Vel heppnað fimmtudagserindi hjá TF3AM
Fimmtudagserindið þann 12. janúar var í höndum Andrésar Þórarinssonar, TF3AM, og nefndist það Heimasmíði
tvípóla fyrir HF í bílskúrnum (láréttra og lóðréttra). Erindi Andrésar var fróðlegt. Hann útskýrði m.a. þær forsendur sem hann
gefur sér við smíðar á tvípólum úr álrörum fyrir 10, 15 og 20 metra böndin – og ennfremur, hvað varðar uppsetningu miðað
við lágmarks hæð yfir jörð.
Hann útskýrði verkefnið á hinum ýmsu stigum smíðanna og fjallaði ennfremur um prófanir á að skipta á milli tvípóla þegar
þeir eru settir upp lárétt og lagðir í kross. Hann útskýrði vel fræðilegar forsendur fyrir smíðinni, svo og þá hugsun að nota
sem mest handbært efni (og kaupa sem minnst) til að verkefnið yrði sem ódýrast í reynd.
Andrés sýndi Power Point glærur frá tilraunum sínum, m.a. af uppsetningu lóðréttra tvípóla við heimili sitt í Mosfellsbæ sem
eru fæddir með samsíða fæðilínu og af uppsetningu á krosstvípólum við sumarhús í TF1-kallsvæði í Grímsnesi. Þar hefur
hann um eins og hálfs árs reynslu af þremur settum af láréttum „krosstvípólum” fyrir 10, 15 og 20 metra böndin, sem hann
hefur m.a. notað í alþjóðlegum keppnum við góðan árangur. Hann sagði loftnetin í reynd hafa komið vel út, þótt hann hafi
gjarnan viljað sjá meiri mun (ávinning) við að skipta á milli þeirra á tilteknu bandi.
Í lokin var m.a. rætt um fræðilegan mun á tvípólum, 1/4-bylgju stangarloftnetum og fleiri loftnetaútfærslum. Erindið var vel sótt
og komu yfir 30 félagsmenn í félagsaðstöðuna í Skeljanesi þetta ágæta fimmtudagskvöld. Andrés svaraði greiðlega fjölda
spurninga í lok erindisins.
Stjórn Í.R.A. þakkar Andrési Þórarinssyni, TF3AM, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir
myndatökuna.
Andrés sýnir heimasmíðaða festingu (á hjörum) fyrir stöngina sem heldur uppi tvípólunum á myndinni til vinstri.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!