHF endurvörpum fyrir íslenskra radíóamatöra. 

Benedikt hefur á óeigingjarnan hátt, notað tækifæri sem hann hefur vegna vinnu sinnar við fjallastöðvar og endurvarpa fyrir ýmsa aðila, að endurbæta endurvarpakerfi radíóamatöra, og það er án kostnaðar.  Þetta er einstök snilld og ber að þakka honum sem kostur er.

Meðal nýjunga, nefndi hann endurbætur á merki frá endurvarpanum TF2RPJ á fjallinu Strút, nýja endurvarpann á Þrándarhlíðarfjalli, TF5RPG og vinnu við endurvarpann TF5RPD á Vaðlaheiði, sem og við endurvarpann TF3RPA á Skálafelli og endurvarpann TF3RPB í Bláfjöllum. Og þá var ekki allt upp talið. Nýjungar umfram annað, er átak í nettengingum endurvarpanna, með það að markmiði að sendingar frá þeim varpist frá þeim flestum samtímis.

Það var gerður góður rómur að erindi Benedikts og hann fékk fjölda fyrirspurna. Og, hann kom vel undirbúinn, og var með útbreiðslukort sem sýndi greinilega hver útbreiðslan er frá hverjum endurvarpa og hvernig hún leggst saman.  Benedikt tók vel í að skrifa pistil í CQ TF við fyrsta tækifæri.

Á eftir var spjallað manna á millum, og margir sátu hjá Benedikt að spjalla og fræðast. Það var vel mætt þetta ágæta fimmtudagskvöld, alls um 30 manns. Sérstakar þakkir til Benedikts Guðnasonar, TF3TNT fyrir afbragðsgott og áhugavert erindi.

Þess má geta að erindið var tekið upp, sbr. eftirfarandi vefslóð: https://youtu.be/9_VtmTnbAKE

Stjórn ÍRA.

(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „Dótadegi Ara“ í Skeljanesi laugardaginn 13. desember. Félagsaðstaðan verður opin frá kl. 13 til 16. Þetta verður 6. og síðasti dótadagur ársins 2025.

Farið verður yfir virkan VHF/UHF stöðva og tvær handstöðvar á staðnum notaðar í því skyni. Icom UR-FR5100 VHF endurvarpi verður hafður í gangi á borðinu og í sambandi – sem er samskonar og sá sem sem TF1A og TF3GZ settu upp fyrir TF3RPB í Bláfjöllum.

Sýnt verður m.a. hvernig best er að stilla stöðvar á móti endurvörpum. Einnig, útskýrt ”tone squelch?” er og fl. og fl. Í boði er að menn taki með sér eigin VHF/UHF handstöðvar.

Jólakaffi, piparkökur og fleira góðgæti sem Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID töfrar fram að sinni þekktu snilld.

Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

ARRL 10 METER CONTEST.
Keppnin hefst laugardag 13. desember kl. 00:00 og lýkur 14. desember kl. 24:00.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 10 metrum.
Skilaboð stöðva í W/VE: RS(T) + ríki í USA/fylki í Kanada.
Skilaboð stöðva í XE: RS(T) + fylki í Mexíkó.
Skilaboð DX stöðva (þ.á.m. TF): RS(T) + raðnúmer.
Skilaboð Maritime Mobile (MM) stöðva: RS(T) + ITU Svæði.
https://www.arrl.org/10-meter

TRC DIGI CONTEST.
Keppnin hefst laugardag 13. desember kl. 06:00 og lýkur 14. desember kl. 18:00.
Keppnin fer fram á RTTY á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð ”TRC” félaga: RST + raðnúmer + TRC.
Skilaboð annarra: RST + raðnúmer.
http://trcdx.org/rules-trc-digi/

SKCC WEEKEND SPRINTATHON.
Keppnin hefst laugardag 13. desember kl. 12:00 og lýkur 14. desember kl. 24:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + (Ríki í USA, fylki í Kanada eða DXCC eining) + nafn + (SKCC númer eða „NONE).
https://www.skccgroup.com/operating_activities/weekend_sprintathon

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Síðasta erindið á haustdagskrá ÍRA 2025 verður í boði fimmtudaginn 11. desember.

Þá mætir Benedikt Guðnason, TF3TNT með erindið „Áframhaldandi uppbygging VHF kerfisins“.  Húsið opnar kl. 20:00 og byrjar Benedikt stundvíslega kl. 20:30.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffi og tekur fram meðlæti.

Félagsmönnum er bent á að láta erindið ekki framhjá sér fara.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2026. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2025/26 verður fimmtudagskvöldið 8. janúar 2026. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 14 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

Reykjavík 6. desember 2025,

73,

Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri TF ÍRA QSL Bureau.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 20. nóvember.

Hrafnkell Eiríksson, TF3HR kvaddi sér hljóðs og sagði frá því að hann hafi ákveðið að halda smá aðventuleik síðasta sunnudagskvöld (1. desember) sér og öðrum til skemmtunnar og til að búa til hvatningu fyrir nýliðana til að prófa betur stöðvarnar sínar og kynnast fleiri hliðum áhugamálsins. Hann sýndi hvaða búnað hann notaði (handstöð tengda við tölvu með svokölluðum AIOC kapli) og spilaði hljóðdæmi fyrir viðstadda. Þá sýndi hann þær myndir sem hann fékk sendar frá alls 10 þátttakendum sagði frá því hvernig menn tóku á móti þeim.

Þá sýndi hann glæru með lista yfir þáttakendur og notaði svo hlutkesti á netinu til að velja 1 af 10 kallmerkjum til að velja einn úr “pottinum”. Sá heppni var Bjarni Freyr Þórðarson, TF4IR. Hann var ekki á staðnum og fær því konfektkassann sinn við annað tækifæri. Hrafnkell skoraði svo á viðstadda að taka þátt næsta sunnudagskvöld, þegar aðventukveðja nr. tvö verður send.

Njáll H. Hilmarsson, TF3NH mætti með „tækjahluta“ í nýjan HF 1kW RF magnara (sbr. ljósmynd) sem hann keypti hluti í frá DX World Electronics. Vefslóð: https://www.dxworld-e.com/  Tækið sem hann er að smíða nefnist Zeus DX-1000 og er fyrir HF + og 6 metra. Vefslóð: https://www.dxworld-e.com/copy-of-shipping-payment  Menn voru spenntir fyrir verkefninu og sýndu því mikinn áhuga.

Erlendur gestur okkar þetta fimmtudagskvöld var Brian Canning, EI8IU sem er búsettur í Aughnaglace, Cloone á norðvestur Írlandi. Hann og XYL voru hér í 4 daga heimsókn. Brian er QRV á Phone, CW og RTTY og var mjög hrifinn af aðstöðu ÍRA, þ.á.m. fjarskiptaherbergi.

Sérstakar þakkir fá Hrafnkell Eiríksson, TF3HR fyrir frábært frumkvæði, vel ígrundað og skemmtilegt; Njál1 H. Hilmarsson, TF3NH fyrir að sýna okkur og segja frá „tækjahlutunum“ í RF magnarann; Svein Goði Sveinsson, TF3ID fyrir frábært kaffi og Einar Sandoz, TF3ES fyrir ljósmyndir.

Alls mættu 24 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu og hægu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS hefur fengið í hendur 5 banda DXCC viðurkenningu (5BDXCC) frá ARRL. Viðurkenningin var gefin út 1. nóvember 2025.

Til að geta sótt um 5BDXCC þarf að hafa staðfest sambönd við a.m.k. 100 DXCC einingar á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum, en Vilhjálmur er með að auki, DXCC á 12, 17 og 30 metrum.

Fimm aðrir íslenskir leyfishafar eru jafnframt handhafar 5BDXCC viðurkenningar: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Óskar Sverrisson  TF3DC, Jónas Bjarnason TF3JB, Yngvi Harðarson TF3Y og Þorvaldur Stefánsson, TF4M.

Hamingjuóskir til Vilhjálms.

Stjórn ÍRA.

Erindi Benedikts Guðnasonar, TF3TNT um “Áframhaldandi uppbyggingu VHF kerfisins” sem halda átti fimmtudaginn 4. desember kl. 20:30 – frestast af óviðráðanlegum ástæðum.

Ný dagsetning fyrir erindi Benedikts er á fimmtudag 11. desember n.k. kl. 20.30. Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Dagskráin í Skeljanesi fimmtudaginn 4. desember verður þess í stað “opið hús” með opinni málaskrá.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffi og tekur fram meðlæti.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.