8. Stjórnarfundur ÍRA 2018
Fundargerð stjórnar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar
Skeljanesi 4. april 2018
Fundur hófst kl 20:00 og var slitið kl 22:15
Stjórn: Formaður TF3JB, varaformaður TF3DC, ritari TF2LL, gjaldkeri TF3EK, meðstjórnandi TF3NE, varamaður TF3UA og varamaður TF3EQ.
Mættir: TF3JB, TF3DC, TF3EK, TF2LL, TF3NE, TF3UA og TF3EQ
Fundarritari: TF3LL
Dagskrá
1. Fundur settur
Formaður TF3JB setti fund kl. 20:00 og lagði fram eftirfarandi tillögu að dagskrá:
- Setning fundar og samþykkt tillögu að dagskrá.
- Fundargerð stjórnarskiptafundar lögð fram.
- Erindi – innkomin og send.
- 23 mars, sendur tölvupóstur til PFS um nýja skipan stjórnar starfsárið 2018-19.
- 23 mars, sendur tölvupóstur til IARU um nýja skipan stjórnar starfsárið 2018-19.
- 23 mars, sendur tölvupóstur til IARU Svæðis 1 um nýja skipan stjórnar starfsárið 2018-19.
- 20 mars, móttekið bréf frá NRRL um boð í 90 ára afmælisveislu félagsins 14. apríl n.k.
- 21 mars, móttekinn tölvupóstur frá TF3AO þar sem vakin er athygli á vandræðum með Yahoo póstlista félagsins.
- Skipun embættismanna.
- Aðalfundur 2018.
- Fyrirkomulag verkefna innan stjórnar.
- Starfsáætlun, drög.
- Námskeið til amatörprófs.
- Önnur mál.
9.a Útgáfa CQ TF verði hafin á ný (í þessum mánuði).
- Næsti fundur stjórnar.
- Fundarslit.
2. Fundarsetning og dagskrá.
Tillaga að dagskrá fundarins var samþykkt.
3. Fundargerð stjórnarskiptafundar frá 20.03. 2018 lögð fram.
Fundargerð stjórnarskiptafundar frá 20.03.2018 var samþykkt.
4. Erindi – innkomin og útsend.
Formaður, TF3JB, skýrði frá innkomnum bréfum og útsendum sem voru lögð fram. Samkvæmt bréfi frá NRRL er ÍRA boðið að senda fulltrúa til Gala kvöldverðar í Osló í tilefni 90 ára afmælis félagsins. Ekki verður af því að ÍRA sendi fulltrúa til Noregs og mun boðið því verða formlega afþakkað.
Ábending TF3AO hvað varðar tölvupóstgrúppu félagsins var rædd. Þá var einnig rætt um framtíðarskipan samskipta innan stjórnar og benti TF3EK á samskiptaforritið WatsApp en niðurstaðan var að nota tölvupóst a.m.k. fyrst um sinn þar sem flestir fundarmenn nýta sér það form dagsdaglega. Ákveðið var að hafa samband við TF3VS og TF3AO um hvaða leið væri heppilegust í póstgrúppumálum félagsins en fundarmenn voru sammála um að halda áfram að vera með póstlista fyrir félagsmenn. TF3UA mun hafa samband við TF3VS og TF2LL mun hafa samband við TF3AO.
5. Skipun embættismanna.
Nokkrar umræður urðu um prófnefnd, prófnefndarskipan og skiptingu embætta innan nefndarinnar, próf og lesefni sem TF3EK fullyrti, að ekki hafi verið uppfært í samræmi við HAREC. Þá skýrði TF3EK einnig frá því að nánast engir fundir hafi verið haldnir í prófnefnd, a.m.k. þau þrjú ár sem hann hefði setið þar og sér vitanlega, hefði formaður nefndarinnar ekki verið formlega kjörinn til starfans (á þeim tíma). Niðurstaða umræðunnar var að athuga þyrfti lög félagsins sem lúta að prófnefnd. Formaður benti m.a. á, að í 24. grein laga (um prófnefnd) stendur að nefndin velji sér formann. Samþykkt að fela formanni að fara yfir þessi mál.
Í prófnefnd sitja: TF3DX, formaður, TF3KX, TF1GW, TF3EK og TF3VS. Ákvæði um nefndina eru í 24 gr. félagslaga.
Í EMC nefnd sitja: TF3UA, formaður, TF3G og TF3Y. Ákvæði um nefndina eru í 25. gr. laganna.
TF3SB hefur tekið að sér að ritstýra CQ TF. Fundarmenn fögnuðu því og bjóða TF3SB velkominn til starfa. Ákvæði um útgáfu blaðsins eru í 27 gr. félagslaga.
Í máli formans, TF3JB, kom fram að næsta blað væri nánast tilbúið til útgáfu. Hann gat þess einnig að TF3SB hafi síðast verið ritstjóri árið 1971, fyrir 47 árum. Blaðið verður gefið út á stafrænu formi (PDF) og haft ólæst á heimasíðu. Almennt var að heyra á fundarmönnum að þeir væru hlynntir því að blaðið yrði haft opið. TF2EQ benti á að gott væri að hafa uppsetningu blaðsins þannig, að smella megi á fyrirsögn greinar í efnisyfirliti sem áhugi er á að lesa.
TF3MH er QSL stjóri TF-ÍRA Bureau. Ákvæði um kortastofu eru í 26. gr. félagslaga.
TF5B er viðurkenningastjóri. Alls eru átta viðurkenningarskjöl á vegum ÍRA.
TF3WZ er vefstjóri heimasíðu.
Þó nokkrar umræður spunnust um neyðarfjarskipti og hvernig þeim málum er háttað innan félagsins. Fram kom, að lítið sem ekkert hefur gerst í þeim málum undanfarin ár. Formlegt embætti neyðarfjarskiptastjóra hefur ekki verið virkjað. Niðurstaðan var að kanna þurfi nánar með áhuga félagsmanna á neyðarfjarskiptum.
TF3JB er stöðvarstjóri TF3IRA, a.m.k. fyrst um sinn. TF2EQ benti á, að það þyrfti að gera leiðbeiningar um notkun fjarskiptastöðva TF3IRA og að gera mætti myndbönd um tækin. Í framhaldi kom fram, að magn kynningarmyndbanda um samskonar tæki (og eru í eigu félagsins) megi finna á YouTube og því væri hægt að þýða þessi myndbönd og koma fyrir á heimasíðu. TF2EQ bauðst til að annast þýðingu, þyrfti þess með. TF3EK benti á að myndbönd á vefnum væru ekki fullnægjandi vegna þess að um ýmsan hliðarbúnað væri að ræða í sjakk ÍRA, svo sem loftnetastjórnun o.fl.
TF1A er VHF stjóri TF3IRA.
TF3PW er umsjónarmaður námskeiða.
TF3MH er umsjónarmaður félagsaðstöðu (nýtt embætti). Í umræðu um félagsaðstöðuna kom fram, að gert hafi verið samkomulag við Odd Helgason (ORG) í tíð fyrri stjórnar um rekstur öryggiskerfis og þrifa og fái hann greitt fyrir það mánaðarlega.
TF1A og TF3GS eru umsjónarmenn endurvarpa.
TF8KY er umsjónarmaður Páskaleika (nýtt embætti) svo og umsjónarmaður VHF leika.
TF3EK er umsjónarmaður TF útileika. TF5B mun sjá um viðurkenningarskjöl fyrir TF útileika.
TF3JB er tengiliður ÍRA við PFS og IARU/NRAU. Fram kom í máli TF3EK að hann væri þeirrar skoðunar að formaður væri sjálfkrafa tengiliður samkvæmt félagslögum.
6. Aðalfundur 2018.
Fundargerð aðalfundar 2018 var lögð fram. Samkvæmt ákvæði í 23. gr. félagslaga skal birta aðalfundargerð í fyrsta CQ TF eftir aðalfund.
7. Fyrirkomulag verkefna innan stjórnar.
Fyrirkomulag verkefna innan stjórnar er hefðbundið. Formaður stýrir, varaformaður sér um starfsáætlun, gjaldkeri um fjármál og félagatal, ritari ritar o.s.frv.
8. Starfsáætlun, drög.
Varaformaður lagði fram drög að starfsáætlun stjórnar fyrri starfsárið 2018-19. Í því sambandi minnti hann á ákvæði í 3., 27. og 28. greinum félagslaga.
3.gr. Markmið félagsins eru að: Gæta hagsmuna radíóamatöra í hvívetna. Efla kynningu og samstarf meðal radíóamatöra innanlands og utan. Stuðla að færni félagsmanna og góðum venjum í radíóviðskiptum. Hvetja til viðbúnaðar sem gagnast mætti í neyðarfjarskiptum.
Efla amatörradíó sem leið til sjálfsþjálfunar á tæknisviðinu. Hvetja til tæknilegra og vísindalegra rannsókna og uppgötvana á sviði radíófjarskipta. Örva radíóíþróttir meðal radíóamatöra. Þróa amatörradíóþjónustuna sem verðmæta þjóðarauðlind. Stuðla að öflugri æskulýðsstarfssemi og kynningu á amatörradíói á meðal ungs fólks.
27.gr. Félagið skal halda úti blaði með heitinu CQ TF. Minniháttar útgáfu blaðsins má auðkenna sem fréttabréf. Stjórn skipar ritstjóra. Hann sér til þess að haldið sé saman tveimur söfnum blaðanna, annað aðgengilegt félagsmönnum en hitt í vörslu ritstjóra á hverjum tíma.
28.gr. Félagið skal halda úti vefsíðu með heitinu „ira.is“. Stjórn skipar vefstjóra. Hann sér til þess að efni vefsins sé uppfært eftir þörfum og aðgengilegt félagsmönnum á hverjum tíma.
Helstu verkefni framundan hjá stjórn ÍRA á starfsárinu ráðast því m.a. af eftirtöldum (fyrirhuguðum) kaflaheitum í starfsáætlun 2018-19: Rekstur, samskiptin, félagsaðstaðan, félagsstöðin, dagskrá, miðlar, námskeið, endurvarpar, tíðnimál og hagsmunamál almennt. TF3DC mun útfæra tillögu að vetrardagskrá nánar á milli funda.
9. Námskeið til amatörprófs.
Námskeið til amatörprófs stendur yfir og fer fram í húsnæði Háskólans í Reykjavík. Umsjónarmaður er TF3PW.
10. Önnur mál.
Undir dagskrárliðnum var ýmislegt rætt. M.a. fyrirspurn frá TF2EQ um að hafa viðburðardagatal og/eða dagskrá á heimasíðu. Tóku fundarmenn vel í það og þarfnast hugmyndin útfærslu. Rætt var um tíðnir. TF3JB minntist á að það þurfi að herja á PFS um að fá fullt afl á 50 MHz og tíðnisvið upp fyrir núverandi bandenda á 4 metrum (70.200 MHz). Neyðarfjarskipti bar aftur á góma og lýsti TF3NE hvernig uppbygging og skipulag væri hjá björgunar- og hjálparsveitum. Til stuttrar umræðu kom skoðun TF3JA um opna stjórnarfundi sem hann gat um á síðasta aðalfundi. Stjórnarmenn töldu það ekki fýsilegan kost. TF3JB skýrði frá inngöngu þriggja nýrra félaga eftir stjórnarskiptafund, auk nokkurs fjölda sem hefur áhuga á að ganga í félagið. Nokkuð var rætt um kynningu á félaginu, auk almennar umræðu um félagið og áhugamálið.
11. Næsti fundur stjórnar.
Stefnt verður að boðun næsta fundar í stjórn fyrri hluta maímánaðar.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!