Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi um QRP í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 8. mars 2012.
Kristinn Andersen, TF3KX, flutti fimmtudagserindið þann 8. mars og nefndist það QRP kvöld; heimasmíði og notkun QRP senda. Erindið var bæði áhugavert og bráðskemmtilegt og þurftu félagsmenn margs að spyrja. Um 30 félagsmenn og gestir mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.
Kristinn fjallaði m.a. um alþjóðlegar skilgreiningar á QRP afli og QRPp afli sem er mest 5W annars vegar, og 1w hins vegar. Til fróðleiks lék hann upptöku af sendingu á morsi frá 4U1UN í New York í Bandaríkjunum, þar sem fyrst var sent stutt merki á 100W, síðan á 10W, þá á 1W og loks á 0,1W. Sérlega áhugavert var að heyra hversu læsilegt merkið var í öllum dæmunum, meira að segja á 0,1W í restina.
Kristinn fjallaði einnig um samspil QRP sendiafls og tíðna, þ.e. hve hærri amatörböndin í stuttbylgjusviðinu geta gefið góða raun og tiltölulega auðveld fjarskipti um þúsundir kílómetra. Hann fjallaði einnig um mikilvægi góðra loftneta þar sem þeim verður komið við, en bent jafnframt á eigin reynslu í notkun færanlegra stöðva innanlands (og erlendis) og notkun QRP afls með tiltölulega einföldum loftnetsbúnaði, ca. 10 metra löngum vír.
Stjórn Í.R.A. þakkar Kristni Andersen, TF3KX, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarsyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.
Kristinn heldur á vinsælum QRP tækjum sem keypt eru ósamsett frá Elecraft; gerðum K1 og K2.
QRP tæki og búnaður sem félagsmenn komu með og var til sýningar í fundarhléi.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS sýndi m.a. nýja Juma TRX2 sendi-/viðtækið sem hann hefur nýlokið smíði á og er 10W á morsi og tali á 160-10m. Haraldur Þórðarson TF3HP sýndi m.a. heimasmíðaðan sendi á PSK 31. Erling Guðnason TF3EE sýndi m.a. Yaesu FT-817 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 160-10m, auk 6m, 2m og 70cm. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX sýndi m.a. hinn fræga “Eldspýtnastokk” sem er 100mW morssendir, heimasmíðaðan “spýtumorslykil” og Elecraft K1 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 4 böndum. Halldór Christensen TF3GC sýndi m.a. senda frá nýliðatímabili sínu á 80 og 15 metrum. Loks sýndi Kristinn Andersen TF3KX Elecraft K2 10W sendi-/móttökustöðina sem vinnur á morsi og tali á 160-10m.
Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX kom með “eldspýtustokkinn” fræga sem inniheldur morssendi.