,

SKEMMTILEGUR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI

Frá kynningu Ara Þórólfs Jóhannessonar TF1A á búnaði fyrir QO-100 gervitunglið í Skeljanesi 25. mars.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes laugardaginn 25. mars og kynnti „Ódýrar lausnir til að senda merki um QO-100 gervihnöttinn“.

Ari byrjaði kynninguna á stuttum inngangi um QO-100 sem er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að tunglið er ætíð á sama stað séð frá jörðu. Þess vegna geta radíóamatörar stundað fjarskipti um tunglið allan sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink). Hægt er að nota CW, FT8 og SSB og líka bandbreiðari sendingar, t.d. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl. QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Eftir fróðlegan inngang og svör við spurningum yfir kaffi í brúna sófasettinu, fluttu menn sig yfir í norðurhluta salarins og þar sýndi Ari og útskýrði lágmarksbúnað sem þarf til sendinga um tunglið. Fram kom, að búnaður til sendingar merkja er vandasamari heldur en viðtaka merkja frá tunglinu „sem er sáraeinföld“ eins og hann orðaði það. Ari úrskýrði síðan nánar hvað hann átti við með „vandasamari“ þ.e. „…að það þurfi bara að gera hlutina í réttri röð!

Ari sýndi okkur Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtæki fyrir 60 MHz til 3,8 GHz sem margir nota til fjarskipta um QO-100. Þá er notaður RF magnari sem gefur út 20W á 2,4 GHz. Hann sýndi okkur einnig stærri RF magnara sem sem notast helst þegar senda á sjónvarpsmerki í fullum gæðum. Og síðan, nýja afar áhugaverða smátölvu „Pantera Pico PC“ sem „getur nánast allt“ eins og Ari orðaði það og hentar vel til dæmis hvað varðar fjarskipti um QO-100 gervitunglið. Vefslóð: https://picopc.net/

Að lokum fluttu menn sig upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og þar fór Ari yfir búnað félagsins til sendinga um QO-100 gervitunglið og sýndi mönnum m.a. inn í transverter‘inn frá PE1CMO, sem bæði er fyrir „up“ og „downlink“ á 70cm sem er tengdur beint inn á Kenwood TS-2000 stöð félagsins. Eitt af því skemmtilega við TS-2000 stöðina er, að aflestur á stjórnborði sýnir vinnutíðnina á 10 GHz beint.

Gervitunglafjarskipti eru heillandi heimur og sá hluti áhugamálsins er hvað mest vaxandi um þessar mundir. Sérstakar þakkir til Ara fyrir að koma í Skeljanes og flytja okkur fróðlega, vandaða og skemmtilega kynningu á búnaði til sendinga um QO-100 gervitunglið. Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta laugardag í sólríku gluggaveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Ólafur Vignir Vignir Sigurðsson TF3OV.
Ari fór yfir búnað til sendinga um QO-100. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Ólafur Vignir Sigurðsson TF3OV, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Vilhjálmur í. Sigurjónsson TF3VS, Georg Kulp TF3GZ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Virkni tækjanna útskýrð. Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Ólafur Vignir Sigurðsson TF3OV, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Þorvaldur Bjarnason TF3TB.
Ari bendir á Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtækið sem rætt er um í textanum að framan.
„Pantera Pico PC“ PC smátölvan sem getur “nánast allt“.
Í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Mikið var spurt og Ari svaraði öllum spurningum fljótt og vel. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × 4 =