,

ÁHUGAVERT ERINDI UM FJARSKIPTI Á FJÖLLUM

Snorri Ingimarsson, TF3IK mætti í Skeljanes 29. febrúar með erindið: „Radíóstarfsemi 4X4 ferðaklúbbsins á VHF endurvörpum og á 3815 kHz á 80 metra bandi”.

Snorri byrjaði erindið á að skýra að við eigum í raun tvö hálendi á sama landinu, þ.e. sumar- og vetrarhálendi sem eru ólíkir hlutir sem í raun skiptast í samgönguleiðir og upplifunarleiðir. Meðal almennings á Íslandi er til staðar þekking og færni til að ferðast á eigin vegum um hálendið allt árið um kring.

Fjarskipti eru grunnbúnaður í jeppaferðum á fjöllum. Um er að ræða samtöl á milli bíla og samskipti við umheiminn til að láta vita af sér og neyðarboð. Það sem menn hafa verið að nota á fjöllum er GSM, Tetra, CB, VHF, HF, Iridium og Starlink (sem að vísu er enn óprófað). 4X4 rekur fjölda endurvarpa um allt land og hefur uppbygging þeirra staðið allt frá stofnun klúbbsins árið 1983. Félagar geta einnig sótt um aðgang að tíðnum og endurvörpum björgunarsveitanna sem eykur öryggið.

Snorri fór síðan yfir loftnetsbúnað fyrir fjallabíla og sýndi loftnet bæði fyrir VHF og HF böndin. Hann fjallaði einnig um fjarskipti á HF, m.a. um tíðnirnar 2790, 3833, 2854 og 2761 kHz og tíðnir björgunarsveitanna, 2912, 3815, 3835, 4752, 5752 og 2771 kHz sem hafa komið vel út. U.þ.b. 20-30 manna hópur innan klúbbsins hefur áhuga á þessum tíðnum til að auka fjarskiptaöryggi. Hann sýndi lausnir sem menn nota til að geta farið á milli þessara tíðna, m.a. með sjálfvirkum loftnetsaðlögunarrásum. Vandinn er hins vegar, að lengd bílnetanna er afar lítill hluti úr bylgjulengd og því mikið um töp. Því hafi menn tekið upp á því að draga á eftir sér langa víra, bæði á jöklum og á þurru hrauni.

Að loknum flutningi erindisins var mikið um fyrirspurnir enda margir áhugasamir og svaraði Snorri fljótt og vel. Umræður héldu síðan áfram yfir kaffinu fram undir kl. 22:00. Sérstakar þakkir til Snorra Ingimarssonar, TF3IK fyrir vel flutt og áhugavert erindi sem veitti góða innsýn í störf Ferðaklúbbsins 4X4 og fjarskipti á fjöllum og hvað menn eru að gera til að auka fjarskiptaöryggi.

Sérstakar þakkir til Ágústar H. Bjarnasonar, TF3OM sem tók erindið upp og má skoða það í heild á FB síðu ÍRA á netinu. Vefslóð: https://www.facebook.com/agust.bjarnason.7/videos/7385984124774313?idorvanity=627545490616936
Ennfremur góðar þakkir til Georgs Kulp, TF3GZ og Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir ljósmyndir. Alls mættu 24 félagar og þrír gestir í félagsaðstöðuna í Skeljanesi þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

.

Snorri gaf gott yfirlit yfir hvaða fjarskipti hafa verið að nota úr bílum á fjöllum. Starlink er að vísu enn prófað, en menn eru spenntir.
Mynd úr sal.
Snorri fjallaði einnig um fjarskipti á HF, m.a. um tíðnirnar 2790, 3833, 2854 og 2761 kHz og tíðnir björgunarsveitanna, 2912, 3815, 3835, 4752, 5752 og 2771 kHz sem hafa komið vel út.
Hann sýndi helstu bílloftnet fyrir HF tíðnisviðið og fyrir VHF fjarskipti og útskýrði vel veikleika og styrkleika netanna.
Sýnishorn hvernig fá má sem mest út úr bílneti fyrir HF tíðnirnar. Þá er “tappað” inn á loftspólu og handskipt til að fá lofnet í resónans á nýrri tíðni. Snorri nefndi m.a. að hann skoði og tengja rafliða til að flýta fyrir skiptingu á milli tíðnanna.
Haldið var áfram umræðum eftir erindið. Frá vinstri: Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Benedikt Sveinsson TF3T, Snorri Ingimarsson TF3IK og Mathías Hagvaag TF3MH.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Rúnar Þór Valdimarsson TF3RJ. Fjær: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA.
Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ómar Magnússon TF3WK / OZ1OM og Mathías Hagvaag TF3MH. Ómar er búsettur í Óðinsvéum í Danmörku en var í heimsókn í höfuðborginni þetta ágæta fimmtudagskvöld. Ljósmyndir: TF3GZ og TF3KB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

eighteen − six =