Fimmtudaginn 28 janúar kl. 20.15 mun Ari, TF3ARI halda kynningu í félagsheimili ÍRA og kynna hvernig fjarstýra megi Kenwood TS-2000 og FLEX-5000 milli heimsálfa.  Hann mun fjarstýra talstöð yfir 3G með tal og fullkoinnri stýringu á band, tíðni og fl., og hafa QSO yfir SSB, PSK eða t.d. Easypal með stöð sem er staðsett annarstaðar.  Ari mun einnig sýna hvaða forrit henta og hvernig þetta er gert.  Það er mikill hvalreki fyrir alla að fá Ara til þess að halda fyrirlestur um þessi efni, hann án efa sá okkar sem lengst er komin í því að fjarstýra stöð sinni.

73

Guðmundur, TF3SG

Félaginu barst eftirfarandi erindi frá Póst- og fjarskiptastofnuninni (PFS) í dag, 25. janúar 2009, sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Texti þess er svohljóðandi:

“Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) heimilar íslenskum radíóáhugamönnum hér með, notkun tíðnisviðsins 1850-1900 kHz
vegna alþjóðlegra keppna radíóáhugamanna árið 2010. Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga
sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið
1900-2000 kHz í reglugerð”.

Þetta eru ánægjulegt tíðindi fyrir íslenska leyfishafa.

TF2JB

Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN, hefur óskað eftir að hætta sem QSL Manager Í.R.A. Embættið er því laust og leitar félagið eftir áhugasömum félagsmanni til að sinna kortastofunni. Hafa má samband við TF2JB, formann (GSM 898-0559) eða TF3SG, varaformann (GSM 896-0814).

TF2JB

Frá vinstri: Bjarni, TF3KB (prófnefnd), TF3HR (skólastjóri námskeiðsins) og TF3AO.
Bjarni var fyrstur út úr prófinu sem hófst kl. 10 árdegis (sjá klukkuna á veggnum).
Hann er nemandi á 2. ári í verkfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd: TF2JB

Námskeið til amatörprófs sem hófst í október s.l. undir skólastjórn Hrafnkels Eiríkssonar, TF3HR, lauk nýlega og var prófið haldið í dag (23. janúar) í Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Alls þreyttu prófið 21 nemandi og af þeim náðu 18 nemendur fullnægjandi árangri ýmist til N- eða G-leyfis. Stjórn Í.R.A. færir Hrafnkeli, TF3HR og leiðbeinendum á námskeiðinu kærar þakkir fyrir vel unnin störf. Það sama á við um Vilhjálm Þór Kjartansson, TF3DX og prófnefndarmenn sem sinntu störfum faglega og af alúð.

Frá vinstri (fyrir enda kennslustofunnar): TF3KX (prófnefnd), TF3DX (formaður prófnefndar),
TF8SM (prófnefnd), TF3GW (leiðbeinandi á námskeiðinu) og TF3HR (skólastjóri námskeiðsins).
Á myndinni má sjá þegar úrlausnum var dreift til nemenda eftir prófið. Ljósmynd: TF2JB.

Á námskeiðinu (sem lauk á fimmtudag) voru einnig 4 félagar í alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem fór til Haiti til björgunarstarfa og gátu þar af leiðandi ekki lokið námskeiðinu. Skólastjóri námskeiðsins og formaður prófnefndar gera ráð fyrir, að innan tíðar verði þessum aðilum gefinn kostur á kennslu (sem þeir misstu af) og í framhaldi að gangast undir próf. Það próf verður jafnframt opið þeim sem ekki náðu tilsettum árangri í prófinu í dag sem og öðrum þeim sem áhuga hafa. Prófdagur verður auglýstur með góðum fyrirvara.

TF2JB

Tilkynning barst í dag frá Greg Mossop, neyðarfjarskiptastjóra IARU svæði 1:
Neyðarfjarskiptatíðnirnar sem losaðar voru vegna jarðskjálftanna á Haiti eru nú lausar til venjulegra nota og amatörar eru hvattir til að viðhafa alltaf góða amatörsiði þegar sent er út. Sérstök aðgát skal höfð nálægt þessum tíðnum, hlusta vel áður en sent er og hætta sendingu ef neyðarfjarskiptaumferð heyrist í loftinu.
Tíðnirnar eru: 14,300 MHz – 14,265 MHz – 7,045 MHz – 7,065 MHz – 7,265 MHz – 3,720 MHz – 3,977 MHz
73 de TF3JA

Smá töf verður á að útsending byrji í kvöld af óviðráðanlegum ástæðum.

73

Guðmundur og Jón Þóroddur

SteppIR loftnet félagsins féll niður lítið skemmdur.  Það voru pústklemmur sem gáfu sig við boom to mast.  Nokkuð hvassviðri gekk yfir í nótt sem leið og er ljóst að festingar hafa verið orðnar lúnar. Jón Gunnar, TF3PPN, Benedikt TF3CY, Ársæll TF3AO, Sveinn TF3SNN, ásamt TF3SG voru komnir strax á stað  til að bjarga betinu og unnu frábært starf ásamt undirrituðum. Bestu þakkir

73

GS, TF3SG

Stjórn Í.R.A. hefur sent erindi til Póst- og fjarskiptastofnunar með ósk um aðgang íslenskra leyfishafa að tíðnum á bilinu 1850-1900 kHz í alþjóðlegum keppnum radíóamatöra.

Sótt er um tímabundna heimild til eins árs (2010). PFS hefur áður veitt tímabundnar heimildir af þessu tagi, þ.e. fyrir árið 2007 annarsvegar og árið 2008 hinsvegar.

Meginforsenda umsóknarinnar er að takmarkað tíðnisvið radíóamatöra hérlendis gerir erfitt um vik í keppni við radíóamatöra í öðrum löndum.

Stjórn Í.R.A. gerir sér væntingar um jákvæð viðbrögð stofnunarinnar.

TF2JB

Eggert Steinsen, TF3AS, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað, RST 000.

Undirrituðum bárust þessi tíðindi frá Stefáni Þórhallssyni, TF3S, nú í kvöld.

Eggert var á 85. aldursári, leyfishafi nr. 22 og heiðursfélagi í Í.R.A.

Um leið og við minnumst Eggerts með þökk og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður.

Stjórn Í.R.A. hefur sent erindi til Póst- og fjarskiptastofnunar með ósk um aðgang íslenskra leyfishafa að þremur nýjum böndum, þ.e. að 500 kHz, 5 MHz og 70 MHz.

Undanfarin misseri hefur töluvert hefur verið um úthlutun aukinna tíðniheimilda til radíóamatöra í nágrannalöndunum m.a. í þessum tíðnisviðum. Sem dæmi, þá eru radíóamatörar á öðrum Norðurlöndum, þ.e. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi allir komnir með heimildir í 70 MHz tíðnisviðinu.

Stjórn Í.R.A. gerir sér væntingar um jákvæð viðbrögð PFS við erindi félagsins.