,

FRÁBÆR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes laugardaginn 11. nóvember með erindið „Fræðsla um QO-100 og farið í loftið frá TF3IRA“.

Hann flutti stuttan inngang, þar sem m.a. kom fram að gervitunglið QO-100 er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að tunglið er ætíð á sama stað séð frá jörðu. Þess vegna geta radíóamatörar stundað fjarskipti um tunglið allan sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink). Hægt er að nota CW, FT8 og SSB og bandbreiðari sendingar, s.s. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl. QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Eftir fróðlegan inngang og svör við spurningum sýndi Ari DXpatrol tækið sem er nánast „galdratæki“ og gengur næst því að vera „plug and play“ eins og sagt er. Það var fyrst kynnt á sýningunni í Friedrichshafen í sumar (2023) og er „full duplex“. Ari sýndi það tengt við Icom IC-7100 stöð sem hann keyrði á 28 MHz – í gegnum 85 cm diskloftnet (staðsett við glugga í austurátt) í salnum í félagsaðstöðunni. Aðeins tók augnablik að finna gervitunglið. Stór munur er, að ekki þarf lengur SSB stöð á 2M eða 70 sentímetrum þar sem nota má t.d. HF sendi-/móttökustöð á 10M, 6M eða hærri böndum. Vefslóð: https://dxpatrol.pt/produto/dxpatrol-full-duplex-qo-100-groundstation/

Til gamans voru höfð sambönd um QO-100 frá stöðinni í salnum við TF3AWS sem var QRV gegnum tunglið frá gervihnattastöð TF3IRA á hæðinni fyrir ofan (u.þ.b. 42 þúsund km fjarlægð x 2). Þar var TF3AWS á hljóðnemanum og niðri TF1A, TF3UA, TF3TB, TF3ID og TF3JB á hljóðnema.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir vel heppnaðan og ánægjulegan laugardag. Alls mættu 11 félagar og 1 gestur í Skeljanes í mildu og fallegu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

85 cm diskloftnetinu var stillt upp við gluggan í salnum sem snýr í austur. Í fjarska má greina Hustler 6BTV stangarloftnet TF3IRA.
Ari stillir upp og tengir DXpatrol “transverter’inn” og Icom IC-7100 stöðina. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA fylgist með og Jón Björnsson TF3PW gerir myndbandsupptöku.
Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW (standandi), Kristján Benedikitsson TF3KB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Börkur Karlsson, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS virkjaði TF3IRA yfir QO-100 gervitunglið frá fjarskiptahergi félagsins á hæðinni fyrir ofan.
Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA hefur samband við TF3IRA um QO-100 gervitunglið sem er í 42 þúsund km fjarlægð. Ari Þórólfur TF1A fylgist með.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB hefur samband við TF3IRA um QO-100 gervitunglið.
Í fundarhléi sýndi Ari okkur nýjan „transvert‘er“ sem kominn er á markað fyrir Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtæki fyrir 60 MHz til 3,8 GHz – sem opnar HF böndin til viðbótar hærri böndunum. Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Í fundarhléi sýndi Ari margt fleira, m.a. mismunandi gerviálög (e. dummy load) sem ekki stóðust öll tæknilegar upplýsingar. Myndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

1 × 5 =