,

Alþjóðadagur radíóamatöra er í dag, 18. apríl

Í dag fagna radíóamatörar sínum alþjóðadegi, World Amateur Radio Day. IARU, International Amateur Radio Union var stofnað á þessum degi, 18. apríl 1925.

Radíóamatörar hafa stigið inní 21. öldina.  Á innan við 100 árum hefur radíóamatörinn þróast úr hrárri neistasendatækni í heim stafrænna merkja og hugbúnaðar sendi-viðtækja. Á fyrstu áratugum radíótækninnar stóð val amatörsins milli tals og morse en í dag getur amatörinn valið um að nota ýmiskonar aðferðir til samskipta allt frá sjónvarpi til skeytasendinga með hjálp tölva sem lesa merkin uppúr suði.

Stafrænar merkjasendingar hafa tekið stökkbreytingum. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar til ársins 1980 var rtty, radíófjarritun eina stafræna mótunaraðferðin í notkun hjá radíóamatörum. Á árinu 1980 kom AMTOR fram á sjónarsviðið í kjölfar einkatölvanna og smárans.  AMTOR var fyrsta stafræna samskiptatæknin sem innihélt villuleiðréttingu.

Þróunin verður sífellt hraðari, Packet Radio, PACTOR, G-TOR og PSK31 eru heiti sem flestir radíóamatörar kannast vel við í dag.

Nokkuð dró úr notkun Packet Radio undir lok síðustu aldar. Hins vegar hefur tæknin nú endurfæðst í vinsældum  APRS, Automatic Packet Reporting System og hefðbundin pakkaskift  fjarskipti eru smá saman að yfirtaka öll fjarskiftakerfi þvert ofan í spár og áætlanir stóru fjarskiptatækjaframleiðandanna og gömlu símarisanna.

Við getum þakkað einstökum eldheitum radíóáhugamönnum að nú hafa radíóamatörar sambönd á VHF og UHF tíðnum um langar leiðir og  nýta til þess jafnvel endurkast frá tunglinu, gamla mánanum okkar, með hóflegum búnaði. Venjuleg tölva, einföld radíótæki og hugbúnaður sem hægt er að sækja ókeypis á internetið er allt sem þarf.

Þessi þróun hefur leitt til vaxandi áhuga á tilraunum með stafræn fjarskipti á HF, VHF, UHF og örbylgjutíðnum.

Japanska radíóamatörsambandið hefur á undanförnum áratug þróað D -STAR stafrænan staðal fyrir tal og skilaboðasamskifti radíóamatöra sem valdið hefur flóðbylgju í byggingu stafrænna endurvarpakerfa meðal amatöra um allan heim en fleiri staðlar/kóðunaraðferðir eru í boði og ríkir óvissa um hver þeirra verður vinsælastur.

Ýmis konar virkni okkar radíóamatöra í tilefni af deginum er frábært tækifæri til að upplýsa heiminn hvað radíóamatörar “Hams” eru að fikta við á 21. öldinni.

Til hamingju með daginn og munum að stutt er í sumarið.

88 es 73 de TF3JA

…þýdd og endursögð frétt af heimasíðu IARU

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

seventeen − one =