Opið verður í félagsaðstöðunni í Skeljanesi á morgun, 3. júní, kl. 21:00-22:00.

Ástæða þess að ekki er opnað kl. 20 eins og venjulega, er að fimmtudagurinn er síðasti kennsludagurinn á yfirstandandi námskeiði félagsins til amatörleyfis.

Grímuskylda er í húsnæðinu. Vegna styttri opnunartíma verða ekki kaffiveitingar, en fjarskiptaherbergi verður opið (fyrir mest 3 samtímis) og QSL herbergi (fyrir mest 2 samtímis).

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Próf Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis verður haldið í félagsaðstöðu ÍRA við Skeljanes laugardaginn 5. júní 2021 samkvæmt eftirfarandi:

10:00 – 12:00 Raffræði og radíótækni.
13:00 – 15:00 Reglur og viðskipti.
15:30 – Prófsýning.

Almenn skráning í prófið fer fram með tölvupósti, sem senda skal á bæði þessi netföng hjá Póst- og fjarskiptastofnun: hrh hjá pfs.is og bjarni hjá pfs.is með efnisorðinu “prófskráning”. Tilkynningu um þátttöku þarf að senda ekki síðar en 3.  júní.

ÍRA sendir inn lista fyrir þá sem eru skráðir á yfirstandandi námskeiði hjá félaginu, sem er nú í gangi. Prófið er opið öllum og því ekki er nauðsynlegt að hafa setið námskeið til undirbúnings. Fyrirspurnir eru velkomnar á netfangið ira hjá ira.is

Eftirfarandi úrræði (annað eða hvoru tveggja) eru í boði ef um þau er beðið með 2ja daga fyrirvara: (a) Litaður pappír, fölgrænn eða drapplitur og (b) stækkun í A3. Senda þarf tölvupóst á Kristinn Andersen TF3KX: kristinn1 hjá gmail.com

1) Notið einfaldar reiknivélar, sem augljóslega geta ekki geymt gögn.
2) Hafið með ykkur blýanta, strokleður og reglustiku (!) sem hentar reiknigrafi.
3) Endanleg einkunn kemur frá PFS á uppgefið netfang, annars heimilisfang.
4) Gætið þess að hvoru tveggja sé greinilega skrifað.
5) Rissblöðum er ekki útbýtt, notið auðu hliðar prófblaðanna.

Með ósk um gott gengi,

Prófnefnd ÍRA.

Mynd úr prófi Póst- og fjarskiptastofnunar sem haldið var í félagsastöðu ÍRA í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA var opnað á ný s.l. fimmtudag eftir að hafa verið lokað í tæpt 1 ár vegna Covid-19. Það var því ekki seinna vænna að gera „sjakkinn“ kláran (þótt aðeins þrír félagar megi vera þar samtímis…a.m.k. um sinn). Það var vaskur hópur sem mætti til verka eftir hádegið á sunnudag: Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A; Georg Kulp, TF3GZ og Jónas Bjarnason, TF3JB. Eftirfarandi var gert:

  • Kenwood TS-2000 gervihnattastöð TF3IRA var yfirfarin sem og allar tengingar við diskloftnetið. Allt reyndist í góðu lagi, þ.e. kaplar og tengingar, þ.m.t. „transverter“ og fylgibúnaður. Sendiafl mælist hins vegar of lágt og telur Ari líklegast að bilun sé í tengi við GHz sendinetið. Verður kannað næstu daga.
  • Georg setti upp Diamond SX-200N VHF/UHF húsloftnetið við Icom IC-208H APRS stöð félagins, TF3IRA-1Ø (í stað J-póls loftnets). 200 netið var áður í notkun við félagsstöðina,  en hafði bilað og var nú viðgert af Ara.
  • Ari og Georg skiptu um „ethernet switch“ í herberginu. Netgear rofinn er fjölhæfari og hraðvirkari, auk þess að vera skermaður. Við breytinguna hurfu truflanir á 14 MHz (og HF) sem áður hafa „plagað“ fjarskiptin frá félagsstöðinni.
  • Þeir félagar grisjuðu ennfremur [og skiptu um] snúrur og settu skermaðar að baki fjarskiptaborða A og B. Góð breyting tæknilega en einnig útlitslega.
  • Georg endurstillti og uppfærði föstu tíðnirnar í Yaesu FT-7900E VHF/UHF stöðinni. Mikill munur, því nú eru endurvarparnir rétt merktir á stöðinni.
  • Icom C-7610 þarfnast hugbúnaðaruppfærslu úr 1.20 í 1.30. Ekki vannst tími til uppfærslunnar en verður gert næstu daga. Icom IC-7300 stöð félagsins fékk hugbúnaðaruppfærslu í 1.40 fyrir tveimur vikum.

Þakkir frá stjórn ÍRA til Ara Þórólfs Jóhannessonar TF1A og Georgs Kulp TF3GZ fyrir frábært vinnuframlag.

Kenwood TS-2000 gervihnattastöð TF3IRA sendir út of lítið afl á 2.4 GHz. Allsherjar bilanagreining var framkvæmd og er líklegast að um bilun sé að ræða í SMA-tengi við GHz loftnetið (úti við loftnetsdiskinn).
Eitt af mælitækjunum við bilanagreininguna: Rhode & Schwartz tíðnirófsgreinir sem nær upp í 6 GHz.
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Georg Kulp TF3GZ “grisja” og skipta út millisnúrum (fyrir skemaðar) að baki fjarskiptaborðs “B”.
Ethernet “switch’inn” er frá Netgear. Hann er mun hraðvirkari heldur en sá eldri, auk þess sem hann er vel skermaður og er gerður fyrir fleiri tengingar.
Georg Kulp TF3GZ forritar rásir endurvarpanna á VHF og UHF tíðnum í Yaesu FT-7900E stöð TF3IRA. Ljósmyndir: TF3JB.

Póst- og fjarskiptastofnun veitir íslenskum radíóamatörum auknar aflheimildir í 50-50,5 MHz tíðnisviðinu á 6 metrum, frá og með 1. júní 2021. Gildistími er 3 mánuðir eða til 31. ágúst n.k. G-leyfishafar fá heimild til að nota allt að 1kW og N-leyfishafar allt að 100W.

Eftirfarandi skilyrði eru lögð til grundvallar:

(1) Hámarks bandbreidd sendinga er 18 kHz; (2) Engin skilyrði hvað varðar mótun; (3) Heimild er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi verður að hætta sendingum strax; (4) Æskilegt er að sendingar fari fram utan byggðar; og (5) Ákvörðun um framlengingu verður tekin síðar.

Leyfishafar þurfa að sækja sérstaklega um heimild hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Póstfang er: hrh hjá pfs.is  Tilgreina skal að sótt sé um aukið afl á 50 MHz.

Stjórn ÍRA fagnar þessari heimild.


Fyrir áhugasama, er bent á ítarlega greinargerð um 6 metra bandið hér á landi í nýrri Ársskýrslu ÍRA 2020/21; bls. 97-100. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/03/20210313-arsskyrsla_ira-tf3jb.pdf

.

Á myndinni má m.a. sjá Icom IC-7410 HF/50 MHz sendi-/móttökustöð, stillta á tíðnina 50.456 MHz. Radíóvitinn TF1VHF sendir merki á þeirri tíðni allan sólarhringinn frá Mýrum í Borgarfjarðarsýslu. Lesa má grein um vitana á 50 MHz og 70 MHz í 2. tbl. CQ TF 2021, bls. 39. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/04/cqtf_35arg_2021_02tbl.pdf

Carl Jóhann Lilliendahl, TF3KJ, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá syni hans, Karli R. Lilliendahl til félagsins í dag lést hann á hjartadeild Landspítalans í Reykjavík.

Hann var á 75. aldursári; handhafi leyfisbréfs nr. 94.

Um leið og við minnumst Carls með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB

formaður

Amatörpróf Póst- og fjarskiptastofnunar verða haldin í félagsaðstöðu ÍRA við Skeljanes í Reykjavík laugardaginn 5. júní 2021 sem hér segir:

10:00 – 12:00 Raffræði og radíótækni.
13:00 – 15:00 Reglur og viðskipti.
15:30 – Prófsýning.

Almenn skráning í prófið fer fram með tölvupósti, sem senda skal á bæði þessi netföng hjá Póst- og fjarskiptastofnun: hrh hjá pfs.is og bjarni hjá pfs.is með efnisorðinu “prófskráning”. Tilkynningu um þátttöku þarf að senda fyrir 3.  júní.

ÍRA sendir inn lista fyrir þá sem eru skráðir á yfirstandandi námskeiði hjá félaginu, sem er nú í gangi. Prófið er opið öllum og því ekki er nauðsynlegt að hafa setið námskeið til undirbúnings. Fyrirspurnir eru velkomnar á netfangið ira hjá ira.is

Eftirfarandi úrræði (annað eða hvoru tveggja) eru í boði ef um þau er beðið með 2ja daga fyrirvara: (a) Litaður pappír, fölgrænn eða drapplitur og (b) stækkun í A3. Senda þarf tölvupóst á Kristinn Andersen TF3KX: kristinn1 hjá gmail.com

1) Notið einfaldar reiknivélar, sem augljóslega geta ekki geymt gögn.
2) Hafið með ykkur blýanta, strokleður og reglustiku (!) sem hentar reiknigrafi.
3) Endanleg einkunn kemur frá PFS á uppgefið netfang, annars heimilisfang.
4) Gætið þess að hvoru tveggja sé greinilega skrifað.
5) Rissblöðum er ekki útbýtt, notið auðu hliðar prófblaðanna.

Með ósk um gott gengi,
Prófnefnd ÍRA.

Myndin frá prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis 4. desember 2019. Próf PFS til amatörleyfis þann 5. júní n.k. er það fyrsta sem haldið hefur verið í eitt og hálft ár vegna Covid-19 faraldursins. Ljósmynd: TF3JB.

Það var ágæt mæting og létt yfir mannskapnum í félagsaðstöðunni á báðum hæðum í Skeljanesi fimmtudaginn 27. maí.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA var opið í fyrsta skipti í tæpt ár (vegna Covid-19) en mest 3 félagar máttu vera í húsnæðinu þar samtímis en 2 félagar í herbergi QSL stofunnar.

Mikið var rætt um loftnet og skilyrðin almennt og sérstaklega í ljósi truflana vegna segulstorma að undanförnu, útbreiðslu í VHF og UHF tíðnisviðunum og mismunandi gæði fæðilína. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, færði á staðinn tvö splunkuný „all mode“ ferðaviðtæki, Malahit-DSP (50 kHz til 2 GHz) og Belka DX (1,5-31 MHz). Lítil fyrirferð, góð tæknileg geta og ótrúlega góð hljómgæði.

https://www.ebay.co.uk/i/124304550353?chn=ps
https://swling.com/blog/2021/04/fenus-assessment-of-the-belka-dx-dsp/

Alls mættu 15 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu sumarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Aldrei skortir umræður við stóra fundarborðið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH (bak í myndavél), Sigurður Elíasson TF3-044, Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Baldvin Þórarinsson TF3-033.
Georg Kulp TF3GZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A skoða Belka DX og Malahit-DSP ferðaviðtækin í fjarskiptaherbergi TF3IRA.
Í loftnetaumræðum í leðursófasettinu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Að venju var Lavazza kaffi og meðlæti í boði þetta ágæta fimmtudagskvöld. Ljósmyndir: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 27. maí.

Með tilliti til tilslakana í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra, verða kaffiveitingar í boði auk þess sem fjarskiptaherberi TF3IRA verður opið (mest 3 félagar samtímis) og QSL stofa (mest 2 félagar samtímis). Takmörkun á fjölda í þessum herbergjum ræðst af stærð þeirra. Ath. að grímuskylda er áfram í húsnæði félagsins.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Reglugerð um breyttar samkomutakmarkanir frá 25. maí 2021.pdf (stjornarradid.is)

Fundarsalur ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi í Reyukjavík. Ljósmynd: TF3JB.

Morshluti CQ World Wide WPX keppninnar fer fram 29.-30. maí. Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg forskeyti (e. prefixes) og mögulegt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er 48 klst. keppni, en einmenningsstöðvar mega mest taka þátt í 36 klst. Á þátttökutímanum má taka eins mörg hlé og menn vilja, en hvert miðast að lágmarki við 60 mínútur.

  • Samband við hverja stöð gefur punkta einu sinni á bandi.
  • Sambönd við stöðvar í Evrópu gefa 1 punkt á 14, 21 og 28 MHz; en 2 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.
  • Sambönd við stöðvar utan Evrópu gefa 3 punkta á 14, 21 og 28 MHz; en 6 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.

Margfaldari er summa fjölda forskeyta sem haft er samband við og reiknast einu sinni, burtséð frá fjölda sambanda/banda.

Með ósk um gott gegni, stjórn ÍRA. https://cqwpx.com/rules.htm

.

Fjarskiptaaðstaða Patri YCØRNC í Jakarta í Indónesíu. Hann ætlar að hlusta eftir merkjum frá TF í keppninni. Ljósmynd: YCØRNC.

Nýr radíóviti, EI1CAH, varð virkur 17. maí á 40.016 MHz á 8 metra bandi. Hann sendir út á morsi og PI4 (Pharuslgnis4) stafrænni tegund útgeislunar (MGM). Sendiafl er 25W og loftnet er láréttur tvípóll. QTH er skammt frá Galway á Vestur-Írlandi.

Í fróðlegri grein Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS, í 1. tbl. CQ TF 2021, bls. 41, um radíóvita á 40 MHz, er m.a. gerð grein fyrir þremur vitum í sviðinu, en 9. febrúar s.l. bættist 4. vitinn við, S55ZMS í Slóveníu, og nú EI1CAH sem er sá 5. frá vesturströnd Írlands. Þessir radíóvitar eru QRV í dag:

EI1CAH – 40.016 MHz (Galway Írlandi).
EI1KNH – 40.013 MHz (Cork Írlandi).
S55ZMS – 40.670 MHz (Murska Sobota Slóveníu).
OZ7IGY – 40.071 MHz (Jystrup Danmörku).
ZS6WAB – 40.675 MHz (Polokwane S-Afríku).

Vefslóð á upplýsingar um EI1CAH:
https://ei7gl.blogspot.com/2021/05/new-40-mhz-propagation-beacon-in-west.html

Vefslóð á grein Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS:
http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/01/cqtf_35arg_2021_01tbl.pdf

Reiknuð útbreiðsla fyrir merki frá radíóvitanum EI1CAH sem er staðsettur skammt frá Galway á vesturströnd Írlands.