Afar vel heppnað fimmtudagserindi Vilhjálms, TF3DX
Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti síðari hluta erindis síns um Sendiloftnet á 160 metrum; sjónarmið við hönnun fimmtudagskvöldið 17. mars s.l. Þeir sem lögðu leið sína í Skeljanesið urðu ekki fyrir vonbrigðum frekar en þegar fyrri hluti erindisins var fluttur þann 24. febrúar s.l. Vilhjálmur fór á kostum og beinlínis fangaði hugi viðstaddra með faglegri og áhugaverðri framsetningu. Umfjöllunarefnið, var sem fyrr, sprottið af hönnun hans á sendiloftneti fyrir Þorvald Stefánsson, TF4M á 1,8 MHz.
Fyrst rifjaði Villi upp helstu niðurstöður úr fyrri hlutanum, síðan hvernig útgeislað svið er í réttu hlutfalli við flatarmálið undir straumferlinum. Það skýrði hvers vegna geislunarviðnám í stuttum loftnetum stígur með lengd þeirra í öðru veldi. Því næst fjallaði hann um raunhæfa straumgleypa og hvernig hallandi vírar í topphatti vinna að hluta gegn straumnum í lóðrétta leggnum. Það leiðir til þess geislunarviðnámið fer að falla aftur ef þeir eru síkkaðir of mikið. Síðan útskýrði Villi kúplað tapsviðnám frá jörð í mótvægisvíra, og hvernig það minnkar þegar þeim er lyft. Hann tók dæmi af 1,8 MHz loftneti TF4M um öll þessi atriði, og sýndi að nóg var að nota 2 víra uppi og aðra 2 niðri ef rétt væri farið að. Mælingar í haust (2010) bentu til að nýtnin væri milli 80 og 90%.
Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi, TF3DX, fyrir afar vel heppnað erindi og Gísla G. Ófeigssyni, TF3G, fyrir myndatökuna.
TF2JB
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!