Aðalfundur 2009
Í samræmi við lög félagsins boðar stjórn Í.R.A. til aðalfundar 23. maí næstkomandi. Fundurinn hefst klukkan 14.00 og verður haldinn í félagsheimili félagsins í Skeljanesi.
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.
Lög félagsins gera ráð fyrir að lagabreytingatillögur berist fyrir 15. apríl. Ein tillaga barst frá Jónasi Bjarnasyni TF2JB (smellið á hlekkinn til að skoða). (Fann ekki hlekkinn, hann var brotinn á gömlu síðunni – TF3WZ)
Fyrir liggur að töluverðar breytingar verða á stjórn félagsins.
Stjórnarmenn aðrir en formaður eru kosnir til 2ja ára í senn. Nú er kjörtímabil Ársæls Óskarssonar TF3AO og Sveins Braga Sveinssonar TF3SNN að renna út.
TF3AO hefur sinnt hlutverki gjaldkera með miklum sóma lengi en hefur tilkynnt að hann ætli ekki að gefa kost á sér á ný.
Varamenn undanfarið ára hafa verið TF3PPN Jón Gunnar Harðarson og TF3HP Haraldur Þórðarson. Hvorugur þeirra óskar eftir endurkjöri.
TF3SG Guðmundur Sveinsson og TF3GL Guðmundur Löve voru kosnir á síðasta aðalfundi til 2ja ára og sitja því áfram í stjórn.
Sjálfur hef ég sinnt embætti formanns undanfarin 2 ár, þar á undan gegnt ýmsum embættum í stjórn undanfarin ár.
Ég hef eftir þó nokkra umhugsun ákveðið að gefa ekki kost á mér aftur. Ástæðurnar eru persónulegar og fjölskyldulegar. Ég hef ekki haft þann tíma sem ég tel að félagið og embættið verðskuldi og sé ekki fram á að það breytist í bráð.
Hér með er því einnig auglýst eftir fólki sem áhuga hefur á að sinna starfi í þágu félagsins í stjórn þess.
TF3SG
Comment frá TF3JA
Við Reynisvatn 19. apríl 2009.
Sælir félagar,
Formaður og stjórn hafa boðað til aðalfundar í félaginu 23. maí og vonandi komast sem flestir félagsmenn á fundinn sem gæti orðið tímamótafundur í sögu félagsins. Í gær þar sem ég sat í nokkra klukkutíma með einum ungum áhugasömum félagsmanni við félagsstöðina sagði þessi ungi maður allt í einu “Heyrðu Jón, það er eitt sem mér finnst skrýtið við þetta félag, á síðasta aðalfundi kom fram að meira en helmingur félagsmanna er eldri en 67 ára?” Ég andaði léttar og hugsaði með mér, ég er ennþá í yngri hluta félagsins þrátt fyrir að vera kominn á 64. árið. En svo fór ég að hugsa aðeins lengra sem oft er ekki verra. Þetta sýnir eimmitt í hnotskurn hvaða tækifæri felast í félaginu þar sem hinir eldri og reyndari geta miðlað sinni þekkingu og reynslu til hinna yngri. Og ætti það verkefni ekki að vera efst á framkvæmdalista félagsins? Við gætum látið mikið gott af okkur leiða ef við sameinuðum kraftana beindum þeim í réttan farveg. Stóri kosturinn við radíóamatörinn er að þetta er áhugamál sem hver og einn sinnir af sinni bestu getu og áhuga.
Einn félagsmaður hefur sent inn tillögur til breytinga á samþykktum félagsins og er ekki nema gott eitt um þær að segja þó svo við þurfum ekki öll að vera sammála því sem þar kemur fram. Þessar tillögur fara hér á eftir.
Mér sýnast vera í þessum tillögum þrjú meginmál:
1. Heiðursfélagi og hvernig þeir eru valdir.
2. Hve lengi félagsmaður getur setið í stjórn.
3. Taka upp heitið “samþykktir” í stað “lög” um þennan ramma sem við í sameiningu setjum okkur um ÍRA.
Fyrir mig er auðvelt að afgreiða þriðja lið því það var ákveðið fyrir áratugum síðan að tillögu eins ágæts lögfræðings að nota frekar “samþykktir” en “lög” en ekki veit ég hvenær eða hvers vegna þessu var breytt til baka.
Takmörkun á lengd stjórnarsetu er aftur eitthvað sem í ljósi reynslunnar er ekki þörf fyrir sýnist mér en beinir líka sjónum okkar að því að þeim sem leggja fram tillögur til breytinga á félagssamþykktum ÍRA er uppálagt skv. 26. grein að leggja fram greinargerð með breytingartillögum: “Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.” og því vafasamt hvort aðalfundur eigi að taka þessar tillögur til umræðu hafi greinargerð ekki fylgt með þeim.
Heiðursfélagamálið…ég hef áður sagt frá því að þegar ég sem nýgræðingur í ÍRA, kominn í stjórn tók að mér að fara með heiðurskjal heim til eins ágæts eldri félaga sem hafði sinnt um langt skeið ákveðnu starfi í þágu félagsins og gert það vel, að hann varð ekki glaður en þakkaði fyrir sig og talaði lítið við mig. Nokkrum dögum seinna kom hann til okkar með öll gögnin og kvaðst skilja vel að menn vildu endurnýja hlutverkið. Ég hvorki heyrði né sá þennan ágæta virka amatör eftir það því miður. Síðan þá hef ég verið andvígur útnefningu heiðursfélaga enda fæ ég ekki séð annan ávinning fyrir viðkomandi en að þurfa ekki að greiða árgjald til félagsins. Hvers vegna getum við ekki einfaldlega útnefnt alla sem náð hafa 67 ára aldri og eru enn félagar, heiðursfélaga? Sama á við um þá amatöra sem látnir eru, að mínu mati ættu þeir allir tel ég að vera á skránni yfir “þagnaða lykla”, sem ekki er til hjá félaginu í dag, en ekki á lista yfir heiðursfélaga.
Ég veit að þetta er viðkvæmt mál en það þarf að ræða og finna í sátt og samlyndi einhverja góða lausn. Til að byrja með væri kannski hægt að skilgreina vel hvað þarf til að geta orðið heiðursfélagi ef menn eru ekki sáttir við mína tillögu um 67 árin. Ég tek þó fram að allir þeir sem eru heiðursfélagar í dag eiga það vel skilið að mínu mati, og eflaust einhverjir fleiri.
Að endingu vil ég benda á að fundarmönnum er heimilt að koma með á aðalfundi breytingartillögur við þær greinar samþykktanna sem tillögur hafa verið gerðar um breytingar á fyrir miðjan apríl.
73 de TF3JA
……………………………………………………..
Tillögur til breytinga á félagssamþykktum Í.R.A. á aðalfundi 2009 frá TF2JB.
Sent til félagsins í tölvupósti 14.4.2009
FÉLAGAR
6. gr. Fyrsta setning falli niður. Í stað hennar komi:
Kjör heiðursfélaga. Heimilt er að kjósa heiðursfélaga Í.R.A. Tilnefningar skulu berast til stjórnar sem semur rökstuðning með slíkri tilnefningu og leggur fyrir aðalfund. Stjórn getur hafnað tilnefningu en heimilt er félagsmanni að leggja tillögu sína fyrir aðalfund. Kjör skal vera leynilegt og þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að kjör skoðist löglegt.
Í framhaldi komi eldri texti óbreyttur, þ.e. „Honum skal afhent skjal…o.s.frv.”
STJÓRN
9. gr. Önnur málsgrein. Við málsgreinina bætist:
Starfsáætlun nýrrar stjórnar skal birt í fyrsta tbl. CQ TF og/eða fréttabréfi eftir aðalfund.
FÉLAGSFUNDIR
14. gr. Önnur málsgrein. Núverandi setning falli niður. Í hennar stað komi:
Rita skal fundargerð félagsfundar og birta hana í fyrsta tbl. CQ TF og/eða fréttabréfi eftir félagsfund.
15. gr. Núverandi setning falli niður. Í hennar stað komi.
Félagsfundur getur ályktað um mál og skal ákvörðun hans vera leiðbeinandi fyrir stjórn en lögð fyrir aðalfund til staðfestingar.
AÐALFUNDUR
21. gr. Við greinina bætist ný setning:
Stjórnarmenn geta lengst sinnt sama embætti í stjórn í tvö samliggjandi stjórnartímabil.
ANNAÐ
Breyta þarf orðfari þar sem nú er skráð „lög Í.R.A.” í „félagssamþykktir Í.R.A.”
1. Fyrirsögn: „Lög Í.R.A. o.s.frv.” breytist í „Félagssamþykktir Í.R.A. o.s.frv.”.
2. Í 18. gr. Í stað „lagabreytingar” komi „breytingar á félagssamþykktum”.
3. Í 26. gr. Í stað „Félagslögum verður…o.s.frv.” komi „Félagssamþykktum verður…o.s.frv.”
4. Í næstu setningu í sömu grein verði breytt „félagslögum” í „félagssamþykktum”. Annað óbreytt.
5. Í 27. gr. verði beytt þar sem stendur „félagslög” í „félagssamþykktir”.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!