Í ljósi þess að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildistíma reglugerða um takmarkanir á samkomum og skólastarfi til 12. maí n.k., verður félagsaðstaðan í Skeljanesi opin fimmtudaginn 6. maí kl. 20-22.

Þá verður námskeiði ÍRA til amatörprófs framhaldið mánudaginn 10. maí n.k. samkvæmt uppfærðri dagskrá.

Grímuskylda er í húsnæðinu ásamt þeirri kvöð að leitast verði við að halda nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Minnisbla%c3%b0%20a%c3%b0ger%c3%b0ir%20innanlands%2005052021.pdf

Úr fundarsal í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Tíu radíóamatörar frá fjórum þjóðlöndum virkjuðu kallmerkið 9J2LA í Zambíu 5.-15. mars 2020.

Fjöldi sambanda var alls 3.421. Zambía er nr. 170 á lista Club Log yfir eftirsóttustu DXCC einingarnar. Fjarlægð frá TF er um 9.700 km. Margar TF stöðvar höfðu sambönd við leiðangurinn.

Þátttakendur: LA3BO, LA3MHA, LA7THA, LA8OM, LA9KKA, LB8DC, SM6CPY, DK6SP, OE5CWO og OE7PGI.  

Fyrir áhugasama er í boði skemmtilegt myndband frá ferðinni (46 mín.).

Fyrir þá sem eru í þeim hugleiðingum að uppfæra/endurskipuleggja fjarskiptaaðstöðuna, er alltaf áhugavert að sjá hvernig aðrir hafa leyst málin.

Sjá meðfylgjandi vefslóð: http://www.astrosurf.com/luxorion/qsl-hamshack.htm

Myndin er af fjarskiptaaðstöðu Francesco, IZ7AUH.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudagskvöldið 29. apríl.

Alls mættu 24 félagar í hús og 1 gestur – en allt gekk upp samkvæmt gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um mest 20 einstaklinga í sama rými – þar sem mest voru 19 í salnum samtímis, þ.e. menn mættu og yfirgáfu staðinn  á mismunandi tíma, auk þess sem gætt var að loftræstingu.

Margir áttu QSL kort hjá kortastofunni, en kort eru nú tekin að berast á ný frá systurfélögunum um heiminn. Annars voru góðar umræður um áhugamálið, þ.á.m. batnandi skilyrði á HF auk þess sem mikið var rætt um loftnet og ný tæki. Þá sagði Sigurður Kolbeinsson, TF8TN okkur frá því sem er á smíðaborðinu hjá honum um þessar mundir. Ennfremur kom Hans Konrad Kristjánsson, TF3FG, færandi hendi með meira radíódót sem félögunum stendur til boða næstu fimmtudagskvöld.

Vel heppnaður fimmtudagur og ánægja með að í boði voru kaffiveitingar á ný þetta ágæta vorkvöld í Skeljanesi.

Hluti viðstaddra í fundarsalnum í Skeljanesi 29. apríl. Frá vinstri: Jón G. Guðmundsson TF3LM, Þór Þórisson TF1GW (standandi), Þórður Adolfsson TF3DT, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Georg Kulp TF3GZ, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Mathías Hagvaag TF3MH.
Myndin sýnir það sem eftir er af radíódótinu sem barst frá dánarbúi TF3GB í fyrra mánuði.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði í hús meira radíódót fyrir félagana, þ.á.m. mælitæki frá HP og Fluke.
Leiðbeiningar voru límdar upp á vegg um að spritta hendur áður en ýtt er á pumpu á kaffidunki. Ljósmyndir: TF3JB.

Uppfærslu merkinga á QSL skáp kortastofu félagsins lauk síðdegis í dag, 28. apríl. TF kallmerki  fá merkt hólf hjá kortastofunni þegar QSL kort merkt þeim byrja að berast erlendis frá.

Mathías Hagvaag, TF3MH, kortastjóri sagði að vegna þess hve mikið félagsaðstaðan í Skeljanesi hafi verið lokuð undanfarna mánuði (vegna Covid-19) hafi safnast upp kort hjá stofunni þannig að tekið sé að þrengjast í mörgum hólfanna.

Mathías óskar að koma því á framfæri við félaganna, að nálgast kortin þar sem kortasendingar erlendis frá eru nú farnar að berast reglulega á ný.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 29. apríl frá kl. 20:00. Ákvörðun um opnun byggir á heimild í reglugerð heilbrigðis-ráðherra um tilslökun á samkomuhaldi 15. apríl til 5. maí n.k.

Grímuskylda er í húsnæðinu ásamt þeirri kvöð að leitast verði við að halda 2 metra nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=71bd992a-6103-4e67-aaca-dd92422f0e5e

Myndin til hliðar er af QSL kassa TF ÍRA QSL Bureau en töluvert er farið að berast af kortum á ný.

Hluti af fundarsal ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 2. tbl. CQ TF 2021 sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Þakkir til félagsmanna fyrir innsent efni og ekki síst þakkir til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar TF3VS fyrir glæsilegt umbrot blaðsins.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Vefslóð á nýja blaðið:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/04/cqtf_35arg_2021_02tbl.pdf

„Handbókin“ þ.e. ARRL Handbook 2021 er boðin á tilboðsverði þessa helgi (24.-25. apríl).

Innkaupsverð er $35 í stað $49.95.

Bókin er alls 1280 blaðsíður að stærð. Nota þarf kóðann: HB21 þegar kaup eru gerð.

Vefslóð: http://www.arrl.org/shop/ARRL-Handbook-2021-Softcover/

Spáð er truflunum í segulsviðinu frá og með sunndeginum 25. apríl.

Búast má við að áhrif á skilyrði til fjarskipta á HF verði töluverð með tilheyrandi norðurljósavirkni. Aftur á móti er möguleiki á opnun á 50 MHz og hugsanlega hærri tíðnisviðum. Spár eru þess efnis að truflanir muni eitthvað halda áfram og ójafnvægis muni gæta fram í viku 17.

Fylgjast má með skilyrðunum  á vefsíðu Segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi. Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna.  Vefslóð: http://cygnus.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Vefslóð: https://spaceweather.com/

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands í Leirvogi. Ljósmynd: Raunvísindastofnun.

ÍRA hafa borist upplýsingar um 40 metra tíðni sem hefur verið tekin til notkunar fyrir neyðarfjarskipti  eftir að eldgos hófst á eyjunni St. Vincent í Karíbahafi. Gos hefur staðið með hléum síðan 29. desember í eldfjallinu  La Soufrière, en það veldur enn vandræðum á eyjunni, þar sem mikil öskugos (sprengingar) hafa verið í þessum mánuði (apríl).

Tíðnin er 7.188 MHz á LSB. Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til forgangsfjarskipta, a.m.k. næstu daga.

Neyðarfjarskipti radíóamatöra í þessum heimshluta fara reyndar fram á fleiri tíðnum (sem ekki varða okkur í IARU Svæði 1), þar sem St. Vincent (og nágrannaeyjar) eru í IARU Svæði 2.

Stjórn ÍRA.