Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB í Skeljanesi þann 18. nóvember. Á myndinni má einnig sjá Ara Þórólf Jóhannesson TF3ARI.

2. sunnudagsopnun á yfirstandandi vetrardagskrá var haldin sunnudaginn 18. nóvember í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Sigurbjörn Þór “Doddi” Bjarnason, TF3SB, mætti í sófaumræður og var yfirskriftin: Lampatækin lifa enn; Heathkit HW 101 á staðnum.

Flestir voru mættir upp úr kl. 10 en Doddi byrjaði umræðurnar nákvæmlega kl. 10:30. Hann fjallaði fyrst á afar fróðlegan hátt um mismunandi gerðir lampa og síðan um tímabilið ca. frá 1960 til 1980 og um helstu framfarir í HF stöðvum radíóamatöra á þeim tíma. Sérstaklega var rætt um stöðvar frá Heathkit, Collins, Swan, R.L. Drake og fleiri. Doddi fékk mikið af spurningum sem hann svaraði greiðlega og út frá þeim voru sagðar margar skemmtilegar “lampatækjasögur”.

TF3SB mætti í Skeljanes með (sem nýja) Heathkit HW-101 sendi-/móttökustöð, en HW-101 var einhver vinsælasta HF stöðin upp úr 1970 um allan heim (þ.m.t. á Íslandi). Hann kom einnig með „original” aflgjafa, SpeedEx („original”) handmorslykil og Shure 444D borðhljóðnema. Oskerblock „original” silfraði afl-/standbylgjumælir félagsins var notaður og valkvætt gerviálag frá Celwave svo og Butternut HF6Vstangarloftnet
félagsins.

Eftir umræður, gafst viðstöddum tækifæri til að handleika og prófa HW-101 stöðina. Eins og áður segir, var hún sem ný á að líta og silkimjúkar stillingar VFO’sins vöktu athygli. Miðað var við að dagskrá yrði tæmd á hádegi en þar sem umræðuefnið var mönnum hjartfólgið var húsið ekki yfirgefið fyrr en klukkustund síðar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurbirni Þór Bjarnasyni, TF3SB, fróðlegan og áhugaverðan viðburð.

Doddi flutti afar fróðlegt inngangserindi um mismunandi gerðir lampa. Frá vinstri: Carl Jóhann Lilliendahl TF3KJ, Mathías Hagvaag TF3-Ø35, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Brynjólfur Jónsson TF5B.

Jón Þóroddur Jónsson TF3JA skoðar búnaðinn af áhuga. Carl Jóhann Lilliendahl TF3KJ fylgist með.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI í sambandi frá TF3IRA um VUsat Oscar 52 (Hamsat) gervitunglið.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í fjarskiptum um gervitungl radíóamatöra frá félagsstöðinni, TF3IRA, í Skeljanesi, laugardaginn 17. nóvember.

Sambönd náðust í gegnum AMSAT Oscar 7, Fuji Oscar 29 (Jas 2), VUsat Oscar 50 og Saudi Oscar 52. Af þessum fjórum gervihnöttum er sent á þá alla á 70 cm og hlustað á 2 metrum, nema AMSAT Oscar 7, þar sem sent er á 2 metrum ogh hlustað á 70 cm. Flest samböndin voru höfð á SSB, nema á Oscar 50, þar sem notuð var tíðnimótun (FM). Að þessu sinni náðust ekki sambönd á morsi. Viðburðurinn var afar fróðlegur og vel heppnaður. Alls mættu 11 félagar í Skeljanes þennan sólríka laugardag.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI og Benedikt Guðnasyni, TF3TNT, fyrir áhugavert og vel heppnað námskeið og TF3JB og TF3SB fyrir meðfylgjandi ljósmyndir.

Slegið var á létta strengi á meðan beðið var næsta gervihnattar. Frá vinstri: Benedikt Guðnason TF3TNT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI, Brynjólfur Jónsson TF5B og Mathías Hagvaag TF3-Ø35.

Næsti gervihnöttur kominn. Frá vinstri: Benedikt Guðnason TF3TNT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI, Jón Þ. Jónsson TF3JA, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Upplýsingar um gervihnetti í boði á milli kl. 16 og 19 laugardaginn 17. nóvember.

Ari Þór Jóhannesson TF3ARI og Brynjólfur Jónsson TF5B skeggræða um gervihnattafjarskiptin.

Yngvi Harðarson TF3Y kynnti “Logbook of the World” gagnagrunnin í Skeljanesi þann 15. nóvember.

Fimmtudagserindið þann 15. nóvember var í höndum Yngva Harðarsonar, TF3Y, og nefndist: Logbook of the World (LoTW); hvar og hvernig. Yngvi kynnti rækilega hvernig leyfishafar bera sig að við að öðlast skráningu í gagnagrunninn sem getur verið vandasamt, nema að reglum ARRL sé fylgt.

Hann sýndi einnig að auðvelt er að hafa fleiri en eina skráningu í grunninum, t.d. fyrir TF3YHN, TF3YH og TF3Y. Hann sýndi einnig hvernig farið er að því að senda dagbókargögn í grunninn og benti m.a. á að mörg dagbókarforrit bjóði valkvætt, t.d. að senda gögn strax eftir að QSO’i er lokið. Hann fór einnig vel yfir, hve þægilegt og auðvelt er að fletta í eigin gögnum í grunninum og svaraði fjölda spurninga viðstaddra. Alls mættu 29 félagar í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld og áttu ánægjulega og fróðlega kvöldstund.

Stjórn Í.R.A. þakkar Yngva Harðarsyni, TF3Y, fyrir mjög áhugavert og vel heppnað erindi.

Yngvi fór vel yfir valmyndir gagnagrunnsins þar sem hægt er að kalla fram hinar ýmsu upplýsingar.

Frá vinstri: Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Brynjólfur Jónsson TF5B, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Jón Gunnar Harðarson TF3PPN og Jón Þóroddur Jónsson TF3JA.

Frá vinstri: Haraldur Þórðarson TF3HP, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Ólafur B. Ólafsson TF3ML, Jón Bergsson TF3JX, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Ari Þ. Jóhannesson TF3ARI, Þór Þórisson TF3GW, Sigurbjörn Þ. Bjarnason TF3SB og Kjartan H. Bjarnason TF3BJ.

Vegna mistaka voru aðeins sæti fyrir 25 manns í sal þannig að sumir urðu að sætta sig við að standa.

Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB

2. sunnudagsopnun á yfirstandandi vetrardagskrá verður haldin sunnudaginn 18. nóvember n.k. kl. 10:30 í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Sigurbjörn Þór “Doddi” Bjarnason, TF3SB,mætir í sófaumræður og er yfirskriftin: Lampatækin lifa enn. Hann tekur með sér eintak af Heathkit HW-101 sem var einhver vinsælasta HF amatörstöðin upp úr 1970 um allan heim (þ.m.t. á Íslandi).

HW-101’inn verður tengdur við loftnet og gefst mönnum tækifæri til að handleika og prófa gripinn. Doddi kemur með hljóðnema og morslykil. Húsið verður opnað kl. 10 árdegis og er miðað við að dagskrá verði tæmd á hádegi.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

________

Fyrirkomulag umræðna í sunnudagsopnunum er hugsað sem afslappað, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, að þessu sinni Heathkit, leiðir umræðuna og svarar spurningum.

The HW-101: Our hero, the HW-101, came along around the early 70’s and stayed in production for 12 or 13 years! While production numbers are vague, it is estimated that 35,000 to 40,000 were produced by Heathkit during those years. It is still regarded as a very capable rig and has earned it’s place in Heathkit and amateur radio history as the most popular radio by numbers sold, at least for tube radios.

It was an improvement over the HW-100 by offering a CW filter as an option, and by using a better VFO and main tuning drive design. It also had better receive sensitivity than the HW-100. The HW-101 was so good that it was produced and sold for almost 13 years with very few changes or improvements. It sold, in kit form, for $399.95 in the fall 1980 Heathkit catalog, with the optional CW filter adding another $44.95. Heathkit ran specials over it’s production life and, consequently, the HW-101 could be purchased at times for less. It has gone down in amateur radio history as one of the most beloved, respected, and successful transceivers in history.

TF3ARI og TF3TNT leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í gervihnattafjarskiptum.

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins fer fram í Skeljanesi laugardaginn 17. nóvember kl. 16-19. Þá munu þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, verða með kynningu á því hvernig DX-sambönd um gervitungl fara fram. Þetta er endurtekning á vel heppnuðum viðburði, sem fram fór frá félagsstöðinni þann 20. október s.l. Að þessu sinni verða höfð sambönd bæði á morsi og tali.

TF3IRA er nú að fullu QRV til fjarskipta um gervitungl. Á laugardag verður þess m.a. freistað að ná sambandi við geimstöðina ARISS, en um borð eru geimfarar sem jafnframt eru radíóamatörar. Meðal geimfara í stöðinni um þessar mundir er radíóamatörinn Akihiko Hoshide, KE5DNI, sem hefur að undanförnu haft töluvert af samböndum við aðra leyfishafa á jörðu niðri og við þau tækifæri notað kallmerki geimstöðvarinnar, OR4ISS.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn sem hafa áhuga á fjarskiptum af þessu tagi, að láta þennan viðburð ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar.


Yfirlit yfir gervihnattabúnað TF3IRA.

(1) VHF/UHF hringpóluð Yagi loftnet frá M2. VHF netið er af 2MCP14 gerð; 14 staka með 10.2 dBdc ávinningi. UHF netið er af 436CP30 gerð; 30 staka með 14.15 dBdc ávinningi. (2) Rótor er frá Yaesu af G-5400B gerð, sambyggður fyrir lóðréttar og láréttar stillingar. Með honum fylgir fjölstillikassi (e. Elevation Azimuth Dual Controller) stýranlegur frá tölvu. (3) VHF og UHF formagnarar eru frá SSB-Electronic GmbH. Mögnun er 20 dB/0,8 dB suðhlutfall á VHF og 20 dB/0,9 dB suðhlutfall á UHF. (4) Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð félagsins er notuð til fjarskipta um gervitungl. Hún er mest 100W á 144-146 MHz og mest 50W á 430-440 MHz.

Yaesu FT-7900E stöðin er staðsett á vinstra horni hillunnar á fjarskiptaborði-B. Auðvelt er að ganga að henni, enda hugmyndin að hana megi nota til styttri sambanda, þrátt fyrir að Kenwood 2000 stöðin sé í notkun hjá öðrum sem situr í stólnum við fjarskiptaborðið.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri TF3IRA, tengdi nýja Yaesu FT-7900E FM VHF/UHF stöð félagsins fimmtudagskvöldið 8. nóvember s.l., en J-póll loftnet stöðvarinnar var sett upp á ný (eftir viðgerð) nokkru áður. Stöðin er látin skanna tíðnir íslensku endurvarpana á VHF, þ.e. TF1RPB, TF1RPE, TF3RPA, TF3RPC, TF5RPD og TF8RPH, auk þess að skanna kalltíðnirnar 144.500 MHz og 433.500 MHz.

Sendiafl FT-7900E er valkvætt, 5/10/20/50W á 2 metrum og 5/10/20/45W á 70 cm. Viðtækið þekur aukalega tíðnisviðin 108-520 MHz og 700-1000 MHz. FT-7900E stöðin kemur í stað eldri stöðvar (Yaesu FT-4700RH) sem félaginu var gefin fyrir rúmum tveimur áratugum. Nettó kostnaður félagssjóðs vegna nýju stöðvarinnar er 20 þúsund krónur.

Hugmynd stöðvarstjóra er að tengja lágtalara við stöðina n.k. fimmtudag og koma fyrir í salnum niðri. Þannig, að félagar geti kallað á TF3IRA og verið nokkuð vissir um að fá svar þegar viðvera er í Skeljanesi. Þessu fylgja ótvíræð þægindi, m.a. þegar menn gera tilraunir á 2 metrum og 70 sentímetrum. Því skal haldið til haga, að þótt Kenwood TS-2000 stöð félagsins geti verið QRV með ágætum í þessum tíðnisviðum, þá er ekki heppilegt að taka hana fyrir not af þessu tagi, þar sem hún þarf að geta verið til reiðu jafnt á HF sem og á VHF/UHF (í gegnum gervitungl) á opnunarkvöldum.

FT-7900E í nærmynd. Benedikt forritaði stöðina með nöfnum endarvarpanna annarsvegar, og með nöfnum kalltíðnanna hinsvegar. Stafirnir “CAL UHF” þýðir þannig “kalltíðni á UHF” sem er tíðnin 433.500 MHz.

FT-7900E komið fyrir á fjarskiptaborði-B í fjarskiptaherbergi TF3IRA fimmtudagskvöldið 8. nóvember.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri, heldur hér á J-pól loftnetinu eftir gagngera viðgerð. Loftnetið sem er smíðað úr koparrörum, var orðið ansi spansgrænt. Þegar lokið var við að fjarlægja spansgrænuna, var það varið með því að úða á það sérstöku hvítu lakki til varnar, enda Atlantshafið aðeins í nokkurra tuga metra fjarlægð frá notkunarstaðnum. J-póllinn var smíðaður af Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, sem gaf félaginu það fyrir 10 árum.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW í fjarskiptaherbergi TF3IRA í október s.l. Ljósmynd: TF3LMN.

Alls tóku 7 íslenskar stöðvar þátt í SSB-hluta CQ World-Wide DX keppninnar sem haldin var helgina 27.-28. október s.l. Bráðabirgðaniðurstöður (e. claimed scores) hafa nú verið birtar á heimasíðu keppnisnefndar. Samkvæmt þeim, náði Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, 2. sæti yfir heiminn (silfurverðlaunum) og 1. sæti (gullverðlaunum) yfir Evrópu. Sigurður keppti á 14 MHz í einmenningsflokki, hámarksafli.

Hann hafði að þessu sinni alls 4.336 QSO m.v. 33 klst. viðveru samanborið við alls 3.871 QSO og 40 klst. viðveru í keppninni í fyrra (2011). Þetta er glæsilegur árangur og staðfestir enn einu sinni, að Sigurður er í hópi bestu keppnismanna í heimi.

Aðrar stöðvar reyndust vera með ágætan árangur. Athygli vekur árangur Guðmundar Sveinssonar, TF3SG, sem nær 10. sæti yfir heiminn og 10. sæti yfir Evrópu, en hann keppti á 3,7 MHz í einmenningsflokki, hámarksafli. Árangur keppnishópsins frá félagsstöðinni TF3W, undir forystu Jóns Ágústs Erlingssonar, TF3ZA, er einnig ágætur, en þeir náðu 50. sæti yfir heiminn og 24. sæti yfir Evrópu í sínum keppnisflokki á öllum böndum. Sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Stjórn Í.R.A. óskar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur svo og öðrum þátttakendum með þeirra niðurstöðu.

Keppnisflokkur

Kallmerki

Yfir heiminn

Yfir Evrópu

Heildarstig

Einmenningsflokkur, 15 metrar, hámarksafl, aðstoð

TF3AO

66. sæti

40. sæti

50.400
Einmenningsflokkur, 20 metrar, hámarksafl

TF3CW

2. sæti

1. sæti

1.488.780

Einmenningsflokkur, 80 metrar, hámarksafl

TF3SG

10. sæti

10. sæti

35.640

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3AM

435. sæti

151. sæti

183.312

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3GX

888. sæti

314. sæti

12.000

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl, aðstoð

TF3IG

783. sæti

290. sæti

41.360

Fleirmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3W*

50. sæti

24. sæti

7.761.936

*TF3W op’s: TF3ZA, SMØMDG, SMØMLZ og SMØNOR.


Hægt er að skoða bráðabirgðaniðurstöður (e. claimed scores) í einstökum keppnisflokkum á heimasíðu keppnisnefndar CQ tímaritsins á þessari vefslóð: http://www.cqww.com/claimed.htm?mode=ph

Yngvi Harðarson, TF3Y

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y, með erindi sitt: „Logbook of the World” (LoTW);
hvar og hvernig?

Yngvi mun m.a. kynna hvernig leyfishafar bera sig að við að skrá kallmerki sitt inn í gagnagrunninn.
Hann mun einnig sýna hvernig farið er að því að senda dagbókargögn til ARRL og síðan hvernig menn fletta upp í eigin gögnum í fjarskiptadagbókinni í grunninum. Samkvæmt upplýsingum frá ARRL eru nú um 57 þúsund leyfishafar skráðir LoTW.

Ljóst er, að verulegur sparnaður er því samfara að senda gögn til LoTW, en sumir ná allt að 30% “nýtni” sem fer vaxandi með hverju árinu. Miðað við að það kosti 15 krónur að prenta hvert QSL kort og síðan 9,50 krónur að senda það í bureau’inu, getur sparnaðurinn orðið verulegur.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega. Kaffiveitingar.

Vefslóð á heimasíðu ARRL: http://www.arrl.org/logbook-of-the-world

Í.R.A. hefur borist erindi Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 9. nóvember þess efnis, að íslenskum leyfishöfum er veitt framlengd heimild til aðgangs að tíðnisviðinu 1850-1900 kHz í tilgreindum alþjóðlegum keppnum radíóamatöra á árinu 2013 (sbr. meðfylgjandi töflu). Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. G-leyfishöfum er heimilt að nota fullt afl í sviðinu (þ.e. 1kW). Erindi PFS er í samræmi við beiðni félagsins þessa efnis, sem sent var stofnuninni fyrr í mánuðinum.

Núgildandi heimild, hefði að óbreyttu runnið út í lok þessa árs (2012). Ný heimild er áfram veitt á víkjandi grundvelli samkvæmt forgangsflokki 2. Leyfishafa skulu sækja sérstaklega um til PFS áður en starfræksla er hafin á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is

Stjórn Í.R.A. fagnar áframhaldandi heimild til handa íslenskum leyfishöfum á ofangreindu tíðnisviði á árinu 2013.

Keppni

Teg. útg.

Hefst

Lýkur

Tímalengd

CQ World-wide 160 metra keppnin

CW

25. janúar kl. 22:00 27. janúar kl. 22:00

48 klst.

ARRL DX keppnin

CW

16. febrúar kl. 00:00 17. febrúar kl. 23:59

48 klst.

CQ World-wide 160 metra keppnin

SSB

22. febrúar kl. 22:00 24. febrúar kl. 22:00

48 klst.

ARRL DX keppnin

SSB

2. mars kl. 00:00 3. mars kl. 23:59

48 klst.

CQ WPX keppnin

SSB

30. mars kl.00:00 31. mars kl. 23:59

48 klst.

CQ WPX keppnin

CW

25. maí kl. 00:00 26. maí kl. 23:59

48 klst.

IARU HF World Championship keppnin

CW/SSB

13. júlí kl. 12:00 14. júlí kl. 12:00

24 klst.

CQ World-wide DX keppnin

SSB

26. október kl. 00:00 27. október kl. 23:59

48 klst.

CQ World-wide DX keppnin

CW

23. nóvember kl. 00:00 24. nóvember kl. 23.59

48 klst.

ARRL 160 metra keppnin

CW

6. desember kl. 22:00 8. desember kl. 16:00

40 klst.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI talar um eiginleika FlexRadio 3000 í Skeljanesi þann 11. nóvember. Frá vinstri: Haraldur Þórðarson TF3HP, Gunnar Svanur Hilmarsson TF3FIN, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI, Yngvi Harðarson TF3Y, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Stefán Arndal TF3SA, Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Mathías Hagvaag TF3-Ø35.

Fyrsta sunnudagsopnun félagsaðstöðunnar samkvæmt vetrardagskrá var í dag, sunnudaginn 11. nóvember. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, mætti í Skeljanes og kynnti helstu eiginleika og sérstöðu FlexRadio stöðvanna, sem notast saman með PC-tölvu til að virka. Hann kom með Flex 3000 stöð á staðinn, sem var tengd við Butternut HF6V stangarloftnet félagsstöðvarinnar. Stöðin var prófuð bæði í móttöku og sendingu á 14, 21 og 28 MHz og kom skínandi vel út. Hann sýndi mörg skemmtileg dæmi um hæfileika viðtækisins, sem gefur afar fjölbreytta möguleika til móttöku á morsi, tali og stafrænum tegundum mótunar. Í lokin var stöðin opnuð og innihaldið skoðað. Samdóma álit manna var að þetta væri vönduð smíði. Góð mæting var í Skeljanes þennan sólríka vetrarmorgun í höfðuborginni og komu tæplega 20 félagar á staðinn.

Stjórn Í.R.A. þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI, fyrir fróðlegan og áhugaverðan viðburð og Páli B. Jónssyni, TF8PB, fyrir lán á Flex 3000 stöðinni, svo og Kolbrúnu Eddu (dóttur Ara) fyrir listagott heimabakað kaffibrauð.

Ari sagði m.a. að það væri ekkert breytilegt viðnám í stöðinni og skoraði á menn að finna ef svo væri…

Benedikt Guðnason TF3TNT var vantrúaður og það tók hann aðeins örfáar sekúndur að finna það fyrsta.

Eftir kynningu Ara á helstu eiginleikum FlexRadio stöðvanna var tekið til við að opna Flex 3000.