VEL HEPPNAÐ NETSPJALL
Ágúst H. Bjarnason, TF3OM efndi til óformlegs „netstpjalls“ meðal félagsmanna ÍRA fimmtudaginn 19. nóvember. Hann ræddi hugmyndina fyrst 7. þ.m. á FB síðu félagsins og svo á ný 10 dögum síðar þegar hann skrifaði: „Ég stefni á að boða til óformlegs hittings eða spjalls næsta fimmtudag 19/11 klukkan 20:00“.
Í stuttu máli sagt, fór viðburðurinn fram á tilsettum tíma og kom glimrandi vel út. Þátttakendur voru mjög ánægðir með reynsluna af þessu fyrsta „netspjalli“ sem varði í um eina og hálfa klukkustund og ekki skorti umræðuefni. 12 höfðu lýst yfir áhuga en 5 mættu á netið: TF3OM, TF3PW, TF3DC, TF3Y og TF3JB.
Notað var forritið Zoom sem er frítt og gerir kleift að eiga í rauntímasamskiptum í videomynd, tali og skrifuðum texta. Ekki þarf mikinn tækjabúnað og flestir, ef ekki allir, eiga snjallsíma sem er með öllu sem til þarf. Skjá, hljóðnema og videomyndavél. Sama er að segja um ferðatölvur, þær eru með öllu.
Hugmyndin er að endurtaka viðburðinn næsta fimmtudag, 26. nóvember kl. 20. Málið verður kynnt þegar nær dregur. Bestu þakkir til Ágústar, TF3OM fyrir gott frumkvæði.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!