,

Frábær fimmtudagur í Skeljanesi…TF3DX fór á kostum

Við upphaf erindis. Vilhjálmur með fundarmenn á aðra höndina og frumherjana á hina höndina (TF5TP og TF6GI).

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti leiftrandi áhugavert erindi í félagsaðstöðu Í.R.A. í gærkvöldi, 24. febrúar. Það var sprottið af hönnun hans á sendiloftneti fyrir TF4M á 1,8 MHz.

Vilhjálmur lagði upp með grundvallarspurninguna um lárétta eða lóðrétta skautun og hvernig það tengist þeim vanda sem er samfara hönnun loftneta þegar bylgjulengdin er 160 metrar og ekki reynist unnt að koma þeim hærra en sem nemur 1/8 úr bylgjulengd eða svo. Hann útskýrði einnig áhrifin af jarðleiðni, ekki síst kosti þess að hafa loftnet við sjávarsíðuna eins gert var með umrætt loftnet. Loks drap hann á áhrifin af mismunandi hæð lóðréttra loftneta. Að loknu erindi svaraði Vilhjálmur fjölmörgum spurningum félagsmanna.

Vilhjálmur mun ljúka umfjöllun sinni eftir þrjár vikur með framhaldserindi í Skeljanesi, þ.e. fimmtudaginn 17. mars n.k. kl. 20:30. Þá verður farið í tapsvalda og sjónarmið við hönnun topphatts og mótvægis með nýtni að leiðarljósi. Aðsókn var afburða góð, 36 félagsmenn, sem er besta aðsókn á einn viðburð hjá félaginu frá því flutt var í húsið fyrir réttum 7 árum.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi og hvetur félagsmenn til að taka frá fimmtudagskvöldið 17. mars n.k.

Vilhjálmur sýndi margar áhugaverðar “Power Point” glærur með erindinu.

Líkt og sjá má á myndinni þurftu sumir að standa þar sem ekki hafði verið raðað upp nema 30 stólum…

Það hefði mátt heyra saumnál detta…menn einbeittu sér að því að hlusta til að missa ekki af neinu.

Sigurður Óskarsson, TF2WIN og S. Smári Hreinsson, TF8SM, spyrja Vilhjálm út í einstök atriði í kaffihléinu.

Brosmildir verkfræðingar í kaffihléi: Frá vinstri: Sæmundur TF3UA; Kjartan TF3BJ; og Jón Þóroddur TF3JA.

Eru 160 metrar skemmtilegasta bandið? Frá vinstri: Guðmundur TF3SG, Stefán TF3SA og Höskuldur TF3RF.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

13 − twelve =