VEL HEPPNAÐ ERINDI TF3Y Í SKELJANESI
Yngvi Harðarson, TF3Y, mætti í Skeljanes á vetrardagskrá ÍRA þann 7. nóvember með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.
Hann fjallaði um truflanir á HF; mismunandi tegundir, hvernig þær berast í viðtækið og kynnti aðferðir til að minnka þær. Hann upplýsti um helstu uppsprettur og dreifileiðir og sýndi m.a. áhugaverð sýnishorn af truflanavöldum á 40 metrunum frá NK7Z.
Yngvi kynnti og fór yfir sjö leiðir til að fást við vandann: (1) Fjarlæga uppsprettuna (alltaf best); (2) Færa viðtæki frá truflun; (3) Nota stefnuvirkt loftnet (s.s. magnetíska lúppu); (4) Nota fösun merkja; (5) SDR tækni, þ.e. 2 x RX með einum sveifluvaka; (6) DSP tækni; og (7) Aðferðir 3-6 saman.
Síðari hluti erindisins var verklegur. Eftirfarandi búnaður var notaður: NCC-1 (Receive Antenna Variable Phasing Controller fyrir 0.3-30 MHz) frá DxEngineering, RSPDuo SDR viðtæki frá SDRPlay (fyrir 1 kHz til 2 GHz) og Elecraft KX2 sendi-/viðtæki (fyrir 3.5-29.7 MHz), auk MFJ-1025 (Noise cancel/signal enhancer).
Kóaxkaplar höfðu verið lagðir frá fjarskiptaherbergi félagsins niður í fundarsal og var m.a. til afnota 4 staka YAGI loftnet TF3IRA fyrir 20 metrana og sambyggt stangarloftnet TF3IRA fyrir 10, 15, 20, 40 og 80 metra böndin.
Yngvi tengdi þennan búnað og var afar áhrifaríkt að sjá hann virka. Hann svaraði mörgum spurningum fundarmanna og sökum áhuga dróst til kl. 22:30 að taka kaffihlé. Niðurstaða: Það er sumsé hægt að sigrast í truflunum!
Alls mættu 41 félagsmaður og 2 gestir í Skeljanes þetta kyrrláta snemmvetrarkvöld í Vesturbænum. Bestu þakkir til Yngva fyrir áhugavert, fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt erindi.
Glærur frá erindi Yngva: http://bit.ly/2PYZFPH
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!