Kristján Benediktsson, TF3KB

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 23. febrúar n.k. Þá kemur Kristján Benediktsson, TF3KB, og nefnist erindi hans: Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður.

Kristján hefur jafnframt orðið góðfúslega við ósk félagsins um að fjalla stuttlega um helstu niðurstöður alþjóðlegu radíófjarskiptaráðstefnu ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk s.l. föstudag, 17. febrúar í Genf.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Benedikt Sveinsson TF3CY og Sigurður R. Jakobsson TF3CW

ARRL International DX morskeppnin stendur yfir helgina 18.-19. febrúar. Sigurður R. Jakobsson, TF3CW starfrækir félagsstöðina TF3W í keppninni í einmenningsflokki á öllum böndum, fullu afli. Undirbúningur
fyrir keppnina hefur staðið yfir undanfarnar tvær vikur og voru m.a. sett upp sérstök loftnet fyrir 80 metrana og 160 metrana vegna keppninnar.

80 metra loftnetið er 21 metra hátt færanlegt stangarloftnet og 160 metra loftnetið er 18 metra hátt færanlegt stangarloftnet, búið topphatti. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, lánaði 80 metra loftnetið, en Sigurður lánaði Spiderbeam stöngina. Sjá myndir af loftnetunum neðar á síðunni.

New-Tronics Hustler 5-BTV loftnet félagsins er notað á 40 metrum í keppninni og SteppIR 3E 3 staka Yagi loftnet félagsins er notað á 20, 15 og 10 metrum. Keppnin er 48 klst. keppni og lýkur henni á sunnudagskvöld kl. 23:59.

Færanlegt stangarloftnet TF3SG fyrir 80 metrana er á bílastæðinu við Skeljanes.

Stangarloftnetið með topphattinum fyri 160 metrana er staðsett á bárujárnsveggnum í Skeljanesi.

Ólafur Helgi Friðjónsson, TF3OF, er látinn. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hann hafi látist í Landspítalanum þann 10. febrúar s.l.

Ólafur var handhafi leyfisbréfs nr. 97 og lengst af félagsmaður í Í.R.A. Hann var á 78. aldursári.

Stjórn Í.R.A. sendir fjölskyldu Ólafs hugheilar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX var með erindi á fyrstu sunnudagsopnun félagsins 12. febrúar.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, var með fyrsta sunnudagserindið á yfirstandandi vetrardagskrá þann 12. febrúar. Vilhjálmur kynnti erindið eftirfarandi: Ætlunin er að fjalla um það sem heitir “duality” á ensku, sem ég hef lengi þýtt sem “tvídd” við kennslu. Þá er skoðuð samsvörun í jöfnum og rásum þegar víxlað er spennu og straumi.

Þó hægt sé að komast af án þessa hugtaks, víkkar það sjónarhornið og eykur skilning. Greining á einni rafrás gildir líka um aðra rás, sem er þá “tví” (dual) hinnar og öfugt. Það munar um minna en að helminga þann aragrúa af rásum sem við viljum skilja. Að sama skapi kann maður í raun 2 jöfnur fyrir hverja sem maður lærir, og getur stundum valið jöfnu sem gefur einfaldari útreikninga en sú sem annars þyrfti að nota.

Erindið hófst stundvíslega kl. 10:00. Vilhjálmur fór á kostum í yfirferð sinni og voru umræður fjörugar og stóðu fram yfir kl. 13:00. Alls mættu 18 félagsmenn í Skeljanesið að þessu sinni.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, vel heppnað og áhugavert erindi og Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, fyrir undirbúninginn.

Vilhjálmur fjallaði m.a. um “praktísk” atriði fyrir radíóamatöra sem stunda smíðar.

 

Yngvi Harðarson TF3Y og Sigurður R. Jakobsson TF3CW í Skeljanesi 9. febrúar 2012.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y fluttu vel heppnað erindi um alþjóðlegar keppnir í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 9. febrúar. Þetta var þriðja árið í röð sem þeir félagar halda tölu um viðfangsefnið (enda víðfemt) og að þessu sinni var lögð áhersla á undirbúningsþáttinn.

Þeir félagar komu víða við og fjölluðu um allt frá því hvernig best er að greina fjarskiptadagbækur frá fyrri keppnum til matarræðis og hvíldar. Það síðastnefnda er afar mikilvægt þar sem sumar keppnir heimila þátttöku (án hvíldar) í allt að tvo sólarhringa. Þá er ekki síður nauðsynlegt að tækin og allur
búnaður séu vel yfirfarinn og ef hægt er, að hafa tæki við vara.

Erindið var geysivel heppnað og skörunglega flutt. Í fyrirspurnum og umræðum kom í ljós mikill áhugi félagsmanna á efninu og er við því að búast að þeim fjölgi sem taka þátt í keppnnum frá TF á næstu misserum. Á þriðja tug félagsmanna hlýddu á erindið sem stóð til kl. 22:30.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW og Yngva Harðarsyni, TF3Y, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Power Point skyggnur frá erindinu má sækja á vefslóðina: http://www.ira.is/itarefni/

Það kom mörgum á óvart þegar þeir félagar bentu á að mikil kaffidrykkja væri varasöm í keppnum.

Á Íslandi er norðurljósavirkni að meðaltali 243 daga á ári. Sjá samanburðinn við nágrannalöndin.

Þeir Sigurður og Yngvi lögðu áherslu á menn kynni sér og noti skilyrðaspár sem þátt í undirbúningi.

Þeir félagar fóru að lokum yfir siðareglur keppenda í alþjóðlegum keppnum.

Ráðgert er að hafa til umfjöllunar rafmagnsfræði í næstu sunnudagsopnun félagsins að morgni þess 12. febrúar, ca. kl. 10.00 og mun Vilhjálmur Kjartansson, TF3DX leiða umræðuna. Þetta er hugsað sem viðbót við þá rafmagnsfræði sem kennd hefur verið á námskeiðum félagsins og farið vandlega ofan í fræðilega en afmarkaða hluti. Ráðgert að þetta verði með léttu sniði, skrifað á töfluna yfir kaffibolla.

73
Guðmundur de TF3SG

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW.

Yngvi Harðarson, TF3Y.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y, verða með næsta erindi á vetrardagskrá félagsins. Það verður haldið fimmtudaginn 9. febrúar n.kí félagsaðstöðunnni við Skeljanes.

Þeir félagar munu fjalla um þátttöku í alþjóðlegum keppnum og hve mikilvægt er að viðhafa markvissan undirbúning sem þátt í keppnisferlinu. Erindið hefst hefst stundvíslega kl. 20:30.

Félagar, fjölmennum! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

 

Kortastofa ÍRA tilkynnir hækkun á þjónustu. Frá og með deginum i dag kostar kr. 9,50 pr. kort, sem sent er í gegnum kortastofu ÍRA. Frá ármótum hefur ný gjaldskrá Íslandspósts verið í gildi. Rétt að geta þess að póstburðargjöld Íslandspósts hafa hækkað frá síðustu hækkun kortastofu ÍRA um 53,16% á bréfum til Evrópu og 50,88% utan Evrópu. Verð Íslandspósts á 250 gramma bréfi til Evrópu sem kostaði kr. 380 kostar eftir hækkun kr. 520 og verð á 250 gramma bréfi utan Evrópu sem kostaði kr. 570 kostar nú kr. 860.

73
Guðmundur, TF3SG

Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Benedikt Sveinsson TF3CY tengja AlfaSpid rótor félagsins 4. febrúar. Niðri, til hægri: Guðmundur Sveinsson TF3SG og Sigurður R. Jakobsson TF3CW.

Undanfarið hefur verið beðið tækifæris til að setja upp AlfaSpid rótor félagsins aftur í loftnetsturninn í Skeljanesi. Tækifærið gafst síðan í dag, þann 4. febrúar og var ákveðið í morgun kl. 11 að hittast kl. 12 á hádegi og ráðast í verkefnið. Það gekk að óskum og um kl. 13:30 var allt komið í gang og SteppIR 3E loftnet TF3IRA farið að snúast.

Bestu þakkir til þeirra Benedikts Sveinssonar, TF3CY, stöðvarstjóra TF3IRA, sem gerði við rótorinn og hafði umsjón með verkinu. Einnig þakkir til Sigurðar R. Jakobssonar, TF3CW; Baldvins Þórarinssonar, TF3-033; og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG. Aðrir á staðnum: Reynir Björnsson, TF3RL og Jónas Bjarnason, TF2JB.

Fyrirtaksveður var til framkvæmda í Skeljanesi 4. febrúar eins og myndin ber með sér; logn og 5°C lofthiti.

Benedikt TF3CY og Sigurður TF3CW “taka út” AlfaSpid rótorinn í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Glatt á hjalla í fjarskiptaherbergi félagsins enda búið að laga kaffi og rótorinn kominn upp. Frá vinstri: Oddur “okkar” Helgason, Guðmundur Sveinsson TF3SG, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Sigurður R. Jakobsson TF3CW.

Bókaskápurinn eins og hann lítur út eftir breytingu. Hvert tímarit hefur nú sína eigin hillu.

Nýlega bárust félaginu að gjöf 40 vandaðar innstungumöppur úr harðplasti. Í tilefni þess, brettu stjórnarmenn upp ermar um nýliðna helgi og var komið á skipulagi og nýrri uppröðun tímaritaeignar félagsins í bókaskáp í samkomusal á 1. hæð í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Eftir breytingu, hefur hvert tímarit eigin hillu sem er merkt með nafni þess. Árgangar tímaritanna CQ DL, QST, RadCom og norrænu tímaritanna OZ, Amatør Radio og QTC liggja frammi fyrir árin 2008-2012, en tímaritin Radioamatööri, Radio REF og Radio Rivista liggja frammi fyrir árin 2010-2012. Eldri áragangar hafa verið fluttir í geymslu. Sjá nánar lista yfir tímaritin hér á eftir:

Tímarit

Útgefandi

Tungumál

Útgáfutíðni

CQ TF ÍRA, Íslenskir radíóamatörar Íslenska Ársfjórðungslega
OZ EDR, Experimenterende Danske Radioamatører Danska Mánaðarlega
Amatør Radio NRRL, Norsk Radio Relæ Liga Norska Mánaðarlega
QTC SSA, Föreningen Sveriges Sändareamatörer Sænska Mánaðarlega
Radioamatööri SRAL, Suomen Radioamatööriliitoo OY Finnska Mánaðarlega
QST ARRL, American Radio Relay League Enska Mánaðarlega
RadCom RSGB, Radio Society of Great Britain Enska Mánaðarlega
CQ DL DARC, Deutscher Amateur-Radio-Club e.V. Þýska Mánaðarlega
Radio REF REF Réseau des Émetteurs Français Franska Mánaðarlega
Radio Rivista ARI, Associazone Radioamatori Italiani Ítalska Mánaðarlega

Hver hylla er sérmerkt viðkomandi tímariti, sem auðveldar aðgengi. Hver mappa inniheldur heilan árgang.

Þessi breyting gerir tímaritin aðgengilegri, auk þess sem merkingar eru samræmdar. Líkt og fram kemur í töflunni að ofan, eru það alls 9 erlend tímarit sem félaginu berast reglulega í hverjum mánuði. Í þessu felast verðmæti sem er ánægjulegt að félagsmenn geti nýtt sem best.

Benda má á, að ljósritunarvél félagsins er í góðu lagi og gefst mönnum kostur á að taka ljósrit upp úr tímaritunum frítt, m.a. í stærðinni A3 sem nær til dæmis að taka heila opnu í QST á eitt blað.

Sérhver innstungumappa rúmar heilan árgang og eru þær vel merktar eins og sjá má á myndinni.