Laugardagsopnun í Skeljanesi 2. mars
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mættu í Skeljanes laugardaginn 2. mars. Í handraðanum voru Anan 7000 stöð frá Apache Labs og Flex 6400 stöð frá FlexRadio. Ekki er vitað um fleiri eintök í landinu en þessi tvö.
Stöðvarnar eru báðar SDR stöðvar, vinna á HF + 6 metrum og eru búnar 100W sendum. Báðar þurfa utanaðkomandi tölvu (með skjá) sem aukabúnað. Báðar þurfa ennfremur utanaðkomandi aflgjafa sem þarf að geta gefið 13.8VDC, allt að 25A. ANAN 7000DLE MK-II kostar 433 þúsund krónur komin hingað til lands en FLEX 6400 kostar 315 þúsund krónur (m.v. gengi ísl. krónunnar 1.3.2019).
Það er ætíð spennandi að sjá og snerta stöðvar sem maður hefur ekki séð fyrr og það á svo sannarlega við um þessar. Tilfinningin að stilla viðtöku þeirra beggja er mjög góð og möguleikarnir til að vinna úr merkjum á böndunum geysimargir.
Þeir Ari og Vilhjálmur héldu stutta tölu þar sem þeir ræddu hvora stöð fyrir sig og svöruðu spurningum. Báðir hafa mikla reynslu og hafa átt (og eiga) fleiri stöðvar og báðir eru mjög ánægðir með stöðvarnar.
Alls mættu 14 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í höfuðborginni. Bestu þakkir til þeirra Ara og Vilhjálms fyrir fróðlega og skemmtilega kynningu.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!