,

1. Stjórnarfundur ÍRA 2010

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2010.01.08 kl 18.00 í Skeljanesi

Mættir: TF2JB, TF3SG, TF3EE, TF3SNN, TF3BJ, TF3GL. TF1JI hafði boðað forföll.

1. Fundarsetning

Fundur var settur kl 18:15.

2. Fundargerð síðasta fundar (nr. 6/2009 frá 26. nóv. s.l.) lögð fram til samþykktar

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3. Erindi sem borist hafa til félagsins frá síðasta stjórnarfundi

  1. Lagt var fram bréf þar sem TF3Y f.h. TF4X sækir um heimild til PFS til að nota 1,5 kW í tilteknum keppnum á árinu 2010.
    Samþykkt að mæla með umsókninni.
  2. Lagt var fram bréf þar sem TF3Y f.h. TF4X sækir um heimild til að nota tíðnisviðið allt frá 1810-1900 kHz.
    Samþykkt að mæla með umsókninni.
  3. Lagt fram bréf frá PFS þar sem óskað er eftir áliti stjórnar á ársframlengingu undanþágu frá HAREC-kröfum til handa TF3LW Gonzales.
    Bókað að Í.R.A. sér ekki ástæðu til að andmæla þessari embættisfærslu PFS.
  4. TF3PPN hefur óskað eftir lausn frá störfum sem QSL-stjóri af persónulegum ástæðum.
    Fært til bókar að stjórn Í.R.A. þakkar Jóni Gunnari frábærlega vel unnin störf.

4. Gjaldkeri leggur fram bráðabirgðayfirlit yfir fjárhagsstöðu félagsins

Þegar núverandi stjórn tók við nam sjóðseign um 884 þúsund krónur, en nemur í dag 889 þúsundum. Þá er ótalin verðbréfaeign sem nemur um 225 þúsundum, auk fánasjóðs sem telur 79 þúsund. Alls eru þetta um 1205 þúsund krónur.

5. Ákvörðun um erindi til PFS vegna amatörprófs

Samþykkt var að óska eftir að radíóamatörpróf verði haldið 23. janúar 2010.

6. Ákvörðun um fundardag og fundarstað fyrir aðalfund 2010

Samþykkt var að halda aðalfund 2010 þann 29. maí kl. 13.00 að Hótel Sögu (Radisson SAS). Kostnaður við sal er um 30 þúsund krónur. Reiknað er með að boðið verði upp á kaffi, en vísað til útfærslu hjá varaformanni og gjaldkera.

7. Ákvörðun um framleiðslu á gólffána með merki félagsins

Samþykkt var að ganga frá framleiðslu gólffána í stærðinni 150 cm (hæð) og 100 cm (breidd) með svörtu letri á hvítum grunni, á tréstandi.

8. Upplýsingakerfi Í.R.A.

Ritari TF3GL fór yfir stöðu mála á upplýsingakerfum félagsins, en þau eru:

  1. www.ira.is, m.a. hugsanleg stofnun sérstaks ritstjóraembættis síðunnar
  2. spjall.ira.is og irapostur@yahoogroups.com
  3. Google Docs og Gmail á léni félagsins, ira.is

Útdráttur úr greinargerð ritara fer hér á eftir:

Ritstjóri vefmiðla

Lagt er til að stofnað verði ritstjóraembætti vefmiðla ÍRA, sem í dag eru vefurinn www.ira.is og spjallþráðavélin spjall.ira.is. Ritstjóraembættið er fyrst og fremst efnislegs eðlis (strúktúr og innihald), en ekki starf kerfisstjóra (þar sem TF3HR, TF3CY og fleiri hafa lagt gjörva hönd á plóg). Lögð verði áhersla á að ritstjóri sé afburðamaður í íslensku, hafi góða skipulagsgáfu, sé næmur á aðalatriði, hafi auga fyrir útliti, og hafi helst einnig reynslu af vefmiðlum. Tillaga ritara TF3GL er að rætt verði við TF3VS um að taka að sér starfann.

www.ira.is

Aðalvefur: Þörf er á að skilgreina nýtt veftré, en núverandi vefur er einfaldlega (töluvert) uppfært afrit af gamla vefnum. Einnig er þörf á “allsherjarritstjórnartiltekt”.

Námsefnisvefurinn: Þessi vefur verði aukinn eins og kostur er; væri vert að ræða sérstaklega við skólastjóra amatörskólans um hvernig best væri að standa að því að koma glærukynningum fyrirlestra og úrlausnarefnum dæmatíma þarna fyrir.

Stjórnarvefurinn: Verði áfram undir stjórn ritara (og stjórnar) hverju sinni, enda ekki tilhlýðilegt að ritstjóri vefmiðla hafi aðgang að því svæði. Þarna eiga allar fundargerðir og gögn stjórnar að geymast.

Aðrir vefir: Í dag, eru auk ofangreindra vefja til vefir fyrir CQTF og stöðvarstjóra; báðir í lítilli notkun. Einnig “sandbox”-vefur þar sem hægt er að gera tilraunir að vild. Þetta má liggja óhreyft, en þó væri gaman að gera tilraunir með CQTF-vefinn; t.d. er þar að finna grein á ensku um flugdrekaloftnet eftir TF3GL sem kemur upp ofarlega á Google-leit og er því væntanlega mikið lesin.

spjall.ira.is og irapostur

Ritari bendir á kosti veflægs viðmóts (spjall.ira.is) gagnvart tölvupóstviðmóti (irapostur):

  • Veflægt viðmót er aðgengilegt öllum án innskráningar (þótt einnig sé til lokað svæði sem hægt er að nota ef þarf); þetta eykur á aðdráttarafl amatörhreyfingarinnar.
  • Á spjallþræði er hægt að setja myndir og fyrirsagnir, en ekki aðeins óformateraðan texta.
  • Þar er einnig hægt að setja viðhengi (t.d. á CQTF-svæðið, þar sem blöð eru geymd, og væri hægt að geyma alla gömlu árgangana sem TF5B hefur skannað).
  • Ekki er nauðsynlegt að halda sérstaka netfangaskrá og “administrera” notendum, nema þeim sem sérstaklega óska eftir að skrifa inn á spjallið.
  • Sjálft spjallformið hentar illa fyrir tölvupóstsamskipti (point-to-point), og nær allir hafa horfið frá því formi og tekið upp veflæga spjallþræði.
  • Engin rök eru fyrir að með irapostur sé hægt að komast í samband við alla félagsmenn: Engin trygging er fyrir því að menn hafi haft fyrir því að gefa upp netfang til að fá irapostur-skeyti og í raun ómögulegt að halda utan um það. Við erum betur sett með fréttir á vefsíðunni fyrir opinber communiqué og spjallþræðina fyrir frjáls skoðanaskipti.

Google Apps

Þessi kerfi eru ókeypis frá Google og hafa verið tengd léni félagsins, ira.is.

Google Mail: Hér getur félagið sett upp @ira.is-netföng að eigin vali, s.s. ira@ira.is, qsl@ira.is, stjorn@ira.is etc. Lagt er til að settir verði upp netfangalistar, þannig að embættismenn fái afrit af slíkum pósti.

Google Documents: Hér má geyma ýmis vinnuskjöl sem ekki tilheyra ira.is-vefnum (ritvinnslu-, tölflureiknis- og kynningarskjöl). Einkar hagstætt til utanumhalds á gögnum sem margir þurfa að uppfæra, eða þarf að vera aðgengilegt fleirum en einum aðila. Kemur alfarið í staðinn fyrir Word- og Excelskjöl vistuð á einkatölvum.

Þótt flestar upplýsingar er varða félagsmenn og félagið eigi heima á opnu svæði eða stjórnarsvæði ira.is, er engu að síður lagt til að master-afrit félagatalsins sé áfram geymt hér, þar sem það er í öruggri vistun (líkt og bankaupplýsingar eru geymdar hjá banka). Afrit af félagatalinu er svo reglulega sett inn á vefinn. Hugsanlega eiga fleiri skjöl erindi á Google Docs.

9. Fundarslit

Vegna þess hve dagskrárliðurinn tók langan tíma var fundi slitið kl 22:30 og öðrum málum er fyrir fundinum lágu frestað til næsta stjórnarfundar.

Fundargerð ritaði TF3GL

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

14 − fourteen =