,

Aðalfundur ÍRA 2008

Fundargerð aðalfundar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Skeljanesi, Reykjavík.

Reykjavík, 17. maí 2008.

Fundur hófst kl. 14:00 og var slitið kl. 19:02.

Mættir voru 20.

Mættir voru: TF3HR, TF3GC, TF3AO, TF3HK, TF3GW, TF3IGN, TF2WIN, TF3HP, TF5BW, TF3SG, TF1EIN, TF3VS, TF3YH, TF3DX, TF3GD, TF8SM, TF3KB, TF3TF, TF3PPN, TF3GL.

Formaður TF3HR setti fundinn kl 14:00 og bað fundarmenn að minnast Konráðs Þórissonar TF3KE með stuttri þögn.

Fundarritari: TF3Y

Dagskrá

1. Kosinn fundarstjóri

TF3HR lagði til að Kristján Benediktsson TF3KB yrði kosinn fundarstjóri. Var það samþykkt.

2. Kosinn fundarritari

TF3HR lagði tli að Guðmundur Löve TF3GL yrði kosinn fundarritari. Var það samþykkt.

3. Könnuð umboð

Enginn fundarmanna hafði umboð annarra til að fara með atkvæði sitt á fundinum.

4. Athugasemdir við fundargerð síðasta aðalfundar, ef einhverjar hafa borist, ræddar og bornar undir atkvæði.

Athugasemdir voru engar. Fundargerð síðasta aðalfundar var samþykkt samhljóða.

5. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins.

Skýrsla formanns, Hrafnkels Eiríkssonar TF3HR fer hér á eftir:

Ég var kjörinn formaður félagsins á síðasta aðalfundi. Þakka það traust og vona að félagsmenn sjái ekki mikið eftir því.
Þetta er því mín fyrsta skýrsla sem formaður á aðalfundi.

Í stjórn voru kjörnir á síðasta aðalfundi Ársæll AO og Sveinn SNN en fyrir sat ég(HR) og Þór GW. Einnig var Georg LL kosinn til eins árs þar sem ég flutti mig í formannsembætti.

Stjórn skipti með sér verkum þannig að
HR formaður
GW varaformaður
AO gjaldkeri
LL ritari
SNN meðstjórnandi

Varamenn voru kosnir Jón Gunnar PPN og Þór TON.
Embættismenn félagsins voru DC skoðunarmaður reikninga. Prófanefnd DX, KB, KX, SM og VS. QSL mál í höndum GB og PPN. Félagið fékk nýjan ritstjóra félagsblaðsins okkar CQTF á því starfsári sem er að enda og tók við af Billa TF5BW. Jón Þóroddur TF3JA tók að sér verkefnið. Einnig fékk félagið nýjan vefstjóra, Jóhann TF3WX. Ég vil biðja félagsmenn að vera duglega að aðstoða þá við að útvega efni bæði í blaðið og á vefinn.

Georg TF3LL hvarf til starfa erlendis eftir áramót og því hefur vantað eitt hjól undir vagninn síðan þá.

Ýmislegt var á dagskrá félagsins á síðasta starfsári. Í júlí var TF3DX með fræðsluerindi um stutt loftnet m.v. bylgjulengd, sérstaklega hugsað fyrir áhugsama um bílloftnet.
Um verslunarhelgina voru venju samkvæmt TF-útileikarnir sem tókust með ágætum þetta sinn. Þáttakan var bæði mjög góð svo og skilyrðin líka. Síðar í ágúst tóku félagar í ÍRA svo þátt í alþjóðlegri vitahelgi frá Knarrarósvita sem einnig er orðin fastur punktur í félagsstarfinu. Fjöldi gesta kom í vitann og annaðhvort tók þátt í að reka stöðina eða hitta félaga og gæða sér á dýrindis gúllassúpu.
Í september tók Þór TF3GW á móti félögum á Rjúpnahæðina. Það var með síðustu tækifærum til að sjá starfsemina þar, þar sem hún er að flytja.
Í október tók félagið að sér að aðstoða skáta við að taka þátt í JOTA með því að reka stöð um borð í Sæbjörgu en þar var skátamót haldið.
Í nóvember var haldin uppskeruhátið TF-útileikanna en þá kynnti Kristinn TF3KX úrvinnslu sína og niðurstöður úr þeim loggum sem bárust eftir útileikana. Kristinn TF3KX lagði ásamt fleirum mikla vinnu í þetta og á þakkir og hrós skilið.
Billi TF5BW sá um að útbúa viðurkenningar handa þáttakendum og á sömuleiðis þakkir skildar.
Í desember héldum við flóamarkað þar sem félagsmenn gátu komið og selt, keypt og prúttað. Greinilegt var á því að félagsmenn eiga í skápum og skúffum töluvert af búnaði og þeir sem nenntu að hafa sig eftir því gætu komist í loftið fyrir lítið.
Í janúar héldum við amatörbíó, þ.e. sýndum 2 heimildarmyndir um DX leiðangra.

Tvisvar á starfsárinu stóð félagið að prófi fyrir nýja amatöra, í ágúst og í apríl og alls fjölgaði leyfishöfum um 18 á starfsárinu. Fyrra prófið var haldið í kjölfar námskeiðs sem radíóklúbbur Háskóla Íslands stóð fyrir og það síðara var eftir almennt námskeið haldið nú eftir áramót. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fjölda sjálfboðaliða sem tekur þátt í því að halda námskeið og próf og leggur til töluverða vinnu í hvert sinn. Ekki hefur stór hluti þessara nýju amatöra skilað sér í loftið. Stutt er reyndar liðið frá síðasta prófi. Þetta vekur samt aftur upp þá spurningu hvað við sem félag getum gert til að aðstoða nýliða við að taka fyrstu skrefin. Elmer fyrirkomulagið þekkja margir og sá sem hér talar hefur haft aðgang að góðri handleiðslu sem hefur skipt sköpum. Verði ég kosinn aftur sem formaður hef ég áhuga á að leggja vinnu í að bæta þá handleiðslu og stuðning sem nýliðar geta sótt til félagsins.

Eins og félagsmönnum er kunnugt um þá hefur okkur verið tilkynnt að við verðum að yfirgefa félagsaðstöðu okkar í Skeljanesi. Í raun má segja að allt síðasta starfsár félagsins hafi húsnæðismál félagsins verið í óvissu. Okkur var tjáð upprunalega að til stæði að rífa húsið þar sem það væri svo mikill lýti á borginni. Ýmsar dagsetningar hafa verið nefndar í því en húsið stendur nú enn. Nú síðast virðist hafa verið hætt við að rífa það eða amk fresta því þar sem borgin sjálf þarf þetta “ljóta” hús, svo og svæðið, til afnota fyrir gatnamálastjóra í kjölfar deilna um lóð í Vatnsmýrinni þar sem starfsemi hverfismiðstöð gatnamálastjóra er nú. Illa hefur gengið að finna annað húsnæði. Orkuveita Reykjavíkur virtist á tímabili ætla að útvega okkur aðstöðu nálægt gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal en þegar á hólminn var komið og við sýndum þeim fyrirhuguð loftnet hættu þeir við. Staðsetningin og aðstaðan sem okkur var boðin í Elliðaárdal hefði annars hentað félaginu vel. Það er Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar sem hefur útvegað okkur aðstöðuna hér og við höfum verið í reglulegum samskiptum við þá vegna málsins.
Við höfum nú þegar tekið niður hluta af búnaði okkar hér vegna fyrirhugaðra flutninga og rifs á húsinu en í kjölfar óveðurs um áramótin skemmdist SteppIR beamið okkar og var þá ákveðið að taka það niður svo og turninn. Hefur það svo og óvissan um framtíð aðstöðu fyrir félagsins komið sér mjög illa fyrir félagið og dregið úr mönnum kraft þegar kemur að öðrum félagstörfum. Það er ljóst að verkefni þeirrar stjórnar sem tekur til starfa eftir þennan fund er að leita nýrra leiða til að koma þaki yfir okkur og reyna að eyða þessu óvissuástandi.
Nú nýlega kom Guðmundur Ingi TF3IGN okkur í samband við félaga sína í björgunarsveit Mosfellsbæjar til að kanna möguleika á að fá aðstöðu í þeirra húsnæði. Það er áhugaverð tillaga sem verður skoðuð á næstunni og kostir og gallar metnir.

Í lok febrúar sótti Þorvaldur TF4M um afnot af sérstöku eins stafs kallmerki í tilefni keppnisþáttöku í Russian DX contest en hann fékk af því tilefni heimsókn hóps af rússum til að taka þátt með sér. Stjórn ÍRA mælti með að þeim yrði úthlutað kallmerkinu TF4Y tímabundið í samræmi við fyrri samþykktir félagsins. Þessi gjörningur hrinti af stað umræðu um kallmerki með eins stafs viðskeyti sem leiddi m.a. til þess að 3 amatörar sóttu um breytingu á kallmerkjum sínum í kallmerki með eins stafs viðskeyti. Stjórn ÍRA ákvað að bíða með að afgreiða umsagnir um þessar umsóknir meðan málið væri kannað. Þetta var gert í ljósi þess hve málið virtist vera mikilvægt í huga félagsmanna og í ljósi þess hve margt var á huldu fyrir stjórn um hvernig bæri í raun að standa að slíkum úthlutunum. Mikil vinna innan stjórnar fór því af stað í að grafa upp heimildir og sögu eins stafs kallmerkja svo og hvað hefði verið samþykkt áður. Stjórn stóð svo fyrir félagsfundi um málið 5. apríl síðastliðinn. Því miður sáu sér fáir fært að mæta á þann fund en það sýnir kannski að hinn almenni félagsmaður hafði ekki sterkar skoðanir á málinu. Þrátt fyrir þetta var fundurinn gagnlegur og fróðlegur. Fundargerð þessa fundar hefur því miður ekki birst en niðurstaða hans varí meginatriðum á þá leið að viðmiðin frá 1980 um kröfur til umsækjenda væri það sem réttast væri að horfa til svo og ályktun um að viðskeytunum X,Y og Z mætti úthluta til einstaklinga væri sérstaklega sóst eftir því. Stjórn hefur því ákveðið að ljúka málinu með þessar þrjár umsóknir á þann veg að biðja umsækjendur að gera grein fyrir því hvernig þeir uppfylla kröfurnar frá 1980.

Undanfarin ár hafa verið viðræður milli Póst- og Fjarskiptastofnunar um innflutning amatöra á ó-CE merktum búnaði sem getur starfað utan amatörtíðnanna. Því máli er nú endanlega lokið með því að gefið hefur verið út eyðublað með nokkurs konar drengskaparheiti um að búnaðurinn verði eingöngu notaður á amatörtíðnum. Þegar hefur reynt á þetta í nokkrum tilfellum og alltaf gengið vel.

Póst og Fjarskiptastofnun hefur einnig heimilað okkur áframhaldandi not af rásum á 5MHz, 60metrum til ársins 2010.

Á heildina litið megum við vera ánægð með starfsárið sem er að líða þótt vissulega hafi húsnæðismál svo og að stjórnin hafi ekki verið fullskipuð sett strik í reikninginn.

Hér á eftir þarf að kjósa nýja stjórn. Ég mun gefa kost á mér aftur sem formaður. Þetta fyrsta ár hefur verið lærdómsríkt en það sem uppúr stendur er að ég þarf að vera duglegri að dreifa verkefnum. Ég veit að margir eru tilbúnir að leggja hönd á plóginn vilja gjarnan taka þátt.

Kjósa þarf 2 nýja stjórnarmenn. Þór TF3GW hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur en hann hefur setið í stjórn síðan árið 2004. Ég vil því fyrir hönd stjórnar og allra félagsmanna þakka honum starfið í þágu félagsins. Einnig þarf að kjósa nýjan mann í stað Georgs TF3LL en hann gefur ekki kost á sér í aðalstjórn vegna þess hve mikið hann verður erlendis.

Ágætu félagar, eflaust er ég að gleyma einhverju og fara rangt með annað. Ég bið ykkur þá að bæta við og leiðrétta hér á eftir.
Þakka fyrir.

Umræður um skýrslu formanns:

TF5BW spurði um hvernig hægt væri að heimfæra reglurnar frá 1980 væru heimfæranlegar í ljósi breytts leyfisstrúktúrs (C-leyfið er ekki til lengur). Taldi að best væri að miða við efsta leyfi sem í gildi er í dag (G-leyfis).
TF3YH studdi hugmyndina um að hægt væri að hægt væri að miða við G-leyfið.
TF3KB léði máls á því sama.
TF3HR endurtók þá túlkun stjórnar að enn sé miðað við C-leyfið því þeir sem gætu sótt um í dag voru hvort eð er með leyfi árið 1980.
TF3VS tók undir orð formanns.
TF3SG lýsti eftir því að þetta yrði skýrt.
TF3HR skýrði hlutverk félagsins sem umsagnaraðila.
Fundarstjóri lagði til að frekari umræða um kallmerkjamálið væri færð undir liðinn önnur mál. Var það samþykkt.

6. Aðrir embættismenn gefa skýrslu um starfsemi sinna embætta

TF3GB sagði QSL-málin ganga vel. TF3YH spurði hvernig TF-menn stæðu sig í að senda kort: TF3GB sagði þetta auðvitað einkamál, en sumir stæðu sig betur en aðrir. TF4M hafi t.d. sent 40 þúsund kort frá því síðan um páska, og TF3GB tók það fram að sér hefði verið heimilað að segja frá þessu.

TF3BW sagði frá diploma-málum. Það væru gefin út 20-30 diplomu á ári sem er venjulegt magn.

TF3GW sagði frá endurvarpamálum: Truflanir hafa verið á Reykjavíkurendurvarpanum en komið í lag. Skálafellsendurvarpinn varð fyrir truflunum af öðrum búnaði í vetur og var tekinn úr sambandi; verður farið uppeftir þegar aurbleyta er farin. Bláfjöll er líka þjáður af truflunum. Búrfell hefur verið í góðu lagi. Vaðlaheiðin er enn niðri og veðrur að skoða. TF3GS mun taka við endurvarpamálum af TF3GW ásamt Sigga Harðar og fleirum. Notkun á endurvörpunum er lítil sem engin og hart að vera að berjast við að halda þeim gangandi þegar engin notkun er að sögn GW. Echolinkurinn sé hins vegar töluvert notaður. Verið sé að leita að nýrri staðsetningu fyrir 6-metra radíóvitann, helst fjarri íbúðabyggð, en TF3GW ætlar að koma honum fyrir til bráðabirgða.

Spurningar: TF3VS spyr hvort til tals hefði komið að setja tónopnun á endurvarpa til að stemma stigu við truflunum. TF3HR tók undir þessa spurningu. TF3GW svaraði því til að meðan tail-ið er opið geta endurvarparnir engu að síður tekið truflun sem áframhald á merkinu, og að svo lengi sem hægt sé að forðast að setja tóna bæri að gera það.

TF3GL spurði hvort til tals hefði komið að falast eftir plássi á Skarðsmýrarfjalli í Hengli. TF3GW kvaðst telja að það mætti athuga. TF5BW sagði Skálafellsendurvarpann ná vel í norðurátt og huga þyrfti að því sjónarmiði.

TF3DX sagði prófastarfsemi hafa gengið vel, en 18 nýir amatörar hafa skilað sér úr prófum frá síðasta aðalfundi.

TF3VS sagð frá málefnum tengdum Póst- og fjarskiptastofnun. Hann kvaðst svara erindum P&S skilmerkilega og leita til stjórnar ef þörf væri á stjórnarsamþykktum kringum fyrirspurnir. Mikið traust sé milli aðilanna og P&S afgreiði nær undantekningalaust öll mál í samræmi við álit félagsins. TF3KB sagði þetta hlutverk félagsins mikilvægt og sérstaklega mikilvægt að félagsmenn gerðu út um sín mál innan sinna raða, en færu ekki með mál til P&S sem óleyst væru innan raða félagsins.

TF3KB sem IARU-tengiliður sagði að í ár væri ráðstefna IARU, sem haldin er á 3 ára fresti. Hann benti á að e.t.v. ætti að e.t.v. ætti að bjóða Ísland fram sem ráðstefnustað. TF3KB sagðist hins vegar vera hættur að fá póst frá IARU, en TF3HR vissi ekki af hverju slíkt stafaði og myndi athuga málið. Um ráðstefnuhaldið sagði TF3HR að stjórnin hefði ályktað að hún treysti sér ekki í að halda IARU- eða NRU-ráðstefnu. TF3KB sagði helsta ókláraða málið vera að Ísland er ekki með í NRU-fundaröðinni og benti á þá aðferð að við gætum fengið reglum breytt á þann veg að við værum með en gætum afþakkað að halda fundina.

7. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar

TF3AO sagði að í félaginu væru 170 félagsmenn, af þeim væru 26 á kynningaraðild og greiðandi félagar 133. All hefðu 105 félagar greitt árgjald en 28 hefðu ekki greitt. Þá gerði AO grein fyrir tækjakaupum félagsins á árinu: TenTec tuner (59 þúsund), stafrænn SWR- og aflmælir (39 þúsund), öryggisbúnaður (46 þúsund), verkfæri (15 þúsund), samkomutjald og stólar (40 þúsund).

Umræður:
TF5BW vill sjá frekari sundurliðun á reikningum (skýring 1, skýring 2 o.s.frv.), lýsir einnig eftir eignaskrá. TF3SG tók undir ósk um að skýringar fylgdu reikningunum, og benti á að sjóðsstreymi mætti fylgja með; ársreikningurinn væri hins vegar ekki eignaskrá. TF3AO sér ekkert til fyrirstöðu að koma þessum gögnum einhvers staðar fyrir þótt endurskoðandi félagsins hafi ekki séð ástæðu til að tíunda þetta.

Samþykkt að leggja reikningan fyrir þótt annar aðalskoðunarmaður hafi ekki komist til að undirrita reikningana enda hafi varamaður gert það í hans stað. Voru reikningarnir þvínæst samþykktir.

Áður en haldið var til kaffihlés kvaddi formaður sér hljóðs og sæmdi fyrrverandi formann félagsins TF3HP nafnbót heiðurfélaga ÍRA og færði honum heiðursmerki félagsins.

15:30 Hlé til kl 16:00

8. Lagabreytingar

Tillaga lá fyrir fundinum frá TF3YH um breytingu á 27. grein laga félagsins og um nýja grein númer 28. TF3YH gerði grein fyrir tillögu sinni og er vísað til greinargerðar um málið í CQTF 3 tbl. 2008 en ekki haft eftir í þessari fundargerð.

TF3DX tók til máls um tillöguna og taldi e.t.v. gæta misskilnings um notkun orðsins “samþykktir” í núverandi félagslögum. Hann sagði að í sinni tíð tvisvar hefði verið gerð gagnger breyting á félagslögum, í annað skiptið fyrir 1970, og þá hefði orðalagi verið breytt í “samþykktir” í staðinn fyrir “lög”. Hitt skiptið var uppúr 1990, og þá voru samþykkt ný “lög” sem þá hétu líka “samþykktir”. TF3DX túlkar því allan núverandi lagatexta félagsins sem svo að orðið “samþykktir” eigi við um lög, en ekki aðrar samþykktir félagsfunda eða stjórnar.

TF5BW leggur til þá breytingu á tillögu YH að fellt verði burt ákvæði um að lögin öðlist fyrst gildi við birtingu, heldur taki þau gildi við samþykki tillagnanna á aðalfundi. TF3YH segir það snerta grundvallaratriðið í breytingartillögu sinni að það er hætta á að breytingar á lögum fari fram hjá mönnum ef þær eru ekki birtar. Til þess sé einmitt tillagan gerð að koma í veg fyrir að lagabreytingum sé misbeitt.

TF3DX tók undir sjónarmið TF3GW um að birting gæti dregist og það væri óæskilegt, og að tilkynning um lagabreytingu sem send sé félagsmönnum í fundarboði aðalfundar vegi á móti þessari hættu.

TF3HR bar þvínæst fram breytingartillögu við tillögu TF3YH sem hljóðar svo:

Formleg tillaga TF3HR er að bæta við breytta 27. grein orðunum “og verði dreift með aðalfundarboði” og það komi inn á eftir orðunum “fyrir 15. apríl” og að tillaga að breyttri 28. grein standi sem áður með þeirri breytingu að þar standi “öðlast gildi þegar í stað” í stað “öðlast gildi þegar birting hefur átt sér stað” og í stað orðanna “og/eða” komi orðið “og”. Greinarnar hljómi því svo:

27. gr. Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að
nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. apríl og verið dreift með aðalfundarboði. Þó getur aðalfundur samþykkt breytingar á félagslögum, sem fram koma á fundinum, séu 88% fundarmanna samþykkir. Breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi skulu einungis varða þær tillögur er þar liggja fyrir og nauðsynlegar afleiðingar þeirra.

Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.

28. gr. Félagslög skal birta í blaði félagsins CQTF og á vefsvæði félagsins http://www.ira.is og öðlast gildi þegar í stað. Sérstakar samþykktir og ályktanir aðalfunda eða félagsfunda skal birta með sama hætti.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

TF5BW leggur til að 7. grein verði felld út enda segi hún það sama og 9. grein, og númer eftirfylgjandi greina flytjist upp um eitt sæti.

Tillagan var samþykkt með 15 atkvæðum á móti einu, enginn sat hjá. Þetta þýðir 93,5% samþykki fyrir tillögunni, og telst hún því löglega samþykkt skv. sk. “88%-reglu” um lagabreytingar félagsins þótt þær séu ekki framkomnar skriflega fyrir aðalfund.

9. Stjórnarkjör

TF3HR var samhljóða endurkjörinn formaður félagsins.

Fylla þarf tvö aðalstjórnarsæti til tveggja ára, því TF3GW hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri og TF2LL er við störf erlendis. Kjörnir voru í stjórn TF3SG og TF3GL, eftir tillögu TF3HR. Var kjörið samhljóða.

Áfram sitja í aðalstjórn TF3AO og TF3SNN.

Kjör varamanna í stjórn fór fram með leynilegri kosningu þar sem þrír voru í framboði, en TF2LL hafði fært þau skilaboð til fundarins að hann mætti kjósa sem varamann ef þörf þætti, þrátt fyrir fjarvistir um þessar mundir. Fór atkvæðagreiðslan svo: TF3PPN (14 atkvæði), TF2LL (2 atkvæði), TF3HP (12 atkvæði). Tveir seðlar voru ógildir. TF3PPN og TF3HP voru því rétt kjörnir varamenn í stjórn.

10. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara

TF3HK og TF3DC voru kjörnir aðalskoðunarmenn reikninga. TF3VS var kjörinn til vara. Allir voru þeir samhljóða kjörnir.

11. Ákvörðun árgjalds

Gjaldkeri TF3AO tók til máls og sagði árgjaldið hafa verið 4000 krónur í ein 8 ár, en helmingur þeirrar fjárhæðar fyrir þá sem séu orðnir 67 ára gamlir. TF3AO lagði í kjölfarið til að félagsgjaldið væri hækkað í 5000 krónur í ljósi óvissunnar um húsnæðismál félagsins. TF3SG lagði til 4500 krónur. TF3DX lagði til 4000 krónur. TF5BW lagði til 3000 krónur.

Tillaga TF3AO um 5000 króna árgjald var fyrst borin undir atkvæði, og hlaut hún 9 atkvæði á móti 5 og var því samþykkt.

12. Önnur mál

TF3A sendi fundinum eintak af CQTF 1. tbl. 1. árg 1964 að gjöf, og kom TF5BW því til skila til fundarins. TF3DX hafði bæði vélritað upp blaðið og teiknað blaðhausinn.

TF2WIN léði máls á tillögun námskeiðshalds og að aukin áhersla væri lögð á praktíska kynningu í upphafi. TF3DX benti á mikilvægi þess að tala um siðfræði radíósins í námskeiðshaldinu. TF3YH nefndi að það væri e.t.v. ástæða til að hafa sérstakt námskeið “í loftinu” á 3633 um kallmerkjanotkun o.fl.

Ábending kom frá TF3YH að myndir í eigu safnsins yrðu skannaðar.
YH gerði “frjálslegt orðfærði og siði” á 3,633MHz umtalsefni. KB, DX tóku undir þetta og ræddu um gildi “self policing” meðal amatöra.

DX spurði um umfjöllun um siðavenjur og reglur á námskeiði og minntist á að það hefði verið hluti af námskeiði nýlega. HR sagði heildarendurskoðun á námsefni þurfa að fara fram, bæði vegna þessa svo og atriða sem komu fram í könnun á samhæfni íslenska námsefnisins við HAREC kröfur. Almennt væru þær vel uppfylltar en einstaka smáatriði þyrfti að skerpa á.

BW benti á vöntun á skjalaverði fyrir gömul gögn og myndir. AO benti á að það starf sem SNN væri að vinna núna væri hluti af skjalavörslu. WIN benti á að tækifæri væri að setja upp yfirlit yfir söguleg gögn og myndir tengdar starfinu ef flutt væri nýtt húsnæði.

YH talaði um félagsfundinn um kallmerki með 1-stafs viðskeyti sem nýlega var haldinn. Hann sagði miður hve illa hann hefði verið sóttur en benti jafnframt á að sá fundur hefði í raun lélegt umboð. YH spurði fundarmenn hvort þeir litu svo á að viðmið frá 1980 ættu en við og taldi umhugsunarefni hvernig ætti að taka á því í ljósi breyttra leyfismála s.s. C vs. G. BW sagði frá pósti til hans frá stjórn um kröfur v/ umsóknar sinnar um 1-stafs viðskeyti þar sem beðið var um staðfestingu á að hann hefði tekið C próf. BW benti á að aðeins hafi 4 tekið C próf en allir aðrir sem höfðu það hefðu fengið það án prófs. Í dag væri G leyfi efsta leyfi. KB sagði það afleita reglu ef túlka ætti reglur frá 1980 um C leyfi þannig að farið væri fram á leyfi sem ekki væri til. KB lagði til að í raun ætti G-leyfið að gilda fyrst C væri ekki til.
BW las þá póst frá stjórn til umsækjanda um kallmerki með 1-stafs viðskeyti. YH sagði jákvætt að póstur hefði verið sendur fyrir fund svo fundur gæti leiðbeint stjórn um áframhaldið. SG sagði sína skoðun að umsækjendur ættu að draga umsóknir til baka þar sem óvissa væri um reglur. YH/KB leggja til að krafan um C leyfi frá 1980 verði túlkuð sem krafa um G leyfi í dag. Það er borið undir atkvæði og samþykkist með 8 atkvæðum með og 1 á móti.

Þá sköpuðust umræður um hvernig ætti að túlka kröfuna um að hafa verið “skikkanlega virkur í loftinu”. YH spurði hvort þeir sem fengu 1 stafs viðskeyti 1980 hefðu fengið einhverja útfærslu á þessari virknikröfu. KB sagði að stjórn í hans tíð hefði litið svo á að 100 staðfest DXCC lönd væri útfærsla á virknikröfunni. DX las úr frásögn um fund frá 1980 sem rök fyrir túlkun KB. DX lagði til að “100 DXCC lönd staðfest með kortum sé nægileg virknikrafa”. 11 af 15 segja já og enginn á móti. Samþykkt.
DX talaði um mikilvægi þess að endurskoða þessar reglur m.t.t. breyttra aðstæðna. HR lagði til að nefnd yrði stofnuð um framtíðarreglur. BW stakk upp á GW, YH og DX í nefnd. DX stingur upp á KB. GW baðst undan. KB nefndi þörf fyrir kjölfestu félagsins sem niðurskrifaðar hefðir og reglur sbr. “constitution” og “bylaws” í erlendum félögum. KB lagði til að nefndinni yrði einnig falið að vera “kjölfestunefnd” en dró svo til baka í kjölfar gagnrýni um umfang málsins frá YH og HR. AO benti á að fundur væri orðin langur. YH spurði hvort einhver leið væri til að hraða vinnu nefndar um 1-stafs viðskeyti til að minnka líkur á að stjórn lenti í vandræðum með fleiri umsóknir á næstunni. Alm. tók fundur vel undir þessa hugmynd. HR lagði til að “stofnuð verði 3ja manna nefnd hvers hlutverk er að endurskoða reglur um hvenær stjórn getur mælt með umsóknum um kallmerki með 1-stafs viðskeyti. Að sú nefnd skili af sér fyrir október lok 2008”. KB, DX og YH skipa þessa nefnd sbr áður fram komnar tillögur. 13/15 eru fylgjandi 0 á móti. Samþykkt.

BW spurði um vinnu við skilgreiningu TF0. HR sagði KB, LL og GB hafa verið setta í nefnd. GB sagði sig úr nefndinni. Frá restinni kom engin niðurstaða og LL fór úr landi og því nefnd leyst upp. KB sagði frá upplifun sinni af nefndinni og sagði mjög skiptar skoðanir hafa verið innan nefndar. KB sagðist vera enn að hugsa um þetta mál með sér. BW gerir að tillögu sinni að stjórn verði falið að skipta 3ja manna nefnd sem skilgreinir TF0 sem eitt óskipt svæði á miðhálendi Íslands og skili fyrir októberlok 2008. Tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðim.
YH benti á að uppi væru raddir um hvort viðhalda ætti kallsvæðaskiptingu sbr. umræður á félagsfundi um eins stafs viðskeyti. HR sagði stjórn ekki hafa rætt ályktun frá þeim fundi þar sem fundargerð hefði ekki borist.

HR gerir að tillögu sinni að boðað verði til framhaldsaðalfundar eða fundi slitið. Fundarmenn kjósa að slíta fundi.

Fundi slitið kl 19.02

Fundargerð ritaði TF3GL, en TF3HR tók við ritun fundargerðar við liðinn önnur mál

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

four × five =