,

Stefna PFS um stjórnun tíðnisviðsins 2011-2014

Póst- og fjarskiptastofnun hefur kallað eftir samráði við hagsmunaaðila um nýja tíðnistefnu til næstu fjögurra ára, þ.e. 2011-2014. Skjal stofnunarinnar þessa efnis, auk sérstaks umræðuskjals um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða var birt á heimasíðu PFS þann 1. júlí s.l. Frestur er gefinn til að skila umsögnum og athugasemdum til 19. ágúst n.k. Stjórn Í.R.A. mun fjalla um þann hluta stefnu Póst- og fjarskiptastofnunar sem varðar radíóamatöra sérstaklega, á fundi sem haldinn verður fljótlega.

Inntak erindis stofnunarinnar er eftirfarandi (ath. hér birt stytt):

PFS kallar eftir samráði: Tíðnistefna PFS og sérstakt umræðuskjal um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú stefnu sína um stjórnun tíðnisviðsins fyrir árin 2011 – 2014 og kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um skjalið. Með því vill stofnunin hvetja til umræðu og skoðanaskipta um framtíð tíðnimála. Sérstakt umræðuskjal er sett fram um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða sem er einnig fjallað um í tíðnistefnunni.

Óskar stofnunin eftir umsögnum hagsmunaaðila um bæði skjölin. Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum er til kl. 12:00 föstudaginn 19. ágúst 2011. Senda skal umsagnir í tölvupósti á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Óskað er eftir að vísað verði til númers þeirra töluliða tíðnistefnunnar sem umsagnir eiga við um. Stofnunin áskilur sér rétt til að birta efni innsendra umsagna, þó án þess að birta nöfn umsagnaraðila.
_____________________________________________________________________________________________________________________________________


Á blaðsíðu 27 í tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar er þessi texti um starfsemi radíóamatöra:


6.11 Radíóáhugamannaþjónusta. Þjónusta fyrir radíóáhugamenn (radíóamatöra) er viðurkennd af hálfu ITU með formlegri þjónustuskilgreiningu í fjarskiptareglum og sérstaklega úthlutuðu tíðnisviði fyrir þá. Það er mat PFS að auka þurfi fræðslu og eftirlit með þessari þjónustu og meta hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk sem leyfður er í þéttbýli Þá verður metið hvort ástæða er til að gera kröfur um tiltekna lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði m.t.t. alþjóðlegra viðmiða.

6.12 Eftirlit með tíðnisviðinu.

  • PFS hyggst auka frumkvæðiseftirlit með tíðnisviðinu. Stofnunin hefur á síðustu árum bætt tækjakost sinn sem gerir henni kleift að fylgjast með að tíðninotkun sé í samræmi við tíðniheimildir og þau skilyrði sem þar eru sett.
  • PFS mun styrkja enn frekar upplýsingakerfi stofnunarinnar til að auðvelda utanumhald mikilvægra upplýsinga um tíðniúthlutanir og staðsetningarupplýsinga fjarskiptavirkja.
  • Sérstakt tillit verður tekið til mikilvægra fjarskipta við úthlutun tíðna og staðsetningu fjarskiptavirkja. Þannig verði komið í veg fyrir hugsanlegar truflanir á mikilvægum fjarskiptum. Með mikilvægum fjarskiptum er t.d. átt við öryggisfjarskipti og flugfjarskipti.

Spurningar: Hver er skoðun hagsmunaaðila á eftirliti PFS með tíðnisviðinu? Er þörf á þessari auknu áherslu?

Annað
Er eitthvað annað sem hagsmunaaðilar vilja koma á framfæri varðandi tíðnistefnuna?

Tíðnistefnu PFS (27 bls.) má nálgast á þessum hlekk: http://www.pfs.is/default.aspx?cat_id=112&module_id=220&element_id=3259

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

17 − three =