Flóamarkaður ÍRA að vori 2023 fór fram 7. maí í Skeljanesi og var haldinn samtímis í félagsaðstöðunni og yfir netið. Notað var forritið „Google Meet“ og voru félagsmenn veftengdir á Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi og á Höfuðborgarsvæðinu.
Markaðurinn var tvískiptur. Annars vegar var tækjum og búnaði stillt upp til sölu (eða gefins) í félagsaðstöðunni og hins vegar fór fram uppboð samtímis á staðnum og yfir netið. Alls voru boðin upp 29 númer og seldust 25. Margir gerðu reyfarakaup og fóru viðskipti einnig fram fyrir og eftir uppboðið.
Seldar voru m.a. HF sendi-/móttökustöðvar frá Kenwood og Yaesu, auk Yaesu „All mode“ V/UHF heimastöðvar og Icom „All mode“ 50 MHz heimastöðvar. Ennfremur mælitæki og loftnet fyrir heimahús á VHF/UHF og HF, þ.m.t. magnetísk lúppa (fyrir 3-15MHz). Einnig Hamstick og Hustler bílloftnet fyrir 80M, 60M og sambyggð bílnet fyrir 80-4M frá Wilson. Og heyrnartól, netbeinar, öryggismyndavélar og samstæðir hátalarar.
Alls tóku 40 manns þátt í viðburðinum, 31 þátttakandi var á staðnum og 9 tengdir yfir netið.
Þakkir til félagsmanna fyrir þátttökuna og sérstakar þakkir til þeirra Vilhjálms Í. Sigurjónssonar uppboðshaldara og Jóns Björnssonar, TF3PW tæknistjóra sem stóðu sig með afbrigðum vel.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!