Til fróðleiks voru teknar saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 3.-9. janúar 2021. Kallmerki birtast þar hafi leyfishafi haft samband og/eða heyrt í viðkomandi TF kallmerki og skráð það, auk þess sem hlustarar setja inn skráningar.

Þessa viku voru skilyrði ekkert sérstök á HF þannig að yfirleitt er meiri virkni hér á landi sem annars staðar ef böndin eru „lifandi“. Upplýsingarnar eru fengnar á vefsíðunni: http://www.dxsummit.fi/#/  Taka ber fram, að fleiri sambærilegar síður eru í boði á netinu og sem skoða má til samanburðar.

Samkvæmt ofangreindu voru 14 TF kallmerki skráð þessa viku. Flestar stöðvarnar voru virkar á stafrænum mótunum og RTTY, en einnig á morsi (CW) og tali (SSB). Stöðvarnar voru virkar á 15, 17, 20, 40, 60 og 80 metrum.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A – SSB – 80 metrar
TF1AM – RTTY – 15 og 20 metrar
TF1EIN – FT8 – 80 metrar
TF1OL – FT8 – 60 metrar
TF2CT – FT4 – 40 og 80 metrar
TF2MSN – RTTY/FT8 – 17, 30 og 60 metrar
TF3AO – RTTY – 15 og 20 metrar
TF3IG – FT4 – 20 metrar
TF3JB – FT8 – 30 metrar
TF3LB – CW/FT8 – 15, 17 og 30 metrar
TF3MH – FT8 – 30 metrar
TF3PPN – FT8 – 17 metrar
TF3VG – FT8 – 17 metrar
TF5B – FT8 – 17, 30 og 40 metrar

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af Reyni Björnssyni TF3JL, þegar hann tók þátt í TF útileikunum 2020 á morsi frá félagsstöðinni TF3IRA í Skeljanesi ásamt fleiri félagsmönnum. Ljósmynd: TF3JB.

Brynjólfur Jónsson, TF5B hafði alls 30.103 QSO á árinu 2020. Samböndin voru öll höfð á FT8 samskiptareglum undir MFSK mótun. Fjöldi DXCC eininga varð alls 156 og fjöldi staðfestra DXCC eininga alls 151. Forskeyti voru alls 1.956 og CQ svæði 39.

Þess má geta að Billi missti niður hluta loftneta sinna um miðjan desember 2019 og varð ekki að fullu QRV á ný fyrr en í maímánuði (2020) þegar voraði á ný. Sjá má myndir af loftnetum hans eftir óveðrið og eftir að þau höfðu verið viðgerð og enduruppsett á bls. 42 í 3. tbl. CQ TF 2020. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/06/cqtf_34arg_2020_03tbl.pdf

Flest sambönd voru höfð á 30 metrum, eða 8.729. Þrjú bönd voru með ámóta mikinn fjölda sambanda, þ.e. 40 metrar 5.159 QSO; 20 metrar 6.391 QSO og 17 metrar 5.128 QSO.

Skipting sambanda: Evrópa 23.819 QSO, N-Ameríka 2.982 QSO, Asía 2.643 QSO, Afríka 140 QSO, S-Ameríka: 263 QSO og Eyjaálfa: 256 QSO.

Loftnet TF5B eftir viðgerð í maí 2020. Fritzel Fritzel FB-33, 3 staka Yagi loftnet fyrir 14, 21 og 28 MHz; Fritzel tvípóll fyrir 10, 18 og 24 MHz; Hamstick tvípóll (láréttur) fyrir 3.5 MHz; Hamstick tvípóll (láréttur) fyrir 1.8 MHz og Diamond X-30 stangarloftnet fyrir 144/430 MHz. Ljósmynd: Brynjólfur Jónsson TF5B.

Næsta tölublað CQ TF, 1. hefti þessa árs, kemur út fimmtudaginn 28. janúar n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur er til 16. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Áramótakveðjur og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Kallmerkið TF3YOTA var aftur virkjað í dag (29. desember) um gervihnöttinn ES‘hail-2 / Oscar 100. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, setti stöðina í loftið frá Skeljanesi en hún var síðast QRV um gervitunglið þann 1. desember s.l. Hún hafði að þessu sinni sambönd við alls 95 stöðvar, þ.á.m. á öllum Norðurlöndunum, annars staðar í Evrópu, Afríku, Austurlöndum nær (fyrir botni Miðjarðarhafs), Asíu og í Suður-Ameríku.

Svo skemmtilega vildi til, að eitt af fyrstu samböndunum var við Ninu Riehtmüller, DL3GRC. En Nina heimsótti félagsaðstöðuna í Skeljanesi 5. september í fyrra (2019) og varð fyrsta konan til að virkja TF3IRA í gegnum Oscar 100. Það urðu því fagnaðarfundir þegar þær Elín náðu saman í gegnum gervitunglið. Nina bað Elínu fyrir bestu kveðjur til félagsmanna ÍRA og sagðist hlakka til að koma aftur í heimsókn til Íslands sumarið 2021.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins aðstoðaði Elínu og birti „vefstreymi“ á FB þar sem hægt var að fylgjast með samskiptunum frá TF3YOTA í gegnum gervitunglið í rauntíma.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ er ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri ásamt Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN. Frekari virkni er áformuð frá TF3YOTA fyrir áramót.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ virkjaði TF3YOTA í fjarskiptaaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 29. desember. Fjarskiptin fóru fram um Es’hail-2 / Oscar-100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.
Nina Riehtmüller DL2GRC í fjarskiptaherbergi TF3IRA 5. september 2019. Henni á hægri hönd er Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og á vinstri hönd, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Ljósmynd: TF3JB.

ÍRA hafa borist upplýsingar um að tíðnir á 80 metrum og 40 metrum hafa verið teknar til notkunar fyrir neyðarfjarskipti eftir jarðskjálftann (6.4 á Richter) sem varð í Petrinja í Króatíu í hádeginu í dag, 29. desember, u.þ.b. 50 km frá höfuðborginni Zagreb. Skjálftans var jafnframt vart í nágrannalöndum.

Tíðnirnar eru: 3.675 MHz og 7.125 MHz. Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til þessara forgangsfjarskipta, a.m.k. næstu daga.

Stjórn ÍRA.

Upptök skjálftans voru í Króatíu, en hans varð einnig vart í Bosníu Herzegoviníu, Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Ítalíu, Montenegro, Rúmeníu, Slóvakíu, Serbíu og Austurríki.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) seinkar að þessu sinni fram í mars 2021 vegna Covid-19 faraldursins. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2020/21 verður fimmtudagur 25. febrúar 2021. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 10 krónur á kort, sama verð hvert sem er í heiminum.

Fyrirvari er gerður ef aðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 hamla því að þessi áætlun gangi eftir.

Hátíðarkveðjur og 73,

Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

TF3IRA-1Ø, APRS stöð félagsins, hefur fengið stærra loftnet til afnota. Það er Diamond X-700HN VHF/UHF húsloftnet sem er 7.20 metrar á hæð, samsett úr fjórum “stökkuðum” 5/8 netum, með 9.3 dBi ávinning á VHF.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A annaðist breytinguna í samráði við Guðmund Sigurðsson, TF3GS VHF stjóra ÍRA í dag, 20. desember. Hugmyndin er að prófa þetta fyrirkomulag á meðan félagsaðstaðan er lokuð vegna Covid-19 faraldursins, a.m.k. til 14. janúar n.k. þegar líkur eru á að hægt verði að opna á ný í Skeljanesi.

Spennandi verður að fylgjast með APRS merkjum á 2 metra bandinu eftir þessa breytingu. Rétt eftir uppsetningu, kl. 17:56 (20.12) kom t.d. inn merki í Skeljanes frá TF1MT í 106 km fjarlægð (yfir Hellisheiðina) sem lofar góðu.

Bestu þakkir til þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS.

Stjórn ÍRA.

APRS stöð félagsins, TF3IRA-1Ø,  er fyrir miðju á myndinni. Stöðin er Icom IC-208H, 5-55W VHF/UHF FM stöð. APRS búnaður: GW-1000 (APRS Total Solution) frá CG-Antenna og aflgjafi frá MW. Ljósmynd: TF3JB.
Diamond X-700HN VHF/UHF loftnet TF3IRA var sett upp 16. ágúst í sumar. Það var Geoerg Kulp TF3GZ sem annaðist uppsetningu og frágang. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári 2021.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 14. janúar n.k. ef aðstæður leyfa.

Stjórn ÍRA.

Jón Björnsson, TF3PW bauð til síðasta netspjalls ársins 2020 fimmtudaginn 17. desember. Notað var vefforritið Zoom sem sækja má frítt á netið.

Góð mæting var og skráðu sig 11 félagsmenn á fundinn sem stóð í rúmar 2,5 klst. Flestir voru Í Reykjavík, en einnig mættu félagar á Reykjanesi, Suðurlandi og Vesturlandi.

Þótt ekki hafi verið sett upp dagskrá fyrirfram skorti ekki umræðuefni. Rætt var m.a. um tækin, SDR viðtæki, loftnet, truflanir, starfrækslu yfir netið, alþjóðlegar keppnir og um skilyrðin.

Bestu þakkir til Jóns Björnssonar, TF3PW. Þetta var 4. fimmtudagskvöldið sem menn hittust á þennan hátt, þar sem Jón efndi einnig til spjalls 10. desember og 26. nóvember s.l., en Ágúst H. Bjarnason, TF3OM reið fyrstur á vaðið með netspjall 19. nóvember s.l. Skemmtileg tilbreyting og vel heppnaður viðburður.

Stjórn ÍRA.

Með batnandi skilyrðum á HF er spennandi að fylgjast með skilyrðunum á 10 metrum, t.d. með því að hlusta eftir merkjum frá þeim mörgu radíóvitum sem þar eru í boði.

Einn þeirra er 7Z1AL/B sem nú hefur hefur verið gangsettur á ný. QRG er 28.212 MHz. Sendiafl er 10W og loftnet er ¼-λ stangar-loftnet. Lyklun: “ID-O-Matic II”. QTH er borgin Dammam í austur-hluta Sádí-Arabíu.

Staðsetning (Maidenhead grid locator): LL56ak. CQ svæði: 21. Fjarlægð frá TF: Um 6.500 km.

Listi yfir radíóvita á 28 MHz:  https://www.qsl.net/wj5o/bcn.htm

Jón Björnsson, TF3PW býður upp á netspjall fimmtudaginn 17. desember kl. 20:00. Líkt og áður verður  vefforritið ZOOM notað sem sækja má frítt á netið. Þátttaka er möguleg frá tölvu eða GSM síma.

Engin sérstök dagskrá er fyrirhuguð, en hugmyndin er að prófa samskiptin ef áhugi er fyrir hendi. Sjá upplýsingar neðar. Þetta verður fjórða vefspjallið hingað til.

Stjórn ÍRA.

Jon Bjornsson is inviting you to a scheduled Zoom meeting. Join Zoom Meeting:
https://us05web.zoom.us/j/85351276103?pwd=QUttM3p2dkNQcGpKZFZpWVdWNk5TUT09

Meeting ID: 853 5127 6103
Passcode: 4phB6X