Skínandi góður laugardagur í Skeljanesi
Laugardaginn 6. október mætti Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, með hraðnámskeið (sýnikennslu) í Skeljanes fyrir þá félagsmenn sem vildu læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Alls mættu 10 félagar í félagsaðstöðuna stundvíslega kl. 10 árdegis. Vilhjálmur Þór hóf dagskrána á vel fram settum fræðilegum inngangi. Hann skeiðaði síðan léttilega í gegnum spurningar viðstaddra og þegar kom að því að sýna notkun MFJ-269 loftnetsgreinisins, voru allir með á getu tækisins.
Sumir höfðu með sér sína eigin loftnetsgreina (TF2WIN). Aðrir sögðust sjá eftir því að hafa ekki tekið sína með sér þegar á staðinn var komið. Fram kom, að það eru ótrúlega fjölbreyttar mælingar sem má gera með þessu tiltölulega ódýra mælitæki.
Áhugavert er að geta þess, að símtöl bárust til stjórnarmanna strax í eftirmiðdaginn í gær og áfram í dag (sunnudag) frá félagsmönnum sem ýmist sögðust hafa gleymt viðburðinum, sofið yfir sig eða verið uppteknir. Sama óskin kom fram hjá þeim öllum: „Hvenær verður þetta endurtekið hjá Villa?” Námskeiðinu lauk laust eftir kl. 13. Frábær dagur og skínandi vel heppnaður!
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!