Sérheimild [2020-2022] til notkunar á 70.000-70.250 MHz rann út um s.l. áramót (31.12.2022).

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til Fjarskiptastofu fyrir nýtt tveggja ára tímabil á hrh@fjarskiptastofa.is  Það nægir að senda eina umsókn sem gildir fyrir bæði árin, þ.e. 2023 og 2024.

Á þetta er minnt nú, þar sem páskaleikarnir fara fram 7.-9. apríl n.k. og 70 MHz (4 metrar) eru eitt af þeim böndum sem í boði eru í leikunum.

Stjórn ÍRA.

Úrslit liggja fyrir í CQ WW SSB keppninni 2022. Alls var skilað gögnum fyrir 10 TF kallmerki í 5 keppnisflokkum.

Hamingjuóskir til Benedikts Sveinssonar, TF1T sem náði mjög góðum árangri í keppninni í flokki stöðva á öllum böndum, háafli – eða nær 2,3 millj. heildarpunktum og 3.000 samböndum. Þessi árangur skilaði 38. sæti yfir heiminn og 10. sæti í Evrópu.

Ennfremur hamingjuóskir til Georgs Magnússonar, TF2LL sem náði góðum árangri í keppninni í flokki stöðva á 40 metrum, háafli – eða rúmlega 28 þúsund heildarpunkum og 211 samböndum. Þessi árangur skilaði 24. sæti yfir heiminn og 14. sæti yfir Evrópu.

Sérstakar hamingjuóskir til þeirra Júlíu Guðmundsdóttur, TF3JG og Kristjáns J. Óskarssonar, TF4WD sem tóku þátt í fyrsta skipti í þessari stóru alþjóðlegu keppni.

Síðast, en ekki síst hamingjuóskir til allra TF leyfishafa sem tóku þátt í keppninni.

Stjórn ÍRA.

.

Benedikt Sveinsson, TF3T.  Eimennningsflokkur, öll bönd, háafl.
2,281,500 heildarpunktar. 3,000 QSO – 99 CQ svæði – 369 DXCC einingar – 36.5 klst. þátttaka. Nr. 38 yfir heiminn / nr. 10 í Evrópu.

Andrés Þórarinsson, TF1AM.  Einmennigsflokkur, öll bönd, háafl.
251,804 heildarpunktar. 903 QSO – 56 CQ svæði – 182 DXCC einingar – 25.1 klst. þátttaka. Nr. 206  yfir heiminn / nr. 57 í Evrópu.

HRAFNKELL SIGURÐSSON, TF8KY.  Einmenningflokkur, öll bönd, háafl.
151.488 heildarpunktar. 499 QSO – 46 CQ svæði – 146 DXCC einingar – 18.8 klst. þátttaka. Nr. 293 yfir heiminn / nr. 83 í Evrópu.

ÓÐINN ÞÓR HALLGRÍMSSON, TF2MSN.  Einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
152.736 heildarpunktar. 339 QSO – 63 CQ svæði – 195 DXCC einingar – 32.3 klst. þátttaka. Nr. 219 yfir heiminn / nr. 98 í Evrópu.

VILHJÁLMUR Í. SIGURJÓNSSON, TF3VS. Einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
41.720 heildarpunktar. 259 QSO – 29 CQ svæði – 120 DXCC einingar – 18.4 klst. þátttaka. Nr. 717 yfir heiminn / nr. 362 í Evrópu.

KRISTJÁN J. GUNNARSSON, TF4WD. Einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
39.325 heildarpunktar. 251 QSO – 30 CQ svæði – 113 DXCC einingar – 24.6 klst. þátttaka. Nr. 748 yfir heiminn / nr. 381 í Evrópu.

JÚLÍA GUÐMUNDSDÓTTIR, TF3JG. Einmenningflokkur, öll bönd, lágafl.
4.087 heildarpunktar. 60 QSO – 20 CQ svæði – 41 DXCC eining – 7.5 klst. þátttaka. Nr. 1652 yfir heiminn / nr. 778 í Evrópu.
(Sérstök skrásetning í flokki nýliða (Rookie Overlay) nr. 186 yfir heiminn / nr. 97 í Evrópu)

ÁRSÆLL ÓSKARSSON, TF3AO. Einmenningsflokkur, 15 metrar, háafl.
4.879 heildarpunktar. 109 QSO – 7 CQ svæði – 34 DXCC einingar – 3.9 klst. þátttaka. Nr. 84 yfir heiminn / nr. 44 í Evrópu.

JÓNAS BJARNASON, TF3JB. Einmenningsflokkur, 20 metrar, láafl.
154 heildarpunktar. 6 QSO – 5 CQ svæði – 6 DXCC einingar – 0.2 klst. þátttaka. Nr. 68 yfir heiminn / nr. 41 í Evrópu.

GEORG MAGNÚSSON, TF2LL. Einmenningsflokkur, 40 metrar, háafl.
28.301 heildarpunktar. 211 QSO – 21 CQ svæði – 70 DXCC einingar – 9.4 klst. þátttaka. Nr. 24 yfir heiminn / nr. 14 í Evrópu.

.

Benedikt Sveinsson TF3T í glæsilegri fjarskiptaaðstöðu hans og Guðmundar Sveinssonar TF3SG við Stokkseyri (TF3D). Mynd: TF3T.
Mynd af mælitækjunum sem voru flutt í Skeljanes til mælinga.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Jón G. Guðmundsson, TF3LM mættu í Skeljanes sunnudaginn 2. apríl. Að þessu sinni voru sérstaklega skoðuð gæði í sendingum VHF/UHF stöðva. Allt saman voru VHF/UHF handstöðvar. Einnig voru mæld loftnet og kóax kaplar.

Skemmtilegur sunnudagur og góðar umræður yfir kaffinu.

Þakkir til þeirra Ara og Jóns fyrir að bjóða upp á viðburðinn.

Alls mættu 9 félagar og 1 gestur þennan ágæta og sólríka sunnudag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur tengir Yaesu handstöð við mælitækið.
Mælingar í gangi.
Coax kapall mældur. Þessi reyndist í lagi, en annað tengið (N í sma) reyndist bilað.
Loftnet sem var prófað í Skeljanesi í dag. Ágætis “dummy load”. Það var líka prófað með loftnetsmæli. Fín dýfa á 146 MHz en það var slappara gagnvart móttakaranum á Perlunni heldur en gott handstöðvarloftnet á 145.500 MHz
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3A og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK. Ljósmyndir: TF3LM og TF3PW.

Ágætu félagsmenn!

Því fylgir ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar, CQ TF 2. tbl. 2023. Það kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni í dag, sunnudaginn 2. apríl.

Slóðin á blaðið sjálft er: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/04/2023-2.pdf

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
ritstjóri CQ TF

.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Jón G. Guðmundsson TF3LM, mæta í Skeljanes sunnudaginn 2. apríl. Hugmyndin er að skoða sérstaklega gæði í sendingum VHF/UHF stöðva.

Ari mun hafa meðferðis vönduð mælitæki, þ.á.m. frá Rhode & Schwartz. Búnaðurinn getur mælt eiginleika sendihluta stöðva sem vinna frá 28 til 6000 MHz. Aflgjafar og gerviálög (e. dummy loads) verða á staðnum. Mælibúnaðurinn ræður við að mæla stöðvar sem gefa út að lágmarki 1mW og að hámarki 100W.

Félagsmönnum er með boðið að koma með bílstöðvar og/eða handstöðvar sem vinna í þessum tíðnisviðum. Minnt er á að taka með straumsnúrur og hljóðnema. Og, ef handstöðvar að hafa þær fullhlaðnar.

Húsið verður opnað kl. 13:00. Mælingar hefjast kl. 13:30. Lavazza kaffi á könnunni og kaffibrauð frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

.

Myndirnar að neðan voru teknar á síðasta “mælingadegi” VHF/UHF stöðva sem þeir Ari og Jón héldu 29. febrúar 2020 (rétt fyrir Covid-19 faraldurinn). Alls mættu 30 félagar og gestir í Skeljanes í það skiptið.

VHF/UHF mælingardagur í Skeljanesi 2020. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson (bak í myndavél), Jón G. Guðmundsson TF3LM og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Georg Kulp TF3GZ, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA (bak í myndavél) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE.
Mathías Hagvaag TF1MH (bak í myndavél), Hörður Bragason TF3HB, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Síðan koma Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Jón G. Guðmundsson TF3LM og Björgvin Víglundsson TF3BOI (allir með bak í myndavél). Ljósmyndir: TF3JB.

Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 29. nóvember með með erindið: „Fjarstýring á amatörstöð yfir netið“.

Ágúst flutti afar greinargott og fróðlegt erindi um reynslu sína í þessum efnum, en hann hefur aðstöðu fyrir loftnet og búnað í sumarhúsi sínu sem er í u.þ.b. 100 km fjarlægð frá heimili hans í Garðabæ.

Hann notar Kenwood TS-480 stöð og tengibúnað frá RemoteRig. https://www.remoterig.com/wp/  og
https://shop.microbit.se/webshop/catalog Stöðin er með laustengdu stjórnborði, þannig að RF hlutinn er hafður í sumarhúsinu og stjórnborðið heima. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er, að ekki þarf sérstaka tölvu í sveitinni. Ágúst nefndi, að sambærilegt fyrirkomulag sé í boði fyrir fleiri gerðir af stöðvum sem eru með laustengd stjórnborð, t.d. Icom IC-7100, en Kenwood hefur hætt framleiðslu á TS-480. Hefðbundnar stöðvar þurfa hins vegar flestar tölvur á báðum endum.

Meginkosturinn við þessa lausn að nota RemoteRig boxin, er að þetta eru litlar sérhæfðar tölvur sem sjá sjálfvirkt um öll samskipti og merkjaflutning milli staða. Nóg er að setja 12VDC á boxin og þá tengja þau sjáfvirkt stjórnborðið á stöðinni heima og RF hlutann í sveitinni. Meginvandinn var til að byrja með léleg netþjónusta þar sem sumarhúsið er staðsett. Aukin samkeppni og þróun í netbúnaði hefur hins vegar auðveldað málið og gat Ágúst þess, að í dag sé tengingin yfir netið hnökralaus og kostnaður ásættanlegur. Hann notar 4G í sveitinni og ljósleiðara heima í Garrðabæ, hvort tveggja frá Mílu/Símanum.

Ágúst sýndi forritið Ping Plotter sem hentar vel til að greina hnökra í netsambandinu.

Ágúst kynnti einnig CATSync forritið sem má nota til að vera í loftinu með hlustun gegnum KiwiSDR viðtækin sem eru í boði hér á landi yfir netið. Áhugaverð lausn fyrir þá sem eru með miklar truflanir. https://catsyncsdr.wordpress.com/  og https://swling.com/blog/2020/09/catsync-control-web-sdr-tuning-from-your-rig/

Ágúst hafði með sér fjarstýribúnað í fundarsal og sýndi virkan hans eftir erindið og mátti greinilega heyra að truflanir eru litlar sem engar í sveitinni. Hann fékk fjölda fyrirspurna sem hann leysti greiðlega úr.

Sérstakar þakkir til Ágústar fyrir vel flutt og vandað erindi. Alls mættu 30 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta regnmilda fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Ágúst sýndi margar áhugaverðar glærur. Á borðinu er laustengda stjórnborðið frá Kenwood TS-480SAT stöðinni sem hann notaði til að hafa samband yfir netið gegnum RF hluta stöðvarinnar sem er í sumarhúsinu.
Skýringarmynd af uppsetningu á Kenwood TS-480SAT og RemoteRig búnaðinum.
Skýringarmynd sem sýnr virkan búnaðarins heima í Holtsbúð í Garðabæ.
Upplýsingar um loftnetið sem TF3OM notar í sumarbústaðnum.
Jón E. Guðmundsson TF8KW, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM og Mathías Hagvaag TF3MH.
Benedikt Sveinsson TF3T, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FB.
Einar Kjartansson TF3EK og Þórður Adolfsson TF3DT.
Kristján Benediktsson TF3KB og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA. Ljósmyndir: Georg Kulp TF3GZ.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 23.-28. mars 2023.

Alls fengu 19 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW) og tali (SSB). Bönd: 4, 6, 10, 12, 15, 17, 20, 40, 60, 80 og 160 metrar.

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Svo kallað „self spotting“ er ekki tekið með. Upplýsingarnar eru fengnar á

http://new.dxsummit.fi/#/   Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund(ir) útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á.

Stjórn ÍRA.

TF1AM            SSB á 160 metrum.
TF1EIN            FT8 á 10, 17 og 60 metrum.
TF1EM            FT8 á 20 metrum.
TF1JI               FM á 2 metrum.
TF1VHF          CW á 4 og 6 metrum.
TF2LL             SSB á 15 og 20 metrum.
TF2MSN          FT4, FT8 og SSB á 10, 12, 20 og 160 metrum.
TF3E                SSB á 160 metrum.
TF3D               SSB á 10, 15, 20 og 40 metrum.
TF3EK/P          SSB á 12 metrum.
TF3JB              CW, FT4 og FT8 á 10, 12 og 20 metrum.
TF3LB             FT8 á 15 metrum.
TF3MH            FT8 á 12 metrum.
TF3SG             CW á 17 metrum.
TF3T                SSB á 15 og 20 metrum.
TF3VE             FT8 á 17 og 60 metrum.
TF3WO            SSB á 160 metrum.
TF5B               FT8 á 12, 15, 17 og 40 metrum.
TF8SM             CW og SSB á 17 og 160 metrum.

Glæsileg fjarskiptaaðstaða Erlings Guðnasonar TF3E í Reykjavík. Ljósmynd: Andrés Þórarinsson TF1AM.

Ágúst H. Bjarnason, TF3OM heimsækir okkur í Skeljanes fimmtudag 30. mars með erindið: „Fjarstýring á amatörstöð yfir netið“. 

Ágúst hefur ekki farið varhluta af auknum truflunum í viðtöku í HF sviðinu fremur en aðrir leyfishafar í þéttbýli. Í sumarhúsi sem hann hefur til ráðstöfunar í uppsveitum Árnessýslu hefur hann komið fyrir stöð sem hann getur stjórnað yfir netið frá heimili sínu í Garðabæ yfir netið.

Þar notar hann endafætt 39m. langt EFHW 80-10 vírloftnet, sem gerir honum kleift að vinna á 80/40/30/20/17/15/12/10 metrum án loftnetsaðlögunarrásar.

Hann segir okkur m.a. frá reynslu sinni af „RemoteRig“ búnaðinum frá SE2R í sumarhúsinu, þar sem nánast engar truflanir eða suð eru á stuttbylgjunni. Þessi búnaður fær mjög góðar umsagnir á Eham.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

RSGB FT4 International Activity Day KEPPNIN fer fram 1. apríl; hefst kl. 08:00 og lýkur kl. 20:00. Þátttaka er opin radíóamatörum um allan heim. Bönd: 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á FT4 útgeislun, sem eru samskiptareglur undir MFSK mótun.https://www.rsgbcc.org/hf/rules/2023/rallband_ft4.shtml

EA RTTY KEPPNIN fer fram 1.-2. apríl; hefst á laugardag kl. 12:00 og lýkur á sunnudag kl. 12:00. Þátttaka er opin radíóamatörum um allan heim. Bönd: 80, 40, 20, 1 og 10 metrar á RTTY. ttps://concursos.ure.es/en/eartty/bases/

SP DX KEPPNIN fer fram 1.-2. apríl; hefst á laugardag kl. 15:00 og lýkur á sunnudag kl. 15:00. Þátttaka er opin radíóamatörum um allan heim. Bönd: 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW og SSB. https://spdxcontest.pzk.org.pl/2023/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Myndin er af forsíðu áhugaverðs PowerPoint erindis Fred AB1OC um uppbyggingu keppnis-/DX stöðva. Vefslóð á erindið: https://stationproject.blog/2013/03/19/amateur-radio-station-design-and-construction/

ÍRA hefur borist jákvætt svar frá Fjarskiptastofu við ósk félagsins um endurnýjun aukinna heimilda á 6 metra bandi og veitir stofnunin íslenskum leyfishöfum auknar aflheimildir í 50-50,5 MHz tíðnisviðinu frá og með 1. júní 2023. Gildistími er 4 mánuðir eða til 31. september. G-leyfishafar fá heimild til að nota allt að 1kW og N-leyfishafar allt að 100W.

Hámarks bandbreidd sendinga er 18 kHz. Heimildin er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi af völdum sendinganna þá skal þeim hætt. Æskilegt er að sendingar fari fram utan byggðar.

Ánægjulegt er, að gildistími heimildarinnar er jafn langur og á síðasta ári (2022) eða út septembermánuð.

Bent er á, að leyfishafar sem hafa áhuga á að stunda fjarskipti á auknu afli á 50 MHz tíðnisviðinu (6 metrum) í sumar, þurfa að senda beiðni þess efnis til Fjarskiptastofu áður en sendingar eru hafnar. Hafi verið fengin heimild í fyrra (2022) gildir hún ekki í ár. Póstfang: hrh(hjá)fjarskiptastofa.is  Tilgreina skal að sótt sé um aukið afl á 50 MHz.

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.
Frá kynningu Ara Þórólfs Jóhannessonar TF1A á búnaði fyrir QO-100 gervitunglið í Skeljanesi 25. mars.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes laugardaginn 25. mars og kynnti „Ódýrar lausnir til að senda merki um QO-100 gervihnöttinn“.

Ari byrjaði kynninguna á stuttum inngangi um QO-100 sem er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að tunglið er ætíð á sama stað séð frá jörðu. Þess vegna geta radíóamatörar stundað fjarskipti um tunglið allan sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink). Hægt er að nota CW, FT8 og SSB og líka bandbreiðari sendingar, t.d. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl. QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Eftir fróðlegan inngang og svör við spurningum yfir kaffi í brúna sófasettinu, fluttu menn sig yfir í norðurhluta salarins og þar sýndi Ari og útskýrði lágmarksbúnað sem þarf til sendinga um tunglið. Fram kom, að búnaður til sendingar merkja er vandasamari heldur en viðtaka merkja frá tunglinu „sem er sáraeinföld“ eins og hann orðaði það. Ari úrskýrði síðan nánar hvað hann átti við með „vandasamari“ þ.e. „…að það þurfi bara að gera hlutina í réttri röð!

Ari sýndi okkur Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtæki fyrir 60 MHz til 3,8 GHz sem margir nota til fjarskipta um QO-100. Þá er notaður RF magnari sem gefur út 20W á 2,4 GHz. Hann sýndi okkur einnig stærri RF magnara sem sem notast helst þegar senda á sjónvarpsmerki í fullum gæðum. Og síðan, nýja afar áhugaverða smátölvu „Pantera Pico PC“ sem „getur nánast allt“ eins og Ari orðaði það og hentar vel til dæmis hvað varðar fjarskipti um QO-100 gervitunglið. Vefslóð: https://picopc.net/

Að lokum fluttu menn sig upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og þar fór Ari yfir búnað félagsins til sendinga um QO-100 gervitunglið og sýndi mönnum m.a. inn í transverter‘inn frá PE1CMO, sem bæði er fyrir „up“ og „downlink“ á 70cm sem er tengdur beint inn á Kenwood TS-2000 stöð félagsins. Eitt af því skemmtilega við TS-2000 stöðina er, að aflestur á stjórnborði sýnir vinnutíðnina á 10 GHz beint.

Gervitunglafjarskipti eru heillandi heimur og sá hluti áhugamálsins er hvað mest vaxandi um þessar mundir. Sérstakar þakkir til Ara fyrir að koma í Skeljanes og flytja okkur fróðlega, vandaða og skemmtilega kynningu á búnaði til sendinga um QO-100 gervitunglið. Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta laugardag í sólríku gluggaveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Ólafur Vignir Vignir Sigurðsson TF3OV.
Ari fór yfir búnað til sendinga um QO-100. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Ólafur Vignir Sigurðsson TF3OV, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Vilhjálmur í. Sigurjónsson TF3VS, Georg Kulp TF3GZ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Virkni tækjanna útskýrð. Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Ólafur Vignir Sigurðsson TF3OV, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Þorvaldur Bjarnason TF3TB.
Ari bendir á Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtækið sem rætt er um í textanum að framan.
„Pantera Pico PC“ PC smátölvan sem getur “nánast allt“.
Í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Mikið var spurt og Ari svaraði öllum spurningum fljótt og vel. Ljósmyndir: TF3JB.
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A prófar diskloftnet TF3IRA í Skeljanesi sem notað er til fjarskipta um QO-100 gervitunglið.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætir í Skeljanes laugardaginn 25. mars á staðinn og kynnir ódýrar lausnir til sendingar merkja um QO-100 gervihnöttinn. Kynningin hefst kl. 13:30.

Hann sýnir hve einfalt, ódýrt og fljótlegt er að koma upp búnaði til sendinga um gervitunglið.

Kaffi og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Hvetjum félagsmenn að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Meðfylgjandi myndir eru frá fyrri hluta kynningarinnar sem fram fór 21. janúar s.l.
og fjallaði um viðtöku merkja frá QO-100 gervitunglinu.