Ari Þ. Jóhannesson TF3ARI við uppsetningu loftnets fyrir TF8RPH á Garðskaga 21. apríl. Ljósm.: TF8SM.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, gerðu ferð suður á Garðskaga 21. apríl settu upp loftnet og tengdu Kenwood endurvarpsstöð félagsins.

Kallmerkið er TF8RPH. Endurvarpinn tekur á móti á 145.125 MHz og sendir út á 145.725 MHz. Þessi endurvarpi er frábrugðinn öðrum endurvörpum félagsins að því leyti, að með sendingunni inn á hann þarf að fylgja sérstakur tónkóði, DCS 023, svo hann opnist. Þetta fyrirkomulag verður notað til prufu til að byrja með. Fljótlega verður skipt yfir á CTCSS læsingu, en þess má geta að nánast allar verksmiðjuframleiddar metrabylgjustöðvar fyrir radíóamatöra undanfarna þrjá áratugi eru búnar tónkóðun af því tagi. (Ath. að hægt er að hlusta á sendingar frá TF8RPH í venjulegu viðtæki eða stöð, þ.e. ekki þarf að afkóða sendingar í móttöku).

Endurvarpinn er af gerðinni Kenwood TKR-750, sendir út 25W FM á “wideband” mótun. Til umræðu er, að skipta yfir á “narrowband” mótun. Loftnetið er OPEC UVS-300 húsloftnet sem er u.þ.b. 12 metra yfir jörðu.
Stöðin sendir út auðkenni á morsi á 30 mínútna fresti.

Um er að ræða sérstakt tilraunaverkefni á vegum félagsins og er miðað við að endurvarpinn verði a.m.k. QRV það sem eftir lifir af þessum mánuði og út næsta mánuð (maí). Þá verður tekin ákvörðun um hvort verður af framtíðarstaðsetningu á þessum stað. Sjá nánar umfjöllun í 2. tbl. CQ TF sem er væntanlegt í næstu viku.

Um leið og stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að prófa nýja endurvarpann, eru þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI og Sigurði Smára Hreinssyni, TF8SM, færar þakkir fyrir að hafa veg og vanda af uppsetningu stöðvarinnar. Bestu þakkir einnig til Páls B. Jónssonar, TF8PB, fyrir að lána loftnet fyrir TF8RPH.

Ari Þórólfur gengur frá tengingu TKR-750 við “Cavity” síurnar sex frá Decibel Products. Ljósmynd: TF8SM.

Loftnet TF8RPH er staðsett á turninum við vitavarðarhúsið. Myndin var tekin á Vita- og vitaskipahelginni 2010.

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS fjallaði um undirstöðuatriði í samskiptasiðum radíóamatöra.

Í.R.A. efndi til sérstaks fræðslukvölds í Skeljanesi miðvikudaginn 18. apríl. Dagskráin var miðuð við þarfir þeirra sem stefna að því að gangast undir próf til amatörleyfis þann 28. apríl n.k. Undirbúningur og framkvæmd var í höndum þeirra Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX og Vilhjálms Ívars Sigurjónssonar, TF3VS, prófnefndarmanna.

Vilhjálmur Ívar flutti erindi er nefndist Réttindi, ábyrgð og siði radíóamatöra. Það var flutt með tilvísan til rits þeirra J. Devoldere, ON4UN og M. Demeuleneere, ON4WW, Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra, sem Vilhjálmur þýddi á íslensku og kom út á vegum félagsins árið 2009.

Vilhjálmur Þór flutti erindi er nefndist Mótun og stilling hennar, ágrip af fræðum og sýnikennsla. Það var flutt, með tilvísan til samantektar Vilhjálms um Merki og mótun sem kynnt var vorið 2011 (og vistuð er á vefsvæði prófnefndar á heimasíðu) svo og framlagðrar greinar eftir hann um Afl og truflanir sem birtist í septemberhefti CQ TF 2005. Að loknum erindisflutningi, fór Vilhjálmur yfir verklega þátt í stillingu mótunar á SSB. Á meðfylgjandi myndum má m.a. sjá Yaesu FT-840 og Icom IC-718 100W sendi-/móttökustöðvar ásamt aukabúnaði sem notaður var við sýnikennsluna.

Sjórn Í.R.A. þakkar þeim Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, formanni prófnefndar og Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, prófnefndarmanni, fyrir vel heppnuð og áhugaverð erindi og óskar væntanlegum próftökum góðs gengis þann 28. apríl n.k.

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX fjallaði fræðilega og verklega um umfjöllunarefnið “Merki og mótun”.

Sýnikennsla Vilhjálms var bæði áhugaverð og lífleg og tóku viðstaddir virkan þátt í prófunum (sbr. mynd).

Ákveðið hefur verið að félagsaðstaða Í.R.A. við Skeljanes verði lokuð fimmtudaginn 19. apríl n.k. sem er sumardagurinn fyrsti. Næsti opnunardagur félagsaðstöðunnar verður fimmtudaginn 26. apríl, en þá lýkur vetrardagskrá félagsins á yfirstandandi starfsári með erindi Benedikts Sveinssonar, TF3CY, um QRO málefni (sem verður nánar kynnt síðar).

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS

Næstkomandi miðvikudagskvöld, 18. apríl kl. 20:00 verður haldið fræðslukvöld fyrir verðandi próftaka í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Allir eru hvattir til að mæta, sérstaklega þeir sem ekki hafa áður fengið umfjöllun um þetta efni. Dagskrá er eftirfarandi:

1. Réttindi, ábyrgð og siðir radíóamatöra, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS.
2. Mótun og stilling hennar, ágrip af fræðum og sýnikennsla, Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.

Fræðileg umfjöllun verður knappari en vera myndi á námskeiði, svo gott væri ef þátttakendur væru
búnir að kynna sér og prenta út skjalið Merki og mótun, sem er að finna á heimasíðu Í.R.A.
Vefslóð: http://www.ira.is/namsefni/

Einnig verður kannaður áhugi þátttakenda á að fá 1-2 dæmakvöld í vikunni fyrir próf.

F.h. stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring, 12.-13. apríl, sbr. meðfylgjandi línurit. Á línuritunum má sjá stöðuna frá kl. 10 árdegis (í gær) til kl. 10 árdegis í dag, 13. apríl. Truflanirnar hófust upp úr kl. 16 í gær (12. apríl). Skilyrðaspár benda til að þær geti haldið eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Benedikt Sveinsson, TF3T

Erindi Bendikts Sveinssonar, TF3CY, sem halda átti í kvöld, fimmtudaginn 12. apríl kl. 20:30 er hér með frestað af óviðráðanlegum ástæðum um 2 vikur til fimmtudagsins 26. apríl n.k. kl. 20:30.

Opið hús verður í Skeljanesi í kvöld frá kl. 20-22:00 og kaffi á könnunni.

Hluti nemenda sem sat próf til amatörleyfis í félagsaðstöðunni við Skeljanes í maí 2011.

Próf til amatörleyfis verður haldið laugardaginn 28. apríl 2012 í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes í Reykjavík. Prófið hefst stundvíslega kl. 10 árdegis. Hafa skal meðferðis blýanta, strokleður, reglustiku og reiknivél sem ekki getur geymt gögn. Önnur gögn eru ekki leyfð.

Prófið er í tveimur hlutum: Amatörpróf í undirstöðuatriðum raffræði og radíótækni. Það er í 30 liðum. Lágmarkseinkunn 4,0 gefur rétt til N-leyfis og 6,0 til G-leyfis. Próf í reglugerð og viðskiptum: Það er í 20 liðum. Lágmarkseinkunn 6,0 gefur rétt til G-leyfis og 4,0 til N-leyfis. Prófnefnd Í.R.A. semur prófin og annast framkvæmd prófhalds, að viðstöddum fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar.

Að jafnaði eru prófin dæmd og bráðabirgðaeinkunn gefin í framhaldi af prófhaldinu, gjarnan 2 – 3 klst síðar. Þá fer fram prófsýning í Skeljanesi ef aðstæður og þátttaka leyfir. Endanleg staðfesting niðurstöðu liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Standast þarf báða hluta prófs til leyfis. Árangur í hvoru prófi stendur framvegis, óháð gengi í hinu prófinu.

Fyrirspurnum má beina til Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX, formanns prófnefndar. Veffang: villik(hjá)hi.is

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Félagsheimili ÍRA

Alþjóðadagur radíóamatöra er 18. apríl ár hvert og ber að þessu sinni upp á miðvikudag. Það var þann mánaðardag árið 1925 sem alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, International Radio Amateur Union, I.A.R.U., voru stofnuð fyrir 87 árum.

Einkunnarorðin eru að þessu sinni: Gervitungl radíóamatöra: 50 árum fagnað í geimnum (Amateur Radio Satellites: Celebrating 50 Years in Space). Fyrstu gervitungl radíóamatöra voru OSCAR 1 og OSCAR 2 sem send voru á braut umhverfis jörðu þann 12. desember 1961 annarsvegar, og 2. júní 1962 hinsvegar.

Aðildarfélög I.A.R.U. eru í dag starfandi í 166 löndum heims með nær 4 milljónir leyfishafa.

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum til hamingju með daginn!

Benedikt Sveinsson, TF3T

Næsta erindi á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 12. apríl n.k. Þá kemur Benedikt Sveinsson, TF3CY í Skeljanes og nefnist erindi hans: QRO kvöld; heimasmíði
RF magnara og notkun þeirra.

Benedikt mun m.a. hafa til sýnis heimasmíðaðan QRO RF magnara og fjalla almennt um QRO afl bæði í HF og VHF tíðnisviðunum.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Páskahátíðin nálgast. Næstkomandi fimmtudag, þann 5. apríl, er skírdagur. Félagsaðstaða Í.R.A. við Skeljanes verður lokuð þann dag. Næsti opnunardagur verður fimmtudaginn 12. apríl. Þann dag verður í boði erindi Benedikts Sveinssonar, TF3CY, um QRO málefni (sem verður nánar kynnt síðar).

Stjórn Í.R.A. óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Með tilvísan til 16. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar Í.R.A. laugardaginn 19. maí 2012. Fundurinn verður haldinn í Snæfelli (áður “Yale”) fundarsal Radisson Blu hótel Sögu, við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 18. gr. félagslaga.

Bent er á, að samkvæmt ákvæði í 26. gr. laganna þurfa tillögur að lagabreytingum að berast stjórn félagsins fyrir 15. apríl n.k. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntanlegum áhrifum þeirra.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar í Skeljanesi 30. mars.

Í.R.A. bauð upp á sérstakt kynningarkvöld þann 30. mars í félagsaðstöðunni í Skeljanesi vegna fyrirhugaðs prófs til amatörleyfis sem haldið verður þann 28. apríl n.k. án undangengins námskeiðs, sem auglýst var á heimasíðu félagsins nýlega.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar félagsins annaðist kynninguna. Hann lagði fram og kynnti nýja samantekt nefndarinnar fyrir þá sem áhuga hafa á að sitja próf til amatörleyfis: Námsefni og próf fyrir radíóamatöra. Í framhaldi fór Vilhjálmur yfir og kynnti prófkröfur samkvæmt gildandi reglugerð um starfsemi radíóamatöra. Þá kynnti hann eftirfarandi námsgögn sem lágu frammi á fundinum:
______________________________

(1) Passport to Amateur Radio (J. Lawrence, GW3JGA);
(2) Amatörpróf í raffræði og raftækni, 1. útgáfa. (Prófnefnd Í.R.A.);
(3) Samantekt á námsefni fyrir radíóamatörpróf í reglum og viðskiptum (Prófnefnd Í.R.A.);
(4) Námsefni úr reglugerð um raforkuvirki fyrir radíóamatöra (Prófnefnd Í.R.A.); og
(5) Truflanir frá sendum (Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX).

Auk tilgreindra þátta úr ritinu Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra (J. Devoldere, ON4UN og M. Demeuleneere, ON4WW) í þýðingu Vilhjálms Ívars Sigurjónssonar, TF3VS;
_______________________________

Fram kom m.a., að Póst- og fjarskiptastofnun hefur staðfest að prófið verður haldið í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi laugardaginn 28. apríl n.k. kl. 10 árdegis. Prófað verður bæði á íslensku og ensku. Þess má geta, að flest það efni sem vísað er til hér að ofan má finna á nýju vefsvæði prófnefndar Í.R.A. á  heimasíðu félagsins á eftirfarandi vefslóð: http://www.ira.is/namsefni/

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, fyrir vel heppnaðan viðburð í Skeljanesi og óskar væntanlegum próftökum góðs gengis þann 28. apríl n.k.

Frá kynningarfundi vegna prófs til amatörleyfis í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 30. mars.