Yngvi Harðarson, TF3Y stillir Harris RF magnarann í félagsaðstöðunni í gærkvöldi.

Sigurður Jakobsson, TF3CW íhugull á svip við Yaesu FT-1000MP stöðina.

Allt gekk á afturfótunum um tíma í fjarskiptaherbergi félagsins í gærkvöldi (fimmtudagskvöldið 8. júlí) þegar menn mættu til að yfirfara fjarskiptabúnað félagsins fyrir þátttöku í IARU HF World Championship keppninni um helgina. Myndirnar hér að ofan voru einmitt teknar áður en málin voru leyst og menn voru frekar þungbúnir á svip… En með sameiginlegu átaki þeirra Sigurðar Jakobssonar TF3CW, Yngva Harðarsonar TF3Y og Sveins Braga Sveinssonar, TF3SNN stöðvarstjóra, voru málin farsællega leyst og er stöðin nú QRV fyrir keppnina.

Sigurður Jakobsson, TF3CW, mun starfrækja TF3HQ á morse í keppninni. Vart þarf að kynna Sigurð fyrir félagsmönnum, en hann er okkar reynslumesti keppnismaður (jafnt á CW sem PHONE). Hann hefur náð frábærum árangri og er margfaldur verðlaunahafi í alþjóðlegum keppnum í gegnum árin (t.d. í ARRL, CQWW, WPX og SAC keppnunum). Þá hefur hann verið hluti af keppnishópi Pekka Kolehmainen, OH1RY, (frá AO8A), auk þess að hafa tekið þátt í DX leiðöngrum til Kyrrahafsins.

Hugmyndin var upphaflega að stefna að fjöldaþátttöku félagsmanna í keppninni frá TF3HQ í félagsaðstöðunni og var tilkynning þess efnis kynnt á heimasíðu og póstlista félagsins með góðum fyrirvara í síðasta mánuði, en ekki náðist næg þátttaka. Hugmyndin er, að bjóða á ný til fjöldaþátttöku í keppnum frá félagsstöðinni í haust og í vetur sem e.t.v. er heppilegri tímasetning.

IARU HF World Championship keppnin fer fram 10. til 11. júlí. Þetta er sólarhringskeppni og hefst kl. 12 á hádegi laugardaginn 10. júlí og lýkur kl. 12 á hádegi sunnudaginn 11. júlí. Flest landsfélög radíóamatöra í heiminum starfrækja klúbbstöðvar sínar með kallmerkjum sem hafa viðskeytið “HQ”. Í.R.A. fékk fyrir nokkru sérstaka heimild PFS til notkunar á kallmerkinu TF3HQ í keppninni.

TF2JB

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nýlega úthlutað eftirfarandi nýjum kallmerkjum:

TF3BH. Sérstakt kallmerki vegna rekstrar sameiginlegrar stöðvar í húsakynnum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Áb.m.: Lárus Björnsson, TF3LRN.
TF3CL. Leyfishafi: Claudio Corcione (KJ4MLX og IC8BNR). Claudio fær úthlutað G-leyfisbréfi til 1 árs þar sem hann uppfyllir kröfur í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar um framvísun samræmds prófskírteinis (HAREC) og dvalarlengd.
TF3LRN. Leyfishafi: Lárus Björnsson. Lárus stóðst N-próf þann 10. apríl s.l.

Í.R.A. óskar ofangreindum aðilum til hamingju með ný kallmerki.

Eftirtalin kallmerki sem voru til úthlutunar fyrir nokkru verða til notkunar í þessum mánuði (júlí 2010):

TF3HQ. Sérstakt kallmerki vegna rekstrar sameiginlegrar stöðvar í húsakynnum Í.R.A. í IARU HF World Championship keppninni 2010 10.-11. júlí n.k. (sólarhrings starfræksla). Áb.m.: Jónas Bjarnason, TF2JB, f.h. Í.R.A.
TF7X. Sérstakt kallmerki vegna rekstrar sameiginlegrar stöðvar í Vestmannaeyjum í IOTA keppninni 2010 24.-25. júlí n.k. (sólarhrings starfræksla). Áb.m.: Guðlaugur K. Jónsson, TF8GX, f.h. Radíóklúbbs Reykjaness.

 TF2JB

TF3RPB Páll, endurvarpi bláfjöllum.

Endurvarpinn TF1RPB í Bláfjöllum er kominn í lag, vinnur eðlilega og hefur verið færður á nýja tíðni, 145.750 MHz.

Sigurður Harðarson, TF3WS, lagði á fjallið snemma í morgun (29. júní), skipti um endurvarpa, “cavity” síu og loftnet og stillti
á nýju vinnutíðnina.

VHF Engineering endurvarpanum var skipt út fyrir endurvarpa af Zodiac gerð. “Cavity-síunni” var einnig skipt út fyrir aðra
(þar sem sú eldri hafði orðið fyrir eldingu). Þá var skipt um loftnet (þar sem það eldra var brotið). Augljóst er, að mikið hefur
gengið á uppi á fjallinu í vetur. Nýja loftnetið er bráðabirgðaloftnet og er stefnt að því að fara á ný á fjallið við tækifæri og setja
upp stærra loftnet.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði fyrir frábæra aðstoð.

 TF2JB

Benedikt Sveinsson, TF3CY, lauk nýlega við smíði 6 stika Yagi loftnets á 7 metra langri bómu á 50.100 MHz fyrir EME vinnu. Hann hafði þá verið í netsambandi við Lance Collister, W7GJ, sem býr í Montanaríki í Bandaríkjunum. En Lance þessi hefur bæði DXCC á 2 metrunum og 6 metrunum (u.þ.b. 2/3 hlutar DXCC sambanda hans á 6 metrum eru höfð með EME).

Þann 19. júní var afstaða tunglsins rétt miðað við nauðsynlega útreikninga til að hafa QSO á milli Montana og Reykjavíkur með því að stefna merkjum á 6 metra bandinu á tunglið og ákváðu þeir Benedikt og Lance að hafa SKED. Til að gera langa sögu stutta, þá heyrði Benedikt merkin frá Lance, en merki Benedikts heyrðust ekki á hinum endanum. Loftnet Lance eru reyndar ekki af verri endanum, en hann notar fjögur 9 stika Yagi loftnet sem eru fösuð saman (í ferning). Tegund útgeislunar sem er notuð í EME samböndum er JT65a.

Málið er mjög spennandi og var mikið rætt í félagsaðstöðu Í.R.A. í gærkvöldi (fimmtudag) og var Benedikt eðlilega mjög ánægður með þennan árangur. Hann er bjartsýnn á að það sé hægt að hafa EME QSO á 6 metrum við W7GJ jafnvel á 100W með ofangreindu loftneti, en hefur þegar hafið smíði á magnara á 6 metrunum til að gera sér málið auðveldara. (Til skýringar: Heimildir okkar á 6 metrum miðast í dag við 100W auk þess sem aðgangur okkar að bandinu er á víkjandi grundvelli. Tengiliður Í.R.A. gagnvart PFS hefur verið í sambandi við stofnunina og eru góðar líkur á veitingu sérstakra tímabundinna heimilda til notkunar á auknu afli á bandinu).

Hamingjuóskir til Benedikts með þann árangur sem þegar er í höfn. Margir félagsmenn munu fylgjast með þessum áhugaverðu tilraunum. Sjá nánar upplýsingar á heimasíðu Benedikts og ljósmyndir, sem er: http://www.tf3cy.is/

TF2JB

Þess er að vænta að mælingar á K-gildi frá Segulmælingarstöðinni í Leirvogi sem TF3MA (SK) hafði forgöngu um á sínum tíma fari á ný að berast inn á heimasíðuna.

Boðað var á þessum vettvangi 23. júní að uppfærsla gagna yrði komin í lag þann dag síðdegis. Nú er komið í ljós, að frekari seinkun verður vegna tölvutenginga.

Væntanlega verður aðeins um að ræða örfáa daga. Beðist er velvirðingar á því.

Minnt er á skilafrest efnis í júlíhefti CQ TF, sem er fyrir lok nk. sunnudags, 20. júní. Hafið samband við undirritaðan ef þið hafið spurningar eða eruð með efni í undirbúningi – sem auðvitað er alltaf vel þegið!

Ég bið um að efni verði sent á netfangið cqtf@ira.is, en ef sent er á eldra netfangið ætti það líka að skila sér.

73 – Kiddi, TF3KX
GSM 825-8130

Frá aðalfundi Í.R.A. 2010. Andrés, TF3AM, fundarritari er lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd: TF3G.

Fundargerð aðalfundar Í.R.A. 2010 er komin á heimasíðuna. Hana má nálgast með því að fara undir “Félagið og svo fundargerðir” og smella á Aðalfundirþ Bestu þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF3AM, fundarritara.

TF2JB

Allt klárt, loftnetin komin upp og verkefninu lokið kl. 17. TF3KX, TF3SNN, TF3EE og TF1JI. Ljósmynd: TF3LMN.

Hópur röskra manna undir stjórn Sveins Braga Sveinssonar, TF3SNN, stöðvarstjóra Í.R.A. mættu í Skeljanesið 2. júní eftir hádegið í frábæru sumarveðri og settu upp VHF og UHF Yagi loftnet félagsins. Auk Sveins, komu þeir Jón Ingvar Óskarsson, TF1JI; Erling Guðnason, TF3EE; og Kristinn Andersen, TF3KX. Sveinn Bragi og Jón Ingvar höfðu áður undirbúið verkefnið (ásamt fleirum) með smíði festinga og annarri samsetningarvinnu loftneta, formagnara og rótors. Sjá fleiri myndir og nánari upplýsingar hér fyrir neðan.

Gengið frá síðustu herslum á festingunum. TF3KX, TF3SNN, TF1JI og TF3EE. Ljósmynd: TF3LMN.

Kústarnir komu í góðar þarfir á síðustu metrunum! TF3KX, TF3SNN, TF1JI og TF3EE. Ljósmynd: TF3LMN.

Gengið frá köplum og öðrum festingum. TF3SNN og TF1JI. Ljósmynd: TF3LMN.

Loftnetin eru frá framleiðandanum M2 og eru hringpóluð Yagi loftnet. VHF netið er af 2MCP14 gerð (14 elementa/10.2 dBdc ávinningur) og UHF netið er af 436CP30 gerð (30 elementa/14.15 dBdc ávinningur). Rótorinn er af tegundinni Yaesu G-5400B og er sambyggður rótor fyrir lóðréttar/láréttar loftnetastillingar. Með rótornum fylgir fjölstillikassi (Elevation Azimuth Dual Controller) sem má tengja við og stýra með tölvu. Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, lánar félaginu rótorinn. Loks má geta VHF og UHF formagnaranna, sem eru frá SSB-Electronic í Þýskalandi. Mögnun er 20 dB/0,8 dB suðhlutfall á VHF og 20 dB/0,9 dB suðhlufall á UHF.

Nýju VHF/UHF loftnetin eru hugsuð til að byrja með til fjarskipta gegnum gervitungl radíóamatöra með Kenwood TS-2000 stöð félagsins sem getur gefið út 100W á 144-146 MHz og 50W á 430-440 MHz.

Stefnt er að því að ljúka frágangi stýrikapla og öðrum stillingum um aðra helgi, þ.e. 12.-13. júní n.k.

TF2JB

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Í.R.A. starfsárið 2010-2011 var haldinn þriðjudaginn 1. júní 2010 í félagsaðstöðunni við Skeljanes.
Stjórnin skipti með sér verkum á fundinum og er skipan embætta sem hér segir á nýju starfsári:

Embætti Nafn stjórnarmanns Kallmerki Leyfisbréf
Formaður Jónas Bjarnason TF2JB 80
Varaformaður Erling Guðnason TF3EE 187
Ritari Sæmundur Þorsteinsson TF3UA 90
Gjaldkeri Gísli G. Ófeigsson TF3G 105
Meðstjórnandi Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN 265
Varastjórn Jón Ingvar Óskarsson TF1JI 173
Varastjórn Kjartan H. Bjarnason TF3BJ 100

Á fundinum var jafnframt staðfest skipan embættismanna sem skýrt verður frá innan tíðar, auk annarra mála.

TF2JB

Er að taka saman kort í sendingu sem fer fyrir 15 júní.  Vinsamlegast skilið inn kortum sem eiga að komast með.

73

Guðmundur, TF3SG