Vel heppnað fimmtudagserindi TF2LL
Fimmtudagserindið þann 5. janúar var í höndum Georgs Magnússonar, TF2LL og nefndist það Loftnetsframkvæmdir hjá TF2LL í Norðtungu í Borgarfirði sumarið 2010. Erindi Georgs var afar fróðlegt og hann útskýrði ítarlega forsendur fyrir vali á loftnetum, rótor, turnsmíðinni sjálfri og nauðsynlegum aukahlutum. Í öllum tilvikum var leitast við að vanda vel til verks enda um að ræða framkvæmd til frambúðar. Meðal annars var leitað til verkfræðistofu með hönnun undirstöðu turnsins, auk þess sem mannvirkið var teiknað upp og sett í umhverfismat. Tilskilin leyfi voru fyrir hendi haustið 2010 og reisti Georg turninn fullbúinn með loftnetum þann 21. október 2010.
Um er að ræða rúmlega 28 metra háan þrístrendan loftentsturn sem er að stærstum hluta heimasmíðaður. Hann er reistur á sérhannaðri undirstöðu og fóru 13 rúmmetrar af steypu í mótin. Á turninum eru tvö loftnet, annars vegar OptiBeam 18-6 fyrir 40-10 metra böndin og OptiBeam 1-80 sem er fyrir 80 metrana. Uppsetning veitir möguleika til að nota turninn fyrir fleiri loftnet, þar sem út frá honum má strengja víranet, t.d. fyrir 160 metrana. Rótorinn er af gerðinni Prosistel PST-71D og er hann staðsettur í botni turnsins og snýr loftnetum með sérsmíðuðu drifskafti. Snjöll lausn er, að kaplarnir upp í loftnetin eru þræddir í gegnum drifskaftið.
Aðalloftnet Georgs er OptiBeam OB-18-6, sem er 18 stika Yagi loftnet fyrir sex bönd, þ.e. 40/20/17/15/12 og 10 metrana. Bómulengd er 12 metrar. Lengsta stikan er 14,6 metrar og eiginþyngd loftnetsins er 115 kg. Loftnetið er 3 stika á 40m, 4 stika á 20-17-15 og 12 metrunum og 7 stika á 10 metrunum. Uppgefinn ávinningur á bandi, yfir tvípól: 4,8 / 7,3 / 7,5 / 7,8 / 7,0 / 7,7 dB. Efra loftnetið á turninum er Optibeam OB-1-80, sem er styttur tvípóll á 80 metrunum. Hann er 17,6 metrar á lengd og vegur 25 kg. Í fæðipunkti eru rafliðar og spólur sem skipta á milli neðri og efri hluta bandsins. Þriðja loftnet Georgs frá OptiBeam er af gerðinni OB-5-6, sem er fyrir 6 metra bandið og gefur 8,8 dB ávinning yfir tvípól. Það loftnet er uppsett á minni turni, nokkurn spöl frá þeim háa.
Í lok erindis svaraði fyrirlesari fjölmörgum fyrirspurnum og stóðu umræður yfir til kl. 23. Rúmlega 30 félagsmenn mættu í Skeljanesið.
Stjórn Í.R.A. þakkar Georg Magnússyni, TF2LL, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi.
Power Point skyggnur sem fylgja erindinu verða settar inn á eftirfarandi slóð á heimasíðu félagsins: http://www.ira.is/pages/viewpage.action?pageId=4555138
Vefslóð OptiBeam: http://www.optibeam.de/
Vefslóð Prosistel: http://www.prosistel.net/
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!