Við upphaf nýs starfsárs (mars 2021 til mars 2022) vil ég byrja á að þakka félagsmönnum fyrir allt það frábæra efni sem sent var inn á síðasta tímabili.

Líkt og á síðasta starfsári eru 4 tölublöð framundan, þ.e. í apríl, júlí, október og janúar (2022) og hlakka ég til áframhaldandi samvinnu við ykkur.

Næsta tölublað CQ TF, 2. hefti 2021 kemur út sunnudaginn 25. apríl n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur er til 14. apríl n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Páskakveðjur og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Myndin er af þremur síðustu tölublöðum CQ TF. Frá vinstri: 1. tbl. 2021 (kom út 27. janúar 2021); 4. tbl. 2020 (frá september 2020) og 3. tbl. 2020 (frá júní 2020). Hvert tölublað var yfir 50 blaðsíður að stærð. Ljósmynd: TF3JB.

Fyrir þá sem ekki færa sambönd í páskaleikunum beint inn í tölvu er ágætt að nota fyrirframprentuð dagbókareyðublöð.

Meðfylgjandi er mynd af dagbókareyðublaði fyrir félagsstöðina TF3IRA. Eyðublaðið var sett upp í Word forriti en allt eins má nota Excel, aðra töflureikna eða önnur ritvinnsluforrit.

Eyðublaðið er kynnt hér til upplýsingar ef einhvern vantar fyrirmynd.

Sambönd í Páskaleikunum 2021 frá TF3IRA verða færð inn á dagbókareyðublöð og síðan slegin inn í gagnagrunn leikana á netinu. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að mjög er til þæginda að forprenta QSO númer og reitanúmer, auk þess sem villur verða færri.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum gleðilegrar páskahátíðar.

Við vonum að þessir dagar bjóði upp á góðar stundir í faðmi fjölskyldunnar við þær óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu.

Athygli er vakin á páskaleikum félagsins sem hefjast föstudag kl. 18 og lýkur á sama tíma á sunnudag.  

Hægt er að skrá sig allan tímann sem leikarnir standa yfir. Vefslóð: http://leikar.ira.is/paskar2021/

Stjórn ÍRA.

Kæru félagar!

Nú er komið að því sem allir hafa verið að bíða eftir.  Það eru að koma páskar.  Það þýðir bara eitt…PÁSKALEIKAR. Þetta verður hrikalega gaman. Allir upp með græjurnar, upp á heiðar, fjöll og út í eyjar…eða bara láta fara vel um sig heima í „sjakknum“. Frábært tækifæri til að prófa nýja dótið, eða gamla dótið. Það besta er, það þarf ekki að vera með rándýrar græjur. Einföld handstöð frá Kína er allt sem þarf til að vera með. Það þarf ekkert endilega að vera „all-in“ alla helgina.  Endilega hoppa inn á tíðnirnar þegar tími gefst. Það getur bara verið gaman.

NÝJUNG!  Getum notað endurvarpa! Endurvarpar koma sem sér band í leikinn.  Þetta á eftir að auka möguleika hand-stöðva, örva notkun endurvarpa og við lærum betur á útbreiðslu þeirra. Gerum þetta með stæl, sýnum á FB hvað við erum virkir amatörar. Allir “grobbpóstar” kærkomnir.

Eins og venjulega verður “online” leikjavefur þar sem þátttakendur skrá sig til leiks.  Hægt verður að skrá sig inn í leikinn allan tímann þar til leikurinn endar. Slóðin á leikjavefinn er http://leikar.ira.is/paskar2021

Endilega kíkið á vefinn, lesið leiðbeiningar og skráið ykkur til leiks. Þetta er auðveldara en menn gætu haldið. ATH ATH ATH! Breyttur tími. Blásið verður til leiks kl. 18 föstudag 2. apríl og leikurinn stendur til kl. 18 sunnudag 4. apríl.

Hittumst í loftinu….23cm, 70cm, 2m, 4m, 6m, 80m og síðast en ekki síst, endurvarpar! 73 de TF8KY.

Myndin er af opnunarsíðu leikjavefjar Páskaleikanna 2021. Höfundur: Hranfkell Sigurðsson TF8KY.

Club Log er gagnagrunnur fyrir radíóamatöra þar sem leyfishöfum býðst m.a. að hlaða upp afritum af fjarskiptadagbókum sínum. G7VJR hjá Club Log tók nýlega saman upplýsingar úr innsendum dagbókum um skiptingu sambanda eftir mótun á HF tíðnum, á árinu 2020.

Meðfylgjandi kökurit EI7GL gefur vísbendingu um skiptinguna á milli mótunartegunda á HF árið 2020. Samkvæmt því var mótunartegundin FT8 undir samskiptareglum MFSK mótunar algengust (51,4%) þá mors (22,6%) og loks tal (15,1%). Aðrar mótunartegundir voru samtals með 10,1%.

Upplýsingarnar veita ákveðna vísbendingu um skiptingu eftir tegundum mótunar, en til grundvallar eru innfærð sambönd úr fjarskiptadagbókum fyrir 83.842 kallmerki á árinu 2020.

Tilkynning barst til félagsins í morgun, 26. mars, þess efnis að Ham Radio sýningin í Friedrichshafen sem fyrirhugað var að halda 25.-27. júní n.k., hafi verði aflýst vegna Covid-19 faraldursins.

Dagsetning fyrir sýninguna á næsta ári, 2022, er 24.-25. júní.

Á hverju ári eru haldnar fjölmargar ráðstefnur og sýningar fyrir radíóamatöra um allan heim. Þrjár eru stærstar: Ham Radio í Friedrichshafen í Þýskalandi, Dayton Hamvention í Ohio í Bandaríkjunum og Tokyo Ham Fair í samnefndri höfuðborg Japans. Dayton sýningunni 2021 sem fyrirhugað var að halda 21.-23. maí n.k., var aflýst 11. janúar s.l., einnig vegna Covid-19 faraldursins.

https://www.hamradio-friedrichshafen.com/no-get-together-in-2021-ham-radio-exhibition-once-again-suspended

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð fimmtudaginn 25. mars.

Ákvörðunin var tekin í ljósi minnisblaðs sóttvarnalæknis varðandi um tillögur að hertum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna COVID-19 til heilbrigðisráðherra, sem mun setja reglugerð sem tekur gildi frá og með 25. mars um hertar aðgerðir þar sem almennar fjöldatakmarkanir miðast m.a. við mest 10 manns og nándarregla miðast við 2 metra.

Í ljósi þessa, hefur stjórn ÍRA ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð frá og með morgundeginum, 25. mars þar til stjórnvöld heimila tilslakanir á ný.

Námskeiði félagsins til amatörprófs er frestað frá sama tíma.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

.

Frá fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu 24. mars um hertar sóttvarnaaðgerðir. Ljósmynd: Heilbrigðisráðuneytið.

Páskaleikar ÍRA 2021 verða haldnir helgina 2.-4. apríl n.k.

Meðal nýjunga að þessu sinni er sú breyting, að leikarnir hefjast föstudaginn 2. apríl kl. 18:00 og lýkur eftir tvo sólarhringa, sunnudaginn 4. apríl kl. 18:00.

Þessi breyting á tímasetningu er sú sama og var kynnt í VHF/UHF leikunum í fyrra og almenn ánægja var með.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, umsjónarmaður leikanna mun kynna reglurnar fljótlega á þessum vettvangi.

Stjórn ÍRA.

.

Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir fyrstu þrjú sætin í leikunum 2021. Myndin er af verðlaunagripum í fyrra (2020). Ljósmynd: TF3JB.

Námskeið ÍRA til amatörprófs 2021 var sett í félagsaðstöðunni í Skeljanesi mánudaginn 22. mars. Jón Björnsson, TF3PW, umsjónarmaður námskeiða ÍRA bauð viðstadda velkomna og veitti greinargóðar upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðsins. Þeir Hörður Mar Tómasson, TF3HM (sem annaðist kennslu fyrsta námskeiðskvöldið) og Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður ÍRA voru viðstaddir. Fjórtán þátttakendur voru mættir af alls nítján sem voru skráðir.

Námskeiðið hófst í beinu framhaldi sama kvöld (22. mars) og lýkur síðan með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar laugardaginn 15. maí. Prófnefnd setti upp og vann skipulag námskeiðsins í samvinnu við umsjónarmann. Kennt er þrjá daga í viku í Skeljanesi, þ.e. mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 18:30-21:30. Leiðbeinendur frá félaginu eru níu talsins.

Stjórn ÍRA þakkar prófnefnd, umsjónarmanni og leiðbeinendum aðkomu að þessu mikilvæga verkefni.

Stjórn ÍRA óskar þátttakendum góðs gengis.

Skeljanesi 22. mars 2021. Mynd frá setningu námskeiðs ÍRA til amatörprófs í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 25. mars n.k.

Grímuskylda er ásamt nálægðarmörkum. Aðgangur að QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga í einu og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Að höfðu samráði við sóttvarnaryfirvöld, verður á ný boðið upp á kaffiveitingar í sal.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Andlitsgrímur og handsótthreinsir eru í boði við inngang í sal.

CQ World Wide WPX keppnin, SSB-hluti, fer fram eftir viku. Þetta er tveggja sólarhringa keppni sem hefst á miðnætti laugardag 27. mars og lýkur á miðnætti sunnudag 28. mars. Keppnin fer fram á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörgum mismunandi forskeytum og frekast er unnt (VK1, VK2 o.s.frv.). Munur er gerður á stigagjöf eftir böndum, þ.e. QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig en 6 stig á 7, 3.5 og 1.8 MHz. Hvert forskeyti telst til margfaldara einu sinni (burtséð frá böndum).

CQ WPX keppnirnar eru með vinsælli alþjóðlegum keppnum og frábært tækifæri til að bæta í DXCC og WPX söfnin!

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.cqwpx.com/rules.htm

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Skráning á námskeið ÍRA til amatörprófs hefur verið opnuð á “ira hjá ira.is”.

Námskeiðið verður haldið frá 22. mars til 12. maí n.k. og lýkur með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis laugardaginn 15. maí. Kennsla fer fram mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 18:30-21:30. Staðsetning verður tilkynnt fljótlega.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Skráningu fylgir engin skuldbinding.

Fyrirspurnum má beina til Jóns Björnssonar, TF3PW, umsjónarmanns námskeiða félagsins.  Tölvupóstfang „nonni.bjorns hjá gmail.com“.

Þeir sem þegar hafa skráð sig hjá félaginu eru beðnir um að staðfesta þátttöku.

Stjórn ÍRA.

VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR 19.3.2021:
Námskeið ÍRA til amatörprófs fer fram í félagsaðstöðunni við Skeljanes fyrst um sinn. Námskeiðið verður sett mánudaginn 22. mars kl. 18:30. Þeir sem ekki hafa náð að skrá sig fyrir þann tíma geta mætt og skráð þátttöku á staðnum.

Frá námskeiði ÍRA til amatörprófs í Háskólanum í Reykjavík. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX stendur fyrir stafni. Ljósmynd: TF3JB.