Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 20. apríl sem er sumardagurinn fyrsti.

Áður kynnt erindi Sigurðar R. Jakobssonar, TF3CW „Þátttaka í alþjóðlegum keppnum erlendis frá“ laugardaginn 22. apríl frestast af óviðráðanlegum ástæðum. Ný dagsetning verður kynnt fljótlega.

Næsti opnunardagur í Skeljanesi er fimmtudagur 27. apríl. Dagskrá verður auglýst þegar nær dregur.

Stjórn ÍRA.

.

Mynd af inngangi í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi.

YOTA keppnin fer fram á laugardag 22. apríl frá kl. 08:00 til 19:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW og SSB.
https://www.ham-yota.com/contest/

„Youngsters On The Air (YOTA)“ keppnirnar verða þrjár í ár (2023), þ.e. 22. apríl (08:00-19:59) – 22. júlí (10:00-21:59) – og 30. desember (12:00-23:59).

QRP TO THE FIELD keppnin fer fram laugardag 22. apríl frá kl. 08:00-18:00. Bönd 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW og SSB. http://www.zianet.com/qrp/qrpttf/pg.html

SP DX RTTY keppnin fer fram 22.-23. apríl; hefst á laugardag kl. 12:00 og lýkur sunnudag kl. 12:00. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á RTTY. https://pkrvg.org/strona,spdxrttyen.html

INTERNATIONAL VINTAGE keppnin fer fram sunnudaginn 23. apríl. Keppnin er tvískipt: Fyrri hluti fer fram kl. 07:00-11:00 og síðari hluti kl. 17:00-21:00. Bönd: 40 og 80 metrar á CW, SSB og AM. https://vintagecontest.webnode.it/residenti/

Þrír keppnisflokkar eru í boði: (A) Tæki framleidd 1950-1959; (B) 1960-1969; (C) 1970-1979; (D) 1980-1989; og (E) heimasmíðuð tæki.  

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Ari sýnir glæru með mynd af Starlink loftneti á heimahúsi. En búnaðinn má einnig setja upp í hjólhýsum, skipum, flugvélum o.m.fl.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætti í Skeljanes laugardag 15. apríl með kynningu á nýja Starlink internetbúnaðinum. Afar áhugaverð og vel heppnuð kynning. Ari hefur kynnt sér búnaðinn vel og er einn af fyrstu notendum Starlink hér á landi.

Þetta er merkilegur búnaður því aðeins þarf loftnet sem er 1×1 metri (flatt) og rúmar alls 1280 loftnet. Loftnetið er sett upp fast (e. fixed). Þrífótur og tengibox fylgir fyrir tölvutengingu og viðeigandi kaplar og kostar búnaðurinn 75 þúsund krónur kominn til landsins. Mánaðargjald er 15 þúsund krónur og er niðurhal ótakmarkað.

Uppsetning er einföld, engin mælitæki. Í botni loftnetsins eru mótorar sem stilla netið af í byrjun (en eru ekkert notaðir eftir það). Og ef snjóar þá hitar loftnetið sig sjálft upp og bræðir klaka.

Að sögn Ara hefur Elon Musk látið senda upp yfir 10 þúsund gervitungl til að þjónusta kerfið um allan heim, þ.á.m. hér á landi. Starlink sendir að jafnaði upp 64 ný tungl í hverjum mánuði til viðhalds og til að bæta kerfið. Ari sýndi okkur 18 mínútna myndband sem skýrir kerfið og virkan þess vel, þ.á.m. loftnetið sem er mikill töfragripur.

Sérstakar þakkir til Ara fyrir áhugaverða, fróðlega og vandaða kynningu. Alls mættu 8 félagar og 2 gestir í Skeljanes í 12°C mildu vorveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Ari sýndi margar fróðlegar glærur og myndbönd.
Loftnetið og búnaður skoðaður og útskýrður. Þorvaldur Bjarnason TF3TP, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Reynir Björnsson TF3JL, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Kristján Benediktsson TF3KB.
Menn höfðu margar spurningar og var rætt um búnaðinn frá öllum hliðum yfir kaffinu. Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þór Magnússon (gestur), Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Reynir Björnsson TF3JL. Ljósmyndir: TF3JB.

Laugardaginn 15. apríl mætir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A í Skeljanes með kynninguna: Internet um gervitungl – ódýr valkostur (Starlink).

Ari var í hópi þeirra fyrstu hér á landi sem fékk Starlink búnað frá Elon Musk til að tengjast netinu um gervitungl. Að sögn Ara er niðurhal ótakmarkað og það mesta/besta sem er í boði hér á landi. Sem dæmi, er að horfa samtímis á allt að 5 HD sjónvarpsstöðvar.

Ari ætlar m.a. að upplýsa um kostnað og hvernig hægt er að koma fyrir 1280 loftnetum á 1×1 metra spjaldi og – hvernig hægt er að stýra stefnu frá búnaðinum í eina átt. Hann upplýsir einnig um hraða sem er í boði yfir netið og hvort hann er eins í báðar áttir.

Ennfremur verður svarað spurningum eins og: Virkar búnaðurinn í farartæki sem er á ferð, t.d. í bifreið, húsbílum, hraðbátum, skipum, skemmtiferðaskipum eða flugvélum? Og hvað með virkan frá stöðum eins og t.d. frá Grímsey, Reykjavík og Ísafirði? Og hvort búnaðurinn virkar í snjó, rigningu og roki? Margt fleira spennandi verður upplýst.

Húsið verður opnað kl. 13:00 en Ari byrjar stundvíslega kl. 13:30. Kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta efni ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Óskar Sverrisson, TF3DC og Guðmundur V. Einarsson, TF3VL mættu í Skeljanes fimmtudaginn 13. apríl kl. 17:00.

Verkefni dagsins var að fara yfir hvernig best er að standa að því að fara í loftið en Guðmundur stóðst amatörpróf til G-leyfis í maí í fyrra (2022) og var nýlega kominn til landsins erlendis frá, þar sem hann festi m.a. kaup á ICOM IC-718 HF stöð ásamt búnaði.

Að lokinni tveggja tíma yfirferð í fjarskiptaherbergi ÍRA þar sem m.a. voru höfð sambönd á SSB, CW og Digital, tók við klukkutími til viðbótar þar sem nýtt IC-718 tæki TF3VL var tengt við loftnet félagsins og prófað. Guðmundur er væntanlegur í loftið innan skamms.

Þakkir til Óskars Sverrissonar, TF3DC fyrir að standa að námskeiðinu og bjóðum Guðmund V. Einarsson, TF3VL velkominn í loftið.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur V. Einarsson TF3VL stillir ICOM IC-718 stöðina í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Ljósmynd: TF3DC.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA mætti í Skeljanes 13. apríl með erindið Stafræn merkjavinnsla fyrir radíóamatöra.

Hann flutti okkur frábært erindi þar sem hann útskýrði og fór yfir hugtakið “stafræn merkjavinnsla“. Hann úrskýrði m.a. mismunandi merki, þ.e. hliðræn, stakræn og stafræn og hverjir eru kostir og ókostir við stafræna merkjavinnslu. Hann tók dæmi um viðtæki og sendi-/móttökustöðvar radíóamatöra þar sem SDR tæknin hefur verið innleidd og töluverð þróun hefur verið síðustu ár.

Sæmundur fjallaði um sýnatökuregluna og skýrði mikilvægi þess að brjóta hana ekki í stafrænni merkjavinnslu og nefndi dæmi um afleiðingar þess að brjóta regluna. Hann fjallaði einnig um hugbúnaðarradíó og fleiri notkunartilvik fyrir stafræna merkjavinnslu. Að lokum fjallaði hann um A/D og D/A breytur.

Erindið tók um klukkustund í flutningi og var farið yfir margar glærur með texta og ljósmyndum. Fyrirspurnir voru fjölmargar sem Sæmundur svaraði á meðan á flutningi stóð og eftir erindið, var áfram rætt yfir kaffinu. Vefslóð á glærur:
http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/04/Stafraen-merkjavinnsla-fyrir-amatora.pdf

Sérstakar þakkir til Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA fyrir vandað, áhugavert og fróðlegt erindi í máli og myndum. Alls mættu 33 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í vorveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA flutti erindi á vetrardagskrá ÍRA í Skeljanesi.
Sæmundur sýndi fjölmargar glærur með texta og myndum.

Stafræn merkjavinnsla er notuð á mörgum sviðum, m.a. í sendi-/móttökustöðvum fyrir radíóamatöra.

Fremsta röð: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Þórarinn Benedikz TF3TZ.
Önnur röð: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Einar Kjartansson TF3EK og Georg Kulp TF3GZ.
Þriðja röð: Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE, Yngvi Harðarson TF3Y, Mathías Hagvaag TF3MH, Örn Gunnarsson TF3-083 og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Fjórða röð: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Heimir Konráðsson TF1EIN.
Aftasta röð: Njáll H. Hilmarsson TF3NH. Sigmundur Karlsson TF3VE og Andrés Þórarinsson TF1AM.

Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Einar Kjartansson TF3EK, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Örn Gunnarsson TF3-083 .
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Einar Kjartansson TF3EK og Pier Albert Kaspersma TF3PKN.
Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Sigmundur Karlsson TF3VE, Heimir Konráðsson TF1EIN og Andrés Þórarinsson TF1AM. Þakkir til Óskars Sverrissonar TF3DC, Georgs Kulp TF3GZ og Jóns Björnssonar TF3PW fyrir ljósmyndir.

Ólafur Björn Ólafsson, TF3ML hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá ættingjum lést hann þriðjudaginn 11. apríl.

Ólafur var á 59. aldursári og handhafi leyfisbréfs radíóamatöra nr. 240.

Um leið og við minnumst Ólafs með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Á morgun, fimmtudag 13. apríl verður námskeiðið: Fyrstu skrefin í boði í Skeljanesi kl. 17:00-19:00. Óskar Sverrisson, TF3DC leiðbeinir.

“Fyrstu skrefin” eru hugsuð jafnt fyrir nýja sem eldri leyfishafa sem óska eftir tilsögn/leiðbeiningum um hvernig best er að standa að því að fara í loftið. Í boði eru einkatímar með reyndum leyfishafa sem kynnir grundvallaratriði og hefðir.

Markmiðið er að leyfishafi öðlist öryggi í fjarskiptum. Rætt er um áhugamálið og spurningum svarað og að því búnu farið í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins. Námskeiðið er einnig hugsað fyrir þá sem t.d. vilja komast í loftið á FT8, RTTY o.fl. en vantar e.t.v. leiðbeiningar. Tímasetning og yfirferð er samkvæmt samráði – en ef þörf er á að menn hittist aftur, er það í boði.

Skráning hjá Óskari Sverrissyni, TF3DC í síma 862-3151 eða með tölvupósti; oskarsv hjá internet.is

Stjórn ÍRA.

Næsti viðburður á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 13. apríl. Þá mætir Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA í Skeljanes með erindið: Stafræn merkjavinnsla fyrir radíóamatöra.

Hann mun kynna stafræna merkjavinnslu. Kynna mismunandi merki, þ.e. hliðræn, stakræn og stafræn og hverjir eru kostir og ókostir við stafræna merkjavinnslu. Fjallað verður um sýnatökuregluna og reynt verður að skýra hana út, en hana má alls ekki brjóta í stafrænni merkjavinnslu. Sagt frá afleiðingum þess að brjóta regluna. Loks verður fjallað um hugbúnaðarradíó og nokkur önnur notkunartilvik fyrir stafræna merkjavinnslu.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta tímanlega. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30. Veglegar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

HOLYLAND DX KEPPNIN fram 14.-15. apríl; hefst föstudag kl. 21:00 og lýkur laugardag kl. 20:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW og SSB. https://www.iarc.org/iarc/Content/docs/Holyland2023eng.pdf

WORKED ALL PROVINCES OF CHINA DX KEPPNIN fer fram 15.-16. apríl; hefst laugardag kl. 06:00 og lýkur sunnudag kl. 05:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á SSB. http://www.mulandxc.com/index/match_info?id=4

YU DX KEPPNIN fer fram 15.-16. apríl; hefst laugardag kl. 07:00 og lýkur sunnudag kl. 06:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW og SSB. http://www.yudx.yu1srs.org.rs/

DUTCH PACC-DIGI KEPPNIN fer fram á laugardag frá kl. 07:00 til 18:59. Bönd: 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á FT4/8 og RTTY. https://www.veron.nl/

CQ MM DX KEPPNIN fer fram 15.-16. apríl; hefst á laugardag kl. 09:00 og lýkur sunnudag kl. 23:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á CW.  http://www.cqmmdx.com/rules/

ARRL ROOKIE ROUNDUP KEPPNIN fer fram á sunnudag frá kl. 18:00 til 23:59. Bönd: 80, 40, 20, 15 og 10 metrar á SSB.  http://www.arrl.org/rookie-roundup

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

.

Nýja HF/50MHz 100W SDR sendi-/móttökustöðin frá Apache Labs; ANAN-G2.