Frá vinstri: TF3SA, TF3DC, TF3JA og TF3CW ræða um sérstöðu RDXC keppninnar. Ljósmynd: TF3LMN.

Ákveðið hefur verið að félagsstöðin verði virkjuð í The Russian DX Contest 2011 (RDXC) sem verður haldin um helgina, 19. til 20. mars. Um verður að ræða æfingar- og kynningarkeppni fyrir félagsmenn sem vilja kynnast og fá leiðbeiningar um þátttöku í alþjóðlegum keppnum. Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, mun leiðbeina og verða til aðstoðar. RDXC er heppileg sem „æfinga- og kynningarkeppni” þar sem hún er sólarhringskeppni (stendur yfir í 24 klst.) og keppt er bæði á CW og SSB, auk þess sem er þægilegt að hún hefst kl. 12 á hádegi á laugardegi og lýkur á sama tíma á sunnudegi.

Sigurður, TF3CW, gerir uppkast að viðverutöflu fyrir þátttakendur í keppninni. Ljósmynd: TF3LMN.

Verkefnið hefur verið til umræðu og í mótun á meðal áhugasamra sem hafa mætt í félagsaðstöðuna nokkra undanfarna fimmtudaga og var nánar til kynningar að afloknu erindi TF3AM í Skeljanesinu s.l. fimmtudag (10. mars). Þá var settur upp þátttökulisti og er þegar fullbókað í keppnina. Fyrirhugað er, að hópurinn hittist á laugardag kl. 09:00 í Skeljanesi og mun Sigurður undirbúa hópinn fyrir keppnina. Þótt fullbókað sé í keppnina, er áhugasömum félagsmönnum velkomið að mæta og fylgjast með. Þrátt fyrir að um æfinga- og kynningarkeppni sé að ræða, er markið sett hátt, eða á a.m.k. 2000 QSO. Kallmerkið TF3W verður notað í keppninni.

SteppIR 3E Yagi loftnet félagsins verður m.a. notað í RDXC keppninni. Ljósmynd: TF2JB.

Sjá nánar: http://www.rdxc.org/asp/pages/rulesg.asp

TF2JB

Andrés Þórarinsson, TF3AM, fjallaði um einfaldar og ódýrar lausnir í loftnetamálum. Ljósmynd: TF3LMN.

Andrés Þórarinsson, TF3AM, flutti áhugavert og skemmtilegt erindi í félagsaðstöðu Í.R.A. fimmtudaginn 10. mars. Erindið nefndi hann Loftnet sem allir geta smíðað. Hann fjallaði m.a. um einfaldar og ódýrar lausnir út frá hönnun tvípóla og einsbands og tveggja banda lóðréttra stanga (e. verticals). Þá kynnti hann EZNEC loftnetsforritið frá W7EL (sem sækja má ókeypis á netið). Hann sýndi m.a. áhugaverð dæmi um hönnun loftneta á 7 MHz. En með aðstoð forritsins má auðvelda mikið vinnu í sambandi við loftnetahönnun. Andrés sýndi mismunandi útgeislunarhorn mismunandi loftneta, m.a. eftir stærð (þ.e. sem hlutfall úr bylgjulengd) og eftir staðsetningu yfir jörð. Einnig, hve auðvelt er í raun að aðlaga fæðilínu loftnetum á lægri böndunum þegar aðstæður eru takmarkandi hvað varðar uppsetningu loftneta í fullri stærð. Góð mæting var í Skeljanesinu (29 félagsmenn) og svaraði Andrés greiðlega spurningum félagsmanna að loknum erindisflutningi.

Álrör, fáanleiki þeirra hér á landi og loftnetasmíð. Sigurður Óskarsson, TF2WIN, aðstoðaði. Ljósmynd: TF3LMN.

Sýnishorn af ýmsum “hjálparhlutum” sem Andrés notar við hönnun/uppsetningu eigin loftneta. Ljósm.: TF3LMN.

Andrés kom vel birgur af margskonar „hjálparhlutum” fyrir þá sem eru í loftnetahugleiðingum. Hann sýndi m.a. hversu auðvelt er að nota loftnet sem sagað hefur verið af af gömlu sjónvarpi á 144 MHz og einnig væri lítið mál er að hanna 1/4? loftnet úr ídráttarvír til notkunar á 144 MHz. Hann fjallaði ennfremur um álrör og þau fyrirtæki sem selja slíkt efni hérlendis (sbr. mynd 2). Einnig sýndi hann hagkvæma (en ódýra) heimasmíðaða loftnetsaðlögunarrás í gömlu kökuboxi.

Bestu þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF3AM, fyrir erindisflutninginn og til Jóns Svavarssonar, TF3LMN, fyrir myndatökuna

TF2JB

Benedikt Sveinsson, TF3CY.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, er nýr stöðvarstjóri TF3IRA. Hann var skipaður í embætti á fundi stjórnar félagsins þann 10. mars. Benedikt er G-leyfishafi og handhafi leyfisbréfs nr. 200. Hann er mikill áhugamaður um fjarskipti, m.a. um EME fjarskipti og hafði t.d. fyrsta EME sambandið á 50 MHz frá TF þann 12. júlí í fyrra (2010) og líklega fyrsta EME sambandið frá íslensku kallmerki á 144 MHz þann 19. febrúar s.l. Benedikt hefur einnig áhuga á alþjóðlegum keppnum og CW. Faðir hans er Sveinn Guðmundsson, TF3T og bróðir er Guðmundur Sveinsson, TF3SG.

Stjórn Í.R.A. væntir mikils af liðsinni Benedikts og býður hann velkominn til starfa. Hann mun formlega taka við embættinu allra næstu daga.

Sveini Braga Sveinssyni, TF3SNN, fráfarandi stöðvarstjóra, eru jafnframt þökkuð góð störf.

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. hefur óskað eftir birtingu eftirfarandi orðsendingar frá neyðarfjarskiptastjóra IARU svæðis 1 vegna náttúruhamfaranna í Japan. Orðsendingin varðar tíðnir sem notaðar eru til neyðarfjarskipta á vegum systurfélags okkar í Japan og er þess farið á leit við íslenska leyfishafa að virða þessi forgangsfjarskipti hvað varðar notkun 40 metra bandsins. Orðsendingin er birt óstytt hér á eftir á ensku:

The following information has just bee submitted to the IARU-R1 website following information received from Ken Yamamoto, JA1CJP of JARL.

“HF frequencies are now known to be in use by Japanese amateurs as part of their emergency response:

  • 7043 kHz SSB controled by JR3QHQ the Osaka branch manager of JARL He is gathering incident information on radio and forwarding this information onto the internet.
  • 7075 kHz SSB is operated by JL3YSP in Wakayama occasionally.
  • 7030 kHz which is the JARL emergency communication frequency in their bandplan is in use by JA7RL (JARL regional HQ station).

Would all amateurs please make every effort to avoid interfering with emergency communications on these frequencies.”

This information will also be made available on Twitter and Facebook when published. Since 7030 is mentioned I will also post this to the QRP mailing lists as this is a frequency used by them.

73, Greg, G0DUB, IARU Region 1 Emergency Communications Co-Ordinator.


Innskot 12.3.2011 kl. 14:50. Í Japan eru alls um 1,3 milljónir radíóamatöra, þannig að Japanir eru sjálfum sér um nógir hvað varðar neyðarfjarskipti. Samkvæmt IARU er því ekki áformað að sendir verði leyfishafar til neyðarfjarskipta í landinu frá öðrum landsfélögum radíóamatöra.

TF2JB

Áhugasamir um mors og morskennslu ætla að hittast sunnudaginn 13. mars kl. 10:00 og ræða um morskennslu og framhald hennar.

Áður auglýst umræðuþema um reglugerðarmál kl. 10:30 sama dag frestast því að sinni.

Gert er ráð fyrir stuttum fundi og skemmtilegum. Kaffi á könnunni og meðlæti. Mætum öll, 73 Guðmundur, TF3SG

Andrés Þórarinsson, TF3AM.

Næsta fimmtudagserindi félagsins verður haldið fimmtudaginn 10. mars n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Andrés Þórarinsson, TF3AM, og nefnist erindið “Loftnet sem allir geta smíðað”.

Andrés er félagsmönnum af góðu kunnur. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstöfunum Í.R.A. og m.a. skrifað reglulega greinar í CQ TF, auk þess að hafa kennt á námskeiðum félagsins til amatörréttinda. Hann er mikill keppnismaður og hefur undanfarin ár stundað keppnir, einkum frá sumarhúsi sínu í “TF1” kallsvæði, þar sem hann hefur einnig gert loftnetatilraunir. Andrés mun m.a. skýra frá helstu niðurstöðum þeirra í erindi sínu.

Félagar, fjölmennum! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.


Andrés Þórarinsson, TF3AM, er mikill áhugamaður um alþjóðlegar keppnir radíóamatöra. Í 4. tbl. CQ TF 2010 kemst hann skemmtilega að orði og skrifar m.a.: “Ég skal alveg játa það að kontestar (radíókeppnir) heilla mig. Þá gildir að hafa allan búnað í mjög góðu lagi, loftnet vel stillt, tölvan rétt sett upp og tengd við allan búnað, og síðan að sitja stíft við og slá eigið met sé þess kostur. Stóru kontestarnir eru skemmtilegastir, þá gengur mikið á, margir flinkir operatörar í loftinu og jafnmargir afleitir, sumar stöðvar eru hvellsterkar en aðrar heyrast varla, sumir komnir til að slá öll met en aðrir rétt grípa í tækin síðdegis á laugardegi sér til smáskemmtunar. RTTY kontestar eru auðveldastir, hver stöð tekur lítið tíðnisvið og styrkurinn nýtist vel, SSB eru sýnu erfiðari því hver talar ofan í annan og það þarf gott afl, góða heyrn og góða mótun til að það gangi vel. Stóru kontestarnir eru þeir sem skipulagðir eru af ARRL og CQ, svo og IARU, BARTG og þýska félaginu, þá er þátttakan yfirleitt afar góð og hefur farið vaxandi allan síðasta áratug. Besti tíminn til kontesta er yfir dimmari hluta ársins en einungis IARU er á miðju sumri”.

TF2JB

Ársæll Óskarsson, TF3AO.

Ársæll Óskarsson, TF3AO, leiðir umræðuþema dagsins á 4. og næstsíðustu sunnudagsopnun vetrardagskrárinnar, sunnudaginn 6. mars n.k. kl. 10:30. Sæli mun fjalla um notkun RTTY (Radioteletype) á HF-böndunum, en radíóamatörar hafa notað þessa tegnund útgeislunar í fjarskiptum um allan heim í bráðum 60 ár. Fyrst með aðstoð vélbúnaðar (e. teletype machines) en í seinni tíð með notkun tölva.
Félagið býður upp á kaffi og meðlæti.

Fyrirkomulag umræðna í sunnudagsopnunum er hugsað sem afslappað, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, nú RTTY, leiðir um ræðuna og svarar spurningum. Eftirtalin umræðuþema hafa þegar farið fram: Quad loftnet; Að læra mors; Fæðilínur og nú, RTTY. Á síðustu sunnudagsopnun vetrardagskrár, þann 13. mars n.k., verður umræðuþemað reglugerðarmál.

TF2JB

 

Í.R.A. stendur fyrir kynningu á starfsemi radíóamatöra í Raftækniskólanum / Tækniskólanum á Skólavörðuholti á svokölluðum opnum dögum skólans sem haldnir eru dagana 3. og 4. mars.


Jón Þóroddur Jónsson, verkfræðingur, TF3JA, mun annast kynninguna fyrir hönd félagsins og fer hún fram föstudaginn 4. mars á milli kl. 10-12. Viðburðirnir eru kynntir fyrirfram og þurfa nemendur að skrá sig sérstaklega á hvern viðburð.

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, er tæplega 2700 nemenda skóli. Hann er samsettur úr alls 10 sérgeindum skólum, þ.e. Byggingartækniskólanum, Hársnyrtiskólanum, Hönnunar- og handverksskólanum, Fjölmenningarskólanum, Flugskóla Íslands, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum og Véltækniskólanum.

Sjá nánar: http://www.vatnsendaskoli.is/files/skolinn/taekniskolinn.pdf?PHPSESSID=aa2ef12d9ab47d11c0f9aa05d876792c

 TF2JB

Áður auglýst fimmtudagserindi Jónasar Bjarnasonar, TF2JB og Guðlaugs K. Jónssonar, TF8GX, um viðurkenningarskjöl sem flytja átti fimmtudaginn 3. mars, fellur niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Leitast verður við að finna nýjan tíma sem allra fyrst í samráði við fyrirlesara. Almennt opnunarkvöld verður í félagsaðstöðunni við Skeljanes á venjulegum tíma.

TF2JB

Frá prófdegi 2010.

Námskeið til amatörréttinda verður haldið á vegum félagsins Íslenskir radíóamatörar á tímabilinu 7. mars til 27. apríl n.k.
Kennsla fer fram í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes, mánudaga og miðvikudaga frá kl. 19:00-22:00. Kennslu getur þó lokið
fyrr sum kvöld sem er háð kennsluefni hverju sinni.

Ath. að ekki verður af sérstöku kynningarkvöldi 2. mars n.k., heldur mun stutt kynning fara fram í byrjun fyrsta kvöldsins,
þ.e. mánudaginn 7. mars. Öllum er frjálst að mæta það kvöld í félagsaðstöðuna.

Stefnt er að því að sækja um til Póst- og fjarskiptastofnunar að próf verði haldið laugardaginn 14. maí n.k. kl. 10 árdegis.
Sú dagsetning býður upp á þann möguleika að efna til auka- og/eða æfingatíma eftir að formlegri kennslu lýkur.

Þeir sem hafa skráð sig á námskeiðið munu fá tölvupóst frá félaginu í dag, 1. mars, því til staðfestingar. Námskeiðsgjald verður
12.500 krónur. Innifalið eru námskeiðsgögn. Félagsmenn Í.R.A. greiða 9.500 krónur. Þeir sem gerast félagsmenn við skráningu
njóta lægra gjalds. Í lögum félagsins segir, að þeir sem ganga inn eftir 1. ágúst ár hvert greiði hálft félagsgjald. Fólk á aldrinum
16-66 ára greiðir þannig 2000 krónur og fólk yngra en 16 ára (og eldra en 67 ára) 1000 krónur.

Þátttakendum er bent á að kynna sér upplýsingar um strætisvagnaferðir á heimasíðu og tímatöflu þeirra, en viðkomustöð Strætó
er beint fyrir utan húsið. Nokkur spölur er í sölubúðir. Þátttakendum er því bent á að taka með sér nesti (ef þeir svo kjósa) en
félagssjóður býður ávallt upp á kaffi.

Kjartan Bjarnason, TF3BJ, skólastjóri námskeiðsins veitir allar nánari upplýsingar. Tölvupóstur hans er: kjartan@skyggnir.is