Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Sunnudag 11. desember kl. 11:00 verður Jónas Bjarnason, TF3JB með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-23“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki og vínarbrauð frá Björnsbakaríi með kaffinu.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur Sigurðsson TF3GS byrjar erindi sitt um APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið.

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS mætti í Skeljanes 8. desember með erindið: „APRS Automatic Packet Reporting System“; sjálfvirkt skilaboða- og ferilvöktunarkerfi.

Hann sagði okkur á lifandi hátt frá APRS sem var fundið var upp og þróað af bandarískum radíóamatör, Robert E. Bruinga, WB4APR sem smíðaði og gangsetti fyrsta APRS kerfið fyrir 40 árum (1982) með því að notast við Apple II heimilistölvu. APRS náði þó fyrst útbreiðslu um áratug síðar (1992) þegar GPS varð aðgengilegt (vegna kostnaðar). Frá þeim tíma hefur APRS verið stöðugt í þróun og er í dag m.a. grundvöllur staðarákvörðunarkerfa í flugi og á sjó um allan heim.

Guðmundur útskýrði vel þau þrenn hugtök sem varða kerfið: (1) TNC (e. tracker) sem ýmist getur verið innbyggt í fjarskiptastöð eða utanáliggjandi; (2) „Digipeater“; búnaður sem endurvarpar merkinu; og (3) „Digipeater/I-gate“ sem endurvarpar merkinu og sendir inn á netið. Hann kynnti einnig áhugaverðar APRS heimasíður, m.a. https://aprs.fi

Guðmundur skýrði vel hvernig kerfið virkar, þ.e. allar stöðvar hlusta á tíðnina 144.800 MHz og síðan er valkvætt hvort sent er 1, 2 eða 3 „hopp“. Til skýringar er, að þrjú hopp eru einkum notuð t.d. í hálendisferðum þegar langt er í næstu „I-gátt“. Í því sambandi tók hann dæmi og sýndi og útskýrði þegar TF3CE fór ferð inn á hálendið í sumar.

Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu og um landið – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu. Í dag eru níu APRS stafvarpar og/eða internetgáttir virkar hér á landi, m.a. í Reykjavík, á Búrfelli, Reynisfjalli, í Landeyjum, á Vaðlaheiði, Akureyri, í Grindavík og á Úlfljótsfjalli.

APRS búnaður var fyrst settur upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi árið 2011, síðastliðin fjögur ár (frá 2018) hefur TF3IRA-1Ø verið QRV frá Skeljanesi.

Sérstakar þakkir til Guðmundar fyrir vel flutt, fróðlegt og vandað erindi. Hann bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi (og á eftir) sem kom vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins þegar viðstaddir skoðuðu sýnishorn af APRS stöðvum og búnaði.

Alls mættu 17 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur ræðir meginhugtök í APRS og vísaði m.a. á skýringarmyndir á glærunni.
Mikið var spurt út í notagildið sem er vel útskýrt á glærunni.
Guðmundur kom að lokum inn á núverandi uppbyggingu APRS á Íslandi og sagði frá framtíðarhugmyndum APRS hópsins.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Ingimundur Björgvinsson TF4-ØØ5 (nýr félagsmaður okkar búsettur í Hnífsdal sem bíður eftir að komast á næsta námskeið til amatörprófs) og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Myndir: TF3JB og TF3KB.

ARRL 10 metra keppnin fer fram helgina 10.-11. desember. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er heimiluð í mest 36 klst.

Þetta er keppni þar sem allir hafa samband við alla, hvar sem er í heiminum. Hafa má samband einu sinni við hverja stöð á hvorri tegund útgeislunar. Skilaboð eru RS(T) og raðnúmer. W-stöðvar senda RS(T) og ríki í Bandaríkjunum og VE-stöðvar RS(T) og fylki í Kanada.

Keppnin fer samtímis fram á tali og morsi. Heimilt er að taka þátt eingöngu á tali, á morsi eða hvoru tveggja (e. mixed mode). Sjá nánar í keppnisreglum.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

http://www.arrl.org/10-meter
http://www.arrl.org/files/file/Contest%20Rules%20PDFs/2022/ARRL%2010%20Rules%20-%201_08%20-%202022.pdf

Icom IC-7410 100W HF/50 MHz sendi-/móttökustöð með Icom HM-36 handhljóðnema. Við stöðina er tengdur Warfdale Modus hátalari og Daiwa CN-801 standbylgju-/aflmælir. Ljósmynd: TF3JB.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2023. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2022/23 verður fimmtudagskvöldið 5. janúar 2023. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 12 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

8. desember 2023,

73,
Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri kortastofu ÍRA lauk við árlega uppfærslu á merkingum QSL hólfa stofunnar 14. ágúst s.l. Ljósmynd. TF3JB.

CQ World Wide DX CW keppnin 2022 fór fram 26. og 27. nóvember s.l. Keppnisgögn fyrir 8 TF kallmerki voru send inn, þar af 1 viðmiðunardagbók (e. check-log).

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn og yfir Evrópu. Niðurstöður verða birtar í júníhefti CQ tímaritsins 2023.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF3SG – Nr. 67 yfir heiminn; nr. 17 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF1AM – Nr. 529 yfir heiminn; nr. 193 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3DC – Nr. 259 yfir heiminn; nr. 141 í Evrópu.
TF3EO – Nr. 300 yfir heiminn; nr. 165 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3VS – Nr. 345 yfir heiminn; nr. 180 í Evrópu.
TF8KY – Nr. 1133 yfir heiminn; nr. 594 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, 10 METRAR, HÁAFL:
TF3Y – Nr. 106 yfir heiminn; nr. 62 í Evrópu.

VIÐMIÐUNARDAGBÓK:
TF3JB.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

https://www.cqww.com/raw.htm?mode=cw

Kort EI8IC sýnir svæðaskiptingu heimsins í 40 CQ svæði.
Myndin var tekin þegar Guðmundur Sigurðsson TF3GS fjallaði um stafvarpa og internetgáttir á félagsfundi ÍRA 1. desember s.l.

Vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 8. desember kl. 20:30. Þá mætir Guðmundur Sigurðsson, TF3GS með erindið: „APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið (Automatic Packet Reporting System)“.

Guðmundur mun m.a. lýsa uppbyggingu APRS sem ferilvöktunarkerfis fyrir radíóamatöra og hvernig t.d. má líka senda stutt textaskilaboð í samskiptum, án aðkomu tölvu. Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað nú í meir en áratug sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu (og víðar um landið) – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu þeirra, en kerfið vinnur á 144.800 MHz í metrabylgjusviði.

Félagsmenn eru hvattir til að láta erindi Guðmundar ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Stjórn ÍRA.

Innsetning 6.12.2022: Guðmundur kemur með APRS búnað sem verður til sýnis í fundarhléi.

Myndin er af Yaesu FT-7900E VHF/UHF FM stöð TF3IRA og Icom IC-208H VHF APRS stöð TF3IRA-1Ø sem hefur verið QRV frá Skeljanesi í 4 ár (frá 15.12.2018). Ljósmyndir: TF3JON.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS upplýsir fundarmenn um stafvarpa og internetgáttir í metrabylgjusviðinu (VHF).

Vetrardagskrá ÍRA hélt áfram 1. desember. Að þessu sinni var komið að félagsfundi um “VHF og UHF málefni” og var fundur settur stundvíslega kl. 20:30.

Eftirfarandi tillaga að dagskrá var lögð fram og samþykkt samhljóða: (1) Fundarsetning, kjör fundarstjóra og fundarritara og tillaga að dagskrá. (2) Flutningur erindis um VHF og UHF málefni.  (3) Umræður um stöðu VHF og UHF tíðnisviðanna. (4) Önnur mál. (5)  Fundarslit. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS var kjörinn fundarstjóri og Georg Kulp, TF3GZ var kjörinn fundarritari.

Kl. 20:35 hófst erindi kvöldsins sem var í höndum Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS og Jónasar Bjarnasonar, TF3JB. Þeir félagar skiptust á að fjalla um efnið á mismunandi glærum:

1. Heimildir okkar á 50 MHz til 250 GHz samkvæmt reglugerð.
2. Helsta notkun hér á landi.
3. Búnaður félagsstöðvarinnar TF3IRA.
4. Framtíðarsýn.

Skemmtileg innkoma var frá Benedikt Sveinssyni, TF3T sem sagði okkur frá fyrsta EME sambandinu frá Íslandi sem hann hafði í júlí 2010 á 50 MHz.

Fyrirspurnir voru afgreiddar jafn óðum og í lokin var töluvert rætt um neyðarfjarskipti, sem var áhugaverð umræða. Menn voru einnig forvitnir um APRS, sbr. kallmerkið TF3IRA-1Ø sem er frá APRS stöð félagsins. Guðmundur (TF3GS) skýrði þau mál vel og benti á að næsta fimmtudag (8. desember) verður hann einmitt með sérstakt erindi um APRS í félagsaðstöðunni. Engar umræður urðu undir liðnum önnur mál og var ágætum félagsfundi slitið kl. 22:05. Bestu þakkir til embættismanna fundarins fyrir góð störf.

Slóð á glærur fundarins: [GLÆRUR]

Sérstakir gestir félagsins voru þau Gerald W. „Wayne“ Nixon, NØAD og XYL Heather M. Nixon, NØADN frá borginni Centennial í Colorado. Alls mættu 24 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu rigningarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Innsetning 5.12.2022: Guðmundur kemur með APRS búnað sem verður til sýnis í fundarhléi.

Jónas Bjarnason TF3JB kynnti hluta af glærunum staðsettur úti í sal.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS fundarstjóri hafði margt fróðlegt að leggja til málanna.
Benedikt Sveinsson TF3T sagði okkur frá fyrsta EME sambandinu frá TF.
Sérstakir gestir félagsins fimmtudagskvöldið 1. desember: Heather M. Nixon, NØADN og Gerald W. „Wayne“ Nixon, NØAD í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Þau eru búsett í borginni Centennial í Colorado
Töluvert hefur borist af radíódóti til félagsins að undanförnu. Jón Svavarsson TF3JON fann m.a. þetta tæki sem sem honum leist vel á. Aðrir á mynd: Georg Kulp TF3GZ og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmyndir: Jón Svavarsson TF3JON (allar nema neðasta mynd sem er frá TF3JB).

Stærsta morskeppni ársins, CQ WORLD WIDE DX CW keppnin fór fram helgina 26.-27. nóvember. Um er að ræða 48 klst. keppni á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndunum.

A.m.k. 8 TF kallmerki voru á meðal þátttakenda: TF1AM, TF3DC, TF3EO, TF3JB, TF3SG, TF3VS, TF3Y og TF8KY.

Frestur til að skila inn gögnum rennur út á miðnætti á föstudag.

Fjölmargir keppnisriðlar voru í boði og mun betur koma í ljós á næstunni hvernig íslensku stöðvarnar röðuðust.

Stjórn ÍRA.

Keppni ARRL á morsi á 160 metrum hefst föstudag 2. desember kl. 22:00 og lýkur sunnudag 4. desember kl. 16:00. Þetta er 42 klst. keppni þar sem markmiðið er að hafa sambönd við sem flestar stöðvar í Norður-Ameríku (W/VE) á 160 metra bandi.

Einvörðungu sambönd við stöðvar í Norður-Ameríku gilda til stiga og sem margfaldarar. Undantekningar eru stöðvar í Alaska (KL7), Í Karíbahafi (KP1-KP5) og í Kyrrahafi (KHØ-KH9) þ.á.m. á Hawaii (KH6).

Hafi verið fengin heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz fyrr á þessu ári (2022) – þá er sú heimild í gildi í þessari keppni. Heimildin veitir G-leyfishöfum jafnframt leyfi til að nota fullt afl á tilgreindu tíðnisviði í keppninni, 1kW. Annars þurfa leyfishafar að sækja sérstaklega um heimild til Fjarskiptastofu á hrh@fjarskiptastofa.is

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Myndin er af ICOM IC-7600 HF/50 MHz sendi-/móttökustöð sem m.a. vinnur á 160 metra bandinu. Ljósmynd: TF3JB.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Fimmtudaginn 1. desember verður síðari félagsfundurinn í boði:

Kl. 20:30 – Félagsfundur: „VHF og UHF málefni“.

Efni í umsjá stjórnar.

Húsið verður opnað kl. 20:00 QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

ÍRA hefur félagsaðstöðu í þessu húsi við Skeljanes í Reykjavík.
Mynd frá síðasta félagsfundi í Skeljanesi fimmtudaginn 10. nóvemvber 2022.