FÉLAGSAÐSTAÐAN FIMMTUDAG 19. ÁGÚST
Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 19. ágúst. Mannskapur á báðum hæðum og góðar umræður. Rætt var um fjarskiptin og skilyrðin á böndunum og um Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelgina, en viðburðurinn hefst í dag (laugardag) og stendur yfir um helgina 21.-22. ágúst. A.m.k. 1 íslenskur viti er virkjaður að þessu sinni, Knarrarósviti við Stokkseyri.
Ennfremur var mikið rætt um loftnet, m.a. um grein Kristjáns Benediktssonar, TF3KB í nýjasta hefti CQ TF (3. tbl. 2021) bls. 37 sem hann kallar „Tilbrigði við deltur“. Þar segir Kristján m.a.: „Deltan er auðveld í uppsetningu, þarf bara einn uppfestipunkt og ekkert jarðplan og kostar lítið“ (sjá vefslóð á blaðið neðar).
Loftur E. Jónasson, TF3LJ var sérstakur gestur okkar þetta fimmtudagskvöld. Hann er á landinu um þessar mundir en býr í Kanada og hefur kallmerkið VE2AO. Hann hafði frá mörgu fróðlegu að segja enda mikil gróska í áhugamálinu þar í landi. Gunnar Bergþór Pálsson, TF2BE færði okkur radíódót sem verður í boði frá og með næsta opnunarkvöldi. Bestu þakkir til Gunnars.
Alls mættu 17 félagar + 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!