Andrés Þórarinsson, TF1AM mætti í Skeljanes fimmtudaginn 1. febrúar með með erindið: “Heppilegar tíðnir á stuttbylgju til innanlandsfjarskipta“.
Sýndar voru myndir frá gömlu góðu Víbon-tímunum þegar hver bíll var með sitt Gufunes-loftnet á þakinu. Rakin voru nokkur dæmi um fjarskipti úr leitum og frá radíóæfingum og árangur tengdur við stöðu himinhvolfana þann daginn, þ.e. fjölda sólbletta, kyrrð (eða ókyrrð) í segulsviði, norðurljós, K-stuðul o fl. Ekkert augljóst samhengi er á meðal þessara þátta.
Þá var vísað í viðamiklar rannsóknir á vegum Bandaríkjamanna sem ásamt öðrum ráku háloftastöðvar víða um heim, en þessar stöðvar sendu tíðnisvíp upp og mældu tímann sem tók fyrir merkið að koma aftur niður, þannig má finna hæstu tíðni (MUF) sem hægt er að nota svo og hæð endurvarpsbelta og var samantektin var gefin út í þremur þykkum heftum.
Svíar gáfu út hefti þar sem spáð var fyrir um heppilegustu tíðni allt eftir tíma dags, mánuði og eftir sólblettum. Niðurstaðan af öllu þessu er sú að að sumarlagi má trúlega nota eina tíðni allan sólarhringinn til fjarskipta um allt land með loftbylgju, en á vetrum er allt annað upp á teninginn þar sem velja þarf sífellt hærri tíðni frá sólarupprás og fram að hádegi og síðan sífellt lægri tíðni allt fram í myrkur. Ef miklar truflanir að nóttu eru þá gæti verið ráð að nota lóðrétta stöng fyrir jarðbylgju og jafnvel hlusta á lárétt net sem síður eru næm fyrir truflunum.
Að lokum var bent á TF útileika ÍRA sem heppilegan vettvang til að æfa þessa tækni alla, auðvitað væri áhugavert ef útileikarnir væru síðar um haustið þegar frekar þarf að flakka á milli tíðna. Erindinu var vel tekið og talsvert spurt. Alls voru um 30 manns í sal og 11 fjartengdir yfir netið. Á eftir sátu menn og spjölluðu um þessi mál og um heima og geima.
Sérstakar þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM fyrir afar fróðlegt, áhugavert og vel flutt erindi sem veitti góða innsýn inn í þennan spennandi þátt áhugamálsins, sem útbreiðsla radíóbylgna á stuttbylgju er innanlands. Einnig sérstakar þakkir til Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY fyrir tæknistjórn við að streyma viðburðinum. Alls tóku 42 félagar og gestir þátt í viðburðinum þetta frábæra fimmtudagskvöld í Skeljanesi; 30 á staðnum og 12 tengdir yfir netið.
Stjórn ÍRA.