Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis fór fram í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 11. nóvember.

Alls þreyttu þrettán prófið. Í raffræði og radíótækni náðu 10 fullnægjandi árangri, 7 til G-leyfis og 3 til N-leyfis. Í Reglum og viðskiptum náðu allir 10 fullnægjandi árangri til G-leyfis.

Arnar Þór Egilsson, 270 Mosfellsbær (G-leyfi).
Gísli Guðnason, 270 Mosfellsbær (G-leyfi).
Greppur Torfason, 225 Álftanes (G-leyfi).
Jón Svan Grétarsson, 270 Mosfellsbær (N-leyfi).
Jónas I. Ragnarsson, 200 Kópavogur (G-leyfi).
Pier Kaspersma, 221 Hafnarfjörður (N-leyfi).
Valdimar Óskar Jónasson, 210 Garðabær (G-leyfi).
Þorkell Máni Þorkelsson, 113 Reykjavík (G-leyfi).
Þór Eysteinsson, 101 Reykjavík (G-leyfi).
Þröstur Ingi Antonsson, 251 Suðurnesjabær (N-leyfi).

Viðkomandi eru þessa dagana að senda umsóknir til Fjarskiptastofu um kallmerki. Upplýsingar um úthlutuð kallmerki verða birtar fljótlega.

Innilegar hamingjuóskir og velkomnir í loftið!

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes laugardaginn 11. nóvember með erindið „Fræðsla um QO-100 og farið í loftið frá TF3IRA“.

Hann flutti stuttan inngang, þar sem m.a. kom fram að gervitunglið QO-100 er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að tunglið er ætíð á sama stað séð frá jörðu. Þess vegna geta radíóamatörar stundað fjarskipti um tunglið allan sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink). Hægt er að nota CW, FT8 og SSB og bandbreiðari sendingar, s.s. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl. QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Eftir fróðlegan inngang og svör við spurningum sýndi Ari DXpatrol tækið sem er nánast „galdratæki“ og gengur næst því að vera „plug and play“ eins og sagt er. Það var fyrst kynnt á sýningunni í Friedrichshafen í sumar (2023) og er „full duplex“. Ari sýndi það tengt við Icom IC-7100 stöð sem hann keyrði á 28 MHz – í gegnum 85 cm diskloftnet (staðsett við glugga í austurátt) í salnum í félagsaðstöðunni. Aðeins tók augnablik að finna gervitunglið. Stór munur er, að ekki þarf lengur SSB stöð á 2M eða 70 sentímetrum þar sem nota má t.d. HF sendi-/móttökustöð á 10M, 6M eða hærri böndum. Vefslóð: https://dxpatrol.pt/produto/dxpatrol-full-duplex-qo-100-groundstation/

Til gamans voru höfð sambönd um QO-100 frá stöðinni í salnum við TF3AWS sem var QRV gegnum tunglið frá gervihnattastöð TF3IRA á hæðinni fyrir ofan (u.þ.b. 42 þúsund km fjarlægð x 2). Þar var TF3AWS á hljóðnemanum og niðri TF1A, TF3UA, TF3TB, TF3ID og TF3JB á hljóðnema.

Sérstakar þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir vel heppnaðan og ánægjulegan laugardag. Alls mættu 11 félagar og 1 gestur í Skeljanes í mildu og fallegu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

85 cm diskloftnetinu var stillt upp við gluggan í salnum sem snýr í austur. Í fjarska má greina Hustler 6BTV stangarloftnet TF3IRA.
Ari stillir upp og tengir DXpatrol “transverter’inn” og Icom IC-7100 stöðina. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA fylgist með og Jón Björnsson TF3PW gerir myndbandsupptöku.
Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW (standandi), Kristján Benedikitsson TF3KB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Börkur Karlsson, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS virkjaði TF3IRA yfir QO-100 gervitunglið frá fjarskiptahergi félagsins á hæðinni fyrir ofan.
Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA hefur samband við TF3IRA um QO-100 gervitunglið sem er í 42 þúsund km fjarlægð. Ari Þórólfur TF1A fylgist með.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB hefur samband við TF3IRA um QO-100 gervitunglið.
Í fundarhléi sýndi Ari okkur nýjan „transvert‘er“ sem kominn er á markað fyrir Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtæki fyrir 60 MHz til 3,8 GHz – sem opnar HF böndin til viðbótar hærri böndunum. Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Í fundarhléi sýndi Ari margt fleira, m.a. mismunandi gerviálög (e. dummy load) sem ekki stóðust öll tæknilegar upplýsingar. Myndir: TF3JB.

Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis var haldið í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 11. nóvember. Alls þreyttu 13 próf í raffræði og tækni og 12 próf í reglum og viðskiptum. Niðurstöður verða birtar á þessum vettvangi strax í byrjun næstu viku.

Upphaflega var 31 þátttakandi skráður í námskeið ÍRA í haust. Af þeim mættu 26 til kennslu. Þar af skráðu 18 sig til prófs og 13 mættu á prófstað eða 50%.

Námskeið til amatörprófs er stærsta verkefni sem ÍRA tekst á hendur hverju sinni. Sérstakar þakkir til allra sem gerðu námskeiðshald félagsins haustið 2023 mögulegt.

Stjórn ÍRA.

Kennslustofa M121 í Háskólanum í Reykjavík kl. 10:00 í morgun (laugardag). TF3KX bauð nemendur velkomna ásamt TF3VS og síðan var prófblöðum dreift. Mynd: TF3JB.

Félagsfundur var haldinn í Skeljanesi 9. nóvember. Á dagskrá var að skýra frá loftnetaframkvæmdum fyrir félagsstöðina TF3IRA í sumar, ræða málefni um endurúthlutun kallmerkja eftir lát leyfishafa og önnur mál.

Jónas Bjarnason, TF3JB formaður ÍRA setti fundinn kl. 20:30 og gerði tillögu um Vilhjálm Í. Sigurjónsson, TF3VS sem fundarstjóra og Sæmund E. Þorsteinsson, TF3UA sem fundarritara. Báðir voru kjörnir með lófaklappi.

TF3VS tók síðan við stjórn fundarins og var TF3JB fyrstur á mælendaskrá og sýndi og fór yfir glærur með upplýsingum um félagsstöðina, annars vegar í ljósi sögunnar en ÍRA hefur rekið TF3IRA í 58 ár. Hins vegar var farið yfir stöðuna í dag og þær miklu framkvæmdir sem fram fóru í sumar með uppsetningu þriggja nýrra loftneta og lagfæringar á því fjórða. Sjá nánar PowerPoint skjal hér: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/11/IRA-felagsfundur-9.11.2023-1.pdf

TF3JB fór ennfremur yfir glærur með upplýsingum um endurúthlutun kallmerkja. Fram kom m.a. að vinnuregla sem farið er eftir í dag, má rekja til samþykktar aðalfundar 1981 sem er að kallmerkjum látinna félaga verði ekki úthlutað á ný fyrr en að 20 árum liðnum. Fjarskiptastofa gerir ekki athugasemd við þessa vinnureglu. Sjá nánar PowerPoint skjal hér: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/11/Enduruthlutun-kallmerkja.pdf

Í fundarhléi var dreift var 24 bls. samantekt um loftnetaframkvæmdir sumarsins á prentuðu formi. Um var að ræða samantekt í tveimur hlutum. Sjá PowerPoint skjal hér: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/11/Loftnet-IRA-sumar-2023-1.pdf

Í umræðum kom fram mikil ánægja með framkvæmdir sumarsins. Ennfremur var rædd hugmynd um aðgang félagsmanna að búnaði stöðvarinnar utan opnunardaga á fimmtudögum og yfir netið. Nokkrar umræður urðu um endurúthlutun kallmerkja sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að halda óbreyttu ástandi, þ.e. vinnureglan verði áfram 20 ár.

Undir liðnum önnur mál tilkynnti formaður, TF3JB um að Benedikt Guðnason, TF3TNT hafi nýlega keypt VHF/UHF endurvarpa og radíóvita TF3ML heitins af dánarbúinu. Ekki urðu umræður um það mál, en vísað var til þess en Benedikt mun mæta í Skeljanes fimmtudaginn 23. nóvember n.k. og kynna hugmyndir sínar um framtíðaruppbyggingu endurvarpakerfisins.

Skemmtilegur endur kvöldsins var að draga út rauðvínsflösku til eignar sem barst sem gjöf frá svissneskum radíóamatörum til félagsins þegar þeir voru á ferð hér á landi í haust. Sá heppni var Jón Svavarsson, TF3JON.

Alls sóttu 32 félagar fundinn, þ.e. 27 á staðnum og 5 sem tóku þátt yfir netið. Sérstakar þakkir til TF3VS fundarstjóra, TF3UA fundarritara og síðast en ekki síst til Hinriks Vilhjálmssonar, TF3VH sem annaðist tæknistjórn yfir netið.

Stjórn ÍRA.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS annaðist fundarstjórn af röggsemi.
TF3JB fór m.a. yfir markmið og lýsingu á verkefnum hvað varðar félagsstöð ÍRA.
TF3JB fór yfir glærur til kynningar á endurúthlutun kallmerkja.
Nokkrar umræður urðu um endurúthlutun kallmerkja. Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA fundarritari, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS fundarstjóri og Einar Kjartansson TF3EK.
Kristján Benediktsson TF3KB skýrði m.a. frá fyrirkomulagi mála í Noregi. Frá vinstri: Sveinn Goði Sveinsson TF3TB, Hinrik Vilhjálmsson TF3VH, Kristján Benediktsson TF3KB, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Hans Konrad Kristjánsson TF3FB.
Í stóra leðursófasettinu fyrir fundinn: Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Þórður Adolfsson TF3DT, Ársæll Óskarsson TF3AO og Pier A. Kaspersma TF3PKN.
Mikil ánægja varð þegar ljósmyndari félagsins, Jón Svavarsson TF3JON framvísaði “happdrættismiða” nr. 037 og rauðvínsflaskan góða var hans; Bordeaux Merlot vín (75 cl) frá Château Bois Pertuis í Frakklandi. Á mynd frá vinstri: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA fundarritari, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Jón Svavarsson TF3JON. Þakkir til TF3JON fyrir góðar ljósmyndir. Þessi mynd var reyndar tekin á myndavél hans af TF3VH.

Fræðsludagskrá ÍRA heldur áfram. Næsti viðburður verður í boði laugardaginn 11. nóvember kl. 14:00.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A kemur í Skeljanes og verður með: „Fræðslu um QO-100 gervitunglið og farið í loftið frá TF3IRA“.

Ari kemur með fullkomnasta „transverter‘inn“ sem í boði er í dag:  DXpatrol „Full Duplex QO-100 Groundstation 2.0“. Hann mun sýna samtengingu við Icom IC-7100 stöð sem hann keyrir á 28 MHz – gegnum innanhúss diskloftnet úr salnum í félagsaðstöðunni.

DXpatrol tækið er ótrúlega einfalt í notkun og er búið öllu sem þarf til að komast í loftið strax. Það er t.d. með GPS loftneti sem tryggir að tíðnin helst stöðug (auk þess að lesa rétt „grid square“), hefur innbyggðan standbylgju- og aflmæli, auk þess sem hægt er að stilla loftnetsdiskinn með tækinu (ekki þarf lengur sérstakan loftnetsmæli). Ari ætlar jafnframt að kynna  „remote“ stýringu sem hentar fyrir allar nýrri Icom stöðvar. Vefslóð: https://dxpatrol.pt/produto/dxpatrol-full-duplex-qo-100-groundstation/

Eftir prófun á tækjum og búnaði í salnum er í boði kaffi og veglegt meðlæti. Síðan verður farið upp á 2. hæð og höfð sambönd frá gervihnattastöð TF3IRA. Þar býðst mönnum að hafa samband um QO-100 um allan heim og mun Ari leiðbeina.

Þess má geta, að Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A náði nýlega þeim frábæra árangri að ná sambandi við og fá staðfest, 100 DXCC einingar (lönd) um gervihnetti. Ari er þar með fyrsti íslenski radíóamatörinn sem nær þessum árangri og sá 9. á Norðurlöndum. Hamingjuóskir til Ara!

Félagsmenn eru hvattir til að mæta.

Stjórn ÍRA.

DXpatrol “transverter’inn” er m.a. búinn 4″ snertiskjá í lit.
TF1A tók þátt í Vita- og vitaskipahelginni 2023 frá Knarrarósvita 19. ágúst s.l. um QO-100 gervitunglið. Þar prófaði hann í fyrsta skipti nýja DXpatrol “transverter’inn” sem kom frábærlega vel út. Ljósmynd: TF3VS.
Gervihnattastöð TF3IRA í Skeljanesi. Stöðin er nú í fullkomnu lagi eftir að loftnet var uppfært 22. ágúst s.l. þegar LNB var endurnýjað, auk þess sem “IceConeFeed v2“ frá Nolle var tengt. Ljósmynd: TF1A.

Fimmtudaginn 9. nóvember verður haldinn félagsfundur í ÍRA í Skeljanesi. Fundurinn hefst stundvíslega kl. 20:30.

Félagar sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með fundinum og tekið þátt yfir netið. Notað er forritið Google Meet. Smellt er á vefslóðina: https://meet.google.com/sdf-aeqt-ktf til að fá tengingu.

Fundarstjóri er Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS og tæknistjóri er Hinrik Vilhjálmsson, TF3VH.

Dagskrá:

1. Félagsstöð ÍRA í Skeljanesi.
2. Endurúthlutun kallmerkja eftir lát leyfishafa.
3. Önnur mál.

Húsið verður opnað kl. 20:00 QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið í Háskólanum í Reykjavík, stofu M121 laugardaginn 11. nóvember n.k. samkvæmt eftirfarandi:

10:00 – 12:00 Raffræði og radíótækni.
13:00 – 14:00 Reglur og viðskipti.
14:30 – Prófsýning.

Prófið er öllum opið og er þátttaka í námskeiði til amatörprófs ekki forsenda þess að sitja prófið.
ÍRA sendir inn lista fyrir þá sem taka þátt í yfirstandandi námskeiði og hafa staðfest skráningu í prófið.

Aðrir þurfa að tilkynna þátttöku í prófinu beint til Fjarskiptastofu á bæði þessi netföng:
hrh(hjá)fjarskiptastofa.is og bjarni(hjá)fjarskiptastofa.is – ekki síðar en fimmtudag 9. nóvember.

Eftirfarandi úrræði er í boði ef um það er beðið í síðasta lagi á miðvikudag með því að senda póst á ira@ira.is sem er stækkun prófgagna í A3.

1) Notið einfaldar reiknivélar, sem augljóslega geta ekki geymt gögn. Engin gögn eru leyfð.
2) Hafið með ykkur blýanta, strokleður og reglustiku sem hentar reiknigrafi.
3) Endanleg einkunn kemur frá Fjarskiptastofu á uppgefið netfang, annars heimilisfang.
4) Gætið þess að hvoru tveggja sé greinilega skrifað.
5) Engum rissblöðum er útbýtt, notið auðu hliðar prófblaðanna.

Með ósk um gott gengi.

Prófnefnd ÍRA.

Fræðsludagskrá ÍRA heldur áfram.

Fimmtudaginn 9. nóvember verður haldinn félagsfundur kl. 20:30. Fundarstjóri: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS. Fundinum verður streymt yfir netið (nánari upplýsingar þegar nær dregur).

Dagskrá:

  1. Félagsstöð ÍRA í Skeljanesi.
  2. Endurúthlutun kallmerkja eftir lát leyfishafa.
  3. Önnur mál.

Efni er í umsjá stjórnar.

Húsið verður opnað kl. 20:00 QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

Radíódót frá TF3WS er komið í hús. Margt af eigulegu dóti verður í boði á fimmtudag. Ljósmynd: TF3JB.   

Yngvi Harðarson, TF3Y mætti í Skeljanes sunnudaginn 5. nóvember með kynningu á Reverse Beacon Network (RBN). Hreint út sagt, frábær yfirferð hjá Yngva!

Verkefnið hófst fyrir 15 árum og hefur vaxið og dafnað síðan. RBN er upphaflega sett upp fyrir morsmerki en síðar hafa bæst við fleiri tegundir útgeislunar. Þegar leyfishafi sendir út morsmerki (t.d. CQ de TF3IRA á HF böndunum) má fara inn á síðu RBN og kalla fram upplýsingar um hvar og hversu vel merkið hefur heyrst. Að jafnaði eru u.þ.b. 250 stöðvar radíóamatöra QRV um allan heim sem hlusta allan sólarhringinn árið um kring. Þetta eru dýrmætar upplýsingar, hvort heldur menn eru í loftnetavinnu, gera tilraunir af öðru tagi eða hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna.

Yngvi fór vel í upphafið og yfir þróunina og lýsti því einnig þegar hann byrjaði með RBN þjónustuna hér á landi, en tveir leyfishafar bjóða þessa þjónustu á HF böndunum, TF3Y og TF4M. Eftir u.þ.b. klukkustundar óformlegt erindi og margar fyrirspurnir fluttu menn sig um set í fundarsalnum og Yngvi sýndi frekari upplýsingar á glærum í myndvarpanum.

Sérstakar þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y fyrir afar afar fróðlegan og skemmtilegan sófasunnudag í Skeljanesi. Alls mættu 10 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Kristján Benediktsson TF3KB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Benedikt Sveinsson TF3T, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Yngvi Harðarson TF3Y, Sigurður Harðarson TF3WS, Jón Már Jónsson og Þorvaldur Björnsson TF3TB.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Yngvi Harðarson TF3Y.
Yngvi sýndi okkur margar áhugaverðar glærur sem tengjast RBN verkefninu.
Veglegar kaffiveitingar voru í boði sem hæfa kaffi á messutíma, þ.e. nýbakaðar vínarbrauðslengjur frá Björnsbakaríi og smurð rúnstykki með osti og skinku, auk þess sem súkkulaði- og vanillu kremkex fylgdi. Ljósmyndir: TF3JB og TF3KB.  

Endurvarpinn TF3RPA var uppfærður 3. nóvember og er nú útbúinn með 88,5 Hz tónstýringu. (QRG: 145.600 MHz, RX -600 kHz). Endurvarpinn er jafnframt samtengdur með UHF hlekk við TF3RPJ og TF3RPB.

Endurvarpinn TF3RPK (QRG: 145.575 MHz, RX -600 kHz) hefur verið tekinn úr þjónustu frá sama tíma.

Þakkir til þeirra Benedikts Guðnasonar, TF3TNT og Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS sem lögðu á fjallið og sáu um þessar breytingar.

Stjórn ÍRA.

Yfirlitsmynd sem sýnir vel afstöðuna frá Skálafelli, sem er 760 metra hátt fjall norðaustur frá Reykjavík.