Aðspurður fyrr í vikunni hafði TF2LL þetta að segja um Vitahelgina og skilyrðin:

Svona lítur loftnetið nú út, til þess að gera afskaplega ómerkilegt! en virkar og sannar rétt eina ferðina en að það þarf ekki merkilegan búnað til þess að ná á milli landa.

Ég er með 12 metra langan endafæddan láréttan vír sem ég strengdi á milli handriða rétt ofan við lunningu um 8 metra fyrir ofan sjólínu og ætla i næstu inniveru, fimmtu- eða föstudag að reyna að koma loftnetinu upp á milli mastra.

Já það er merkilegt hvernig skilyrðin eru. Ég er búinn ad spjalla vid Jesper QX3KQ i Syðri Straumfirði á 20 metrunum en heyri ekki bofs i QX5YL skvísunum sem eru eitthvað sunnar. Ílla heyrist i LA en fínt í SM stöðvum og búinn að hafa nokkur QSO við bara ” venjulega ” kalla med lítil loftnet og afl. OH stöðvarnar eru feikna sterkar en heyra ekkert í mér. Þetta virðist einhvernvegin liggja svona undanfarið.

Ég heyrði ekki bofs i vitamönnum um helgina, hvorki Garðskaga né Knarrarósi, sama hver mótunin var. Ég átti hins vegar nokkur vita-QSO austur um, Bretland, Danmörk og Þýskaland. Í gærkvöldi talaði ég við breta sem var rétt nýkominn inn úr vitaleiðangri og hann kvartaði sáran yfir lélegum skilyrðum. Hann hafði 80 QSO, mest á 40 m, örfá á 20 m og ekkert á 80 m og þetta hefði sennilega verið einhver lélegasta vitahelgin sem hann hefði tekið þátt i miðað vid QSO fjölda auk þess sem veðrið var mjög leiðinlegt.

Ég sendi bréfið til þín úr tölvunni sem er í stjórnklefanum i vélarúminu og staðsetningin er i gráðum, 64-04 N og 36-11 W, QTH locator er HP14WA og fjarlægðin í Garðskaga og Knarrarós 700 – 800 km.

Klukkan er sex að morgni sunnudags og hér í Grímsnesinu heyrist vel í TF8IRA við Garðskagavitann morsa á 14.031 MHz í miklu Evrópukraðaki. Í morgun milli fimm og sex var ekki laust við að merkið frá honum væri fyrst með töluverðu heimskautadirri en núna er það stöðugt og hreint S5 á mælinum á IC-706 tengdri við G5RV loftnet í eins metra hæð yfir jörðu algerlega truflana- og næstum suðfrítt. Í gær var TF1IRA við Knarrarós í loftinu og TF3AO sagði aðspurður á fésbókarspjalli þetta um þeirra þáttöku:

…, kominn heim kl. 21:30. Í heildina um 70 sambönd, frá kl. 12 til 19. Þátttakendur, TF3GB á CW, TF3HP, TF3AO, TF3FIN og TF3PPN á SSB.

Mikið fjör var í gær og er enn við Garðskagavita en þar eru TF3IG, TF3ML með Marsbúann ásamt fjölda manns á skemmtisamkomu og einhverjum fleiri radíóamatörum. Myndin er ættuð af fésbók TF3ARI en myndasmiðurinn er líklega TF3ML.

Garðskagaviti 2013

Félagið Íslenskir Radíóamatörar ÍRA var stofnað 14. ágúst 1946. Af því tilefni óskar formaður öllum félögum til hamingju með daginn.

73

Guðmundur de TF3SG

Loftur E. Jónasson, TF3LJ

Góður gestur í heimsókn, Loftur E. Jónasson, TF3LJ kom fyrir nokkru í heimsókn í félagsaðstöðu ÍRA.  Við það tilefni tók Sigurbjörn, TF3SB myndina.

Mirek, VK6DXI hefur boðað að hann komi á morgun fimmtudag 8. ágúst  í félagsheimilið með aðra mynd til sýningar.  Að þessu sinni verður fjallað um ZL8R Kermadec Island DXpedition.  Kermadec er ca. 600 mílur austur af Nýja Sjálandi og ca 6.000 mílur frá vesturströnd Bandaríkjanna.  MIrek heldur af landi brott 15. ágúst.

73

Guðmundur de TF3SG

Sælir félagar,

16th ANNUAL INTERNATIONAL LIGHTHOUSE LIGHTSHIP WEEKEND.

Minni á vitahelgina sem verður 17 og 18 ágúst n.k.  Þegar þetta er skrifað eru þegar 457 sem skráð hafa þáttöku víðsvegar um heim.  Búið er að segja frá þáttöku TF8IRA  í Garðskagavita og TF1IRA í Knarrarósvita ásamt fleiri kallmerkjum, frá Ísland.

 

73

Guðmundur de TF3SG

Flóamarkaður verður haldinn í félagsaðstöðunni við Skeljanes næstkomandi sunnudag, 11. Ágúst. Húsið veður opnað kl. 11:00 og verður opið til kl. 16:00. Í ráði er að halda uppboð á völdum hlutum sem hefst nákvæmlega kl. 14:30.

Hluti sem bjóða á upp verður að koma með kl 11 sama dag, einnig er öllum frjálst að koma með hluti til að selja “prívat”.  Það er yfirleitt líf og fjör og margt að skoða. Þess má geta að mikið dót hefur bæst við staflann hjá félaginu, mikið af íhlutum og öðru áhugaverðu. Auðvitað verður kaffi og með því á boðstólum.

TF útileikarnir eru haldnir um verslunarmannahelgina ár hvert á vegum ÍRA. Leikarnir voru haldnir fyrst árið 1979. Tilgangur útileikanna er að örva áhuga og hæfni íslenskra radíóamatöra í notkun færanlegra stöðva og eflingu fjarskipta innanlands. Fjörið eykst þegar íslendingar búsettir eða staddir erlendis taka þátt. Leikarnir eru tilvaldir til að sameina útivist og amatörradíó.

Samband má hafa hvenær sem er um verslunarmannahelgina en heildar þáttökutími hverrar stöðvar má ekki vera meiri en 9 klukkustundir.

Aðalþáttökutímabilin eru: laugardag kl 1700-1900, sunnudag kl 0900-1200, sunnudag kl 2100-2400 og mánudag kl 0800-1000

Þáttakendur verða í það minnsta að skiptast á upplýsingum um RST og QSO-númer. QSO-tími og staðsetning verða að koma fram í loggnum.

Reglur leikanna eru á heimasíðu félagsins í kaflanum “Upplýsingar”: http://www.ira.is/tf-utileikar/

Villi, TF3DX einn ötulasti þáttakandi Útileikanna gegnum árin sagði aðspurður í símtali í gærkvöldi að einfaldasta loftnetið fyrir HF-böndin til að hafa með sér í útileikana, útileguna um helgina væri 39 metra langur vír sem komið væri eins hátt upp og aðstæður leyfðu á hverjum stað ásamt loftnetsstilli, einföld L-rás dugir vel og nægilegt væri að leggja út tvo til þrjá metra sem jörð eða tengja í einn eða fleiri tjaldhælinn. Hann mælti ekki með að menn tengdu jörðina í tána á ferðafélaganum…betri helmingnum sofandi inni í tjaldi, hversu freistandi sem það væri.

Góða helgi og skemmtilega keppni.

Mirek, VK6DXI hefur boðað myndakvöld á fimmtudaginn kemur.1. ágúst þar sem hann mun sýna frá ferðum sýnum og DX leiðangrum sem hann hefur farið.  Gert er ráð fyrir að sýningin hefjist strax upp úr kl. 20.00. Ljóst er að mikill fengur er að fá Mirek í heimsókn.  Hann hefur óþrjótandi áhuga á fjarskiptum og morsi.

73 Guðmundur de TF3SG

TF3TNT og TF3ARI hafa unnið að ýmsum tilraunum með TF1RPB, endurvarpann í Bláfjöllum í góðviðrinu undanfarna daga. Nýr búnaður og loftnet  voru sett upp í öðru tækjahúsi á fjallinu þar sem væntanlega er minna um truflanir. Loftnetið er nokkra metra hringgeislandi fiberstöng með 8 dBi ávinningi í allar áttir.  Prófaðar verða ýmsar gerðir af lyklun og halinn er hafður nokkuð langur til að auðveldara sé að prófa drægni endurvarpans. Myndin sýnir tækjahúsið og loftnetið á toppi 20 metra masturs. Frekari uppýsingar og fréttir verða birtar hér af þessum tilraunum og árangri á næstu vikum. Fyrstu fréttir af drægni lofa góðu og náðist endurvarpinn til dæmis við Landmannahelli í dag, þar var á ferðinni TF3WJ á sínum velbúna fjallabíl.

Frumgerð myndarinnar er á fésbókarsíðu TF3ARI, þar eru fleiri myndir tengdar þessum tilraunum.