Stjórn félagsins hefur ákveðið að félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verði lokuð næsta fimmtudag, 12. nóvember vegna Covid-19.

Vísbendingar eru um að sóttvarnalæknir muni slaka á kröfum vegna farsóttarinnar í nýrri umsögn til heilbrigðisráðherra 16. nóvember n.k. (eða fyrr). Gangi mál á besta veg, ættum við að geta opnað á ný 19. nóvember n.k.

Stjórn félagsins hefur rætt um að bjóða upp á starfsemi á vegum félagsins yfir netið. Ákvörðun þess efnis verður kynnt sérstaklega verði útséð með opnun 19. nóvember n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Uppfærð staða fyrir nokkrar af eftirsóttustu viðurkenningum radíóamatöra:

CQ 5 banda Worked All Zones (5BWAZ):
TF3DC: 174 svæði; TF4M: 188 svæði og TF5B: 158 svæði.

CQ WPX Award of Excellence:
TF3Y (ásm. sérviðurkenningum fyrir 12, 17m, 30M) og TF8GX.

CQ USA COUNTIES AWARD:
TF4M (USA-500) og TF5B (USA-500).

ARRL DXCC 5 banda DXCC (5BDXCC):
TF3DC; TF3JB; TF3Y og TF4M.

ARRL DXCC Challenge:
TF2LL; TF3DC; TF3JB; TF3Y; TF4M; TF5B og TF8GX.

ARRL DXCC HEIÐURSLISTI:
TF3Y (344 DXCC einingar).

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

https://drive.google.com/file/d/1xVpo8UxpBLv3_29oyLQ48Z6ePAKmuOO1/view

Skilyrðin á HF hafa verið áhugaverð að undanförnu. Hærri böndin hafa lifnað og 12 metra bandið var t.d. opið í gær (6. nóvember) og 10 metrarnir við það að opnast.

Flux‘inn (SFI) stóð í 94 í morgun (7. nóvember) og er sama gildi spáð fyrir tvo næstu daga, sunnudag og mánudag. Þetta hæsta gildi sem hefur sést í meir en þrjú ár.

Sólblettafjöldi stendur í dag í 35.

https://www.solarham.net/

https://dx.qsl.net/propagation/

CQ World Wide DX SSB keppnin fór fram 24.-25. október s.l. 7 TF stöðvar skiluðu gögnum, 4 í jafn mörgum keppnisflokkum og 3 samanburðar-dagbókum (check-log).

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn (H) og áætlaðri stöðu yfir Evrópu (EU). Endanlegar niðurstöður verða birtar í maíhefti CQ tímaritsins 2021.

TF8TY, einmenningsflokkur, 20 metrar, háafl – 150/H; 61/EU.
TF3T, einmenningsflokkur, 80 metrar, háafl – 26/H; 19/EU.
TF8KY, einmenningsflokkur, öll bönd, háafl – 538/H; 232/EU.
TF2MSN, einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl – 421/H; 268/EU.

Samanburðardagbækur bárust frá TF3IRA (TF3DC op.), TF3SG og TF3VS.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

https://cqww.com/raw.htm?mode=ph

.

Benedikt Sveinsson TF3T var með bestan árangur TF stöðva í CQ WW DX SSB keppninni 2020. Hann keppti í einmenningsflokki, 80 metrum, háafli. Meðfylgjandi mynd var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi fyrir nokkrum árum. Ljósmynd: TF3JB.

CQ WOLRD WIDE DX SSB keppnin fór fram 24.-25. október s.l. Gögnum var skilað inn fyrir 7 TF kallmerki í 4 keppnisflokkum, auk samanburðardagbóka:

TF8TY, einmenningsflokkur, 20 metrar, háafl.
TF3T, einmenningsflokkur, 80 metrar, háafl.
TF8KY, einmenningsflokkur, öll bönd, háafl.
TF2MSN, einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.

TF3IRA (TF3DC op.), samanburðardagbók (check-log). 
TF3SG, samanburðardagbók (check-log).
TF3VS, samanburðardagbók (check-log).

Bráðabirgðaniðurstöður munu liggja fyrir fljótlega en endanlegar niðurstöður verða birtar í CQ tímaritinu í maí n.k.

Skilyrðin á HF hafa verið áhugaverð að undanförnu. Hærri böndin ættu að lifna frekar næstu daga, en Flux‘inn (SFI) stendur í 88 í dag (29. október). Spáð er sama gildi fyrir tvo næstu daga, föstudag og laugardag. Þetta hæsta gildi í þrjú ár!

Sólblettafjöldi stendur í dag í 36 samanborið við 22 í gær og 11 í fyrradag (þriðjudag).

https://www.solarham.net/

Í byrjun mánaðarins hannaði Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS nýtt QSL kort fyrir kallmerki ÍRA, TF3WARD og var Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri félagsins með í ráðum.

Ákveðið var að prenta upplag af kortinu til bráðabirgða til að afgreiða fyrirliggjandi beiðnir og fékk Mathías kortin afhent í dag, 28. október. Ársæll Óskarsson, TF3AO mun síðan hafa milligöngu um prentun kortsins hjá Gennady, UX5UO í vor.

Kallmerkið verður næst virkjað 18. apríl 2021 á Alþjóðadag radíóamatöra og er til skoðunar að félagsstöðin verði jafnvel QRV fleiri daga heldur en eingöngu á afmælisdaginn sjálfan.

Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri ÍRA var ánægður með kortin og sagði þau væru vel nothæf til að byrja með. Ljósmynd: TF3JB.

Stærsta keppnishelgi ársins er framundan, CQ WW DX SSB keppnin 2020.

Nýjasta skilyrðaspáin frá NOAA er ekki beint uppörvandi því hún gerir ráð fyrir 5 í K-gildi. Það jákvæða í stöðunni er þó, að eldri spár höfðu spáð segulstormi (þ.e. K-6 og hærra).

Bjartsýnisviðhorfið er að spár ganga ekki alltaf eftir.

https://www.swpc.noaa.gov/products/27-day-outlook-107-cm-radio-flux-and-geomagnetic-indices

Stjórn félagsins hefur ákveðið að félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verði lokuð næstu þrjá fimmtudaga, þ.e. 22. og 29. október og 5. nóvember n.k. Engin starfsemi verður í húsnæðinu á okkar vegum, þar til annað verður ákveðið.

Ástæðan er ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tekur gildi á morgun, 20. október með gildistíma til 10. nóvember n.k. Hertar sóttvarnarreglurnar snúast m.a. um fjöldatakmörkun m.v. 20 manns og að tryggja skuli að hægt sé að hafa 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.

Sá möguleiki hefur verið ræddur að bjóða upp á starfsemi á vegum félagsins á netinu verði farsóttin mikið lengur þetta alvarleg. En fari allt á besta veg verður auglýst opnun á ný fimmtudaginn 12. nóvember.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

CQ WOLRD WIDE DX SSB keppnin 2020 er framundan, helgina 24.-25. október n.k. Þetta er stærsta SSB keppni ársins og er búist við allt að 50 þúsund þátttakendum. Reiknað er með, að vegna batnandi skilyrða og fyrir áhrif COVID-19 verði met þátttaka í ár.

Um er að ræða 48 klst. viðburð sem hefst kl. 00:00 laugardaginn 24. október og lýkur kl. 23:59 á sunnudaginn 25. október. Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar, bæði fyrir einmennings- og fleirmenningsþátttöku (sjá reglur).

Íslenskir leyfishafar hafa heimild til að nota tíðnisviðið 1850-1900 kHz á víkjandi grunni í tilraunaskyni í tilgreindum alþjóðlegum keppnum, þ.á.m. í þessari keppni. G-leyfishafar mega jafnframt nota allt að 1kW (fullt afl). Sjá nánari upplýsingar í Ársskýrslu ÍRA 2020, bls. 93-94.Vefslóð:  http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/02/15022020-Ársskýrsla-2019-20-pdf.pdf

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum góðs gengis.

Keppnisreglur:  https://www.cqww.com/rules.htm