Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 24. ágúst frá kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA og herbergi QSL stofunnar á 2. hæð verða opin. Nýjustu tímarit landsfélaga radíóamatöra í nágrannalöndunum liggja frammi í fundarsal á 1. hæð.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri félagsins verður búinn að fara í pósthólf félagsins og raða innkomnum kortum í hólf félagsmanna. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Andrés Þórarinsson TF3AM, Reynir Smári Atlason TF3CQ og Ársæll Óskarsson TF3AO. Myndin var tekin í Skeljanesi fyrr á þessu ári.
Úr félagsstarfinu. Stefán Sæmundsson TF3SE og Ásgeir Sigurðsson TF3TV. Myndin var tekin í Skeljanesi fyrr á þessu ári. Myndir: TF3JB.
TF1A virkjaði Knarrarósvita utandyra í logni og 20°C blíðviðri laugardaginn 19. ágúst.

Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin stendur yfir um þessa helgi, 19.-20. ágúst.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A virkjaði Knarrarósvita að þessu sinni um QO-100 gervitunglið. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS og Georg Kulp, TF3GZ heimsóttu hann í gær (19. ágúst) þegar hann var QRV frá vitanum og tók Vilhjálmur meðfylgjandi ljósmyndir.

Búnaður Ara var 90cm loftnetsdiskur á þrífæti, ICOM IC-7100 sendi-/móttökustöð og DXpatrol „Full Duplex QO-100 Groundstation 2.0“. Búnaðurinn virkaði mjög vel og þurfti Ari m.a. að vinna „split“ gegnum gervitunglið (með hlustun 10-30 kHz upp) til að vinna úr kösinni vegna þess hve margar stöðvar kölluðu samtímis – allsstaðar að úr heiminum.

Ekki er vitað til að aðrir vitar hafi verið virkjaðir að þessu sinni. Þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir að setja TF á “vitakortið” þetta árið og til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS fyrir skemmtilegar ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Fjarskiptaaðstaðan var þægileg í rjómalogni og 20°C lofthita við vitann.
Mikil kös var um gervitunglið og vann Ari því “split” þ.e. hlustaði 10-30 kHz upp í tíðni.
Myndin er af DX patrol tækinu fyrir QO-100 sem Ari notaði við vitann og sýndi m.a. í Skeljanesi 2. júlí s.l., þá nýkominn frá Ham Rado sýningunni í Firedrichshafen. Ljósmynd: TF3JB.

Höskuldur Elíasson, TF3RF hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum í Mbl. Í dag lést hann í Landspítalanum 9. þ.m.

Höskuldur var á 94. aldursári og handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 37.

Um leið og við minnumst Höskuldar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

45. Tokyo Ham Fair sýningin verður haldin í Tokyo Big Sight sýningarhöllinni helgina 19.-20. ágúst. Það er landsfélag radíóamatöra í Japan, JARL sem stendur að viðburðinum.

Þetta er stærsta árlega sýningin fyrir radíóamatöra sem haldin er í Asíu og er búist við um 30 þúsund gestum. Ekki er vitað um að íslenskir leyfishafar heimsæki sýninguna í ár.

Stjórn ÍRA.

Myndir frá sýningarbásum á Tokyo Ham Fair í fyrra (2022). Ljósmyndir: JARL.

Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin verður haldin helgina 19.-20. ágúst. Vefslóð viðburðarins: https://illw.net/index.php/entrants-list-2023

Einn íslenskur viti hafði verði skráður í dag 16. ágúst. Það er Knarrarósviti (IS-0001) sem er staðsettur austan við Stokkseyri. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun virkja vitann um QO-100 gervihnöttinn.

Bestu þakkir til Ara Þórólfs fyrir fyrir gott framtak.

Stjórn ÍRA.

Knarrarósviti er staðsettur sunnan við Stokkseyri. Hann er sá viti sem íslenskir radíóamatörar hafa oftast virkjað á vita- og vitaskipahelgi hér á landi, eða 21 sinni frá 1998. Vitinn verður því QRV í 22. skipti á Vita- og vitaskipahelginni 2023. Ljósmyndin var tekin árið 2005 af TF3AO.

Scandinavian Amateur Radio Teleprinter Group World Wide RTTY keppnin verður haldin helgina 19.-20. ágúst.

Keppnin er þrískipt og fer fram kl. 00:00-08:00 og kl. 16:00-24:00 á laugardag og kl. 08:00-16:00 á sunnudag.

Hún fer fram á RTTY á 80 , 40, 20, 15 og 10 metrum. Skilaboð: RST + raðnúmer.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

http://www.sartg.com/contest/wwrules.htm

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 17. Ágúst fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20-22.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar fyrir opnun. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Námskeið ÍRA til amatörprófs verður haldið dagana 25. september til 7. nóvember  í  Háskólanum í Reykjavík, bæði í staðnámi og fjarnámi.

Hægt er að mæta í kennslustofu þegar það hentar eða vera yfir netið þegar það hentar. Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30 í kennslustofu M-117.

Skráning og greiðsluupplýsingar: http://www.ira.is/skraning-a-namskeid/

Námskeiðsgjald er kr. 22.500. Greiðsla þarf að hafa borist gjaldkera fyrir 3. september n.k. Í framhaldi (þann 15. september) verður námsefni á prenti póstlagt. Bent á fræðslustyrki stéttarfélaga og Vinnumálastofnunar til þeirra sem sækja námskeiðið.

Skipulag: https://tinyurl.com/namsk-haust23
Vefslóðir á námsefni: https://tinyurl.com/namsefni-haust23
Kynningarefni: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Fyrirspurnir eru velkomnar á póstfang félagsins: ira@ira.is

Stjórn ÍRA.

Í lok námskeiðs er boðið upp á kynningu á fjarskiptum og fjarskiptavenjum radíóamatöra þar sem nemendum gefst kostur á að gera prufuútsendingar undir leiðsögn stöðvarstjóra TF3IRA. Á myndinni er Guðmundur V. Einarsson TF3VL að stilla hluta fjarskiptabúnaðarins. Ljósmynd: TF3DC.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Benedikt Sveinsson TF3T, Einar Kjartansson TF3EK og Mathías Hagvaag TF3MH.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 10. ágúst.

Umræður voru á báðum hæðum, menn hressir og TF3IRA var í loftinu á FM á 2 metrum og á morsi á 17 metrum.

Yfir kaffinu var m.a. rætt um TF útileikana sem haldnir voru um síðustu helgi og báru menn saman bækur sínar. Einar Kjartansson, TF3EK umsjónarmaður leikanna staðfesti að mikið væri komið inn af dagbókum, en skilafrestur er fram á mánudag. Einnig var mikið rætt um loftnet, tæki og búnað og skilyrðin á böndunum, m.a. um QO-100 gervitunglið sem sendir merki á 10.489 GHz.

Þór Þórisson, TF1GW færði félaginu töluvert af vönduðu radíódóti.

Alls mættu 24 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í sumarblíðu og logni í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Kristján Benediktsson TF3KB, Þór Þórisson TF1GW, Arnlaugur Guðmundsson TF3RD og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Þór Þórisson TF1GW færði félaginu töluvert af vönduðu radíódóti. Mathías Hagvaag TF3MH ræðir við hann.
Einar Kjartansson TF3EK, Pier Albert Kaspersma TF3PKN og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM.
Kristján Benediktsson TF3KB og Þorvaldur Bjarnason TF3TB.
Sigurður Elíasson TF3-044, Einar Kjartansson TF3EK og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson. Fjær: Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og fleiri.
Skemmtilegt sjónarhorn. Nýja OptiBeam Yagi loftnet TF3IRA sést fyrir miðri mynd og til vinstri má sjá New-Tronics Hustler 5BTV stangarloftnet félagsstöðvarinnar. Myndin var tekin í veðurblíðunni fyrir utan Skeljanes að kvöldi fimmtudagsins 10. ágúst. Ljósmyndir: TF3JB.

Ein af stóru keppnum ársins er Worked All Europe (WAE) keppnin. Morshlutinn verður haldinn helgina 12.-13. ágúst. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er leyfð samanlagt í mest 36 klst.

Markmiðið er að hafa sambönd við stöðvar utan Evrópu, þ.e. sambönd innan Evrópu gilda ekki í keppninni.  Skilaboð: RST+raðnúmer. QTC skilaboð gefa punkta aukalega.

Sambönd við hverja nýja DXCC einingu (e. entity) gilda sem margfaldarar, auk sambanda við hvert nýtt kallsvæði í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður-Afríku,  Japan og Brasilíu, auk kallsvæðanna RA8 og RA9.

Margfaldarar hafa aukið vægi eftir böndum; á 80 metrum fjórir, á 40 metrum þrír og á 20/15/10 metrum tveir. WAE er haldin á vegum DARC, landsfélags radíóamatöra í Þýskalandi.

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wae-dx-contest/en/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

KiwiSDR viðtæki Georgs Kulp, TF3GZ yfir netið á Raufarhöfn var tekið niður í gær, 8. ágúst.

Það hafði verið tengt í fjögur ár; var sett upp 10. ágúst 2019. Georg leitar að nýjum stað til uppsetningar fyrir tækið. KiwiSDR viðtæki Georgs á Bjargtöngum verður áfram QRV ásamt viðtæki Árna Helgasonar, TF3AH.

Þakkir til þeirra Georgs Kulp, TF3GZ, Árna Helgasonar TF4AH og Karl Georgs Karlssonar TF3CZ fyrir dugnað og elju við að sinna verkefninu um viðtæki yfir netið – sem er mikilvægt fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í HF, VHF og UHF tíðnisviðum, auk hlustara sem áhuga hafa á útbreiðslu radíóbylgna.

Stjórn ÍRA.

KiwiSDR viðtækið var staðsett í stöðvarhúsinu á myndinni. Yfirlitsmyndin sýnir turnana sem héldu uppi lóðréttu T-loftneti. Ljósmynd: TF3GZ.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 10. ágúst kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthóf félagsins og raða innkomnum kortum í hólf félagsmanna. Nýjustu tímarit landsfélaga radíóamatöra í nágrannalöndunum liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.