,

TF1RPB QRV á nýju loftneti

TF1RPB hefur aðsetur í þessu húsi í Bláfjöllum í 690 metra hæð yfir sjávarmáli. Ljósmynd: TF3ARI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, fékk far í Bláfjöll í morgun, 20. nóvember. Við það tækifæri var endurvarpi félagsins, TF1RPB („Páll”), tengdur yfir á ¼-bylgju GP loftnet þar á staðnum sem félagið fékk heimild til að nota. Um leið var APRS stafvarpinn TF1APB, tengdur á ný, nú við það loftnet sem TF1RPB hafði notað áður. Báðir varparnir eru nú QRV og fyrstu niðurstöður um styrk á merkjum frá þeim á höfuðborgarsvæðinu lofa góðu.

Stjórn Í.R.A. þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI, fyrir að hafa tekist á hendur þessa ferð og Jóni Þóroddi Jónssyni, TF3JA, fyrir aðstoð við undirbúning ferðarinnar.

Loftnet TF1RPB er GP loftnetið sem er staðsett hægra megin á þaki hússins. Ljósmynd: TF3ARI.

Kenwood TKR-750 endurvarpinn hvílir á “cavity” síum sínum og aflgjafinn þar ofan á. Ljósmynd: TF3ARI.

Búnaður stafvarpans TF1APB er staðsettur í sama húsi og TF1RPB. Ljósmynd: TF3ARI.

TF1RPB; stutt yfirlit.

Það var sumarið 2010 sem félagið festi kaup á nýju 3 metra háu stangarloftneti með 4 radíölum fyrir TF1RPB sem sett var upp í ágúst það ár (Hustler G6-144B, sem hefur 6 dB ávinning yfir tvípól). Það loftnet stóð sig afburða vel um 14 mánaða skeið, uns stagfesta fyrir burðarstaur gaf sig í hvassviðri í október 2011 og staurinn féll til jarðar. Staurinn mun þó hafa fallið á “réttu” hliðina, þannig að loftnet félagsins er óskemmt.

TF1RPB varð loks QRV á ný þann 14. júní 2012 þegar TF3WS lagði á fjallið. Þá hafði fengist heimild til að nota til bráðabirgða, gamalt loftnet á staðnum sem reyndist vel um 3 mánaða skeið, uns endurvarpinn fékk í sig eldingu. Í framhaldi var tekin sú ákvörðun þann 8. september að sækja Kenwood endurvarpa félagsins á Garðskaga (sem hafði þjónað TF8RPH vel frá því í apríl) og var hann fluttur í Bláfjöll af þeim TF3WS og TF3ARI að morgni 9. september. Endurvarpinn gekk síðan með ágætum fram undir miðjan október uns sambandsleysi í gamla loftnetinu varð yfirþyrmandi. Þann 20. október, lagði TF3JA á fjallið og tengdi hann varpann til bráðabirgða á APRS loftnet TF1APB. TF1RPB gekk síðan ágætlega á því loftneti í mánaðartíma, uns sviðsstyrkur hans nánast hvarf. Í ljós kom, að stilkur APRS loftnetsins hafði brotnað af festingunni og fokið. Á ný átti TF3JA ferð á fjallið þann 18. nóvember og var TF1RPB aftur tengdur við gamla netið og gekk ágætlega, en sviðsstyrkur frá því var minni samanborið við áður. Til að laga þá stöðu mála, lagði TF3ARI á fjallið í morgun (20. nóvember) og tengdi endurvarpann við ofangreint loftnet sem virðist koma vel út.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

four × 1 =