,

FRÁBÆR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI

Kristján Benediktsson TF3KB byrjar erindi sitt “Skipulag alþjóðasamtaka radióamatöra” fimmtudaginn 24. nóvember.

Kristján Benediktsson, TF3KB mætti í Skeljanes 24. nóvember með erindið: „Skipulag alþjóðasamtaka radíóamatöra“.

Hann byrjaði erindið með því að fjalla stuttlega um frumkvöðla radíótækninnar og helstu áhrifavalda og útskýrði vel bakgrunn og þróun á því umhverfi sem við þekkjum í dag sem grundvöll tíðnimála radíóamatöra og stjórnun málaflokksins, þ.e. Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og svæðisbundnu fjarskiptasamböndin, þ.á.m. það evrópska, CEPT.

Hann kynnti skilgreiningu amatörradíóþjónustunnar í alþjóðaradíóreglugerð ITU (RR) og benti m.a. á nokkrar greinar sem fjalla um þau mál, þ.á.m. að gerðar eru kröfur um lágmarkskunnáttu í radíótækni, radíósamaskiptum og reglugerðum sem þarf að uppfylla til að öðlast amatörleyfi. Þessar kröfur hafa sterka réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Hann kynnti vel og útskýrði skipulag alþjóðasamtaka landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union, IARU og skiptinguna í svæði I, II og III sem er sama skipting og innan ITU. Hann útskýrði aðdraganda að stofnun IARU árið 1925 og mikilvægi samtakanna í að tryggja og viðhalda hagsmunum okkar samhliða því að vinna að framtíðarsýn fyrir áhugamálið. Kristján kom einnig inn á grunngildin sem vinna IARU hefur mótast af alla tíð síðan.

Kristján opnaði okkur sýn inn í viðamikil störf IARU og þau verkefni sem við þekkjum úr nærumhverfinu, þ.e. innan okkar svæðis (Svæðis 1) þar sem starfsemin er byggð upp á vinnu fastanefnda, starfshópa og embætta með aðgreind verksvið. Hann útskýrði einnig uppbyggingu starfsins innan svæðisins, m.a. ráðstefnur sem eru haldnar á þriggja ára fresti og svokallaða „millifundi“ sem haldnir eru mitt á milli þeirra.

Sérstakar þakkir til Kristjáns fyrir vel flutt, fróðlegt, yfirgripsmikið og vandað erindi. Kristján bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi erindisins (og á eftir) sem kom mjög vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins fram undir kl. 23 þegar staðurinn var yfirgefinn.

Alls mættu 19 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Fram kom m.a. að landfræðileg svæðaskipting ITU og IARU er sú sama.
Kristján útskýrði undirbúningsvinnu sem fram fer m.a. hjá IARU vegna tíðniákvörðunarráðstefnu ITU (WRC) sem fram fer 2023.
Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

5 × four =