HF stöðvar á markaði fyrir radíóamatöra
Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes 28. febrúar og hélt erindi undir heitinu: “Kaup á nýrri HF amatörstöð vorið 2019; markaðurinn og ný viðhorf”.
Erindið byggði á grein í 1. tbl. CQ TF 2018 um sama efni, uppfært til dagsins í dag. Hann ræddi einnig um áhrifaþætti á markað fyrir nýjar HF stöðvar, svo sem lága stöðu sólbletta og ný viðhorf í ljósi aukinna vinsælda stafrænna tegunda útgeislunar og breytingar á sölukerfi amatörstöðva og búnaðar.
Farið var yfir markaðinn í heild og fram kom m.a. að 13 framleiðendur í 7 þjóðlöndum bjóða alls 46 gerðir HF stöðva sem skiptast á 15 mismundandi tegundir. Þrír þeirra stærstu, Icom, JCV Kenwood og Yaesu, eru með 52% af framboðinu. Ódýrasta HF stöðin er Minion Mini frá QRPver í Úkraínu sem kostar 52 þúsund krónur og ódýrasta 100W stöðin er DX-SR8 frá Alinco í Japan sem kostar 83 þúsund krónur (verð með öllum gjöldum til landsins m.v. daginn í dag).
Jónas leit að lokum til þróunar markaðarins fram til ársins 2025. Hann ræddi um væntanlegar breytingar svo sem aukna innkomu framleiðenda frá A-Evrópu og Kína. Ennfremur um stöðu áhugamálsins gagnvart breyttri þjóðfélagsskipan, m.a. aukna samkeppni um tíma fólks og tómstundir sem hefur áhrif á endurnýjun í hópi radíóamatöra líkt og annars staðar.
Alls mættu 27 í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld. Mikill áhugi var á umfjöllunarefninu og fyrirspurnir og umræður stóðu fram yfir kl. 22:30 þegar TF3JB var þakkað fyrir fróðlegt og áhugavert erindi með lófaklappi.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!