Eftir að hafa rætt við formann ÍRA ákvað ég að prófa að taka að mér útgáfu næsta heftis CQ TF.  Í blaðinu verður fjallað um aðalfund félagsins, væntanlega TF útileika og ýmislegt annað sem fellur til.  Ef einhverjir hafa hug á að senda efni í blaðið er það vel þegið, en ég set skilafrest við nk. föstudag, 19. júní.

Efni má senda á netfang mitt:  tf3kx@simnet.is.

73 – Kiddi, TF3KX

Á aðalfundi Í.R.A. 23. maí s.l. var samþykkt að stofna til nefndar er geri tillögu um vinnureglur félagsins um hversu langur tími þarf að líða unz stjórnvöld geta endurúthlutað kallmerki, t.d. í kjölfar þess að lykill hljóðnar (þ.e. leyfishafi deyr). Hér geta komið til mörg álitamál. Einn leyfishafi kann t.d. að hafa verið mjög virkur og annar óvirkur, þrátt fyrir að hafa tekið út leyfisbréf og greitt fyrir það en aldrei farið í loftið. Að auki, er þess farið á leit, að nefndin fjalli um mál sem eru skyld umfjöllunarefninu og hún er sammála um að taka til umfjöllunar. Þessir voru kjörnir í nefndina: TF3JA, TF3KX, TF3HP og TF5B.

Í erindisbréfi sem nefndinni var sett í gær (6. júní) er vakin er athygli á tímatakmörkunum, en hún þarf að skila tillögum sínum á aðalfundi 2010. Áhersla er lögð á að tillögur nefndarinnar liggi fyrir í tíma, þannig að þær megi senda til félagsmanna með fundarboði í væntanlegu tölublaði CQ TF sem sent verði út í byrjun aprílmánaðar 2010.

Þar sem ekki var sérstaklega gengið frá því á aðalfundinum, hefur stjórn félagsins falið Jóni Þóroddi Jónssyni TF3JA, að kalla nefndina saman til fyrsta fundar þar sem hún skipti m.a. með sér verkum; komi sér saman um talsmann/formann, ritara o.s.frv.

TF3JB

Safn fjarskiptatækja og búnaðar sem er hluti af Samgöngusafninu að Skógum var formlega opnað í dag, 6. júní 2009 kl. 14:00. Um er að ræða safn fjarskiptatækja og aukahluta sem Sigurður Harðarson (TF3WS) hefur safnað og afhenti safninu til eignar og varðveislu í dag. Á annað hundrað manns voru viðstaddir opnuna. Meðal ræðumanna voru Sverrir Magnússon framkvæmdastjóri safnsins, Þórður Tómasson safnvörður, Björn Björnsson útlitshönnuður og Sigurður Harðarson sem veitti yfirlit yfir skiptingu safnsins. Meðal gesta voru a.m.k. 14 radíóamatörar úr kallsvæðum TF1, TF2, TF3 og TF8 (sem undirritaður taldi þann tíma sem hann var á staðnum). Á eftir ræðum og lófaklappi var gestum boðið til kaffihlaðborðs. Undirritaður mælir með heimsókn í safnið að Skógum. Það er ferðarinnar virði!

Frá ræðuhöldum við formlega opnun safnsins.

TF2JB morsaði í lok ræðuhaldanna: “CQ CQ CQ. Velkomin að Skógum. 73 73 73”.

Frá vinstri: TF1JI, TF3WS og TF3LMN.

Frá vinstri: TF3GG, TF1JI og TF1EIN.

Sigurður Harðarson afhendir Sverri Magnússyni gjafabréf.

TF3JB

Nú í ár eins og undanfarin 33 ár er haldin sýning í Friedrichshafen sem sem gengur undir nafninu Ham Radio Friedrichshafen og hefst föstudag 26 júní og stendur til 28 júní n.k.

Heimasíða er:  http://www.hamradio-friedrichshafen.de

Þessi árlega uppárkoma í Friedrichshafen  er án efa stærsti einstaki viðburður á eftir Daytona fyrir radióáhugamenn að koma saman og bera saman bækur sýnar.   Ég er einn þeirra sem nú fer á sýninguna og er það mér mikið tilhlökkunarefni.  Ég mun reyna að heimsækja sem flesta fulltrúa félaga eftir því sem við verður komið.   Ef aðrir áhugamenn eru á ferð á sýningunni þá hvet ég þá til að hafa samband við mig.

73

Guðmundur, TF3SG

 

Exp.

Gudmundur Sveinsson, TF3SG
Bauganesi 7
IS – 101 Reykjavik
ICELAND

Tel. mob. 00354 896 0814,  at home 00354 55 22 575

Frá vinstri: TF3EE, TF3SG, TF1JI og TF3SNN. Sitjandi: TF2JB og TF3GL. Á myndina vantar TF3BJ. Ljósmynd: TF3LMN.

Laugardaginn 6. júní kl. 14 verður opnuð sýning á merkilegu safni bílatalstöðva í Samgöngusafninu að Skógum undir Eyjafjöllum. Það er Sigurður Harðarson rafeindavirki (TF3WS) sem hefur safnað öllum gerðum bílatalstöðva sem notaðar hafa verið á Íslandi og afhendir hann nú samgöngusafninu að Skógum safn sitt. Siggi hefur safnað tækjunum í um 40 ár og þau spanna rúmlega 60 ára sögu fjarskipta á Íslandi.

Tækin skipta hundruðum, frá fyrstu Morse-tækjum til „gemsa” og koma frá fjallamönnum, lögreglu, björgunarsveitum, rútufyrirtækjum, leigubílum, almannavörnum og áhugamönnum um fjarskiptatækni.

Mörg tækjanna eru virk og á sýningunni má m.a. heyra viðskipti á Morsi og tali, m.a. samskipti skipbrotsmanna á togaranum Elliða sem fórst 10. febrúar 1962 og björgunarmanna, en upptaka af samtölum þeirra hefur varðveist.

Sagan á bak við safnið.

Árið 1957, þá 13 ára gamall, smíðaði Siggi Harðar fyrsta útvarpstækið sitt og hefur síðan smíðað mörg tæki og sendistöðvar, þar á meðal stærastan hluta endurvarpskerfa Landsbjargar og Ferðafélagsins 4X4 á Íslandi, þ.e. þann hluta sem notar eingöngu sólarorku. Það eru yfir 50 sendistöðvar.

Strax í upphafi hafði Siggi mikinn áhuga á fjarskiptatækjum. Eftir að námi lauk í rafeindavirkjun árið 1966 vann hann meira og minna við fjarskiptabúnað ásamt viðgerðum á útvaps- og sjónvarpstækjum.

Á þeim tíma voru gömul tæki geymd, aðallega til að taka úr þeim varahluti, og einnig söfnuðust fyrir tæki strax í upphafi. Þegar fjöldinn jókst varð ljóst að tækin höfðu sögulegt gildi, og með því að halda upp á eintak af hverri tegund mætti ná heilstæðu safni með tíð og tíma. Sum tækin hafa þannig verið geymd í yfir 40 ár.

Þegar breytingar hafa orðið á fjarskiptatækninni hér á landi, svo sem þegar AM-mótuðum talstöðvum var skipt út fyrir SSB-mótaðar árið1982 – hefur Siggi ávallt haldið eftir eintaki af hverri gerð sem hann hefur komist yfir, stundum með því að komast í geymslur þjónustufyrirtækja þar sem staðið hefur yfir tiltekt. Á þann hátt hafa varðveist margar gamlar talstöðvar sem nú eru í þessu safni. Þessi söfnun hefur einnig spurst út í gegnum tíðina og menn hafa gefið gömul eintök.

Elstu tækin eru frá árinu 1945, frá því er fjarskipti voru gefin frjáls á Íslandi eftir stríðið. Það hefur komið sér vel að kunna skil á sögu þessara tækja að Siggi hefur unnið við þjónustu fjarskiptatækja í rúm 40 ár.

Siggi Harðar er einnig radíóamatör (TF3WS) og hefur starfað í Flugbjörgunarsveitinni frá 16 ára aldri. Vegna þessa hefur hann m.a. öðlast góða yfirsýn yfir fjölbreytta flóru fjarskiptatækja á Íslandi ásamt því að hafa umgengist menn sem hafa reynslu af notkun þeirra.

Það er með ánægju að undirritaður kemur hér með þeim boðum á framfæri við radíóamatöra og félagsmenn Í.R.A. að þeim stendur til boða frír aðgangur á laugardag frá kl. 14-17 ásamt því að í boði verða kaffiveitingar. Það skal tekið fram að Siggi er félagsmaður í Í.R.A.

73 de TF2JB.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Í.R.A. starfsárið 2009-2010 var haldinn þriðjudaginn 2. júní 2009 í Reykjavík. Stjórnin skipti með sér verkum á fundinum og er skipan embætta sem hér segir: Jónas Bjarnason TF2JB formaður, Guðmundur Sveinsson TF3SG varaformaður, Guðmundur Löve TF3GL ritari, Erling Guðnason TF3EE gjaldkeri og Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN meðstjórnarndi. Varamenn: Jón Ingvar Óskarsson TF1JI og Kjartan Bjarnason TF3BJ.

Á fundinum var jafnframt staðfest skipan embættismanna sem skýrt verður frá innan tíðar, auk annarra mála.

TF3JB

Aðalfundur Í.R.A. var haldinn 23. maí 2009 í félagsaðstöðnni við Skeljanes. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf, m.a. kosin ný stjórn, samþykktar lagabreytingar ásamt því að gerðar voru ýmsar samþykktir undir liðnum önnur mál. Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Kristinn Andersen TF3KX fundarstjóri og Yngvi Harðarson TF3Y fundarritari. Alls sóttu 25 manns fundinn samkvæmt skráningu í viðverubók.

Eftirtaldir skipa nýja stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2009-2010: Jónas Bjarnason TF2JB formaður, Guðmundur Löwe TF3GL, Guðmundur Sveinsson TF3SG, Erling Guðnason TF3EE og Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN. Í varastjórn: Jón I. Óskarsson TF1JI og Kjartan H. Bjarnason TF3BJ. Stjórnin mun skipa með sér verkum innan tíðar.

Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Óskar Sverrisson TF3DC, Haukur Konráðsson TF3HK og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (til vara). Úr stjórn gengu eftirtaldir: Hrafnkell Eiríksson TF3HR og Ársæll Óskarsson TF3AO; og úr varastjórn: Haraldur Þórðarson TF3HP og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN.

Fundargerð mun fljótlega verða birt á heimasíðu félagsins ásamt nánari upplýsingum um lagabreytingar og aðrar samþykktir.

Aðalfundur Í.R.A. var haldinn 23. maí 2009 í félagsaðstöðnni við Skeljanes. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf, m.a. kosin ný stjórn, samþykktar lagabreytingar ásamt því að gerðar voru ýmsar samþykktir undir liðnum önnur mál. Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Kristinn Andersen TF3KX fundarstjóri og Yngvi Harðarson TF3Y fundarritari. Alls sóttu 25 manns fundinn samkvæmt skráningu í viðverubók.

Eftirtaldir skipa nýja stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2009-2010: Jónas Bjarnason TF2JB formaður, Guðmundur Löwe TF3GL, Guðmundur Sveinsson TF3SG, Erling Guðnason TF3EE og Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN. Í varastjórn: Jón I. Óskarsson TF1JI og Kjartan H. Bjarnason TF3BJ. Stjórnin mun skipa með sér verkum innan tíðar.

Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Óskar Sverrisson TF3DC, Haukur Konráðsson TF3HK og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (til vara). Úr stjórn gengu eftirtaldir: Hrafnkell Eiríksson TF3HR og Ársæll Óskarsson TF3AO; og úr varastjórn: Haraldur Þórðarson TF3HP og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN.

Fundargerð mun fljótlega verða birt á heimasíðu félagsins ásamt nánari upplýsingum um lagabreytingar og aðrar samþykktir.

TF3GL

Í samræmi við lög félagsins boðar stjórn Í.R.A. til aðalfundar 23. maí næstkomandi. Fundurinn hefst klukkan 14.00 og verður haldinn í félagsheimili félagsins í Skeljanesi.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.

Lög félagsins gera ráð fyrir að lagabreytingatillögur berist fyrir 15. apríl. Ein tillaga barst frá Jónasi Bjarnasyni TF2JB (smellið á hlekkinn til að skoða). (Fann ekki hlekkinn, hann var brotinn á gömlu síðunni – TF3WZ)

Fyrir liggur að töluverðar breytingar verða á stjórn félagsins.
Stjórnarmenn aðrir en formaður eru kosnir til 2ja ára í senn. Nú er kjörtímabil Ársæls Óskarssonar TF3AO og Sveins Braga Sveinssonar TF3SNN að renna út.
TF3AO hefur sinnt hlutverki gjaldkera með miklum sóma lengi en hefur tilkynnt að hann ætli ekki að gefa kost á sér á ný.

Varamenn undanfarið ára hafa verið TF3PPN Jón Gunnar Harðarson og TF3HP Haraldur Þórðarson. Hvorugur þeirra óskar eftir endurkjöri.

TF3SG Guðmundur Sveinsson og TF3GL Guðmundur Löve voru kosnir á síðasta aðalfundi til 2ja ára og sitja því áfram í stjórn.

Sjálfur hef ég sinnt embætti formanns undanfarin 2 ár, þar á undan gegnt ýmsum embættum í stjórn undanfarin ár.
Ég hef eftir þó nokkra umhugsun ákveðið að gefa ekki kost á mér aftur. Ástæðurnar eru persónulegar og fjölskyldulegar. Ég hef ekki haft þann tíma sem ég tel að félagið og embættið verðskuldi og sé ekki fram á að það breytist í bráð.

Hér með er því einnig auglýst eftir fólki sem áhuga hefur á að sinna starfi í þágu félagsins í stjórn þess.

TF3SG

 Comment frá TF3JA

Við Reynisvatn 19. apríl 2009.

Sælir félagar,

Formaður og stjórn hafa boðað til aðalfundar í félaginu 23. maí og vonandi komast sem flestir félagsmenn á fundinn sem gæti orðið tímamótafundur í sögu félagsins. Í gær þar sem ég sat í nokkra klukkutíma með einum ungum áhugasömum félagsmanni við félagsstöðina sagði þessi ungi maður allt í einu “Heyrðu Jón, það er eitt sem mér finnst skrýtið við þetta félag, á síðasta aðalfundi kom fram að meira en helmingur félagsmanna er eldri en 67 ára?” Ég andaði léttar og hugsaði með mér, ég er ennþá í yngri hluta félagsins þrátt fyrir að vera kominn á 64. árið. En svo fór ég að hugsa aðeins lengra sem oft er ekki verra. Þetta sýnir eimmitt í hnotskurn hvaða tækifæri felast í félaginu þar sem hinir eldri og reyndari geta miðlað sinni þekkingu og reynslu til hinna yngri. Og ætti það verkefni ekki að vera efst á framkvæmdalista félagsins? Við gætum látið mikið gott af okkur leiða ef við sameinuðum kraftana beindum þeim í réttan farveg. Stóri kosturinn við radíóamatörinn er að þetta er áhugamál sem hver og einn sinnir af sinni bestu getu og áhuga.

Einn félagsmaður hefur sent inn tillögur til breytinga á samþykktum félagsins og er ekki nema gott eitt um þær að segja þó svo við þurfum ekki öll að vera sammála því sem þar kemur fram. Þessar tillögur fara hér á eftir.

Mér sýnast vera í þessum tillögum þrjú meginmál:

1. Heiðursfélagi og hvernig þeir eru valdir.

2. Hve lengi félagsmaður getur setið í stjórn.

3. Taka upp heitið “samþykktir” í stað “lög” um þennan ramma sem við í sameiningu setjum okkur um ÍRA.

Fyrir mig er auðvelt að afgreiða þriðja lið því það var ákveðið fyrir áratugum síðan að tillögu eins ágæts lögfræðings að nota frekar “samþykktir” en “lög” en ekki veit ég hvenær eða hvers vegna þessu var breytt til baka.

Takmörkun á lengd stjórnarsetu er aftur eitthvað sem í ljósi reynslunnar er ekki þörf fyrir sýnist mér en beinir líka sjónum okkar að því að þeim sem leggja fram tillögur til breytinga á félagssamþykktum ÍRA er uppálagt skv. 26. grein að leggja fram greinargerð með breytingartillögum: “Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.” og því vafasamt hvort aðalfundur eigi að taka þessar tillögur til umræðu hafi greinargerð ekki fylgt með þeim.

Heiðursfélagamálið…ég hef áður sagt frá því að þegar ég sem nýgræðingur í ÍRA, kominn í stjórn tók að mér að fara með heiðurskjal heim til eins ágæts eldri félaga sem hafði sinnt um langt skeið ákveðnu starfi í þágu félagsins og gert það vel, að hann varð ekki glaður en þakkaði fyrir sig og talaði lítið við mig. Nokkrum dögum seinna kom hann til okkar með öll gögnin og kvaðst skilja vel að menn vildu endurnýja hlutverkið. Ég hvorki heyrði né sá þennan ágæta virka amatör eftir það því miður. Síðan þá hef ég verið andvígur útnefningu heiðursfélaga enda fæ ég ekki séð annan ávinning fyrir viðkomandi en að þurfa ekki að greiða árgjald til félagsins. Hvers vegna getum við ekki einfaldlega útnefnt alla sem náð hafa 67 ára aldri og eru enn félagar, heiðursfélaga? Sama á við um þá amatöra sem látnir eru, að mínu mati ættu þeir allir tel ég að vera á skránni yfir “þagnaða lykla”, sem ekki er til hjá félaginu í dag, en ekki á lista yfir heiðursfélaga.

Ég veit að þetta er viðkvæmt mál en það þarf að ræða og finna í sátt og samlyndi einhverja góða lausn. Til að byrja með væri kannski hægt að skilgreina vel hvað þarf til að geta orðið heiðursfélagi ef menn eru ekki sáttir við mína tillögu um 67 árin. Ég tek þó fram að allir þeir sem eru heiðursfélagar í dag eiga það vel skilið að mínu mati, og eflaust einhverjir fleiri.

Að endingu vil ég benda á að fundarmönnum er heimilt að koma með á aðalfundi breytingartillögur við þær greinar samþykktanna sem tillögur hafa verið gerðar um breytingar á fyrir miðjan apríl.
73 de TF3JA

……………………………………………………..

Tillögur til breytinga á félagssamþykktum Í.R.A. á aðalfundi 2009 frá TF2JB.

Sent til félagsins í tölvupósti 14.4.2009

FÉLAGAR

6. gr. Fyrsta setning falli niður. Í stað hennar komi:

Kjör heiðursfélaga. Heimilt er að kjósa heiðursfélaga Í.R.A. Tilnefningar skulu berast til stjórnar sem semur rökstuðning með slíkri tilnefningu og leggur fyrir aðalfund. Stjórn getur hafnað tilnefningu en heimilt er félagsmanni að leggja tillögu sína fyrir aðalfund. Kjör skal vera leynilegt og þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að kjör skoðist löglegt.

Í framhaldi komi eldri texti óbreyttur, þ.e. „Honum skal afhent skjal…o.s.frv.”

STJÓRN

9. gr. Önnur málsgrein. Við málsgreinina bætist:

Starfsáætlun nýrrar stjórnar skal birt í fyrsta tbl. CQ TF og/eða fréttabréfi eftir aðalfund.

FÉLAGSFUNDIR

14. gr. Önnur málsgrein. Núverandi setning falli niður. Í hennar stað komi:

Rita skal fundargerð félagsfundar og birta hana í fyrsta tbl. CQ TF og/eða fréttabréfi eftir félagsfund.

15. gr. Núverandi setning falli niður. Í hennar stað komi.

Félagsfundur getur ályktað um mál og skal ákvörðun hans vera leiðbeinandi fyrir stjórn en lögð fyrir aðalfund til staðfestingar.

AÐALFUNDUR

21. gr. Við greinina bætist ný setning:

Stjórnarmenn geta lengst sinnt sama embætti í stjórn í tvö samliggjandi stjórnartímabil.

ANNAÐ

Breyta þarf orðfari þar sem nú er skráð „lög Í.R.A.” í „félagssamþykktir Í.R.A.”

1. Fyrirsögn: „Lög Í.R.A. o.s.frv.” breytist í „Félagssamþykktir Í.R.A. o.s.frv.”.

2. Í 18. gr. Í stað „lagabreytingar” komi „breytingar á félagssamþykktum”.

3. Í 26. gr. Í stað „Félagslögum verður…o.s.frv.” komi „Félagssamþykktum verður…o.s.frv.”

4. Í næstu setningu í sömu grein verði breytt „félagslögum” í „félagssamþykktum”. Annað óbreytt.

5. Í 27. gr. verði beytt þar sem stendur „félagslög” í „félagssamþykktir”.