,

Aðalfundur ÍRA 2012

Fundargerð aðalfundar ÍRA – Íslenskir radíóamatörar

Radisson Blu Hótel Sögu, 19. maí 2012.

Fundur hófst kl. 13:05 og var slitið kl. 16:58.

Mættir voru 24.

Eftirfarandi mættu: <ekki listað í fundargerð>

Aðalfundur Í.R.A. 2012 var haldinn þann 19. maí að Radisson Blu hótel Sögu í Reykjavík. Fundur var settur kl 13:05. Formaður, TF2JB, bauð félagsmenn velkomna og minntist í upphafi tveggja félaga sem létust á starfsárinu. Það eru
Sveinn Guðmundsson, TF3T, sem lést þann 7. september 2011, handhafi leyfisbréfs nr. 24, á 82. aldursári og Ólafur Helgi Friðjónsson, sem lést þann 10. febrúar 2012, handhafi leyfisbréfs nr. 97. Fundarmenn vottuðu þeim virðingu sína með því að rísa úr sætum. Sérstökum kveðjum var komið komið á framfæri við fundinn frá þeim TF6JZ og TF5B sem ekki áttu heimangengt. Fundarmenn voru liðlega 24 talsins eða um 12% af félagsmönnum. Gengið var til dagskrár
samkvæmt ákvæði í 18. grein félagslaga, í 12 tölusettum liðum.

Fundarritari: TF3AM.

Dagskrá

1. Kjör fundarstjóra.

Fundarstjóri var kjörinn TF3VS.

2. Kjör fundarritara

Fundarritari var kjörinn TF3AM.

3. Könnun umboða.

Engin umboð komu fram.

4. Athugasemdir við fundargerð síðasta aðalfundar.

Engar athugasemdir bárust við fundargerð síðasta aðalfundar fyrir tilskilinn frest þann 21. október né heldur frá viðstöddum fundarmönnum.

5. Skýrsla formanns um starsemi félagsins.

Fráfarandi formaður, Jónas Bjarnason, TF2JB, kynnti framlagða skýrslu stjórnar sem er mikið rit, alls 142 blaðsíður. Til samanburðar var skýrslan 103 blaðsíður fyrir síðastliðið starfsár. Að mati stjórnar standa þessi atriði upp úr:

a. 65 ára afmælishátíð Í.R.A. sem haldin var 14. ágúst 2011; alls mættu liðlega 60 manns í félagsaðstöðuna og þáðu kaffiveitingar. Þeim TF3UA, TF3G og TF3SG var sérstaklega þakkað fyrir störf þeirra að vel heppnuðum undirbúningi viðburðarins.

b. Aukið húsnæði félagsins í Skeljanesi fyrir kortastofu og smíðaaðstöðu, sem er hornherbergi á 2. hæð þar sem fjarskiptaherbergi félagsins var áður til húsa fram að haustdögum 2008.

c. Vetrarstarfið sem gekk mjög vel; alls um 30 viðburðir sem voru auglýstir og haldnir og allt að 40 félagar sóttu hvern, sem er afar ánægjulegt. Vetrardagskrá félagsins var í umsjón TF3BJ.

d. Undirbúningur og skipan sérstakrar „EMC-nefndar“ undir forystu TF3UA. Aðrir í nefndinni eru TF3G og TF3Y.

e. Nýtt band, 472-479 kHz, sem samþykkt var á WRC-12 ráðstefnunni í febrúar 2012. Félagið var í samstarfi við Póstog fjarskiptastofnun í nær eitt ár fyrir ráðstefnuna til undirbúnings verkefnisins. Samstarf gekk mjög vel og var skilningur góður og studdi íslenska sendinefndin frumvarpið um nýja bandið á ráðstefnunni, sem er hið sama í öllum þremur svæðum heimsins, þ.e. IARU svæðum 1, 2 og 3.

f. Að lokum, þakkaði formaður samskiptin við Póst- og fjarskiptastofnun sem hafa verið afar góð. Hann nefndi m.a. nýjan kapítula sem hófst þann 16. ágúst (2011) þegar haldinn var samráðsfundur fulltrúa stofnunarinnar og Í.R.A., en þar kom m.a. fram nauðsyn á stofnun EMC nefndar innan félagsins. Önnur mikilvæg niðurstaða var, að nú verða slíkir samráðsfundir haldnir reglulega.

Ársskýrslan er að öðru leyti hefðbundin í uppsetningu, í 11 köflum, þar sem 7. kaflinn um TF VHF leikana 2012 kemur inn nýr. Í „Viðauka A“ eru birtar fundargerðir stjórnar, í „Viðauka-B“ önnur gögn, þ.m.t. starfsáætlun stjórnar, í „Viðauka-C“ eru birtar ljósmyndir úr 65 ára afmæli félagsins og í „Viðauka-D“ er birt yfirlit um gögn Í.R.A. sem eru í vörslu Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

6. Skýrslur annarra embættismanna.

Eftirtaldir embættismenn tóku til máls: TF3KX, TF3DX, TF3JA, TF3CY, TF3SG og TF3KB.

TF3KX, ritstjóri CQ TF: CQ TF er gefið út fjórum sinnum á ári með reglulegum hætti. Hann þakkar gott samstarf við höfunda. TF8GX segir: Ég þakka ritstjóra fyrir mjög gott starf.

TF3DX, formaður prófnefndar: Vísar í síðu 123 í skýrslu formanns, þarna sést svart á hvítu að prófin eru ekki endilega flöskuháls, þar sem aðeins 47% þeirra sem ná prófi sem sækja um úthlutun kallmerkja miðað við próf vorið 2011, 2 meðan þeir sem tóku próf í vor eru búnir að sækja um leyfi.

TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri ÍRA: Hann nefndi að VHF kerfi Almannavarna sem var á 146 MHz stendur ónotað. Kerfið mun samanstanda af 8 endurvörpum, sem fulltrúar almannavarnadeildar RLR hafa sagt að Í.R.A. standi til boða. Ef til vill þarf að færa þá til í tíðni og setja tónstýringu en e.t.v. megi sækja um aukið tíðnisvið í metrabylgjusviðinu hér, sambærilegu því sem er í Bandaríkjunum.

TF3KX spyr: Stendur bæði rafmagn og aðstaða til boða. TF3JA: Já. Klappað fyrir TF3JA.

TF3CY, stöðvarstjóri TF3IRA: Nýr stöðvarstjóri mun trúlega hefja störf innan skamms og vinnu verður haldið áfram við að bæta aðstöðuna (Innskot ritara: Benedikt lét formlega af störfum sem stöðvarstjóri þann 17. febrúar).

TF3SG, QSL stjóri: Alls voru send tæp 28 kg í fyrra, send í 0,5 kg þyngd hverju sinni í pakka. Flest kort eru send til Þýskalands; reynslan er svipað á þessu ári. Hann þakkar fyrir samstarfið.

TF3KB, IARU tengiliður: Hann upplýsti að eftir að hafa nefnt Ísland af og til í nokkur ár sem fundarstað, þá hafi framkvæmdastjórn IARU fyrir Svæði 1 ákveðið að halda ársfund 2013 á Íslandi; fundinn sækja 12-15 manns. Ef til vill er kostur á að fá hingað IARU fundinn fyrir Svæði 1 árið 2016. Að loknu erindi TF3KB, var orðið laust um skýrslu stjórnar og embættismanna.

TF3HP segir: Ég þakka skýrslurnar. Ég vil nefna að mér þykir slakara að rótórinn fyrir HF greiðuna er ekki í lagi og það sé hægt að snúa greiðunni „endalaust“. Svo þykir mér slakara að VHF stöðin sem keypt var sé enn í kassanum og að ekki sé hægt að hafa samband við Í.R.A. á fimmtudagskvöldum. Ef til vill vantar VHF loftnet en það er reyndar mitt hlutverk. Svo ég vil nefna að ég er boðinn og búinn til að koma að loftnetsvinnu.

TF3CY svarar: Þetta er allt hárrétt hjá TF3HP. Nú hafa verið tveir stöðvarstjórar síðan embættið var stofnað. Ég tel jafnvel að embættið sé „Þrándur í götu“ þess að eitthvað sé gert. Nú er beðið eftir kalli stöðvarstjóra, en áður gengu menn bara í málið. Varðandi rótór, þá hefði verið best að kaupa nýjan en til þess voru ekki efni, og því voru keyptir í hann varahlutir en málinu er ekki lokið. Stöðin á að vera með loftnet á öllum böndum og best væri að ekki þyrfti að fá lánuð loftnet þegar taka á þátt í alþjóðlegum keppnum. TF2WIN segir: Takk fyrir skýrslu. Ef hægt er að fá heilt VHF kerfi frá Almannavörnum þá þarf endilega að þiggja það; slíkt boð kemur ekki aftur. Svo þykir mér verra að heyra ekki af því þegar menn fást við loftnet og missa af því.

TF3SG segir: Ég hringdi í TF4M varðandi loftnetsefni uppi á Rjúpnahæð og spurði hvort Í.R.A. fengi að notfæra sér eitthvað af því, sem hann sagði velkomið.
TF3JA segir: Ég þakka TF2JB sérstaklega fyrir starfið í félaginu sem verður tæplega toppað í bráð. Svo vil ég nefna að ÍRA stöðin er í reynd frábær þótt eitthvað megi betur fara. Ég spyr, hvað með að menn skrifi sig á verkefnalista ef þeir vilja leggja einhverju verkefni lið?

TF2JB segir: Vil benda á umfjöllun um rótor- og loftnetamál TF3IRA í skýrslu stjórnar á bls. 25.

TF3KB segir: Ársskýrslan er frábærlega vel unnin; ég þakka TF2JB fyrir frábært starf.

7. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.

TF3HP segir: Flott skýrsla. Vil bara nefna, rétt til að vera ekki sammála að mér þykja þrifin léleg og dýr. Og kostnaður um 70 þúsund krónur, miðað við að aldrei er farið út með rusl! Getum við ekki séð um þetta öryggiskerfi hússins sjálf og sparað peninga? Mér finnst þrifin ekki vera 72 þúsund króna virði. TF3HP áfram: Kaffi- og fundarkostnaður er talsverður, þar af er rekstur 42 þúsund krónur. Hvaða rekstur?

TF3G svarar: M.a. kostnaður vegna breytinga á húsnæðisaðstöðu félagsis, þ.m.t. flutningur á milli herbergja.

TF2JB segir: M.a. keyptur bókaskápur frá IKEA, málning og hilluefni. Það heyrist á fundarmönnum að þeim þykir TF3HP vera „pexsamur“ þótt kexið mætti vera annað.

TF3CY segir: Ég er sammála TF3HP um margt. Aurarnir fara í kaffi og blaðaútgáfu en svo eru ekki efni á magnara eða loftneti. Ég vildi sjá aðrar áherslur. En svo má hafa í huga að „við“ erum félagið. Eru ekki einhverjir félagsmenn sem geta annast húsnæðið? Og þá verða meiri peningar í búnað…

TF3KB segir: Það er alltaf erfitt að forgangsraða takmörkuðu fé, og blaðið er mjög mikilvægt fyrir starfið og utanaðkomandi – og fundastarfið hefur verið sérlega gott.

TF3SG segir: Það hefði mátt hækka félagsgjöldin á síðasta ári.

TF3EE segir: Ég er sammála um hækkun félagsgjalda.

TF3UA segir: Áður en þrifin voru pöntuð þá átti til að vera vond lykt í félagsaðstöðunni, en eftir að þrif komust í lag þá hvarf lyktin. Og erum við ekki kaffidrekkandi CQ TF lesendur? Og e.t.v. verður klúbbstöðin ekki miðdepill starfsins. Mér þykir áherslan ágæt. 3

TF3HP segir: Blaðið er gott en það er dýrt að greiða 316 þúsund krónur í þennan lið sem er helmingur árstekna. Og ég nefni hlutabréfin fyrir loftnet sem selt var um árið, þetta voru líklega um 900 þúsund krónur sem brunnu svo í bankahruninu. Ég þakka TF3G fyrir ársreikninga og sérlega TF2JB fyrir ársskýrsluna sem er sérstaklega glæsileg.

TF3KX segir: Varðandi uppgjörið þá er slæmt að vera með tap en þannig er það. Síðasti aðalfundur felldi tillögu um hækkun gjalds. Varðandi CQ TF þá er það rétt að 40% af tekjum fara í blaðið, en þetta er eitthvað sem félagið þarf að ákveða. Varðandi kaffisamsætin, þá þykir mér þeim peningum vel varið, þetta heldur félaginu saman á fundum um áhugaverð málefni. Hvað félagsstöðina varðar, þá er umsjón hennar sjálfboðavinna en félagsaðstaðan er í aðalatriðum í góðu lagi. Spyrja má hvort félagsstöðin sé vel nýtt, t.d. í þjálfun nýrra leyfishafa?
Ekki voru fleiri á mælendaskrá. Reikningarnir voru bornir upp og samþykktir einróma.

8. Lagabreytingar.

Fyrir fundinum lágu eftirtalin frumvörp til lagabreytinga: Við 5. gr. (stjórnarfrumvarp); við 8. gr. (stjórnarfrumvarp); við 23. gr. (frá TF3BJ); um nýja 24. gr. (stjórnarfrumvarp) og við ýmsar greinar (frá TF3JA).
Samkvæmt ákvæði í 26. gr. laga félagsins þurftu tillögur að lagabreytingum að berast stjórn félagsins fyrir 15. apríl s.l. Með tillögum að breytingum skyldu fylgja skriflegar greinargerðir þar sem gerð var grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntanlegum áhrifum þeirra. Öll frumvörpin uppfylltu þessar kröfur nema frumvarp TF3JA. Í ljósi þess, lagði fundarstjóri undir hann hvort hann myndi draga frumvarp sitt til baka.

TF3JA tók til máls. Hann nefnir að hann sé sérstaklega óánægður með tímasetningu aðalfundar sem hentar [honum] illa. E.t.v. væri betra að miða starfsárið við almanaksárið. Og orðið „SKAL“ þurfi ekki að koma fyrir í þessum lögum. Og félagið ætti að heita ÍRA en ekki Í.R.A., og CQTF ætti að heita svo en ekki CQTF. Að svo mæltu sagðist hann draga frumvarp sitt til lagabreytinga til baka. Við svo búið var tekið til við umfjöllun um önnur frumvörp.
Um 5. grein. Efnisinnihald frumvarps: Að þeir sem sækja um inngöngu í félagið eftir 30. nóvember greiði hálft árgjald í stað 31. júlí.

Niðurstaða: Samþykkt samhljóða að breyta dagsetningu úr 31. júlí í 30. nóvember. Um 8. grein. Efnisinnihald frumvarps: Við setningu í greininni þess efnis að stjórn sé heimilt að bjóða nýjum félögum 1. árið án félagsgjalds, þá án kjörgengis og kosningaréttar, bætist við fyrir framan „Undir sérstökum kringumstæðum“. Í annan stað komi inn ný setning í greinina: „Stjórn getur veitt afslátt af félagsgjöldum félaga sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður“.
Niðurstaða: Stjórn dró til baka tillögu sína um að bæta inn „Undir sérstökum kringumstæðum…“ o.s.frv. Tillaga TF3DX um að taka út, í framhaldi, setninguna „Stjórn er heimilt að bjóða nýjum félögum 1. árið án félagsgjalds, þá án kjörgengis og kosninga-réttar“. Frumvarp stjórnar um að bæta inn setningunni „Stjórn getur veitt afslátt af félagsgjöldum félaga sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður“ samþykkt einróma.

TF3KX segir: Þýðir það að þeir sem sækja námskeið greiða lægra gjald?

TF3BJ skýrir: Helmingsafsláttur af félagsgjaldi og námskeiðsgjaldi fyrir nemendur, þannig hefur félagsgjaldið í reynd verið frítt fyrsta árið fyrir nemendur.

TF3HP segir: Fagnar heimild um afslátt til þeirra sem eiga erfitt.

TF3UA segir: Án kjörgengis og kosningarréttar, þetta er ekki gott, vill strika þetta út.

TF3JA segir: Sammála TF3UA.

TF3DX segir: „Undir sérstökum kringumstæð- um“. Illa skilgreint þykir mér; getur breyst milli stjórna.

TF3BJ segir: Stjórnin vildi hafa þetta opið. Það hefur verið áhugi á afslættinum, og stjórnin vill hafa val um að takmarka afslátt.

TF2JB segir: Það er talsvert umstang að fást við innsetningu nýrra félagsmanna, nánast orðin hefð að menn telja að 1. árið sé frítt.

TF3DX segir: Má ekki taka út heimild til að veita 1. árið frítt?

TF3JA spyr: Vill ekki TF3UA draga tillöguna til baka?

Atkvæðagreiðsla um 8. grein: Samþykkt að fella út úr greininni setninguna: „Stjórn er heimilt að bjóða nýjum félögum 1. árið án félagsgjalds, þá án kjörgengis og kosningarréttar“. Tillagan um að skjóta á undan inn orðunum „Undir sérstökum kringumstæðum“ var einnig felld. Hins vegar samþykkt innskotssetningin: „Stjórn getur veitt afslátt af félagsgjöldum félaga sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður“. Þessi breyting var samþykkt einróma.
Um 23. grein. Efnisinnihald frumvarps. Bætt verði inn eftirfarandi setningu í greinina: „Nefndin skal halda námskeið svo oft sem þurfa þykir“.
Niðurstaða: Tillagan felld með 13 atkvæðum á móti 4. Aðrir sátu hjá.

TF3BJ skýrir: Það stendur ekkert í lögum félagsins um námskeið, og því er þessi grein til að tengja námskeið við prófnefnd.

TF3DX segir: Tillagan var ekki borin undir prófnefnd og kemur á óvart, og lýst ekki vel á þetta. Mér þykir ekki heppilegt að prófnefndarmenn kenni mikið á námskeiðum enda sé þá betra að fá aðra til að semja prófið, þetta er gert til að halda trausti Póst- og fjarskiptastofnunar. Það má ekki vera hægt að benda á að sömu menn haldi námskeið og ráði því hverjir nái prófi.

TF2JB segir: Tekur undir allt sem TF3DX segir.

TF3HP segir: Í áratug meðan ég var formaður var gengið milli manna og þeir beðnir um að halda námskeið, en núverandi prófnefnd hefur staðið sig vel og það er ekki þörf á þessum breytingum.

TF3JA segir: Ég sá í mörg ár um þessi próf sem starfsmaður P&s, og ég styð

TF3BJ í þessu máli. Það þarf að vera námsskrá og kennari kennir og býr til próf; prófdómari kemur frá PFS.

TF3KB segir: Legg til að þessi tillaga verði betur hugsuð.

TF3KX segir: Sammála TF3DX.

TF2WIN segir: Ég skil tillögu TF3BJ.

TF3KJ segir: Má ekki breyta orðalagi, taka „SKAL“ burt og mýkja orðalag.

TF3KX segir: Námskeið er veruleg vinna og eins að búa til próf og svör, og að finna húsnæði, fjölfalda fyrir námskeið, best að hafa sérstakan hóp í þessu.
Atkvæðagreiðsla um 23. grein: Samþykkir 4, á móti 11. Aðrir sátu hjá. Tillagan felld.

Um [nýja] 24. grein. Efnisinnihald frumvarps: Fjallar um stofnun og skipan svokallaðrar „EMCnefndar“ Í.R.A.

Niðurstaða: Frumvarpið samþykkt samhljóða með þeirri viðbót að setja inn í sviga þýðingu skammstöfunarinnar EMC, þ.e. „Electromagnetic compatibility“.

TF3UA segir: Ég er með breytingu á orðalagi: „….er skipt út einum manni á ári hið mesta“ í stað „SKAL…“.

TF3HP segir: Þarf að skipta um menn í nefndinni, ef þeir vilja sitja áfram?

TF3DX segir: Orðalagið má misskilja. En þess utan er venja að nota orðið „SKAL“ í lögum margra góðra félaga, t.d. í lögum lögfræðingafélagsins. E.t.v. er betra að minnka umfang laganna. En þar sem salurinn hefur bent mér á það þá sé ég að orðalagið er reyndar ágætlega skýrt.

TF3KX segir: Er með vangaveltur; hvað er þetta „EMC“? Það þarf að skýra í greininni fyrir hvað EMC stendur.

TF3UA segir: Það er ekki þörf á að skýra hugtakið betur, vel þekkt hugtak.

TF3KB segir: Má ekki nota íslenska orðið „vaksamhæfni“?

TF3KX segir: Nei, þetta er ekki nægjanlega skýrt.

TF2WIN segir: Þetta er ekki góð tillaga, þá þarf að hafa allar nefndir í lögum félagsins, t.d. „Vitahelgarnefnd…“.

TF3CY segir: Nefndir eru mismikilvægar í félaginu, með þessari grein er verið að tryggja að þessi nefnd sé starfandi.

TF3DX segir: Ég styð TF3CY. Auk þess er þessi nefnd til að tryggja samskipti við yfirvöld.

TF2JB segir: Greinar af þessu tagi eru m.a. í lögum tveggja stærstu amatörafélaga í Evrópu.

TF3Y segir: Nefnd sem stofnuð er í lögum félagsins er miklu sterkari gagnvart stjórnvöldum en ella, sem gæti verið styrkur fyrir félagsmenn, og það er best tryggt að nefndin sé virk með því að setja um hana formlega reglu.

TF3Y dregur til baka tillögu um „SKAL“. TF3KX dregur til baka tillögu um skýringar um EMC.

Breyting frá TF3KX: Bætt innan sviga skýringu á merkingu skammstöfunarinnar „EMC“.

Samþykkt samhljóða. Atkvæðagreiðsla um nýja grein 24. Samþykkt samhljóða.
TF3HP biður um orðið: Er með óundirbúna lagabreytingu, með samþykki aðalfundar, um fastskipaða nefnd félagsins. Stjórn SKAL setja námskeiðsnefnd á laggirnar í samræmi við tillögu TF3BJ.

TF3CY segir: Námskeiðsmál hafa verið í ágætum farvegi og því væri rétt að útfæra þessar hugmyndir nánar í næstu stjórn.

TF3UA segir: Stofnun skólanefndar er e.t.v. ekki góð hugmynd nú; þetta þarf að hugsa og ræða í þeim hóp sem helst hefur starfað að þessum málum.

Þá var komið að hinni sívinsæla dagskrárlið, kaffihlé.

Eftir kaffihlé.

Fundarstjóri: Nú er dregið úr seðlum með nöfnum fundarmanna um nýja Baofeng UV-3R Mk.II 2-5W VHF/UHF FM-handtalstöð.

Niðurstaða: TG3G var dreginn. Hann segir: „Ég á svona stöð og afhendi hana til dráttar öðru sinni“. Dregið öðru sinni: TF3JA var dreginn, hann tók við henni með brosi á vör og hélt smá þakkartölu (reyndar mest um „tónskvelsa“).

9. Stjórnarkjör.

Úr stjórn: TF3G og TF3UA (sátu sitt síðara ár). Eftir sitja: TF3CY og TF3BJ (sitt síðara ár). TF3G gefur ekki kost á sér áfram.

Kosning formanns til eins árs: TF2JB gefur kost á sér, kjörinn með lófataki. Tveir stjórnarmenn til tveggja ára: TF3UA og TF3AM, kjörnir með lófataki. Tveir varamenn til eins árs: TF3EE og TF2WIN, kjörnir með lófataki.

10. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.

Nú eru TF3DC og TF3HK og TF3VS til vara. Allir endurkjörnir með lófataki.

11. Ákvörðun árgjalds.

TF3G, gjaldkeri, gerir tillögu um 6 þúsund krónur í nafni fráfarandi stjórnar.

TF3JA segir: Þykir tillaga um árgjald há, betra að fá framlög þeirra sem eiga aura til að styrkja tækjakaup. Og spara allt sem hægt er.

TF3CY segir: Það er óhjákvæmilegt að hafa meiri tekjur.

TF2JB segir: Bendir á að félagsgjald var 5 þúsund krónur árið 2008 en var lækkað í 4 þúsund krónur fyrir 2009 og hefur verið óbreytt síðan.

TF3SG segir: Ef hægt er að innheimta félagsgjöld án útsendingu greiðsluseðla þá sparast seðilgjöld. Atkvæðagreiðsla: Árgjald 6 þúsund krónur samþykkt samhljóða.

TF3JA bað um orðið og vill það skráð í fundargerð að hann sé mótfallinn tillögunni.

12. Önnur mál.

TF3KB segir: Þannig er með námskeiðshald og nefndir, að það þýðir lítt að vísa máli á nefnd ef hún hefur ekki áhuga á því því; þetta stendur og fellur með þeim sem þar starfa hverju sinni. Ég vil nefna „lærlingsleiðina“ sem leið til að fjölga amatörum; ef hver gæti fengið einhvern einn til að vinna með. Hvað með að endurvekja þessa hugmynd og hafa úthugsað útspil þegar næst er tekið á þessum málum? Vil nefna að TF var fyrst amatörfélaga með nýliðaleyfið á sínum tíma sem aðrar þjóðir tóku síðan upp.

TF3HP segir: Styð tillögu TF3KB um að lyfta „Elmer“-starfinu á hærri stall.

TF3KJ segir: Hvað með gamla nýliðaprófið, og morsið þar með, má ekki taka það aftur upp?

TF3UA upplýsir: Tillaga um minningarsjóð um látna félagsmenn; þegar félagsmenn hafa fallið frá þá hefur oft verið sendur krans, sem er virðingarvert, en það fylgir talsverður kostnaður. E.t.v. mætti heldur nota slíka fjármuni til að eignast búnað til útláns eða útleigu (til nýrra félaga) svo og tæki sem hafa verið í eigu félaga sem fallið hafa frá.

TF3KX segir: Verðugt verkefni og sammála.
Framtakinu fagnað með lófataki.

TF3UA upplýsir: Um EMC nefndina. Í nefndina var valinn hópur sem gæti verið amatörum til aðstoðar og yfirvöldum, ef svo ber undir. Vísar í fréttir í vikunni um úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar í deilu um útsendingar amatöra og hættu á heilsutjóni; í úrskurðinum var slíkri hættu hafnað.
Næst var úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 112/12 yfirfarinn. Hann var birtur 16. maí á heimasíðu PFS undir fyrirsögninni: „Fjarskiptabúnaður radíóáhugamanns ekki talinn valda skaðlegri geislun“. Fundurinn samþykkti að fagna faglegri aðkomu stofnunarinnar að málinu og skilmerkilegri framsetningu í greinargerð.

TF3KX spyr: Varðandi EMC nefndina, hvað með áhrif af tækjum annarra?

TF3UA segir: Hugmynd með EMC nefndinni er að aðstoða amatöra eins og hægt er.

TF3KB segir: EMC er erfitt þegar truflanir hverfa þegar slökkt er á tækjunum. En, þúsundir tækja trufla mikið. Hvernig á að bregðast við slíkum málum? – Að, ekki sé talað um innflutning slíkra tækja.

TF3UA svarar: Félagar í öðrum löndum hafa sent út viðvaranir vegna sumra gerða LED pera sem trufla mikið, en aðrar trufla alls ekki.

TF3KJ segir: Man eftir hitastilli á vegg sem truflaði hjá mér.

TF3KX spyr: Ætti félagið að eiga eða hafa aðgang að búnaði sem nota má til að leita uppi truflanir.

TF3DX segir: Sá sparperur í stórmarkaði sem ekki voru CE merktar. Mætti skapa vettvang til tilkynninga?

TF3JA spyr: Hvað þarf tækið að vera næmt?

TF3CY segir: SDR viðtæki væri fínt. Fleira var ekki gert.

13. Önnur skjöl

Ársskýrsla formanns: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2018/03/20120519-arsskyrsla_ira-tf3jb.pdf

Ársreikningur: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2017/07/Ársreikningur-ÍRA-2011-2012.pdf

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × one =