Góð mæting var á opið hús í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 27. júní. Sérstakur gestur var Daggeir Pálsson, TF7DHP, frá Akureyri.

Mikið var rætt um nýjungar sem kynntar voru á sýningunni í Friedrichshafen sem haldin var um nýliðna helgi, en a.m.k. 17 Íslendingar sóttu hana heim þetta árið. Margir gerðu góð kaup, bæði í sendistöðvum og mælitækjum. M.a. er von á fyrstu Kenwood TS-890S stöðinni til landsins innan tíðar.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sýndi nýjan búnað til notkunar fyrir sambönd um gervitunglið Es’hail-2/P4A / Oscar 100. Umfjöllun um hann og fleiri nýjungar á sýningunni verður í septemberhefti CQ TF.

Glæsilegar kaffiveitingar voru í boði TF7DHP þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Þétt setið við fundarborðið. Frá vinstri (neðra horn): Jón Björnsson TF3PW, Mathías Hagvaag TF3MH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Georg Kulp TF3GZ, Sigmundur Karlsson TF3VE, Karl Birkir Flosason TF3KF, Daggeir Pálsson TF7DHP og Baldvin Þórarinsson TF3-033 (bak í myndavél). Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Georg Kulp TF3GZ, Sigmundur Karlsson TF3VE, Daggeir Pálsson TF7DHP og Baldvin Þórarinsson TF3-033 (bak í myndavél). Ljósmynd: TF3JB.
Óskar Sverrisson TF3DC og Kristján Benediktsson TF3KB. Þeir félagar vígðu nýtt leðursófasett félagsins sem var notað í fyrsta sinn þetta fimmtudagskvöld. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fyrir nokkrum árum fékk ÍRA vandaðan 15 m háan turn gefins. Turninn er gerður úr fimm galvaniseruðum einingum sem hver er 3 m að lengd. Á meðfylgjandi mynd sjást þeir TF3BJ og TF3G huga að turninum í portinu við húsakynni félagsins í Skeljanesi.

Nú ber svo við að turninn finnst ekki í Skeljanesi sem er bagalegt. Nokkrir vaskir félagar eru tilbúnir að setja hann upp til að strengja í hann loftnet fyrir 160 m og 80 m. Nú erum við nærri sólblettalágmarki og því eru þessi bönd sérstaklega verðmæt.

Ef einhver veit hvar turninn er eða um afdrif hans væri frábært að fá um það vitneskju. Hægt er að senda tölvupóst til ira@ira.is eða hafa samband við stjórnarmenn.

Með fyrirfram þökkum og 73

Stjórn ÍRA

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 27. júní kl. 20:00-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te og meðlæti.

Flestir félagsmanna sem heimsóttu Ham Radio sýninguna í Friedrichshafen í Þýskalandi um helgina eru aftur komnir til landsins og ekki ólíklegt að þeir muni mæta í kaffi í Skeljanes og segja nýjustu fréttir.

Íslenski hópurinn var að þessu sinni alls 17 manns, þ.e. 13 leyfishafar og 4 makar.

Stjórn ÍRA.

Myndin sýnir hluta sýningarsvæðisins sem hýsir flóamakað radíóamatöra í Friedrichshafen þar sem leyfishafar alls staðar að úr Evrópu koma með eldri (eða jafnvel nýjan búnað) og bjóða til sölu. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Mikið magn af notuðum sendi-/móttökustöðvum er ætíð í boði í Friedrichshafen. Heilu Collins línurnar voru t.d. fáanlegar við góðu verði og voru margir sem stöldruðu til að skoða (og kaupa). Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Mælitæki eru í boði (oft við ótrúlega hagstæðu verði) og sumir í íslenska hópnum gerðu mjög góð kaup. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 20. júní kl. 20-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te, kex og kökur.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Glatt á hjalla í Skeljanesi. Frá vinstri: Ölvir Styrr Sveinsson TF3WZ, Óskar Sverrisson TF3DC, Þórður Adolfsson TF3DT, Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (bak í myndavél). Mynd frá 18. júní 2018. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 13. júní kl. 20-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te, kex og kökur.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 20. október 2018. Frá vinstri: Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD, Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Sini Koivaara OH1KDT. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Góð mæting var á opið hús í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 6. júní. Mest var rætt um heimaloftnet og bílloftnet á HF; enda sumarið loftnetatími hjá radíóamatörum.

Þrjú loftnet voru til sýnis á staðnum. AM PRO 160 bílloftnet fyrir 160m (kostar £41.46 frá NevadaRadio UK); ½λ tvípóll fyrir 6m (kostar £14.96) og ½λ Halo tvípóll fyrir 6m (kostar £41.63). 50 MHz loftnetin voru keypt frá Moonraker UK. (Halo loftnetið er svokallaður „beygður“ tvípóll, rétthyrndur í lögun og óstefnuvirkur).

TF3JB skýrði m.a. frá, að hann noti 1.8 MHz bílnetið fest við húsþakið með járnið á þakinu sem mótvægi. Það hafi komið ótrúlega vel út, því á tímabilinu 11.11.2018-11.2.2019 hafði hann QSO við alls 54 DXCC einingar á FT8 tegund útgeislunar og fékkst síðasta landið staðfest 31. maí s.l. Menn sýndu 50 MHz loftnetunum einnig áhuga, enda er 6 metra „vertíðin“ að hefjast um þessar mundir.

Mæting var góð í Skeljanes þetta fallega sumarkvöld í Reykjavík, alls 15 félagar og 2 gestir.

Loftnet eru óþrjótandi umræðuefni yfir góðu kaffi. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Georg Magnússon TF2LL. Sjá má AM PRO 160 bílloftnetið næst myndavélinni á borðinu. Heildarlengd er 260 sentímetrar, þ.e. undirstilkur er 58cm, spóla 42cm og toppur 160cm. Þar fyrir ofan er 1/2 bylgju tvípóllinn fyrir 6 metrana og Halo tvípóllinn fyrir 6 metrana, pakkaður í plast.
Frá vinstri: Georg Magnússon TF2LL, Kristján Benediksson TF3KB, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Heimaloftnetin rædd við stóra borðið. Fyrir enda borðs: Þórður Adolfsson TF3DT, Einar Kjartansson TF3EK (Þórði á vinstri hönd), síðan Mathías Hagvaag TF3MH, Jón E. Guðmundsson TF8-02Ø, Jón Björnsson TF3PW og Benedikt Sveinsson TF3T. Ljósmyndir: TF3JB.

Einar Páll Stefánsson TF5EP hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Einar var félagsmaður okkar um langt árabil þar til hann fluttist búferlum til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni. Hann var á 72. aldursári er hann lést og handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 163.

Um leið og við minnumst Einars með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Næsta hefti CQ TF (3. tbl. 2019) kemur út á heimasíðu ÍRA 29. júní n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Opið er fyrir innsendingu efnis fram á sunnudag, 16. júní.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 6. júní kl. 20-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te, kex og kökur.

Bílloftnet fyrir 1.8 MHz verður m.a. til sýnis sem fjallað var um í grein 1. tbl. CQ TF 2019 (bls. 40-41).

Stjórn ÍRA.

AM-PRO 160 bílloftnetið er hér sýnt við bifreið TF3JB til að átta sig á stærðarhlutföllum. Heildarlengd er 260 sentímetrar, þ.e. undirstilkur er 58cm, spóla 42cm og toppur 160cm. Það er gefið upp fyrir 250W PEP og að standbylgja sé betri en 2 miðað við 15 kHz bandbreidd. Loftnetið verður til sýnis í Skeljanesi þann 6. júní. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð fimmtudaginn 30. maí n.k., sem er uppstigningardagur.

Næsti opnunardagur í Skeljanesi verður fimmtudaginn 6. júní n.k.

F.h. stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason TF3JB,
formaður.