Auðvelt að fjarstýra HF stöð yfir netið
Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 29. nóvember og hélt erindið: „Að fjarstýra stöð yfir netið.“
Ágúst var með afar greinargott erindi um reynslu sína í þessum efnum, en hann hefur aðstöðu fyrir loftnet og búnað í sumarhúsi í u.þ.b. 100 km fjarlægð frá heimili sínu í Garðabæ.
Hann notar Kenwood TS-480 stöð og tengibúnað frá RemoteRig. Stöðin er með laustengdu stjórnborði, þannig að RF hlutinn er hafður í sumarhúsinu og stjórnborðið heima. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er, að ekki þarf sérstaka tölvu í sveitinni. Ágúst nefndi, að sambærilegt fyrirkomulag sé í boði fyrir fleiri gerðir af stöðvum sem eru með laustengd stjórnborð, t.d. Icom IC-7100. Hefðbundnar stöðvar þurfa hins vegar flestar tölvur á báðum endum.
Meginvandinn hefur verið netþjónustan sem er í boði á landssvæðinu þar sem sumarhúsið er staðsett. Aukin samkeppni og þróun í netbúnaði hefur hins vegar auðveldað málið og gat Ágúst þess, að í dag sé tengingin yfir netið hnökralaus og kostnaður ásættanlegur.
Ágúst hafði með sér fjarstýribúnað í fundarsal og sýndi virkan hans eftir erindið og mátti greinilega heyra að truflanir eru litlar sem engar í sveitinni. Hann fékk fjölda fyrirspurna sem hann leysti greiðlega úr.
Að lokum klappað og Ágústi þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!