Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB og Reynir Björnsson, TF3JL stóðu fyrir viðburði á vegum félagsins í Skeljanesi laugardaginn 28. nóvember þar sem félagar mættu með morslykla sína í félagsaðstöðuna.

Gott úrval var af lyklum á staðnum. Meðal annars: Lyklar frá Vibroplex (böggar og pöllur); m.a. Champion, Lightning og Presentation, M.P. Pedersen (handlyklar), K8RA pöllur, Kent (handlyklar og pöllur), E.F. Johnson (handlyklar), W.M. Nye (handlyklar og pöllur), Samson (ETM-4C rafmagnslykill), Heathkit (HD-1410 rafmagnslykill), „commercial“ handlyklar og pöllur af mörgum tegundum, m.a. frá Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Suður-Kóreu og Rússlandi.

Frábær dagur. Skemmtilegt var að hlusta á sögur yfir kaffinu sem voru sagðar og tengjast hinum ýmsu lyklum, m.a. hvernig og hvar þeir höfðu verið keyptir og við hvaða verði – og hvers vegna menn telja að ákveðnir lyklar hafi gæði umfram aðra. Afar áhugavert að upplifa þá miklu þekkingu sem félagarnir búa yfir og tengjast búnaði til morsfjarskipta en morsið lifir góðu lífi á meðal radíóamatöra í dag um allan heim. Sérstakar þakkir til þeirra Sigurbjörns Þórs og Reynis fyrir frábæran dag.

Alls mættu 14 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Viðburðurinn var auglýstur kl. 14:00 en flestir voru búnir að setja upp lykla og aukahluti upp úr kl. 13:30. Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Þorgrímur Baldursson TF3PC, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Reynir Björnsson TF3JL, Kristján Benediktsson TF3KB og Gísli G. Ófeigsson TF3G (snýr baki í myndavél).
Margar skemmtilegar sögur voru sagðar. Kristján Benediktsson TF3KB sagði okkur m.a. frá iambic rafmagnsmorslykli sem hann hannaði og smíðaði árið 1972 úr fyrstu kynslóð rökrása. Frá vinstri: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Þorgrímur Baldursson TF3PC, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Kristján Benediktsson TF3KB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Gísli G. Ófeigsson TF3G og Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB (sem snúa baki í myndavél).
Þorgrímur Baldursson TF3PC sagði skemmtilega sögu frá því þegar hann keypti símritaralykil í Síle ásamt móttökutæki fyrir símritun. Til hægri: Jón G. Guðmundsson TF3LM sagði okkur líka skemmtilega sögu frá því þegar hann pantaði sér handlykil frá Suður-Kóreu sem hann endaði með að festa á þykka málmplötu (til að fá lykilinn stöðugan á borði). Hann sagðist líka hafa sett nýjan hnapp á lykilinn sem gerði hann mun betri.
Jónas Bjarnason TF3JB sýndi þrjá lykla. Þ.á.m. þennan vandaða handlykil sem RSGB bauð félagsmönnum til sölu í tilefni 70 ára valdatíma hennar hátignar Elísabetar II árið 2022. RSGB lét framleiða 500 númeruð eintök í tilefni viðburðarins. Eintak TF3JB er nr. 65. Lykillinn kostaði £164.45 eða 35 þús. íslenskar krónur kominn til landsins. Aðrir á mynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Gísli G. Ófeigsson TF3G.
Icom IC-7300 stöð félagsins og aflgjafi voru sótt upp í fjarskiptaherbergi til að nota sem hljóðgjafa (súmmer) til að geta prófað hina mismunandi lykla. Ofarlega á borðinu eru áletraðar morspöllur (af KBX-380 gerð) smíðaðar af  þekktum finnskum radíóamatör, Tapio Hirvioski, OH1KB. Þær voru gjöf landsfélags finnskra radíóamatöra til ÍRA í tilefni 75 ára afmælisins. Neðst á borðinu til hægri eru annars vegar vandaðar iambic pöllur frá K8RA sem Gísli G. Ófeigsson TF3G sýndi okkar. Og hinsvegar (neðst í horninu) afar áhugaverðar smápöllur (e. mineature) sem er ótrúlega gott að lykla. Þær eru búnar sterkum segli sem heldur þeim föstum.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG sýndi okkur tvo lykla frá Vibroflex, þ.á.m. iambic pöllur sem hann keypti í New York árið 1987. Þar fyrir neðan má sjá lyklana sem Þorgrímur Baldursson TF3PC sýndi okkur. M.a. lykilinn (sem er næst neðst) en hann keypti hann í forngripaverslun í Santiago í Síle fyrir nokkrum árum. Ljósmyndir: TF3JB og TF3KB.

Yfirvöld í Mexíkó standa í ströngu eftir að fimmta stigs fellibylurinn Otis gekk á land á sunnanverðri Kyrrahafsströnd Mexíkó í Guerrero nærri Acapulco. Fjöldi látinna er og ófremdarástand ríkir.

ÍRA hefur borist nýtt erindi frá neyðarfjarskiptastjóra IARU svæðis 2 um fjórðu tíðnina sem hefur verið tekin í notkun fyrir neyðarfjarskipti radíóamatöra á 14 MHz á svæðinu. Tíðnirnar fjórar eru:

80 metrar:   3 690 kHz.
40 metrar:   7 060 kHz.
40 metrar:   7 095 kHz.
20 metrar: 14 120 kHz.

Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til forgangsfjarskipta á þessum tíðnum (og nærri þeim).

Stjórn ÍRA.

Fræðsludagskrá ÍRA heldur áfram. Á laugardag 28. október kl. 14:00 verður viðburðurinn: „Félagar koma með morslykla sína í Skeljanes“.

Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Reynir Björnsson TF3JL og Stefán Arndal, TF3SA mæta á staðinn. Húsið opnar kl. 13:00 og viðburðurinn hefst stundvíslega kl. 14:00.

Hugmyndin er að menn komi með sem flestar gerðir lykla á staðinn og segi frá tegund og gerð yfir kaffibolla og segi frá ef einhver saga fylgir. Hægt verður að tengja lyklana við hljóðgjafa (súmmer) á staðnum.

Þegar talað er um lykla er átt við allar gerðir morslykla, þ.e. handlykla, pöllur (spaðalykla), bögga (Vibroplex) og allar gerðir sem hægt er að nota til að senda með mors. Kaffiveitingar verða í sérflokki.

Verið velkomin á laugardagsopnun í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Mynd frá morslykladeginum í fyrra (2022). Góð mæting.
Menn raða upp lyklum og aukalutum í fyrra.
Sumir af lyklunum í fyrra komu í “original” pakkningum og höfðu jafnvel lítið eða aldrei verið notaðir.
Sýnishorn af lyklum, pöllum, morstæki og hljóðgjafa (súmmer). Ljósmyndir: TF3JB.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX fór í SOTA ferð á Syðstusúlu (1093 m) í Botnssúlum 31. ágúst. Hann hafði 13 QSO. Þar með varð hann fyrstur manna til að virkja 100 íslenska SOTA tinda og alla 43 sem tilheyra Suðvesturlandi. Að auki 2 á Sikiley. Þann 1. september voru liðin 7 ár síðan hann virkjaði Ísland í fyrsta sinn, af Helgafelli sunnan Hafnarfjarðar. Þess má geta að Villi verður áttræður í desember á þessu ári.

Meðfylgjandi frásögn af ferð hans á 100. SOTA tindinn birtist á baksíðu Morgunblaðsins í dag, 26. október. Sjá einnig: Syðstasúla (TF/SV-002) – SOTLAS

Stjórn ÍRA.

Yfirvöld í Mexíkó eru í viðbragðsstöðu þar sem fimmta stigs fellibylurinn Otis gekk á land á sunnanverðri Kyrrahafsströnd Mexíkó í gærmorgun, í Guerrero nærri Acapulco. Fjölmiðlar skýra frá því að vindur hafi náð yfir 70 metrum á sekúndu og von sé á gríðarlegri úrkomu, frá 120 allt upp í 380 millimetra.

ÍRA hefur borist erindi frá neyðarfjarskiptastjóra IARU svæðis 2 um þrjár tíðnir á HF sem hafa verið teknar til notkunar fyrir neyðarfjarskipti radíóamatöra á svæðinu. Þær eru:

80 metrar: 3690 kHz.
40 metrar: 7060 kHz.
40 metrar: 7095 kHz.

Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til forgangsfjarskipta á þessum tíðnum (og nærri þeim).

Stjórn ÍRA.

Fræðsludagskrá ÍRA heldur áfram. Á laugardag 28. október kl. 14:00 verður viðburðurinn: „Félagar koma með morslykla sína í Skeljanes“.

Þeir Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Reynir Björnsson TF3JL og Stefán Arndal, TF3SA mæta á staðinn. Húsið opnar kl. 13:00 og viðburðurinn hefst stundvíslega kl. 14:00.

Hugmyndin er að menn komi með sem flestar gerðir lykla á staðinn og segi frá tegund og gerð yfir kaffibolla – og gjarnan ef einhver saga fylgir. Hægt verður að tengja lyklana við hljóðgjafa (súmmer) á staðnum.

Þegar talað er um lykla er átt við allar gerðir morslykla, þ.e. handlykla, pöllur (spaðalykla), bögga (Vibroplex) og allar gerðir sem hægt er að nota til að senda með mors. Kaffiveitingar í sérflokki.

Verið velkomin á laugardagsopnun í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Mynd frá morslykla deginum í Skeljanesi í fyrra (2022). Nánast allar tegundir af lyklum voru þá á staðnum, nema „sagarblöð“ eins og Stefán Arndal, TF3SA orðaði það.
Unnið að uppstillingu lykla og búnaðar áður en dagskráin hófst í fyrra (2022). Ljósmyndir: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 26. október fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20:00 til kl. 22:00.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið, flokka kortasendingar og raða í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

CQ World Wide DX SSB keppnin fer fram helgina 28.-29. október.

Markmiðið er að ná eins mörgum samböndum og hægt er við aðra radíóamatöra um allan heim – í eins mörgum löndum (DXCC einingum) og á eins mörgum CQ svæðum og frekast er unnt. Keppt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er stærsta alþjóðlega SSB keppni ársins; 48 klst. og engin tímatakmörk og í boði eru 66 mismunandi keppnisflokkar.

Stjórn félagsins hvetur félagsmenn til þátttöku og að skila inn radíódagbókum að henni lokinni. Alls var skilað dagbókum fyrir 11 TF kallmerki til keppnisstjórnar í fyrra (2021).

Félagsstöðin TF3W verður QRV í keppninni. Félagsmenn sem hafa áhuga á að hjálpa til við að virkja stöðina hafi samband við TF3JB. Skipulag verður rætt í félagsaðstöðunni á opnunarkvöldi á fimmtudagskvöld 26. október.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Heimasíða keppninnar: https://www.cqww.com/
Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm

Samþykkt var á fundur stjórnar ÍRA 19. október að félagið vinni að uppsetningu og rekstri Echolink aðgangs yfir netið. Markmiðið er að gefa félagsmönnum sem eru með búsetu þar sem ekki næst samband við VHF endurvarpa – eða eru á ferðalagi og ná ekki sambandi við endurvarpa á 2 metrum – aðgang í gegnum TF3RPB endurvarpann í Bláfjöllum.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A hefur virkjað Echolink til prufu frá 22. apríl s.l. Forritið vinnur í gegnum TF3RPB endurvarpann og er á FM mótun. Með því að sækja forrit á heimasíðu Echolink: https://www.echolink.org/  er hægt að fá afnot af Echolink „appi“ og tengjast Bláfjöllum yfir netið – t.d. í gegnum heimilistölvu eða GSM síma. Félagsmenn um allt land geta þannig fengið afnot af 2 metra bandinu.

Echolink fjarskiptin fara nú fram í gegnum búnað á heimili Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A í Reykjavík og verður samskonar búnaður settur upp á næstunni í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi. Ari Þórólfur verður félaginu til ráðgjafar og aðstoðar við uppsetningu.

Þess má geta til fróðleiks, að Þór Þórisson, TF1GW setti fyrstur upp Echolink gátt hér á landi árið 2006 sem var meira og minna virk til ársins 2012.

Stjórn ÍRA.

Félagssjóður ÍRA mun festa kaup á VGC VR-N7500 VHF/UHF stöð sem verður sett upp í Skeljanesi. Stöðin kostar 40 þúsund krónur. Annar nauðsynlegur búnaður er til hjá félaginu og þarf því ekki að kaupa fleira í þágu verkefnisins.

Námskeið ÍRA til amatörprófs sem hófst 25. september s.l. var hálfnað mánudaginn 16. október. Þá var 10. kennslukvöldið (af 20) sem var dæmatími um prófsendi í höndum Hauks Konráðssonar, TF3HK.

Kennsla fer fram í Háskólanum í Reykjavík í stað- og fjarnámi. Þátttakendur eru víða af á landinu og erlendis frá. Þriðjudaginn 7. nóvember verður síðasta kennslukvöldið sem er upprifjun, auk þess sem farið verður yfir eldri próf.

Alls var skráður 31 þátttakandi í upphafi, en 28 hafa mætt í tíma og er þess því að vænta að fjölmennt verði í prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis laugardaginn 11. nóvember. Kennarar eru alls níu frá félaginu.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX í Prófnefnd ÍRA vann skipulag námskeiðsins. Umsjónarmaður er Jónas Bjarnason TF3JB. Þess má geta, að ÍRA hefur haft aðstöðu fyrir námskeið til amatörprófs hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2013.

Bestu óskir um gott gengi til þátttakenda og þakkir til allra sem koma að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Mynd úr kennslustofu í HR mánudaginn 16. október. Haukur Konráðsson TF3HK var með dæmatíma um prófsendi. Mynd: TF3JB.