EMC-nefnd Í.R.A. hefur unnið umsögn um tillögu að staðli um fjarskipti yfir raflínur, sem nýlega var komið á framfæri við Póst- og fjarskiptastofnun. Umsögn nefndarinnar er birt í heild hér á eftir til fróðleiks fyrir félagsmenn. Nefndina skipa: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA formaður, Gísli G. Ófeigsson TF3G og Yngvi Harðarson TF3Y.
_
Til Póst-og fjarskiptastofnunar
Suðurlandsbraut 4
108 Reykjavík
Efni: Umsögn um tillögu að staðli um fjarskipti yfir raflínur
Dags.: 30. október 2012
Inngangur
Fjarskipti yfir raflínur hafa verið stunduð um áratuga skeið. Rafmagnsveitur notuðu lengst af raflínurnar til merkjasendinga en í afar litlum mæli. Á 10. áratugnum byrjuðu miklar þreifingar í þá átt að nýta raflínukerfið til fjarskipta fyrir almenning. Hér á landi var starfsemi Línu.nets mest áberandi á þessu sviði og var talsverðum fjármunum varið í prófanir og tilraunauppsetningar. Til stóð að bjóða fólki samband með samnýttum hraða 1 Mb/s – 3 Mb/s og hefði samnýtingin orðið milli allra íbúða sem tengdust sama spenninum í 230 V kerfi Orkuveitunnar. Fjarskiptin yfir raflínurnar byggjast á því að nýta stuttbylgjusviðin og helst tíðnisviðin þar fyrir neðan fyrir merki sem send eru eftir raflínum. Í kerfi Línu.nets var það alltaf nokkur ráðgáta hvernig merkin kæmust fram hjá raforkumælinum sem er við rafmagnsinntak hverrar íbúðar, en hann er ágæt láhleypisía og heftir því verulega útbreiðslu hátíðnimerkja eftir línunum. Engri hátíðnibrúun yfir mælinn var beitt. Aðferðin fólst í því að senda mjög sterkt merki að mælinum, láta það geisla út nærri íbúðinni og treysta á loftnetsverkun raflínanna í nærliggjandi íbúðum til að nema merkin og skila þeim inn á raflínurnar.
Fljótlega eftir aldamótin var alveg horfið frá hugmyndinni um raflínufjarskipti í aðgangsnetinu. Í staðinn hóf Orkuveitan ljósleiðaravæðingu og raflínufjarskiptin fluttust inn í íbúðir fólks. Nú eru þau notuð innan íbúða með misjöfnum árangri. Uppsetningarmenn á vegum símafélaganna hrífast ekki af þessari tækni, hún er óáreiðanleg virkar sums staðar og annars staðar ekki og einnig er virknin tímaháð. Raflínufjarskipti eru þó notuð hér á landi enda skiptir áreiðanleikinn stundum litlu máli, t.d. við vefskoðun. Hins vegar henta þau engan veginn fyrir flutning IPTV merkja.
Til eru mun hentugri og öruggari lausnir til fjarskipta innan íbúða sem nýta t.d. kóaxlagnir (MoCA) og símalínur (HomePNA). Einnig hefur þráðlaus tækni tekið stórstígum framförum á undanförnum árum, einkum með tilkomu staðalsins IEEE802.11n sem nýtir bæði OFDM og MIMO. Þessi staðall g.r.f. merkjum á 2,4 GHz og 5 GHz og leyfir allt að 600 Mb/s gagnahraða. Sending IPTV merkja með þessari tækni hefur verið prófuð og gengur upp. Auk þessa er nýr WiFi staðall í undirbúningi, 802.11ac en hann vinnur á 5 GHz tíðnisviðinu og leyfir gagnahraða yfir 1 Gb/s.
Frumvarp að nýjum staðli fyrir fjarskipti um raflínur FprEN 50561-1
Meðal radíóamatöra hefur farið fram mikil umfjöllun um þessi drög að staðli. Óttast menn mjög að innleiðing hans geti þýtt endalok stuttbylgjufjarskipta a.m.k. eins og þau eru nú þekkt í þéttbýli. Þýskur amatör, Karl Fischer að nafni hefur varið miklum tíma í að kynna sér drögin og skrifað um þau ítarlega grein. Það er mat undirritaðs að mati hans sé treystandi og hafa mörg landsfélög í Evrópu einnig metið það svo. Karl er hugbúnaðarverkfræðingur en hefur greinilega tileinkað sér radíófræði mjög vel ef marka má þau skrif sem hann birtir á heimasíðu sinni. Hans niðurstaða um staðlafrumvarpið er eftirfarandi:
„EN 55022 was written by experts in order to protect the radio spectrum – whereas FprEN 50561-1 was written by the industry in order to be able to sell PLC devices. Actually there is no necessity whatsoever for a new Standard – the real purpose of this draft Standard is to raise the existing well-considered limits for disturbance emissions up to 10,000-fold and to flood the European market with PLC devices. If it is approved, it will render the valuable natural resource Shortwave completely useless for the Amateur Radio service and nearly useless for the Broadcasting service. FprEN 50561-1 undermines the liability to protect Radio Services from harmful interference which all members of the International Telecommunication Union accepted by commitment to the “Radio Regulations”of the ITU, because they prescribe: “S15.12 § 8 Administrations shall take all practicable and necessary steps to ensure that the operation of electrical apparatus or installations of any kind, including power and telecommunication distribution networks, but excluding equipment used for industrial, scientific and medical applications, does not cause harmful interference to a radiocommunication service and, in particular, to a radionavigation or any other safety service operating in accordance with the provisions of these Regulations”.
EMC-nefnd ÍRA tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í grein Karls Fischer.
Rétt er að benda á að skv. staðlafrumvarpinu er gert ráð fyrir nýtingu tíðnisviðs niður í 150 kHz. Gert er ráð fyrir að merkisstyrkur á því tíðnibili geti orðið allt að 66 dBµV. Þetta samsvarar um 2 mV merkisspennu á línunni. Þessi spenna framkallar straum á rafmagnslínunni sem veldur útgeislun. Inni á heimili er um að ræða nærsviðsútgeislun enda er bylgjulengd um 1500 m löng á 200 kHz. Ríkisútvarpið sendir út á langbylgju frá Gufuskálum á 189 kHz og er viðmiðunarsviðsstyrkur á Reykjavíkursvæðinu um 70 dBµV/m. Með slumpareikningi er hægt að sýna fram á að sviðsstyrkur raflínufjarskipta í nærsviði inni á heimili m.v. 5 m fjarlægð frá útgeislandi vír er mjög nálægt sviðsstyrk Ríkisútvarpsins. Það eru því líkur á því að raflínufjarskipti geti truflað langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins inni á heimilum. Með hliðsjón af því að þessar sendingar teljast hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar væri tekin nokkur áhætta af því að leyfa slík raflínufjarskipti.
Niðurstaða
EMC-nefnd ÍRA mælir með því að fulltrúi Íslands í staðlanefndinni CENELEC leggist gegn því að staðlafrumvarpið FprEN 50561-1 verði samþykkt sem staðall. Með innleiðingu búnaðar skv. þessum staðli væri tekin mikil áhætta sem felst í því að stuttbylgjufjarskipti í þéttbýli truflist verulega og einnig langbylgjufjarskipti sem snerta öryggi þjóðarinnar. Það er mat ÍRA að nóg sé af öðrum handhægum lausnum til innanhússfjarskipta svo að áhrif af því að hafna staðlinum yrðu óveruleg.
______________________________
Sæmundur E. Þorsteinsson
Formaður EMC-nefndar ÍRA