Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 28. september fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20:00 til kl. 22:00.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið, flokka kortasendingar og raða í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Námskeiðið ÍRA til amatörprófs haustið 2023 hófst í Háskólanum í Reykjavík mánudaginn 25. september. Jónas Bjarnason, TF3JB formaður félagsins setti námskeiðið.

Alls er 31 þátttakandi skráður. Þar af mættu 13 í kennslustofu, 15 voru í netsambandi og 3 voru fjarverandi. Fjartengingar gengu vel innan lands og utan (en tveir tveir þátttakendur eru erlendis). 

Eftir setningu tók Kristinn Andersen, TF3KX við og hóf kennsluna. Hann verður einnig með kennslu í kvöld (þriðjudag) en Njáll H. Hilmarsson, TF3NH tekur við á miðvikudag. Kennsla verður síðan samkvæmt tímaplani. Námskeiðinu lýkur 7. nóvember n.k. Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið 11 nóvember.

Bestu óskir um gott gengi og þakkir til allra sem koma að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA setti námskeiðið kl. 18:45. Aðrir á mynd: Kristinn Andersen TF3KX og Jón Björnsson TF3PW.
Byrjunarörðugleikar (tölvumál) og nemendur hjálpa til. Kristinn Andersen TF3KX, Valdimar G. Guðmundsson, Þór Eysteinsson og Jón Björnsson TF3PW.
Mynd úr kennslustofu M117 í Háskólanum í Reykjavík 25. september. Ljósmyndir: Jón Svavarsson TF3JON.

Námskeið ÍRA til amatörprófs hefst í dag, mánudag 25. september kl. 18:30 í Háskólanum í Reykjavík. Lengd námskeiðs er 7 vikur / 62 klst. og lýkur 7. nóvember. Kennd verða raffræði, radíótækni, reglugerð og radíóviðskipti.

Alls eru skráðir 30 þátttakendur.

Kennt verður í stofu M117 og samhliða yfir netið í gegnum tölvu (eða snjalltæki) þar sem fjarstaddir þátttakendur fylgjast með um eigin tölvubúnaði með forritinu Zoom.

Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið í HR laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 10:00 árdegis.

Vefslóð á skipulag námskeiðs: http://www.ira.is/namskeid/

Með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

Í gær (22. september) bættist við innanlandsviðtæki til hlustunar yfir netið. Það er sömu tegundar og þau fyrri, þ.e. af KiwiSDR gerð, staðsett á Stapa á Reykjanesi. Viðtækið hefur afnot af 20 metra löngu vírloftneti. Daggeir Pálsson, TF7DHP lánaði loftnetsspenni.

KiwiSDR viðtækin vinna frá 10 kHz upp í 30 MHz. Hægt er að hlusta á AM, FM, SSB og CW sendingar og má velja bandbreidd sem hentar hverri mótun. Allt að átta notendur geta verið skráðir inn á viðtækið samtímis.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð að uppsetningu viðtækisins ásamt Georg Kulp, TF3GZ. Georg er eigandi tækisins (sem var áður í notkun á Raufarhöfn þegar það var tekið niður 8. ágúst s.l.).
Vefslóð: http://stapi.utvarp.com/?fbclid=IwAR03fRWcTOvwTCy2JCSo_N1RjbWtBbTjto8HTk3DxT36J4ZcMWwyDp1Sfkc

Stjórn ÍRA þakkar fyrir verðmætt framlag. Hér um að ræða mikilvæga viðbót fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í þessum tíðnisviðum, auk hlustara og allra sem hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna.

Stjórn ÍRA.

Bent er á fróðlega grein Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A um KiwiSDR viðtækin sem birtist í 4. tbl. CQ TF 2020; bls. 41: „Aðgengileg viðtæki á Íslandi yfir netið“. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/09/cqtf_34arg_2020_04tbl.pdf

Myndin er af KiwiSDR viðtæki eins og notað er á Stapa á Reykjanesi.

37. CQ World Wide RTTY DX keppnin fer fram um næstu helgi. Þetta er 48 klst. keppni, sem hefst kl. 00:01 á laugardag og lýkur tveimur sólarhringum síðar, sunnudag 24. september kl. 23.59.

Keppnin er í nokkrum atriðum ólík öðrum WW keppnum CQ tímaritsins. Hún fer t.d. ekki fram á 160 metrum; einnig eru margfaldarar ólíkir sem og stigagjöf. Sjá nánar í keppnisreglum:  

https://www.cqwwrtty.com/rules.htm
https://www.cqwwrtty.com/

Bestu óskir um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

CQ WW RTTY DX keppnin hefur verið í boði árlega frá árinu 1987. Þátttaka hefur yfirleitt verið góð frá Íslandi. Nefna má t.d. frábæran árangur TF2R (2017) þegar TF2LL, TF3AO, TF3PPN og TF3IG náðu 9. sæti yfir Evrópu og 10. sæti yfir heiminn í fleirmenningsflokki. Einnig, að ógleymdum frábærum árangri TF1AM í einmenningsflokki þegar Andrés náði 10. sæti yfir Evrópu og 20. sæti yfir heiminn sama ár.

Myndin er af Kenwood TS-520 100W sendi-/móttökustöð fyrir 10, 15, 20, 40 og 80 m. böndin. Félagsstöð ÍRA fékk slíka stöð til afnota árið 1974 og var fyrsta RTTY sambandið frá amatörstöð á Íslandi haft frá TF3IRA þann 29. mars 1974. Það var Kristján Benediktsson TF3KB sem var á lyklaborðinu. Stöðin var virk í flestum RTTY keppnum um árabil frá þeim tíma.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 21. september fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20:00 til kl. 22:00.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið, flokka kortasendingar og raða í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 14. september kl. 20 til 22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

Nýjustu tímarit fyrir radíóamatöra liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Málningarframkvæmdir standa yfir í Skeljanesi. Myndin er af bakhlið hússins. Sjá má starfsmann verktakans á þakinu.
Mynd af framhlið hússins. Þegar búið verður að mála gluggakarma verður þetta eins og nýtt hús. Ljósmyndir: TF3JB.

Scandinavian Activity keppnin (SAC) – CW hluti – verður haldinn um næstu helgi, 16.-17. september.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst á laugardag á hádegi og lýkur á sunnudag á hádegi.

Radíóamatörar í Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð keppa ásamt radíóamatörum á Svalbarða, Bjarnareyju, Álandseyjum, Market Reef, Grælandi og í Færeyjum á móti heiminum og innbyrðis.

Svalbarði og Bjarnareyja – JW
Jan Mayen – JX
Noregur – LA – LB – LC – LG – LI – LJ – LN
Finnland – OF – OG – OH – OI
Álandseyjar –  OFØ – OGØ – OHØ
Market Reef – OJØ
Grænland – OX – XP
Færeyjar – OW – OY
Danmörk – 5P – 5Q – OU – OV – OZ
Svíþjóð – 7S – 8S – SA – SB – SC – SD – SE – SF – SG – SH – SI – SJ – SK – SL – SM

Ísland – TF

Mikilvægt er að sem flestar TF-stöðvar taki þátt!

Stjórn ÍRA.

.

Námskeið ÍRA til amatörprófs verður haldið 25. september til 7. nóvember í Háskólanum í Reykjavík, bæði í staðnámi og fjarnámi. Hægt er að mæta í kennslustofu þegar það hentar eða vera yfir netið þegar það hentar.

Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30.

Námskeiðsgjald er kr. 22.500. Greiðsla þarf að hafa borist til gjaldkera eigi síðar en 17. september. Í framhaldi verður námsefni á prenti póstlagt 19. september. Sjá greiðsluupplýsingar hér: http://www.ira.is/skraning-a-namskeid/  Bent á fræðslustyrki stéttarfélaga og Vinnumálastofnunar til þeirra sem sækja námskeiðið.

Skipulag: https://tinyurl.com/namsk-haust23
Vefslóðir á námsefni: https://tinyurl.com/namsefni-haust23
Kynningarefni: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Fyrirspurnir eru velkomnar á póstfang félagsins: ira@ira.is

Stjórn ÍRA.

.

Myndin er af Elínu Sigurðardóttur TF2EQ í fjarskiptum um gervitunglið QO-100 (OSCAR 100) við gervihnattastöð TF3IRA í Skeljanesi í Reykjavík. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 7. september. Umræður voru á báðum hæðum, menn hressir og TF3IRA var QRV á 7 og 14 MHz.

Yfir kaffinu var mikið rætt um loftnet, tæki og búnað og skilyrðin á böndunum. Margir velta fyrir sér uppsetningu á nýjum loftnetum, en stærstu alþjóðlegu keppnir ársins eru framundan. Einnig komu góðir gestir í hús sem íhuga að taka þátt í námskeiði félagsins sem hefst 25. september n.k. í HR, bæði í stað- og fjarnámi. Þá hafði töluvert borist af góðu radíódóti frá þeim TF3TV og TF3WS.

Alls mættu 25 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í kyrru síðsumarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Björgvin Víglundsson TF3BOI (standandi), Jón Björnsson TF3PW, Einar Kjartansson TF3EK, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Mathías Hagvaag TF3MH.
Benedikts Sveinsson TF3T, Erling Guðnason TF3E og Einar Kjartansson TF3EK. Benedikt sýndi okkur áhugaverðan heimasmíðaðan loftnetsrofa.
Gestir félagsins þetta fimmtudagskvöld voru tveir ungir menn úr hugbúnaðargeiranum sem íhuga að skella sér á námskeið ÍRA til amatörleyfis sem hefst 25. september n.k. Með þeim á mynd er Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Kristján Benediktsson TF3KB, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL og Mathías Hagvaag TF3MH. Ólafur er nýkominn til landsins úr þriggja mánaða ferð með eigin bifreið og fjarskiptabúnað um Evrópu. Hann var m.a. QRV frá 11 DXCC löndum /M.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Bernhard M. Svavarsson TF3BS ræddu m.a. um aflgjafa.
Erling Guðnason TF3E og Georg Kulp TF3GZ.
Hluti af radíódóti sem Sigurður Harðarson TF3WS færði félaginu nýlega.
Mynd af radíódóti sem Ásgeir Sigurðsson TF3TV færði félaginu nýlega. Ljósmyndir: TF3JB.