APRS stafvarpinn TF5SS fór í loftið í dag, föstudaginn 7. ágúst, laust fyrir kl. 18.00. QTH er skátamiðstöðin að Hömrum á Akureyri. Nýi stafvarpinn er viðbót við APRS-IS kerfið.

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS annaðist uppsetningu fyrir norðan en Magnús Ragnarsson, TF1MT sá um að stilla búnaðinn heiman að frá sér í Landeyjum. Guðmundur sagði, að fyrstu prófanir á Akureyrarsvæðinu lofuðu góðu. Búnaður TF5SS er Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og Procom 5/8λ VHF húsloftnet.

Hamingjuóskir til APRS hópsins með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

Mynd af APRS búnaði TF5SS á Akureyri. Sjá má m.a. Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og aflgjafa. Ljósmynd: Guðmundur Sigurðsson TF3GS.
Procom 5/8λ VHF húsloftnetið sem TF5SS APRS stafvarpinn notar á Akureyri. Sjá má að staðsetningin er góð m.v. fjallatoppana í fjarlægð. Ljósmynd: Guðmundur Sigurðsson TF3GS.

Stjórn ÍRA ákvað í morgun, 4. ágúst, að félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verði lokuð frá og með deginum í dag og næstu tvo fimmtudaga, þ.e. 6. og 13. ágúst. Engin starfsemi verður í húsnæðinu á okkar vegum á þessum tíma, þar til annað verður ákveðið.

Ástæðan er ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður, vegna hraðari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Ákvörðun ráðherra gildir fyrir tímabilið til miðnættis 13. ágúst. Nánar er vísað í upplýsingar í fjölmiðlum.

Meginvandi okkar er að tryggja áskilda 2 metra fjarlægð milli einstaklinga, sem ekki er gerlegt í Skeljanesi. Ef allt fer vel á besta veg verður auglýst opnun á ný 20. ágúst n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Ágæt þátttaka var í útileikunum um verslunarmannahelgina. Stöðvar voru virkar m.a. frá Þverárfjalli (við Sauðarkrók), Hofsósi og Húsavík (TF1OL), frá Búrfellsvirkjun, Grímsnesi og Eyrarbakka (TF3DT), Stokkseyri (TF1BT), frá Hveragerði (TF1EIN), frá Vogum og Djúpavatni (TF8KY), frá Borgarfirði (TF2LL og TF3GZ), frá Kleifarvatni og Hveravöllum (TF3EK), frá Reykjavík og nágrenni: TF1A, TF1EM, TF3DX/P, TF3EK, TF3IRA, TF3JB, TF3LB og TF3Y. Einnig heyrðist vel (í Reykjavík) frá TF3VJN (í Fnjóskadal), TF7DHP (á Akureyri), TF3IG í Grímsnesi, TF3XO í Reykjavík og fleirum sem ekki tóku þátt í leikunum að þessu sinni.

Flest sambönd voru á tali (SSB) og morsi (CW), en ekki er vitað um að menn hafi haft sambönd á FT8 eða FT4 samskiptaháttum. Tíðnin 3637 kHz á 80 metrum var mest notuð ásamt 160, 40, 60 og 20 metra böndunum. Skilyrði til fjarskipta innanlands voru misgóð um helgina en best á laugardeginum.

Ánægjulegt erindi barst frá Póst- og fjarskiptastofnun 28. júlí þess efnis, að leyfishafar hefðu heimild til að nota allt að 100W í tilraunum á 60 metrum (5351,5 -5366,5 kHz) útileikadagana 1.-3. ágúst, með fyrirvara um truflanir.

Þakkir til Einars Kjartanssonar, TF3EK, umsjónarmanns TF útileikanna fyrir góða kynningu og utanumhald. Frestur til að skila dagbókum er til 10. ágúst.

Stjórn ÍRA.

Ólafur Örn Ólafsson TF1OL var með 18 metra háa glertrefjastöng í TF útileikunum fyrir loftnet á lægri böndunum. Hér er hann staddur sunnan við Húsavík 2. ágúst. Hann var QRV frá 4 reitum, IP16, IP15, IP06 og IP05. Ljósmynd: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL.
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY gengur frá 12 metra hárri glertrefjastöng fyrir 80 metra loftnet á Djúpavatnsleið syðst á Reykjanesi 2. ágúst. Keli hafði mörg góð sambönd með þennan búnað og 100W sendiafl. Ljósmynd: Björn Þór Hrafnkelsson TF8TY.
Félagsstöðin TF3IRA var QRV í leikunum frá Skeljanesi um helgina. Reynir Björnsson TF3JL virkjaði stöðina á morsi sunnudaginn 2. ágúst. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Stjórn félagsins tók á móti góðri gjöf til TF3IRA í dag, 2. ágúst.

Um er að ræða YAESU SMB-201, sem er sérhönnuð borðfesting með innbyggðri viftu og notast við ICOM IC-208H VHF/UHF APRS stöð félagsins, TF3IRA-1Ø.

SMB-201 þarf ekki að skrúfa niður í borðplötuna því hún er búin sérstökum gúmmífótum, sem gerir stöð og festingu mjög stöðuga. Þá er kæliviftan í borðfestingunni stærri en innbyggða viftan í IC-208H stöðinni, þannig að vart heyrist í henni þegar hún fer í gang.

Stjórn ÍRA þakkar velvilja og góðan stuðning, en gefandi óskar að láta kallmerkis ekki getið.

Þess má geta að um er að ræða samskonar borðfestingu og félaginu var gefin 23. september 2019 til að nota við YAESU FT-7900E VHF/UHF stöð TF3IRA og hefur reynst mjög vel. Svo heppilega vill til, að SMB-201 festingin smellpassar einnig við ICOM IC-208H ARPS stöðina. Sami félagsmaður var gefandi þá og nú.

Skeljanesi 2. ágúst 2020. YAESU FT-7900E og ICOM IC-208H stöðvar félagsins komnar á SMB-201 borðfestingar og “jafnvægi” ríkir á VHF/UHF borði TF3IRA. Ljósmynd: TF3JB.
Til samanburðar. Skeljanesi 23. ágúst 2019. Myndin sýnir FT-7900E stöðina eftir að búið var að skrúfa hana á SMB-201 festinguna. Óneitanlega er eins og það þurfi að „lyfta“ IC-208H stöðinni eitthvað (sem nú hefur verið gert). Ljósmynd: TF3JB.

TF3IRA var QRV frá Skeljanesi í dag 1. ágúst í TF útileikunum. Þetta var fyrsti dagurinn af þremur, en leikarnir halda áfram á morgun (sunnudag) og lýkur mánudaginn 3. ágúst.

Hafa má samband hvenær sem er sólarhringsins þessa þrjá daga, en aðalþátttökutímabil eru:

  • Laugardag kl. 17:00-19:00;
  • Sunnudag kl. 09:00-12:00;
  • Sunnudag kl. 21:00-24:00; og
  • Mánudag kl. 08:00-10:00.

Minnst 8 klst., þurfa að líða á milli sambanda sömu stöðva á sama bandi til að stig fáist.

Mathías Hagvaag TF3MH virkjaði félagsstöðina TF3IRA frá Skeljanesi í dag, laugardaginn 1. ágúst ásamt fleirum. Ljósmynd: TF3JB.

Einar Kjartansson, TF3EK, umsjónarmaður TF útileikanna, hefur uppfært heimasíðuna fyrir útileikana. Vefslóðin er þessi: http://eik.klaki.net/cgi-bin/utileikar

Fram kemur m.a. hnappur á tölvuskjánum til að skrá QSO í leikunum, þ.e. einskonar QSO eyðublað.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að taka þátt um verslunarmannahelgina.

Wilhelm Sigurðsson TF3AWS virkjaði félagsstöðina TF3IRA frá Skeljanesi í TF útileikunum í fyrra (2019) ásamt fleirum. Mynd: TF3JB.

Góð mæting var í félagsaðstöðuna í Skeljanesi 30. júlí.

Fjörugar umræður voru yfir kaffinu og margir að sækja bunka af QSL kortum, enda hafa tíðar og stóra sendingar borist til félagsins að undanförnu. Einar Kjartansson, TF3EK umsjónarmaður TF útileikanna mætti á staðinn og upplýsti um leikana um verslunarmannahelgina, 1.-3. ágúst n.k.

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS klifraði upp lofnetsturn félagsins og aðgætti festingar og önnur öryggisatriði og viðhaldsmál. Niðurstaðan er, að allt er í góðu lagi nema að fæðilínan efst við netið hefur skaddast við núning og þarf að endurnýja sem fyrst. Haft var samráð við Georg Magnússon, TF2LL um krítíska þætti til skoðunar. Brátt verða liðin 2 ár frá uppsetningu þessa búnaðar sem hefur staðið sig vel.

Góð sumarstemning var í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í blíðskaparveðri í vesturbænum og mættu alls 19 félagar og 1 gestur á staðinn.

Alltaf fjör við stóra fundarborðið. Frá vinstri: Tommi Laukka TF8TL, Þórður Adolfsson TF3DT, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Erling Guðnason TF3EE, Einar KJartansson TF3EK, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Mathías Hagvaag TF3MH (fyrir enda borðs). Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS búinn að setja á sig öryggisbúnaðinn áður en hann hélt upp turninn. Gummi lét þau orð falla þegar hann kom aftur niður að þótt það þurfi að lagfæra fæðinguna í loftnetið sé greinilegt að vandað hafi verið til uppsetningar og alls frágangs þegar lofnetið var sett upp fyrir tveimur árum. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Endurvarpinn TF3RPK er QRV á ný frá Skálafelli eftir uppsetningu bráðabirgðaloftnets. Þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ lögðu á fjallið upp úr hádeginu í dag, 30. júlí.

TF3RPK hafði verið úti frá því um páska þegar mikil ísing skemmdi fæðilínuna í VHF loftnetið (en UHF hlekkurinn var í lagi). Ari sagði, að bráðabirgðaloftnetið tryggi m.a. virkni endurvarpans yfir verslunarmannahelgina. Ráðgert er að Ólafur B. Ólafsson, TF3ML sláist í hópinn og þá verður gerð ferð á fjallið á ný.  

TF3RPK vinnur á 145.575 MHz. Inngangstíðnin er -600 Hz og tónn er 88,5 Hz. Tengingar eru með 430 MHz hlekk við endurvarpann í Bláfjöllum og á Mýrum.

Þetta er fjórða fjallaferð þeirra félaga á skömmum tíma, en 23. júlí skiptu þeir um loftnet við TF3RPA. Þar á eftir héldu þeir á Búrfell þar sem í ljós kom að endurvarpinn TF3RPE var bilaður. Farið var með hann í bæinn og haldið austur á ný (ásamt TF3CE) 26. júlí og hefur TF3RPE verið QRV síðan. Og í dag, var svo komið að Skálafelli.

Þakkir til þeirra félaga Ara og Georgs fyrir dugnaðinn og frábært framlag. Vel af sér vikið!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr stöðvarhúsinu á Skálafelli. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A stendur við skápinn sem hýsir ICOM endurvarpann og tilheyrandi búnað. Neðar á veggnum má sjá “cavity” síur stöðvarinnar. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Georg Kulp TF3GZ skoðar ástand UHF loftnetsins við TF3RPK sem vinnur samtengt við endurvarpana í Bláfjöllum og á Mýrum gegnum 430 MHz hlekk. UHF loftnetið er í kassanum en fyrir ofan það er bráðabirgða VHF loftnetið sem sett var upp í dag. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 30. júlí. Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri tæmir pósthólfið í dag, miðvikudag, og verður búinn að flokka innkomin kort.

Framundan eru TF útileikarnir um verslunarmannahelgina, 1.-3. ágúst. Einar Kjartansson, TF3EK, umsjónarmaður leikanna, verður á staðnum og svarar spurningum, auk þess sem keppnisreglur verða í boði útprentaðar.

Vefslóð á fróðlegar og vandaðar glærur frá erindi Einars um útileikana: http://eik.klaki.net/tmp/utileikar18.pdf

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Frá kynningu Einars Kjartanssonar TF3EK á úrslitum TF útileikana í fyrra (2019) í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 30. júlí. Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri félagsins tæmir pósthólfið á miðvikudag og verður búinn að flokka innkomin kort. Síðast bárust 8 kg…og því ekki ólíklegt að svipað magn berist þessa vikuna þar sem QSL stofur um allan heim eru komnar í gang á ný.

TF útileikarnir nálgast og verða um verslunarmannahelgina 1.-3. ágúst. Eintak af reglunum verður til afhendingar, þar sem þetta er síðasta opnunarkvöldið fyrir stóru helgina.

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Inngangur í félagsaðstöðuna í Skeljanesi er nú greiður og snyrtilegur eftir mikla tiltekt sem gerð var helgina 18.-19. júlí. Mynd: TF3JB.