MÓTTAKA FYRIR NÝJA LEYFISHAFA Í SKELJANESI.
Laugardaginn 25. janúar var móttaka fyrir nýja leyfishafa sem sem tóku þátt í námskeiði ÍRA til amatörprófs haustið 2024 og náðu prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis 2. nóvember s.l. Allir 14 hafa fengið úthlutað kallmerki hjá stofnuninni. Dagskráin var vel sótt; allir þeir nýliðar sem áttu heimangengt komu, alls 9 manns.
Birgir Freyr Birgisson, TF3BF;
Daníel Smári Hlynsson, TF3GOD;
Guðjón Már Gíslason, TF3GMG;
Gunnar B. Guðlaugsson, TF5NN;
Helgi Gunnarsson, TF3HG;
Óskar Ólafur Hauksson, TF3OH;
Ríkharður Þórsson, TF8RIX,
Róbert Svansson, TF3RS og
Sæmundur Árnason, TF3NEI.
Erindi fluttu þessir:
Yngvi Harðarson, TF3Y um aðstöðu félagsins í Skeljanesi og um starf ÍRA, (m.a. um fræðsludagskrá, fundi og námskeið (þ.m.t. til amatörprófs), heimasíðu, FaceBook síður, félagsritið CQ TF, ársskýrslu, árlega fjarskiptaviðburði, alþjóðlegar keppnir, endurvarpa, stafvarpa, radíóvita, gervihnattafjarskipti og helstu innanlandstíðnir á HF, VHF og UHF.
Kristján Benediktsson TF3KB tók síðan við og flutti glærukynningu og kynnti alþjóðastarf radíóamatöra, m.a. um IARU, NRAU og ITU. Undir dagskárliðnum fór fram afhending ítarefnis, þ.e. listi yfir valdar greinar sem birst hafa í CQ TF (einkum árin 2018-2024).
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS fjallaði um loggforrit, mikilvægi þeirra og möguleika og tók sem dæmi Logger32 rafræna dagbókarforritið sem hann sýndi með skjávörpunni. Síðan fjallaði hann almennt um QSL kort, notkun þeirra og sýndi sem dæmi ýmis kort frá sér og öðrum.
Eftir kaffi og spjall var farið upp í fjarskiptaherbergi þar sem Vilhjálmur og fleiri kynntu nýliðum tækin og útskýrðar voru hefðir í fjarskiptum radíóamatöra; hvernig farið er að því að hafa samband á SSB, og síðan fóru þeir allir níu í loftið, hver af fætur öðrum, og tóku nokkur sambönd hver á 10 metra bandinu. Ennfremur ræddi TF3KB bandskipan. Þetta var mjög vel heppnað.
Á eftir var farið í fundarsalinn, bætt á með kaffi. Þar sýndi Vilhjálmur, TF3VS hvernig FT8 fjarskipti fara fram. Til þess notaði hann tölvu og framendann/stjórnborðið á FlexRadio 6600 stöð (Maestro Control Console) sem gerði honum kleift að vera í fjarsambandi yfir netið við stöðvarhlutann heima í Kópavogi. Þetta heppnaðist vel og spunnust fjörugar umræður.
Þegar klukkan var að verða 15:00 var húsið yfirgefið. Ánægjulegur og vel heppnaður dagur. Þökk sé öllum fyrirlesurum, Andrési Þórarinssyni, TF1AM varaformanni fyrir að fyrir að stjórna dagskrá dagsins af röggsemi og Matthíasi TF3MH fyrir húsgæsluna og Sveini Goða TF3ID fyrir veitingar.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!